Sjarmerandi gististaðir í mögnuðum þjóðgarði

Banff þjóðgarðurinn í Kanada er með vinsælustu áfangastöðum landsins um …
Banff þjóðgarðurinn í Kanada er með vinsælustu áfangastöðum landsins um þessar mundir. Samsett mynd

Lengi vel hafa snævi þaktir fjallstindar og vatnsblá stöðuvötn Banff þjóðgarðsins laðað að sér ferðafólk hvaðanæva úr heiminum. Er þetta fyrsti þjóðgarður Kanada og sá þriðji í heiminum. 

Sjarmerandi hótel og gistiheimili hafa þar af leiðandi sprottið upp í og við Banff þjóðgarðinn en rúmlega fjórar milljónir manna heimsækja staðinn ár hvert. 

Hér eru nokkur þeirra:

Fairmont Banff Springs

Hótelið er ævintýralegur kastali staðsettur í hjarta þjóðgarðsins. Það hefur að geyma 739 herbergi og svítur sem allar eru smekklega innréttaðar með formfögrum og hlýlegum húsgögnum.

Fairmont Banff Springs hefur upp á margt að bjóða eins og til dæmis 27 holu golfvöll, heilsulind, skoðunarferðir og reiðhjólatúra.

Fairmont Château Lake Louise

Hið stórfenglega fimm stjörnu hótel er hannað í endurreisnarstíl en sá stíll á uppruna sinn að rekja til 19. aldar Ítalíu. Það má því segja að hótelið sé undir ítölskum áhrifum. Sérstaða hótelsins er kynngimagnað útsýni þess, afþreyingarmöguleikar, rúmgóð herbergi og ljúffengur matur. 

Moraine Lake Lodge

Gistiheimilið er staðsett í timburkofa í skóginum og upplagt fyrir þá sem vilja stíga út úr annríki hversdagsins. Á Moraine Lake Lodge er hægt að njóta morgunbollans við ljúfan fuglasöng á pallinum og finna hvernig spennan líður burtu og yfirgefur líkamann. 

Fallegar gönguleiðir eru allt í kringum gistiheimilið og að þeim loknum er hægt að kúra undir teppi fyrir framan arineldinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert