Ráðlagður dagskammtur Lukku

Lukka segist vera týpan sem kippir með sér því sem …
Lukka segist vera týpan sem kippir með sér því sem hendi er næst þegar hún skellir hurðinni á eftir sér á leið í næsta ævintýri. Ljósmynd/Aðsend

„Það er því oft þannig þegar ég er að fara út um dyrnar á leið í dagsferð á fjallaskíði, í hjólaferð eða langa göngu að ég man á síðustu stundu eftir því að það er gott að hafa einhverja næringu með í för. Þetta virðist ekki einu sinni lagast þó að ferðunum fjölgi!“

Lukka segist vera týpan sem kippir með sér því sem hendi er næst þegar hún skellir hurðinni á eftir sér á leið í næsta ævintýri. „Oftast eru það hnetur og sódavatnsflaska sem ná með í töskuna. Svo krossa ég fingur og vona að einhver vina minna aumki sig yfir mig í ferðinni og gefi mér bita af snickersinu sínu svo það líði nú ekki yfir mig af hungri. Ég er því týpan sem ráðlegg öðrum að útbúa vel útreiknað nesti eftir orkuþörf hvers og eins og pakka því daginn áður í hentugar umbúðir, forsjóða egg og hræra í pestó og gera allt fínt og planað. Mæti svo sjálf óundirbúin og utangátta!“

Lukka tekur góðan kaffibolla fram yfir margt annað og virðist alltaf muna eftir honum, sama á hverju gengur. „Áður en ég fer út laga ég góóóóðan kaffibolla með bæði kókosolíu og smjöri og tek með mér í bílinn. Það er uppáhaldsstund að bruna af stað með góða tónlist og gott kaffi á leið að hitta glatt fólk í útivist. Ef ég hef tíma hendi ég líka eggi á pönnu og skófla því í mig á hlaupum með slettu af ólífuolíu og sjávarsalti,“ segir Lukka og bætir við að vegna óskipulags og minnisleysis gleymi hún stundum að borða nestið sitt og komi með það heim aftur. „Þá borga ég fyrir með því að verða aðeins bólgin og þrútin daginn eftir þar sem ég hef gleymt að taka inn vökva á löngum degi á fjöllum. Ég held því áfram að ráðleggja fólki að borða reglulega og fyrst og fremst drekka vel ... og vona svo að ég fari að læra að fara eftir þessum ráðum sjálf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert