Ganga á Gullbringu er bæði falleg og aðgengileg flestum. Hafa ber þó í huga að umhverfið breytist yfir vetrartímann og þarf því að vera vel útbúinn.
Þessi skemmtilegi hringur liggur meðfram Kleifarvatni til að byrja með og svo er gengið upp í hlíðarnar og farið á fjallshryggjum til baka. Komið er við hjá Jónshelli og svo farið upp á Gullbringu, sem er ástæðan fyrir nafninu Gullbringusýsla. Þetta er þægileg leið, ekki brött, en hún getur orðið erfið á veturna vegna snjóa, klaka og harðfennis. Mikilvægt er að vera útbúin til vetrarferða ef farið er á þeim tíma. Afleggjarinn frá Kleifarvatnsvegi er oft ófær á veturna og vorin.
Á Vestur- og Austurengjum er hrossabeit frá Hvammsholti að Grænavatni. Við Hvamma standa um tíu hús hestamanna, en upphaflega mun hafa verið gefið leyfi fyrir hnakkageymslum á þessum stað. Einnig er þarna svæði skátafélagsins Hraunbúa í hinni svokölluðu Hverahlíð. Þar reistu þeir skála á árunum 1946-47 og nýta enn þetta svæði.
Byrjað er á því að ganga í austur meðfram strönd vatnsins og henni fylgt út fyrir Geithöfða. Á sumrin er fuglalíf á vatninu, en himbrimar hafa sést þar síðustu ár, álftapar hefur verpt sunnan megin við vatnið ásamt stokkönd, toppönd og kríu. Himbriminn er mjög fallegur fugl af brúsaætt (Gaviidae). Hann hefur hlotið ýmsar vegtyllur í mannanna heimum eins og að koma á íslenskt frímerki.
Vatnið sjálft er um 8 km2 á stærð og 97 m á dýpt og því eitt hið dýpsta á landinu. Ekkert frárennsli er frá vatninu ofanjarðar, en vitað er um sprungur sem virka eins og afrennsli. Kleifarvatn er gjöfult veiðivatn og gefur oft stórfiska. Fiski hefur verið komið í það úr Hlíðarvatni, sem er skammt frá, og Þingvallavatni. Stórt skrímsli heldur sig í vatninu samkvæmt munnmælum og á það að vera í ormslíki og á stærð við hval en þó minna um sig en Lagarfljótsormurinn. Eftir jarðskjálfta hefur vatnsborð stundum sigið þegar sprungur opnast í botni þess, en það hefur svo þést á nýjan leik og vatnsyfirborðið hækkað. Undir vatnsyfirborðinu má finna hverasvæði og vinsælt er að kafa niður að þeim.
Svo er stefnan tekin upp með hraunjaðri Hvammahrauns að Gullbringuhelli eða Jónshelli eins og hann hefur einnig verið nefndur. Þarna skammt frá liggur Dalaleiðin, gönguleið austan við Kleifarvatn á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Hellirinn er nokkuð stór og af ummerkjum að dæma hefur hann verið notaður til gistingar áður fyrr, hugsanlega af fólki sem var á ferð um Dalaleiðina.
Frá hellinum er haldið upp gróðursnauðar hlíðar Gullbringu, en af toppnum er fallegt útsýni yfir Kleifarvatnið og víðar. Nafnið fær Gullbringa líklega af því hve geislar sólarinnar lýsa hana fallega upp á björtum sumarkvöldum. Gullbringusýsla nær yfir mestallt Reykjanes og Reykjavík og fær nafn sitt héðan. Þaðan er svo gengið í suðvestur og fjallshrygg fylgt þar til komið er aftur að bílastæðinu.