Algjörlega í núinu

Brimbrettakappinn og ljósmyndarinn Erlendur Þór Magnússon ólst upp við að …
Brimbrettakappinn og ljósmyndarinn Erlendur Þór Magnússon ólst upp við að vera dreginn á fjöll allar helgar. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

 Það ætti því ekki að koma á óvart að hann hafi helgað sig fyrst snjóbrettinu og síðar bretti á sjó með viðkomu á kajak í straumhörðum ám Íslands og Nepals. Hann hefur fengið birtar myndir eftir sig í helstu blöðum brimbrettaíþróttarinnar og Marie Claire auk þess að hafa myndað fyrir Samsung og Vans. 

Erlendur Þór Magnússon gekk á Öræfajökul þegar hann var tólf ára gamall og renndi sér niður á snjóbretti. Þetta var árið 1995. Síðan þá hefur mikill snjór fallið í fjöll þar sem hann hefur rennt sér og enn meira vatn runnið til sjávar þar sem hann leitar uppi öldur til að sinna mestu ástríðunni, brimbrettinu.
Elli hefur farið oft til Nepal en árnar þar henta …
Elli hefur farið oft til Nepal en árnar þar henta vel til flúðasiglinga. Ljósmynd/Erlendur Þór Magnússon

Elli, eins og hann er alltaf kallaður, er alinn upp í Reykjavík, nánar tiltekið í póstnúmeri 104. Þrátt fyrir að vera borgarbarn var hann á fjöllum í öllum fríum. „Mamma og pabbi eru búin að vera í björgunarsveit í meira en 40 ár. Þau voru bæði í undanförum, sveitum sem fara fyrst að leita. Þau hafa alltaf verið með útivist á heilanum,“ segir hann um foreldra sína, Magnús Dan Bárðarson og Lindu Björnsdóttur.

„Þetta er allt þeim að kenna,“ grínast hann um útivistarsækni sína. „Við vorum dregin út um allar trissur hverja einustu helgi og í öllum fríum, upp á hálendi, á gönguskíði, gönguferðir og að hjóla. Bara alls konar útivist,“ segir Elli sem finnst hann heppinn með uppeldið.

„Við vorum alltaf í tjöldum eða einhverjum fjallaskálum,“ segir Elli sem á tvær systur sem voru líka með í för, eina eldri og eina yngri.

Núna eru mun fleiri í útivist en þá var. „Þá voru miklu færri og það var ekki eins algengt að fólk væri með börnin sín með,“ segir hann en margt hefur breyst.

„Það sést á stöðum eins og Reykjadal. Þegar ég var lítill var bara enginn þarna,“ segir Elli og rifjar upp tjaldferðir á þessar slóðir. „Líka á hálendinu, þó að það séu enn þá til staðir þar sem eru ekki margir.“

Veturinn er tíminn

Elli virðist kunna vel við sig á stöðum þar sem eru ekki margir. Hann er í heimildarmyndinni Under an Arctic Sky, sem er nú komin inn á Netflix. Myndin veitir góða innsýn í brimbrettaheiminn, sem á hug hans allan en hún segir frá erlendum brimbrettaköppum sem fara að leita að öldum á afskekktum slóðum á Íslandi um hávetur í fylgd með Ella og félögum.

„Veturinn er aðaltíminn fyrir okkur sem eru að sörfa hérna og líka mest hjá mér að gera. Þá er ég oft í ferðum með atvinnumönnum í sportinu bæði hér heima og erlendis,“ segir Elli og útskýrir að versta veðrinu og dýpstu lægðunum fylgi stærstu öldurnar. Á sumrin er minna í gangi.

„Á veturna koma lægðirnar nánast stanslaust og þá þarf maður bara að sjá hvar þær koma og hvernig vindurinn er og keyra út um allt,“ segir hann en það þýðir ekki annað en að elta öldurnar til að finna bestu aðstæðurnar fyrir brimbrettaiðkunina.

Í fyrrnefndri mynd keyrir hópurinn um Vestfirði og Norðurland að eltast við réttar aðstæður. Í þetta skiptið gekk allt upp á endanum þrátt eftir að hafa beðið af sér verstu lægð í aldarfjórðung. „Við vitum alveg hvað við erum að gera. Ég er alinn upp á fjöllum,“ segir Elli sem segist fylgjast vel með veðri og færð. Það er samt ölduspáin sem hann fylgist með.

„Það eru til útlenskar spár en þær eru ekkert voðalega nákvæmar á Íslandi en við höfum Siglingastofnun sem er búin að spá fyrir sjómenn lengi og hún er góð, það er það sem við notum, þessar íslensku síður,“ segir Elli en nú er hægt að skoða þetta á síðu Vegagerðarinnar.

„Maður liggur yfir þessu meira en Facebook!“

Elli segist kíkja á hverjum einasta degi á ölduspá og veðurspá til að sjá hvað er í vændum.

Elli notar froskalappir og vatnshelt box um vélina þegar hann …
Elli notar froskalappir og vatnshelt box um vélina þegar hann tekur myndir en það er krefjandi að vera í sjónum með myndavélina. Mynd/Chris Burkard

„Svo breytist þetta oft mikið eins og við vitum, spár standast ekki eða breytast daginn fyrir. Maður var kannski á leiðinni á Austurland en fer í staðinn á Norðurland,“ segir Elli sem ferðast mikið með vini sínum Heiðari Loga, en þeir tveir eru einu Íslendingarnir sem einbeita sér að brimbrettaiðkun einvörðungu. Elli er ljósmyndari að mennt og þau verkefni sem hann tekur að sér tengjast gjarnan íþróttinni. „Þau eru ekki öll beint tengd sörfi en ég hef myndað fyrir útvistarmerki, fatamerki tengd sörfi og þannig,“ segir Elli, sem hefur t.d. myndað fyrir Vans og Samsung en til viðbótar hafa myndir hans verið birtar í mörgum af helstu tímaritunum í íþróttinni.

Auglýsing fyrir Pepsi Max

Brimbrettaiðnaðurinn er stór. „Það er verið að sörfa í allri Evrópu, Bandaríkjunum og Ástralíu. Ég las einhvers staðar að þetta væri stærri iðnaður en snjóbretti og skíði til samans,“ segir hann en það að sörfa í köldum sjó hefur vakið vaxandi athygli á síðustu fjórum árum. „Við tókum til dæmis þátt í auglýsingu fyrir Pepsi Max,“ segir hann en þetta var jólaauglýsing fyrir Pepsi Max árið 2017 en í henni eru Elli og Heiðar Logi á brimbrettum með LED-lýsingu.

Menningin í kringum brimbretti er mun yngri á Íslandi en annars staðar. „Það er búið að sörfa í Kaliforníu og Ástralíu frá um 1960 og síðan þá hefur þetta bara stækkað. Svo fóru menn að fara út um allan heim að leita að öldu með engu fólki, það er málið,“ segir Elli en hann lærði að sörfa á Íslandi fyrir næstum fimmtán árum og ferðaðist tengt því.

Elli kann að meta að vera í góðum tengslum við …
Elli kann að meta að vera í góðum tengslum við náttúruna og vera mikið útivið. Mynd/Rachel Jonas

„Ég hef verið á Havaí, Kaliforníu, Nýja-Sjálandi, Filippseyjum og bara úti um allt,“ segir hann og útskýrir hversu ólíkt það er að sörfa þar eða hér. „Ef þú ert í Kaliforníu að sörfa eru 100-150 manns að berjast um hverja einustu öldu. Það er bara raunveruleikinn. Þess vegna fór maður til Filippseyja og Havaí og svo kom maður heim og ég fékk ábyggilega fleiri öldur á Íslandi á einum góðum degi hér en á þremur mánuðum úti,“ segir hann og áttaði sig þá á því hversu gott það væri að stunda íþróttina hérlendis.

„Í þessum stærstu löndum er búið að finna allar öldurnar; finna alla staðina. Þá fór fókusinn að færast norðar og gallarnir þróuðust líka.“

Gallarnir orðnir svo góðir

Þegar Elli byrjaði var hópur í kringum snjóbrettabúðina Týnda hlekkinn að stunda þetta. „Þá var þetta bara stundað á vorin, sumrin og haustin því gallarnir voru bara ekki nógu góðir. Núna hefur verið svo mikil þróun í þessu að við getum verið úti í sjó í janúar í 5-6 klukkutíma og það er kaldast að klæða sig í og úr. Það er lygilegt hvað gallarnir eru öflugir,“ segir hann en gallarnir eru úr 6 mm þykku efni.

Það er töluvert heitara á Nýja-Sjálandi en hér.
Það er töluvert heitara á Nýja-Sjálandi en hér. Mynd/Sólveig Pétursdóttir

Þannig að það er þessi þróun sem hefur ýtt undir sprengjuna sem hefur orðið í heiminum í brimbrettaiðkun í köldum sjó,“ segir Elli.

„Svo fylgir umfjöllun í sörf tímaritunum og öllum miðlunum í kringum íþróttina. Fyrst byrjuðu að koma hingað atvinnumenn á árunum 2000-2005 og svo fylgir venjulega fólkið á eftir,“ segir hann.

Góður vinur hans, Ingólfur Olsen, er með fyrirtækið Arctic Surfers, sem tekur á móti brimbrettafólki og fer með það í ferðir hérlendis. Þar er Elli líka með skrifstofu. „Hingað koma menn á miðjum aldri sem eru búnir að sörfa í áratugi en eru núna kannski forstjórar í einhverjum fyrirtækjum. Þeir vilja upplifa eitthvað nýtt. Það er líka það sem maður er hræddur við því maður hefur það svo gott, getur sörfað einn eða með einum vini sínum. Í kringum Reykjavík hefur maður séð þetta breytast. Það koma fleiri ferðamenn og líka fleiri Íslendingar að sörfa,“ segir hann en veðrið og aðstæður munu alltaf vera ákveðin sía svo það er ólíklegt að sjórinn í kringum Ísland fyllist af brimbrettafólki.

„Þetta er ekki fyrir alla. Það er allt annað að vera bara í stuttbuxum eða að troða sér í 6 mm galla. Sumir fíla þetta og aðrir ekki.“

Þarf maður ekki að vera svolítið harður af sér til að þola kuldann?

„Ég veit það ekki, þú hættir bara að hugsa um þetta. Maður pælir ekki í kuldanum, bara horfir á öldurnar og ef það eru geðveikar öldur ertu ekki einu sinni að hugsa um hvað klukkan er eða hvað þú heitir.“

Það er líklegt að marga langi að koma hingað til lands eftir að hafa séð fyrrnefnda heimildarmynd þar sem hægt er að sjá norðurljósin speglast í sjónum við hlið tignarlegra fjalla. „Það gekk allt upp þarna, allar aðstæður voru til staðar fyrir myndatökuna. Það þarf fullt tungl, það þarf að vera snjór til þess að endurspegla ljósið til þess að fá meiri birtu. Svo þurfa að vera öldur og svo þarf vindurinn að vera af landi. Þannig að það eru miklar breytur í gangi. Þetta er svona svipað og að vinna í lottói!“

En er ekki magnað að taka myndir þegar allt raðast svona upp?

„Ég er alltaf að berjast við þetta því ég sörfa svo mikið sjálfur, þá er erfitt að standa bara á landi og taka myndir,“ segir Elli en það er þá ákveðin fórn fyrir hann að vera á landi.

„En þegar maður er í einhverju verkefni að mynda atvinnusörfara fær maður mikið útúr því.“

Elli kynntist fyrst ljósmyndun í grunnskóla, í ljósmyndaáfanga í Langholtsskóla. „Ég held að það hafi kveikt áhugann,“ segir Elli sem hellti sér samt ekki út í þetta strax. Fyrst kom menntaskólinn og snjóbrettaiðkun.

„Ég byrjaði á skíðum tveggja, þriggja ára en var á snjóbretti frá því ég var níu ára. Ég prófaði snjóbretti í Kerlingarfjöllum og lét foreldra mína ekki í friði fyrr en þau keyptu bretti. Það voru 15-20 manns á snjóbrettum á þessum tíma,“ segir hann en sprengingin í íþróttinni kom síðar.

„Ég varð alveg heltekinn af þessu. Þegar ég var í menntaskóla stakk ég af eitt ár, fór í Alpana,“ segir Elli sem var við nám í Menntaskólanum við Sund. Eldri félagar hans voru þar við vetrardvöl. „En ég kom heim og kláraði skólann. Ég ferðaðist eftir það í svona átta ár en ég byrjaði að sörfa þegar ég var í kringum átján ára gamall.“

Haust í Nepal og Alpar eftir áramót

Lífsstíllinn var því ekki alveg hefðbundinn en í takt við árstíðirnar. Elli vann við flúðasiglingar í Hvítá á sumrin.

„Félagar mínir stofnuðu það sem heitir Artic Adventures í dag, reyndar búnir að selja, en það hét þá Arctic Rafting. Ég vann þar og bjó uppi á Drumboddsstöðum í fjóra til fimm mánuði. Eyddi engum peningum, og svo fór maður bara út. Ég var á kajak sjálfur líka, svona straumkajak. Við fórum ábyggilega þrisvar sinnum til Nepals því þar eru svo langar og stórar ár sem renna úr Himalajafjöllunum. Þannig að þetta var Nepal á haustin og svo kom maður heim um jólin og vann eitthvað og svo Alparnir eftir áramót. Við leigðum einhverja holu sjö saman og allir sváfu á gólfinu í þrjá mánuði. Við vorum bara að renna okkur. Við vildum ekki vinna á meðan við værum þarna til að missa ekki af púðursnjó,“ segir Elli.

Öldurnar kalla.
Öldurnar kalla. Mynd/Erlendur Þór Magnússon

„Ég var mikið í Chamonix sem er við Mont Blanc í Frakklandi. Og svo var ég líka í Austurríki og stundum leigðum við sendiferðabíl og fórum út um allt, Sviss, Austurríki, Ítalía, það er stutt á milli þarna, bara eftir því hvar var snjór. Svo sváfum við bara í bílnum. Fjallamennskan byrjaði í Chamonix og það er mikil menning í kringum þetta þar. Það eru allir að gera eitthvað þarna, annaðhvort að klifra eða renna sér. Við vorum mikið að renna okkur utan skíðasvæða,“ segir hann en þeir tóku kláf upp í 2.800 metra hæð og renndu sér þar niður. Staðalbúnaður var ýlir, skófla og snjófljóðastöng og þá var nauðsynlegt að fylgjast vel með snjóflóðaspánum.

Ísland betra fyrir sjó en snjó

Þegar Elli síðan kynntist brimbrettaiðkun heillaði hún hann upp úr skónum. Áðurnefndur Ingó kom með brimbretti heim frá Frakklandi og þá varð ekki aftur snúið.

„Þá einhvern veginn tók það gjörsamlega yfir og hefur ekkert hætt síðan. Fyrir mér er Ísland miklu betra fyrir sörf en snjóbretti sem hljómar fáránlega en við erum eyja í miðju Atlantshafi sem fær mikið af öldum,“ segir Elli og útskýrir að til samanburðar sé Frakkland bara með eina strandlínu þar sem hægt sé að fara á brimbretti og þá geti bara komið lægðir og öldur úr einni átt. „En við erum með mikið hafsvæði að það geta komið lægðir og öldur nánast úr öllum áttum.“

Það er töfrum líkast að vera á brimbretti undir norðurljósadansi.
Það er töfrum líkast að vera á brimbretti undir norðurljósadansi. Mynd/Erlendur Þór Magnússon

Hann segir að heilmikil og sérstök menning hafi skapast í kringum brimbrettaiðkun.

„Það gilda allskonar siðareglur. Ef þú ferð til dæmis til Havaí þá ferð þú ekkert á hvaða stað sem er og ferð að sörfa, þú gætir bara lent í vandræðum. Og þegar þú ert úti í sjó gilda ákveðnar óskrifaðar reglur um hver eigi ölduna og þannig. Ef þú ert þar sem margt fólk er þá er pirringsstigið hærra.“

Í raun má segja að ákveðnir hópar „eigi“ viss svæði og ekki dugar bara að bíða í sjónum þangað til það kemur að þér. „Þeir sem búa þarna og sörfa hafa í raun forgang, þetta er ekki alveg sósíalískt kerfi. Þetta er meira svona sósíal-darwinismi,“ segir hann.

Líkamlega erfið íþrótt

Þetta er líkamlega erfið íþrótt. „Þegar ég byrjaði hafði ég kannski 30-40 mínútur áður en hendurnar voru orðnar að gúmmíi. Það þarf að hafa kraft til að ná öldunum. Þetta er í raun eins og að synda skriðsund með lóð í marga klukkutíma, því ert í gallanum og með hanska. Ef þú gerir þetta reglulega og ert í þjálfun geturðu alveg sörfað í sex klukkutíma. Svo tekurðu öldu og ef þetta er mjög góð alda þá ferðu langt með henni. Síðan þarftu að róa alla leiðina til baka. Þá þarftu að bíða eftir að rétta aldan komi þannig að það er pása á milli.“

Líkaminn þarf mikla orku til að halda á sér hita við þessa iðju.

„Þegar það er rosalega kalt ertu líka að halda á þér hita. Ef þú sörfar í sex tíma þá brennirðu mörgum kaloríum,“ segir hann og brennslan er enn þá meiri ef frostið er fimm gráður. „Þá borðar maður mikið á eftir. Svo er þetta svo gaman. Ef þú værir í einhverri líkamsræktarstöð að lyfta værirðu löngu hættur en maður hugsar, „bara eina í viðbót“. Þú ert kannski tvo klukkutíma í viðbót, þangað til að það liggur við að þú skríðir upp úr.“

Öldurnar við Íslandsstrendur eru þó mjög misjafnar. „Öldurnar geta verið litlar og þægilegar á sandströnd sem hentar öllum yfir í öldur sem geta brotnað í grunnu vatni en eru þá að fara yfir sig og það er mikill kraftur í þeim.“

Hann segir að maður læri á sjóinn. „Oft myndast straumar á ákveðnum stað, kannski tímabundið, en þegar maður er í góðu formi þá bara rær maður út úr þeim. Þegar þú ert mikið í sjónum lærirðu á hann, sérstaklega eins og þegar ég er að synda með myndavélina,“ segir hann en það er erfiðara en að vera með brettið því það er í raun eins og stórt flotholt. „Ég nota froskalappir og vatnshelt box um vélina þegar ég tek myndir. Þetta er krefjandi, sérstaklega þegar öldurnar eru stórar, upp á strauma því þú ert ekki ofan á vatninu heldur ofan í því,“ segir hann en öryggistilfinningin kom með aukinni reynslu.

Valdi Cornwall frekar en London

Aftur að ljósmynduninni en Elli byrjaði að taka ljósmyndir í Nepal. „Þegar ég var í Nepal í annað sinn keypti ég myndavél á markaði og fór að taka myndir til gamans. Svo á einhverjum tímapunkti fór ég að hugsað að þetta væri eitthvað sem ég gæti gert. Ég fór þá að vinna sem aðstoðarmaður hjá ljósmyndara í auglýsingastúdíói hérna heima. Það var rosalega góður lærdómur. Eftir það fór ég til Bretlands í BA-nám í ljósmyndun.“ Hann ætlaði að fara til London og var kominn inn í skóla í stórborginni. Þá sagði einhver honum frá Cornwall og að þar væru öldur. „Ég fór þangað,“ segir Elli sem sá aldrei eftir valinu. Falmouth-listaháskólinn stóð vel undir væntingum og meira en það og hann gat fengið útrás fyrir brimbrettaþörfina um leið.

Að námi loknu var kreppan skollin á og túristasprengjan að byrja. Elli fékk nóg að gera við að mynda fyrir heimasíður fyrirtækja í ferðaþjónustu eins og Arctic Adventures og ferðaðist í tengslum við þetta margoft til Grænlands og fór á sjókajak og hundasleða. Það bættist bara við útivistarævintýrin.

„Svo var ég alltaf að taka myndir af sörfi því ég hafði svo mikinn áhuga á því. En það virkaði fjarstætt að vera frá Íslandi og vera sörfljósmyndari. En ég fylgdist vel með öllum þessum blöðum.“

Þá gripu netið og samfélagsmiðlar inn í en Elli er nú með 35 þúsund fylgjendur á Instagram @ellithor og einnig er hægt að skoða verk hans á ellithor.com. Hann kynntist ljósmyndaranum Chris Burkard, sem myndar mikið fyrir Surfer Magazine, biblíuna í bransanum. „Hann kom oft til Íslands og ég fór síðan með honum til Færeyja með hópi af atvinnubrimbrettamönnum. Svo kynntist ég fleirum og fór að fá birtar myndir í blöðum. Það vatt upp á sig og svo komu hliðarverkefni út frá því eins og fyrir Vans.“

Stuttmyndin bjó til tækifæri

Elli hefur líka verið að gera stuttmyndir og heimildarmyndir en þau verkefni komu í kjölfar stuttmyndar sem hann skrifaði og framleiddi. Myndin heitir The Accord og fjallar að sjálfsögðu um brimbrettaiðkun á norðurhjara veraldar. Myndin var verðlaunuð á Banff Mountain Film Festival. „Kvikmyndahátíðin er ein sú stærsta í þessum útivistargeira. Myndin var valin til að fara á túr um heiminn og var sýnd víða og við unnum ein af þremur stærstu verðlaunum hátíðarinnar. Einn í dómnefndinni vann fyrir Yeti og bað okkur um að koma með hugmynd að mynd fyrir fyrirtækið,“ segir hann en Yeti er þekkt bandarískt útivistarfyrirtæki, sem framleiðir m.a. vörur sem halda heitu eða köldu.

Grænland hentar vel til margs konar útivistar.
Grænland hentar vel til margs konar útivistar. Mynd/Erlendur Þór Magnússon

Elli hafði verið á Grænlandi með Völu Árnadóttur sem er fluguveiðikona í verkefni fyrir 66°Norður og datt í hug að stinga upp á henni sem viðfangsefni myndarinnar. Úr varð heimildarmynd sem kom út á mæðradeginum í Bandaríkjunum í fyrra.

Til viðbótar hefur hann núna fengið birtar myndir eftir sig í fjölmörgum tímaritum, allt frá stærstu brimbrettatímaritunum yfir í tískublað eins og Marie Claire. Það hefur því gengið upp hjá honum að fylgja sinni sannfæringu og köllun. „Þetta er bransi sem er algjört hark og maður hefur oft velt því fyrir sér hvað maður er eiginlega að gera. Það er voða þægilegt að fá laun í hverjum mánuði þar sem skatturinn er bara tekinn af fyrir þig og þú þarft ekki að spá í neitt svoleiðis. Þetta eru hæðir og lægðir en smátt og smátt varð meira að gera hjá mér og það er alltaf þess virði að gera eitthvað sem maður hefur áhuga á. Ég er jafn spenntur að sitja heilan dag fyrir framan tölvuna að vinna myndir eins og að taka þær.“

Elli er með skrifstofu úti á Granda og er vel við hæfi að hann horfi beint út á sjó þegar hann situr við tölvuna. Hann segir Reykjavík henta vel til búsetu fyrir brimbrettafólk, ekki síst á sumrin þegar sunnanlægðirnar mæta. „Ég sörfa mest hér í kring. En ef ég fer með öðrum að taka myndir förum við annað í leit að öldum og áhugaverðu landslagi. Þá fer maður bara tíu daga út á land og keyrir út um allt. Það er alltaf einhver akstur. Ég hef sagt það að miðað við tímann sem fer í akstur þá er ég eiginlega meiri atvinnubílstjóri en atvinnuljósmyndari eða sörfari,“ segir hann og hlær.

„Stundum keyrirðu í átta tíma eftir einhverri spá og svo bara breytist hún og þá ferðu kannski eitthvað annað og keyrir í aðra sjö tíma.“

Leitin að nýjum stöðum

Það er samt þessi leit að nýjum stöðum til að fara á brimbretti á sem drífur allt áfram, staði með fallegum öldum.

„Skemmtilegast er að rannsaka og finna eitthvað nýtt. Við erum búin að finna marga nýja staði síðustu fimmtán ár og það eru algjör forréttindi; eitthvað sem sörfara annars staðar dreymir um. Þetta er eins og að vera á Havaí í kringum 1960. Þetta er sérstakur tími. Það er frábært að vera hluti af þessari fyrstu kynslóð hérna.“

Það eru ekki margir sem stunda brimbretti hér á landi. „Það eru um 15-20 manns sem gera þetta allt árið af fullum krafti. Svo eru kannski um 30 í viðbót sem eiga bretti og fara eitthvað á sumrin. Allir þekkjast sem eru í þessu, þetta er allskonar fólk, tölvunarfræðingar, lyfjafræðingar og sjómenn.“

Fleiri eru nú í sjónum í kringum Reykjavík en áður. „Á stöðum þar sem maður var einn og það voru margir ef það voru sex geta verið þar kannski 15-20 manns núna. Þetta er pínu sjálfselskt sport. Þú vilt sörfa einn og fá sem flestar öldur og þegar ég set myndir inn á samfélagsmiðla set ég aldrei staðarnöfn. Mér finnst líka partur af því að ef þú kemur hingað, þá er skemmtilegra að finna út úr hlutunum sjálfur. Það sem er svo eftirsóknarvert við að sörfa hér er að það er enn þá ævintýri. Fyrir mér er sörfið 50% og 50% er ferðalagið í kringum þetta, félagsskapurinn og það að leita; stundum keyrirðu í átta tíma og verður fyrir vonbrigðum en þegar það heppnast þá er það magnað,“ segir Elli en hann og félagar hans benda erlendum gestum á þetta sama, að setja alls ekki kortamerkingu á myndirnar.

„Þetta er annað sport hér heldur en í Biarritz í Frakklandi þar sem þú keyrir á bílastæði þar sem er fullt af fólki og sturtan tilbúin. Hérna ertu úti í náttúrunni, þú ert úti í sjó og það kemur hríð, allt í einu styttir upp og þá sérðu seli og regnboga. Það er eitthvað við það að fara út í sjó, það er eins og það hreinsi þig, þér líður miklu betur þegar þú kemur upp úr. Þú þarft að vera alveg í núinu því það eru engar tvær öldur eins. Þú hefur ekki tíma til að hugsa allt sem þú ert að pæla í. Ég hef verið í allskonar sporti og einhvern veginn aldrei fundið neitt eins og þetta. Þetta er gjörsamlega ávanabindandi en líka rosalega gefandi.“

Elli er líka símalaus þegar hann sörfar og nýtur tímans í tengslum við náttúruna, fjarri samfélagsmiðlum, sem hjálpar núvitundinni.

Fer á bretti með dótturinni

Elli á eina dóttur, hún er sjö ára og heitir Unnur Ýja. „Hún var þriggja ára með mér á svona „boogie board“ á Havaí. Um leið og hún var orðin nógu stór til að passa í galla hefur hún sörfað á sumrin hérna með mér og hefur rosa gaman af því,“ segir Elli sem elur dóttur sína upp í sömu útivistarhefð og hann sjálfur ólst upp við.

„Partur af því finnst mér að vera í tengslum við náttúruna og að vera úti, það hafa allir gott af því. Við förum á snjóbretti og í tjaldferðalög.“

Hvað er síðan næst á dagskrá?

„Það er alltaf eitthvað í gangi. Red Bull er að gera heimildarþætti um ljósmyndara sem heita Chasing the Shot. Ég er að gera einn þátt með þeim, þetta snýst um að ná ákveðnum öldum, stórum öldum sem hafa ekki verið myndaðar áður. Síðan er ég alltaf að vinna í mínum eigin verkefnum og líka auglýsingaverkefnum. Mörg fyrirtæki eru farin að gera lítil heimildarmyndaverkefni í stað sjónvarpsauglýsinga. Í haust gerði ég til mynd í samvinnu við Surfer Magazine og Seiko-úrafyrirtækið sem var dreift víða.“

Sú spurning vaknar hvernig hann haldi sér í formi fyrir svona líkamlega erfiða íþrótt. „Ég held að ég hafi komið inn á líkamsræktarstöð tvisvar á ævinni. En ég spilaði fótbolta í tíu ár og hef alltaf hreyft mig mikið. Ég sörfa mikið til að halda mér í formi og svo þegar það eru miklar annir vegna myndaverkefna koma kannski tveir mánuðir sem ég næ ekki að fara og þá er mann farið að klæja í puttana. Ég er að reyna að gera meiri jógaæfingar og komast inn í þann heim svo maður verði ekki stirður og geti sörfað þangað til maður verður gamall. Maður sér gauka sem sörfa 75 ára gamlir og gera jógaæfingar á hverjum degi. Maður verður að reyna að halda líkamanum ungum.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka