5 staðir sem þú verður að heimsækja í Portó

Ljósmynd/Unsplash/Eduardo Muniz

Portó er önnur stærsta borg Portúgals og er byggð þvert yfir hæðir sem ná niður að bökkum Douro-árinnar. Borgin hefur mikinn sjarma og býður ferðalöngum upp á allt frá arkitektúr- og menningarupplifun yfir í töfrandi matarsenu og ljúffengt vín.

Þótt það sé ótal margt að sjá og gera þykja eftirfarandi fimm staðir ómissandi hluti af góðu ferðalagi til Portó. 

1. Gönguferð um Ribeira-hverfið

Hið sögulega Ribeira-hverfi er ómissandi hluti af ferðalagi til Portó. Það er tilvalið að skoða hverfið gangandi um þröngar steinsteyptar göturnar og njóta þess að skoða terrocotta-flísalögð hús í pastellitum með skærmáluðum hurðum. 

Ljósmynd/Pexels/Alexey Komissarov

2. Kíktu í frægustu bókabúð heims

Livaria Lello er líklega ein af fáum bókabúðum í heimi þar sem þú þarft að borga aðgangseyri og bíða í biðröð til að komast inn. Búðin er full af töfrum og var innblástur JK Rowling þegar hún skrifaði Harry Potter-bækurnar. 

Ljósmynd/Unsplash/Redcharlie

3. Skoðaðu Douro-dalinn

Douro-dalurinn er elsta afmarkaða vínhérað í heimi og er staðsett í um eins og hálfs tíma akstursfjarlægð frá Portó. Vínekrurnar eru ekki bara guðdómlega fallegar, með einstöku útsýni yfir Douro-ána, heldur líka friðsælar.

Ljósmynd/Unsplash/Ricardo Resende

4. Búðu til þínar eigin portúgölsku flísar

Í Gazete Azulejos getur þú lært að mála þína eigin portúgölsku flís, en verslunin er tileinkuð því að kynna og varðveita þessa sögulegu list sem er því miður sífellt að verða sjaldgæfari. Eftir stutta fræðslustund um sögu flísanna og leiðbiningar getur þú málað tvær flísar sem eru svo sendar í brennslu. Um sólahring síðar eru þær tilbúnar.

Ljósmynd/Pexels/Vlado Paunovic

5. Gæddu þér á pastéis de nata

Eitt frægasta bakkelsi Portúgals er án efa pastéis de nata – með stökku ytra lagi og mjúkri vanillu með kanilkeim í miðjunni. Í Portó er mælt með staðnum Manteigaria, en þar fást einhverjar af bestu pastéis de nata í borginni.

Ljósmynd/Pexels/Mel Legarda
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert