Myndskeið: Flaut niður Krossá á BMW-lúxuskerru

Skjáskot af bílnum.
Skjáskot af bílnum. Samsett mynd

Fjölmargir ferðamenn héldu inn í Þórsmörk í sumar enda þekkt fyrir að vera mikil útivistarparadís sem býður upp á ómælda fegurð. Leiðin inn í Þórsmörk er ekki síður ævintýraleg, en á dögunum birtist myndband af BMW x5-lúxuskerru sem lenti í miklum vandræðum á leiðinni.

Til þess að komast inn í Þórsmörk þarf að keyra yfir nokkrar ár. Það er því mikilvægt að vera á vel búnum jeppa og hafa einhverja grunnþekkingu á því hvernig á að fara yfir ár.

Ein þekktasta áin á leiðinni inn í Þórsmörk er án efa Krossá, en hún getur verið vatnsmikil og reynst krefjandi yfirferðar, og hafa þó nokkrir komið sér í sjálfheldu í ánni á undanförnum árum. 

Flaut niður ána

Á dögunum birtist myndband á TikTok af ferðalöngum sem reyndu við Krossána á BMW X5-lúxuskerru. Þar sést bíllinn keyra ofan í ána, en stuttu síðar er bíllinn kominn á flot og sést fljóta niður kraftmikla ána.

Betur fór en á horfðist og fengu ferðalangarnir fljótlega aðstoð og voru dregnir upp úr ánni.

Myndbandið hefur vakið mikla athygli á miðlinum, bæði meðal Íslendinga en líka erlendra ferðamanna. Athygli er vakin á mikilvægi þess að fólk meti aðstæður í ánni hverju sinni og fari ekki yfir hana nema á vel búnum jeppum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert