Vinsælustu bækurnar í ferðalagið

Það getur verið afskaplega afslappandi að slaka á við sundlaugarbakkann …
Það getur verið afskaplega afslappandi að slaka á við sundlaugarbakkann með góða bók. Ljósmynd/Colourbox

Í bókabúð Pennans Eymundssonar á Keflavíkurflugvelli er að finna lifandi lista yfir þær bækur sem eru vinsælastar í ferðalagið þessa stundina. Hérna eru þær sex vinsælustu.

Sumareldhús Flóru - Jenny Colgan

Flóra MacKensie hefur ekki komið á æskuslóðirnar á skosku eyjunni Mure síðan móðir hennar lést. Nú þarf hún að snúa aftur vegna verkefnis í vinnunni og með í för er yfirmaður hennar Joel sem hún er bálskotin í. Skyndilega er Flóra komin afur á æskuheimilið með bræðrum sínum og föður sem hún hefur varla talað við síðan hún fór burt. Dag einn finnur Flóra gamla stílabók með uppskriftum móður sinnar og um leið kviknar aftur áhugi og ástríða hennar fyrir matargerð. Áður en Flóra veit af er hún búin að opna matsölu í gömlu bleiku húsi við höfnina og hún gerir sér grein fyrir að hún verður að horfast í augu við mistök fortíðarinnar áður en hún getur haldið áfram með líf sitt.

Gullbúrið - Camilla Läckberg

Með Gullbúrinu fetar hin geysivinsæla Camilla Läckberg nýjar brautir og skrifar sögu með ógleymanlegri söguhetju og grímulausum feminískum boðskap.

Út á við virðist Faye hafa allt. Fullkominn eiginmann, yndislega dóttur og lúxusíbúð á besta stað í Stokkhólmi. En myrkar minningar frá æskuárunum sækja á hana og henni líður æ meira eins og fanga í gullbúri. Eitt sinn var hún sterk og metnaðarfull kona, en hefur gefið allt upp á bátinn fyrir Jack.

Þegar hann svíkur hana hrynur veröld Faye til grunna. Skyndilega er hún allslaus. Hún er ráðþrota til að byrja með, en ákveður síðan að svara fyrir sig og leggur á ráðin um grimmilega hefnd.

Gullbúrið er grípandi skáldsaga um konu sem dregin er á tálar og misnotuð, en tekur örlög sín í eigin hendur. Áhrifamikil saga um svik, upprisu og hefnd.

WOW Ris og fall flugfélagsins - Stefán Einar Stefánsson

WOW ris og fall flugfélags er mögnuð bók þar sem rakið er eitt merkilegasta viðskiptaævintýri Íslandssögunnar. Ævintýrið snerist upp í andhverfu sína og þeirri atburðarás er hér lýst af innsæi og einstakri þekkingu á flóknum heimi flugreksturs.

Í þessari bók varpar Stefán Einar Stefánsson blaðamaður ljósi á áður óþekktar aðstæður þess að félagið varð gjaldþrota en einnig það hvernig Skúla Mogensen, stofnanda þess, tókst á örfáum árum að byggja upp flugfélag sem hafði áður en yfir lauk flutt tíu milljónir farþega yfir Atlantshafið.

Gamlinginn sem hugsaði með sér að hann væri farinn að hugsa of mikið - Jonas Jonasson

Gamlinginn sem hugsaði með sér að hann væri farinn að hugsa of mikið er sjálfstætt framhald af hinni geysivinsælu bók Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf.

Meinfyndin og skemmtileg bók sem gefur fyrri bókum Jonas Jonasson ekkert eftir.

Silfurvegurinn - Stina Jackson

Fyrir þremur árum hvarf dóttir Lelle sporlaust fjarri alfaraleið í norðurhluta Svíþjóðar. Lelle hefur síðan farið á hverju sumri og ekið eftir Silfurveginum í örvæntingarfullri leit að dóttur sinni en líka til að finna frið með sjálfum sér.

Meja, stúlka á svipuðum aldri og dóttir Lelle, sest að í litlum bæ við Silfurveginn, grunlaus um þær hættur sem kunna að bíða hennar.

Með áleitnum og harmsögulegum hætti tvinnast líf Meju og Lelle óvænt saman …

Mergjuð og dulúðug glæpasaga, meistaralega stíluð, sem hlotið hefur einróma lof víða um heim.

Metsölubókin Silfurvegurinn er fyrsta skáldsaga Stinu Jackson. Hún fæddist árið 1983 í Skellefteå í norðurhluta Svíþjóðar. Árið 2006 flutti hún til Denver í Colorado í Bandaríkjunum þar sem hún býr með eiginmanni sínum og litlum hundi.

Þegar kona brotnar - og leiðin út í lífið á ný - Sirrý Arnardóttir

Íslenskar konur virðast geta axlað mikla ábyrgð og þolað mikið álag en hvað gerist ef áreynslan verður þeim um megn? Hér eru sagðar sögur kvenna sem kiknuðu undan álaginu en risu aftur upp og standa hnarreistar eftir; einlægar og lærdómsríkar sögur sigurvegara. En hvers vegna buguðust þær? Hvað varð þeim til bjargar? Hver er leiðin til baka eftir brotlendingu vegna kulnunar? Í bókinni er einnig fjallað um konur fyrri tíma, hvernig þær brugðust við örmögnun, og rætt við sálfræðing um hvað gerist þegar kona brotnar og hver bjargráð hennar eru. Sirrý hefur fengist við fjölmiðlun af öllu tagi í mörg ár, auk þess að kenna við háskóla, hefur haldið fjölda námskeiða og skrifað bækur um hvernig hægt er að auka lífsgæði sín og ná góðum árangri. Bókin er gefin út í samvinnu við VIRK starfsendurhæfingarsjóð.

Listann í heild má finna hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka