Svona sefurðu betur í flugvél

Með réttum aðferðum er vel hægt að sofa eins og …
Með réttum aðferðum er vel hægt að sofa eins og engill um borð í flugvél. Ljósmynd/Colourbox

Svo eru það þessir sem geta hreinlega sofið hvar sem er og hvenær sem er. Ferðavefurinn hefur tekið saman nokkur atriði fyrir fyrrnefndu ferðalangana sem gott er að hafa bak við eyrun ef ætlunin er að ná smá kríu í flugi. 

Klæðnaður

Margir finna fyrir því að bólgna örlítið út í flugi og því óráðlegt að klæðast níðþröngum og óteygjanlegum fötum í flugi og þá sérstaklega í lengri flugum. Fötin hreinlega hefta hreyfingu og gera manni ókleift að koma sér vel fyrir, hvað þá að sofna. Best er að klæðast nokkrum lögum af mjúkum og teygjanlegum fatnaði sem hægt er að fara úr eða í eftir hentisemi. Ekki spillir svo fyrir að vera með eina góða hettupeysu og skella hettunni yfir höfuðið til að fá smá frið.

Áfengislaus

Einhverjir hefðu haldið að eitt gott rauðvínsglas myndi fá mann til að slaka á og eiga þar af leiðandi auðveldara með að sofna en svo er víst ekki rétt samkvæmt sérfræðingum. Áfengið gæti hjálpað þér við að dotta örstutt en á sama tíma er það vatnslosandi og hefur þar af leiðandi neikvæð áhrif á líkamann. Vatnið er best sem og koffínlaust te en koffín er einnig vatnslosandi og að auki örvandi.

Mataræði

Það er freistandi að detta ofan í snakkpokann í flugi og horfa á góða mynd en ef þú ætlar að reyna að sofna þá er það ekki það viturlegasta sem hægt er að gera. Saltið í snakkinu er vatnslosandi líkt og áfengið og getur haft þau áhrif að þú þurfir að fara oftar á salernið. Það er upplagt að borða eitthvað hollt klukkutíma fyrir flug eða narta í banana eða hafrastykki um borð þar sem hvort tveggja er talið hafa jákvæð áhrif á svefn.

Hjálpartæki

Ef þú hefur þann kost að velja sæti skaltu fyrir alla muni gera það, gluggasætin eru til að mynda töluvert þægilegri en þau í miðjunni. Ferðakoddinn er ómissandi eða þykk peysa sem þú getur kuðlað saman undir höfuðið og svo er upplagt að vera með hljóðeinangrandi heyrnartól sem verja þig fyrir umhverfishljóðum í flugvélinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka