Þetta áttu alltaf að taka með í ferðalagið

Það er gott að hafa hluti með sér í ferðalag …
Það er gott að hafa hluti með sér í ferðalag sem geta komið að gagni í ólíkum aðstæðum. Getty images

Ferðasérfræðingur segir að allir ættu alltaf að taka með sér „sarong“ í ferðalagið en sarong er klæði sem almennt er vafið utan um mitti og á rætur sínar að rekja til Asíu. 

„Margir eiga erfitt með að pakka létt og þá skiptir máli að pakka því sem hægt er að nota á sem fjölbreyttastan hátt. Þessa flík má nota á margvíslega vegu. Það má nota það sem sjal þegar það er kalt, það má hafa það um axlirnar eða sem pils ef farið er í hof eða kirkjur og þess er krafist að líkamshlutar eru huldir,“ segir í umfjöllun Lonely Planet.

„Þá má nota það sem teppi fyrir lautarferð og sumir hafa jafnvel búið til hengirúm úr því fyrir yngstu börnin sín. Í sumum tilfellum má nota það sem lak ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis á ferðalaginu.“

Eitt sarong er þó ekki að fara að leysa vandann ef þú átt erfitt með að ferðast létt. Það er gott ráð að setja allt sem þú vilt taka með á rúmið og fjarlægja svo einn þriðja af góssinu. Miðaðu við að taka bara það sem þú elskar með í ferðalagið. Vel valdir fylgihlutir geta gert heilmikið fyrir klæðnaðinn og heildarútlitið.

„Það að rúlla upp fötin og setja þau í lofttæmandi poka sparar bæði pláss og kemur í veg fyrir krumpur. Ferðalagið verður auðveldara ef þú ert skipulagður einstaklingur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert