Góður maður reyndist sannspár

Eldhress hópur með Igaliku (Garða) og Einarsfjörð í baksýn.
Eldhress hópur með Igaliku (Garða) og Einarsfjörð í baksýn. Ljósmynd/Úr einkasafni

Var blandað saman náttúruskoðun, söguskoðun og kynni af Grænlandi dagsins í dag.
Hópurinn taldi 19 manns og var bæði fjölbreyttur og skemmtilegur eins og sést á myndunum.
Fyrsta daginn var lent á flugvellinum í Narsarsuaq, en við frestuðum því að skoða okkur um og
sigldum á finnsku Targa bátunum stutta vegalengd yfir Eiríksfjörð í Brattahlíð til þess að skoða fyrrum heimkynni Eiríks rauða, Þjóðhildar, Leifs heppna og annarra fyrrum íbúa. Þar má sjá tóftir eftir uppgröft og skoða sig um í tilgátubyggingunum Þjóðhildarkirkju og skála. Staðarleiðsögumaður fjallaði um svæðið og útskýrði lífið fyrr og nú. Þaðan sigldum við út Eiríksfjörð til Narsaq, sem er 1500 manna bær og einn af þeim fjölmennari á þessum slóðum. Þar bjuggum við um okkur á gistiheimili og hóteli Narsaq sem er í eigu Friðriks Magnússonar og Kattie Nielsen og gistum næstu þrjár nætur.

Hvalur á Hvalseyjarfirði.
Hvalur á Hvalseyjarfirði. Ljósmynd/Úr einkasafni

Morguninn eftir var byrjað á því að heimsækja byggðasafnið í Narsaq þar sem Jesper safnstjóri fjallaði um sögu byggðar á þessum slóðum. Hann telur sjálfur að Brattahlíð hafi verið í Narsaq, en það er önnur saga. Seinni helmingi dagsins vörðum við á siglingu í jöklafjörðinn Qalleralit og komumst í mikið návígi við skriðjöklana sem höfðu augljóslega látið á sjá frá sumrinu á undan. Brakið og brestirnir hljómuðu hátt í kyrrðinni og ísjakarnir virtust sumir djúpbláir á lit, enda hafa þeir hvílt lengi undir jökulstálinu og súrefnissnauðir eftir því. Daginn eftir var farið í siglingu til Qaqortoq, sem er fjölmennasti bær Suður-Grænlands með um 3000 íbúa. Þar var gengið að stöðuvatninu við bæinn og að Pétursvörðu sem er fallegur útsýnisstaður og við skoðuðum skúlptúra sem hafa verið mótaðir hér og þar í klettum, m.a. af íslenskum listamönnum.

Sigling við jökulinn.
Sigling við jökulinn. Ljósmynd/Úr einkasafni

Áfram var siglt inn Hvalseyjarfjörð og að hinni 700 ára gömlu Hvalseyjarkirkju sem eru heillegustu merki um byggð norrænna manna fyrrum á Grænlandi. Veggir kirkjunnar ná hæst upp í 6 m hæð og það er einstakt að ganga um svæðið og virða minjarnar fyrir sér. Með síðustu skjalfestu heimildum um norrænu búsetuna á Grænlandi er einmitt um brúðkaup sem fór fram í Hvalseyjarkirkju árið 1408. Þennan dag enduðum við á að skoða Qajaq bruggverksmiðjuna í Narsaq, en það er eini grænlenski bjórinn. Friðrik og bruggmeistarar sýndu aðferðirnar og leyfðu svo hópnum að smakka á veigunum. Þess má geta að vonir standa til þess að
Qajaq fáist á Íslandi næsta vetur.

Tilgátubyggingarnar Þjóðhildarkirkja í forgrunni og skllinn í baksýn.
Tilgátubyggingarnar Þjóðhildarkirkja í forgrunni og skllinn í baksýn. Ljósmynd/Úr einkasafni

Daginn eftir rann upp þjóðhátíðardagur Grænlendinga og við fylgdumst með fánahyllingu, skrúðgöngu og söng snemma morguns í Narsaq en þurftum að yfirgefa svæðið þegar allir bæjarbúar fóru í sameiginlegan morgunverð. Okkar ferð var heitið inn Eiríksfjörðinn þar sem við gengum Konungsveginn til Garða, þar sem biskup hafði aðsetur í norrænu byggðinni. Einungis er hægt að skoða tóftir gömlu dómkirkjunnar í Görðum enda nýttu íbúar sér hleðslugrjótið í byggingar sem voru reistar í lok 18. aldar og á 19. öld þegar landbúnaður hófst að nýju í Görðum eftir 3-400 ára hlé. Áfram var siglt til Narsarsuaq og síðustu nóttinni varið þar með göngutúrum um kvöld og að morgni fyrir flug. Flestir fengu sér sauðnautsborgara í kvöldmat enda gefst ekki færi á því á hverjum degi.

Við styttu af Leifi heppna í Brattahlíð.
Við styttu af Leifi heppna í Brattahlíð. Ljómsynd/Úr einkasafni

Veður var gott allan tímann og í takt við hefðbundið sumarveður á þessum slóðum. Yfirleitt var 10-15 stiga hiti, hægviðri og þurrt. Flugan angraði hópinn ekki mikið, enda vorum við á sauðfjársvæðum og það er vel þekkt staðreynd á þessum slóðum að moskítóflugan er ekki í miklum mæli þar sem íslenska sauðkindin ræður ríkjum. Það var helst í Narsarsuaq sem hægt var að finna fyrir moskítóflugunni og fengu þá einhverjir bit en höfðu á orði að það væri skárra en lúsmýið. Okkur var hvarvetna vel tekið og var sérlega hátíðlegt að fylgjast með upphafi hátíðahalda á þjóðhátíðardaginn. Þar var mikil rósemd yfir og ljúft að heyra grænlenska kórinn flytja nokkur lög á lágu nótunum og mjög við hæfi í hægviðrinu. Náttúran er hrjúf og þrátt fyrir að Suður-Grænland teljist grænasta svæði Grænlands, þá er gróðurþekjan þunn og klettar og grjót víðast hvar áberandi og ísjakar í öllum stærðum og gerðum á sjónum. Það er ógleymanlegt öllum sem leggja leið sína til Grænlands að upplifa víðáttuna og smæð mannsins í því samhengi, kynnast sögu búsetu þar og kynnast um leið Grænlendingum, næstu nágrönnum okkar. Í fyrra sagði góður maður við mig að ég myndi fá Grænlandsveikina og ég verð að viðurkenna að hann reyndist sannspár og ferðirnar verða fleiri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert