Á Austfjörðum eru margir fallegir staðir og stundum þarf ekki að fara langt frá þjóðveginum til að sjá þjóðargersemi í jarðfræðilegum skilningi. Á Streitishvarfi rétt sunnan Breiðdals er er stutt en falleg gönguleið sem gefur innsýn í jarðsögu Austfjarða og sýnir hvað innskot og berggangar eru lífseig fyrirbæri. Fallegt útsýni er frá Streitisvita og öldugangur og brimrót sér um undirspilið alla daga ársins. Þetta er útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna en fara skal varlega nálægt sjávarklettunum.
Fólk er beðið um að keyra ekki niður að vitanum en hægt er að leggja skammt frá loftnetinu. Áður en haldið er af stað má líta handan vegarins og virða Skrúðskamb fyrir sér. Þar á tröll eitt heima en bræður þess eru búsettir í Papey og Skrúði. Á björtum dögum er sagt að þeir bjóði hver öðrum góðan daginn og eflaust fylgja því einhverjar drunur í fjöllunum.
Suður af Streitishvarfi er tindurinn Naphorn með Naphornsklettum neðan við. Í Naphornsklettum höfðu vorið 1784 þrír piltar úr Breiðdal komið sér fyrir í litlum hellisskúta til næturgistingar, þeir Eiríkur 21 árs, Jón 20 ára og Gunnsteinn 18 ára. Höfðu þeir allir átt erfiða æsku og flækst á milli bæja í hreppnum en urðu þarna ásáttir um að fara suður í Austur-Skaftafellssýslu og leggjast í flakk þar. Þeir rændu sér einhverju matarkyns af bænum Streiti. Jón vildi svo snúa aftur í Breiðdal en Eiríkur aftók það og endaði á því að drepa hann. Þeir eftirlifandi hættu svo við flakkið og sneru aftur í norðurátt en það var ekki fyrr en einhverjum vikum síðar sem var farið að yfirheyra þá um hvarf Jóns. Játuðu þeir við yfirheyrslurnar og var Gunnsteinn dæmdur til ævilangrar þrælkunarvinnu fyrir yfirhylmingu og lést eftir harðrétti í fangavist árið eftir. Eiríkur var dæmdur til dauða fyrir morðið og var hálshöggvinn á Mjóeyri tveimur árum síðar.
Bærinn að Streiti, undir Naphorni, fór í eyði árið 1983 og síðan hefur ekki verið búrekstur þar. Sjá má tóftir norðan við berggangana og er það að líkum eftir býlið að Hvarfi en búið var síðast þar árið 1850. Enn norðar er Timburklettur þar sem Streitisbóndi á að hafa komið að sofandi sjóræningjum í miðju Tyrkjaráni. Hann á að hafa banað þeim með lurk og svo dysjað í svonefndri Tyrkjaurð. Fjölmargar sagnir eru hér um slóðir tengdar Tyrkjaráni árið 1627 en þá komu sjóræningjar frá Alsír og rændu 110 manns á þessum slóðum og drápu auk þess fjölmarga. Þessir atburðir höfðu mikil áhrif á íbúa og fundu sér leiðir í þjóðsögur og munnmæli og lifa jafnframt í örnefnum á þessum slóðum sem og í Vestmannaeyjum og Grindavík þar sem sjóræningjarnir rændu einnig fólki.
Í gegnum skagann Streitishvarf er afar merkilegur berggangur sem sést best syðst og nyrst á hvarfinu. Nær þessi berggangur yfir Breiðdalsvíkina, í Hökulvík og Hökulvíkurgil og áfram í Súlnadal Stöðvarfjarðarmegin, alls um 15 km vegalengd. Hann hverfur í fjallshlíðinni ofan við þorpið. Í Lambafelli, á milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar, nær gangurinn upp í 700 m hæð yfir sjávarmál. Gangurinn er 10,2 milljóna ára og samsettur með 5 m þykkum jöðrum úr basalti og 15 m þykkum kjarna úr ríólíti (áður kallað líparít). Á milli basaltsins og ríólítsins er mjótt belti af bergi með samsetningu sem spannar bilið á milli basalts og ríólíts og varð til vegna blöndunar á milli jaðranna og kjarnans. Upptök gangsins eru ekki augljós. Eldstöðvakerfi Álftafjarðar sem er 30 km sunnan við Streitishvarf er of ungt til að geta verið upprunastaður hans. Að sama skapi eru Sandfell og Reyðarfjarðarmegineldstöðin, 30 km norðan við Streitishvarf, bæði nálægt norðurenda samsetta gangsins, en eru um það bil milljón árum of gömul til þess að geta verið upptakastaðurinn. Segulmælingar á súra miðjuhlutanum gefa vísbendingar um að upptök gangsins gætu verið í norðri.
Samsettir gangar verða til þegar aðstreymi basískrar kviku kemst í snertingu við súra kviku á töluverðu dýpi í jarðskorpunni. Ef basísk kvika kemst í beina snertingu við súra kviku getur hún hitað upp súru kvikuna og gert hana þunnfljótandi. Basaltgangurinn er jafnframt farvegur fyrir súru kvikuna sem treður sér inn í miðjan ganginn þar sem hann er heitastur. Ef gangurinn nær yfirborði verður eldgos sem myndar samsett hraun líkt og sést í botni Berufjarðar.
Streitisviti er 12 m á hæð, steinsteyptur áttstrendur turn sem hannaður var af Steingrími Arasyni verkfræðingi. Ljóshúsið er sænskrar gerðar, úr trefjaplasti. Vitinn var rafvæddur frá upphafi. Fyrst var reistur viti á Streitishorni árið 1922 og var það járngrindarviti sem smíðaður hafði verið á járnsmíðaverkstæði ríkisins í Reykjavík. Þessi viti var starfræktur fram til ársins 1958 en var þá fjarlægður þar sem byggður hafði verið viti á Hlöðu, skeri í sunnanverðu mynni Breiðdalsvíkur. Hlöðuvitinn féll um koll í miklu óveðri og sjógangi í janúar 1984 og var núverandi Streitisviti byggður í staðinn það ár. Þarna er mikið brim, sérstaklega á veturna og í verstu veðrunum geta brimskvetturnar farið hærra en sjálfur vitinn.
Slóðina um Streitisvita og fleiri áhugaverðar leiðir má finna á Wapp appinu.