Jólahald á Tenerife í uppnámi

Jólahald á Tenerife gæti litast af sóttvarnatakmörkunum sem tóku gildi …
Jólahald á Tenerife gæti litast af sóttvarnatakmörkunum sem tóku gildi í gær. AFP

Hertar samkomutakmarkanir tóku gildi á Tenerife og Gran Canaria í gær vegna fjölgunar kórónuveirusmita á eyjunum. Samkomutakmarkanirnar eru líklegar til þess að hafa áhrif á jólahald á eyjunum en samkvæmt reglunum mega aðeins átta manns sitja saman við borð á veitingastöðum. 

Þúsundir Íslendinga munu verja jólunum á Kanaríeyjum þessi jólin. 

Á miðnætti í gær voru eyjarnar tvær færðar upp á annað stig sóttvarna. Á öðru stigi mega veitingastaðir aðeins taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda á útisvæðum sínum, 50% innanhúss og mega aðeins átta sitja saman. Þá þurfa veitingastaðir að loka klukkan tvö eftir miðnætti.

Veitingastaðir og skemmtistaðir geta starfað eftir reglum lægra sóttvarnarstig ef þeir setja reglur um að gestir sýni kórónuveiru vottorð. Þá þurfa gestir að sýna annað hvort bólusetningarvottorð, vottorð um fyrra smit eða neikvætt PCR-próf. Þessi regla er hins vegar val.

Gegn undanþágu er hægt að halda fjölmennari viðburði en eru þeir háðir því að gestir sýni fram á neikvætt kórónuveirupróf.

Þessar reglur eru í gildi til 15. janúar 2022 að því er fram kemur á Canarian Weekly.

Flest virk smit á Tenerife

Undanfarna daga hafa flest smit greinst á hverjum degi á Tenerife. Á sunnudag greindust 273 smitaðir á eyjunni samanborið við 197 smit á Gran Canaria. Í  Þar eru líka flest virk smit eða alls 3.084 smit. Á Gran Canaria eru 2.980 virk smit. 

Á sóttvarnarstigi 2 er grímuskylda í verslunum og í almenningssamgöngum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert