Hinn eini rétti svefnpoki

Góður svefnpoki er undirstaða góðs svefns í útilegum.
Góður svefnpoki er undirstaða góðs svefns í útilegum. Ljósmynd/Aðssend

Mér datt ekki í hug að það gæti skipt svo miklu máli hvernig svefnpokinn væri. Við sváfum á örþunnum einangrunardýnum og í tveggja manna göngutjaldi, en við vorum tveir fullorðnir og tvö börn og ég í þokkabót komin fimm mánuði á leið. Í stuttu máli sváfum við hrikalega illa. Ég hef lært heilmikið síðan þá, til dæmis að góður svefnpoki er undirstaða góðs svefns í tjaldi. Þess vegna langar mig að deila því sem ég hef lært, en vil þó taka fram að ég er enginn svefnpokasérfræðingur.

Lengd svefnpokans

Svefnpokarnir sem ég og maðurinn minn keyptum okkur voru 190 cm á lengd. Ég er 165 cm og maðurinn minn 172 cm. Þarna voru fyrstu mistökin gerð. Það skiptir miklu máli að svefnpokinn sé ekki mikið lengri en maður sjálfur því annars er of mikið loftrými sem líkaminn þarf að hita upp. Of langur svefnpoki verður þess vegna kaldur svefnpoki. En ef þú átt nú þegar of langan svefnpoka eða færð lánaðan svefnpoka sem er of langur þá er ekkert því til fyrirstöðu að nota hann samt. Notaðu hugmyndaflugið þegar það kemur að þeim búnaði sem þú hefur aðgang að enda er mikilvægt að nýta þann búnað sem maður hefur. Það er til dæmis hægt að setja belti utan um pokann neðan við iljarnar og þrengja að eða binda snæri utan um pokann. Þannig styttir maður pokann og minnkar rýmið sem líkaminn þarf að hita upp. Svefnpokinn sem ég á í dag hentar fólki sem er allt að 172 cm.

Hitamörkin

Áður en þú festir kaup á svefnpoka skaltu athuga vel hitamörkin á pokanum. Þetta eru upplýsingar sem má finna á öllum vönduðum svefnpokum sem eru á markaðnum. Pokarnir eru prófaðir áður en þeir eru settir á markað til að kanna þægindamörk og sársaukamörk þegar kemur að hitastigi. Það er hinsvegar mjög mismunandi hversu vel fólk þolir kulda. Minn poki er með þægindamörk niður í -6 gráður. Ég miða því við að sofa ekki úti í honum í meira en -4 gráðum til öryggis, nema þá að taka með einangrunarteppi og auka einangrunardýnu undir loftdýnuna mína.

Áður en þú festir kaup á svefnpoka skaltu athuga vel …
Áður en þú festir kaup á svefnpoka skaltu athuga vel hitamörkin á pokanum. Ljómsyd/Pálína Ósk

Dúnn eða gerviefni?

Margir hallast að dúnpokum enda geta þeir verið mjög léttir og hlýir og taka ögn minna pláss í bakpokanum. Það að þeir séu léttir gerir það að verkum að þeir henta afar vel í lengri leiðangra þar sem huga þarf vel að þyngd bakpokans. Versti óvinur dúnsvefnpokans er hinsvegar raki og rakur svefnpoki getur orðið kaldur svefnpoki. Sjálf valdi ég gervipoka þrátt fyrir að hann sé 1,5 kg. Kosturinn við svefnpoka með gerviefnafyllingu er að pokinn heldur hita þrátt fyrir að hann blotni. Það gerist reglulega að svefnpokinn minn blotni í miklum raka á næturnar og þegar ég fer í útilegur að vetrarlagi, en minn svefnpoki er með svokallaðri ThermalQ fyllingu. Hinsvegar þykja dúnpokar endast lengur en svefnpokar með gervifyllingu.

Þínar þarfir

Þegar þú fjárfestir í svefnpoka mæli ég með því að fara vel yfir þínar þarfir. Ætlarðu eingöngu að sofa úti á sumrin eða viltu geta farið í útilegu á öðrum árstíma líka? Sjálf vildi ég helst poka sem eingöngu vegur 1 kg en er með þægindamörk niður í -8 gráður. En þá er maður kominn upp í svefnpoka sem kostar á við hjónarúm. Það getur þess vegna tekið langan tíma að finna hinn eina rétta svefnpoka og við verðum öll að forgangsraða eftir eigin þörfum og óskum þegar við förum í bakpokaferðir í óbyggðum.

Ég vona að þessi skrif geri örlítið gagn á leið þinni í gegnum svefnpokafrumskóginn mikla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert