3.800 gígawattsstundir af viðbótarorku árlega

Guðlaugur Þór á fundinum í morgun.
Guðlaugur Þór á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfshópur um aðra orkukosti telur að fyrir árið 2040 eigi að vera hægt, með bættri orkunýtingu og nýtingu nýrra orkukosta, að útvega árlega að minnsta kosti 3.800 gígawattsstundir af viðbótarorku.

3.800 gígawattsstundir samsvara um 20% af orkunotkun á Íslandi árið 2022.

Þar af kæmu 400 gígawattsstundir frá sólarorku/birtuorku, 200 GWst frá sjávarorku, 1.200 GWst frá nýjum smávirkjunum fyrir vatnsafl og 2.000 GWst með bættri orkunýtni og sveigjanlegri orkunotkun.

Þessu greindi Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir, sem var hluti af þriggja manna starfshópi sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði, frá á fundi í morgun þar sem ný skýrsla var kynnt. 

Gunn­laug Helga Ásgeirs­dótt­ir á fundinum í morgun.
Gunn­laug Helga Ásgeirs­dótt­ir á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfshópurinn telur einnig í niðurstöðum sínum að móta þurfi stefnu og umgjörð um sólarorku og sjávarorku og að tryggja þurfi að einstaklingar og heimili geti verið virkir notendur þannig að þau hafi kost á að framleiða og geyma orku til eigin nota, sem og selja inn á dreifikerfi.

Ásmundur Friðriksson.
Ásmundur Friðriksson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sömuleiðis er lagt til að frá árinu 2030 ætti að gera kröfu um að nýjar byggingar séu tilbúnar fyrir sólarsellur.

Jafnframt þurfi að setja markmið um orkusparnað fyrir heimili, fyrirtæki og opinbera aðila, og að styrkja þurfi jarðhitaleit áfram á rafhituðum svæðum.

Auk Gunnlaugar Helgu voru í starfshópnum Ásmundur Friðriksson og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Skýrslan hefur að geyma 50 tillögur sem snúa að sólarorku, sjávarorku, smávirkjunum fyrir vatnsafl, varmadæluvæðingu á smærri og stærri skala, bættri orkunýtni og sveigjanlegri orkunotkun.

„Í vinnu starfshópsins kom fram að sú staðreynd að raforkuverð á Íslandi væri lágt, hefði áhrif á innleiðingu nýrra lausna fyrir bættri orkunýtni, fjölgun smávirkjana og aukinni nýtingu nýrra orkugjafa á borð við sólarorku/birtuorku og sjávarorku. Ætla megi hins vegar að samkeppnishæfni þessara valkosta aukist á næstu árum m.a. vegna tækniframfara og verðlækkana á búnaðim" segir í tilkynningu. 

„Skýrsla sem allir ættu að lesa“

„Þetta er skýrsla sem allir ættu að lesa,” sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að loknum kynningum Ásmundar og Gunnlaugar Helgu.

„Þetta snýst um það að við búum til umgjörðina og hvata og svo hleypum við hugvitinu af stað og svo þarf frumkvæðið,” bætti hann við.

„Tækifærin eru alveg gríðarlega mikil og þannig eigum við að nálgast þetta,” sagði hann og bætti við að við ættum að geta gengið þannig fram að börnin okkar og komandi kynslóðir gætu verið stolt af okkur.

Meðal tillagna starfshópsins:

  • Mótuð verði stefna og umgjörð um nýtingu sólarorku/birtuorku og sjávarorku.
  • Löggjöf verði endurskoðuð, með hliðsjón af nýtingu sólarorku/birtuorku og sjávarorku.
  • Einstaklingar, fyrirtæki og opinberir aðilar geti verið virkir notendur, þ.e. hafi kost á að framleiða og geyma orku til eigin nota, sem og selja inn á dreifikerfi eða til nágranna sinna.
  • Mótað verði einfalt og skilvirkt leyfisveitingarferli og sett upp ein gátt fyrir umsóknir um leyfi og leyfisveitingar.
  • Frá og með 2030 verði gerð krafa um að nýjar byggingar verði tilbúnar fyrir sólarsellur.
  • Ríkið verði í fararbroddi þegar kemur að nýtingu sólarorku og stefni að því að setja upp sólarsellur á opinberar byggingar á næstu árum.
  • Hugað verði að almennum reglum um staðsetningu stærri sólarorkuvera.
  • Áfram verði stutt við nýsköpunarverkefni á sviði sjávarorku.
  • Liðkað verði fyrir frekari nýtingu smávirkjana fyrir vatnsafl með einfaldari leyfisveitingum og lægri gjöldum fyrir tengingar við dreifikerfi raforku.
  • Lögð verði áhersla á bætta orkunýtni á rafhituðum svæðum, m.a. með áframhaldandi styrkjum við kaup á varmadælum og kröfum um orkusparandi búnað.
  • Áfram verði stutt við jarðhitaleit á rafhituðum svæðum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert