Stærðarinnar skemmtiferðaskip strandaði

Norwegian Escape strandaði í höfninni við Puerto Plata á mánudag.
Norwegian Escape strandaði í höfninni við Puerto Plata á mánudag. AFP/Erika Santelices

Norska skemmtiferðaskipið Norwegian Escape strandaði í átta klukkustundir á leið út úr höfninni í Puerto Plata í Dóminíska lýðveldinu á mánudag. Skipið skemmdist mikið þegar það strandaði og hefur öllum ferðum þess á næstunni verið aflýst. 

Skemmtiferðaskipið er af stærri gerðinni en það tekur yfir 4.000 farþega og yfir þúsund í áhöfn. Strandaði skipið yfir nóttina og er ástæðan sögð vera hvassir vindar, en atvikið er enn í rannsókn. Komst það aftur á flot þegar flæddi að um morguninn og fór það svo í slipp til að kanna skemmdir.

Norwegian Escape var að hefja sjö daga siglingu um Karíbahafið og var Puerto Plata fyrsta stoppið á leiðinni til Orlando í Bandaríkjunum. Farþegar um borð eyddu tveimur dögum í Puerto Plata þar til ljóst væri að skemmdirnar voru of miklar til að halda siglingunni áfram. Hafa þeir nú fengið endurgreitt og einnig fengið inneign upp í næstu ferð hjá Norwegian Cruise Lines, sem eiga skipið. 

Norwegian Escape var byggt í Pepenburg í Þýskalandi árið 2015. Fékk Norwegian Cruise Lines það afhent í ágúst það ár og sigldi það jómfrúarferð sína í nóvember. Skipið er 164 tonn að þyngd og 325 metra langt.

Skipið komst aftur á flot eftir 8 klukkustundir.
Skipið komst aftur á flot eftir 8 klukkustundir. AFP/Erika Santelices
AFP/Erika Santelices
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert