Valdís elti drauminn og flutti á Hornafjörð

Valdís Björg Friðriksdóttir er mikil ævintýra- og útivistarkona sem veit …
Valdís Björg Friðriksdóttir er mikil ævintýra- og útivistarkona sem veit fátt betra en að ferðast um íslenska náttúru. Samsett mynd

Valdís Björg Friðriksdóttir er mikill náttúru- og útivistarunnandi sem veit fátt skemmtilegra en að ferðast og elta uppi ævintýri. Valdís er 27 ára og hefur alla tíð verið mikið náttúrubarn og líður best úti í frísku lofti með tærnar í grasinu þar sem hún finnur orkuna frá náttúrunni. 

Valdís ólst upp á Ísafirði en flutti ásamt fjölskyldu sinni til Noregs þar sem þau bjuggu í tvö ár. Þegar Valdís var fimm ára gömul flutti fjölskyldan svo aftur til Íslands og kom sér fyrir í Mosfellsbæ þar sem Valdís bjó þar til hún flutti út árið 2019. 

Valdís ásamt fjölskyldu sinni á jökli.
Valdís ásamt fjölskyldu sinni á jökli.

„Árið 2019 langaði mig að prófa að vinna og búa út á landi og fékk vinnu á Hótel Smyrlabjörgum í Hornafirði. Þar leið mér svo vel að þegar ég útskrifaðist úr Ferðamálafræði við Háskóla Íslands árið 2020 flutti ég á Höfn í Hornafirði og hef búið þar síðan,“ segir Valdís. 

Árið 2021 fór Valdís í Fjallamennskunám FAS og starfaði sem snjósleðaleiðsögumaður á Vatnajökli. Í dag starfar hún hjá fyrirtækinu Glacier Adventure á Hala í suðursveit. „Ég með umsjón með markaðsmálum, samfélagsmiðlum og skrifstofu, fer á jökulinn að taka upp efni og að leiðsegja jöklaferðir af og til. Draumastarf ef þú spyrð mig. Svo kláraði ég nýverið Sahara Academy, skóla í stafrænni markaðssetningu, samhliða vinnunni,“ segir Valdís. 

Valdís starfaði sem snjósleðaleiðsögumaður á Vatnajökli samhliða náminu.
Valdís starfaði sem snjósleðaleiðsögumaður á Vatnajökli samhliða náminu.

Hefur þú alltaf haft áhuga á ferðalögum og útivist?

„Já ég hef verið mikið náttúrubarn frá því ég man eftir mér. Ég var í skátunum Mosverjum í æsku og fannst ekkert skemmtilegra. Ég myndi segja að áhuginn á því að ferðast hafi byrjað af alvöru árið 2016 þegar ég fór í fyrstu heimsreisuna. Ég hafði á undan því verið í fótbolta sem átti allan hug minn, en ég lenti í því að slíta krossband og gat því nýtt tímann og endurhæfinguna í að ferðast. Eftir tvö ár af endurhæfingu var ég enn þá slæm í hnénu og sá að framtíðin var kannski ekki fótbolti og það opnaði á þær dyr að fara í aðra reisu árið 2018. Síðan þá hef ég reynt að ferðast á nýja staði á hverju ári.

Foreldrar mínir hafa síðustu tíu ár ferðast mikið innanlands og mamma brallað ýmislegt eins og að ganga Hnúkinn, Eyjafjallajökul, klára Iron Man-þríþrautina, hlaupa Laugaveginn, stunda sjósund og ýmislegt sem hefur veitt mér mikinn innblástur.“

Móðir Valdísar hefur veitt henni mikinn innblástur, en hér eru …
Móðir Valdísar hefur veitt henni mikinn innblástur, en hér eru mæðgurnar alsælar eftir að hún hljóð Laugaveginn.

Hvernig útivist stundar þú?

„Gönguferðir – ég elska að fara í nokkurra daga gönguferðir með bakpoka og tjald, það er eitthvað svo heilandi við það. En uppáhaldið er að ganga við og á jöklum. Mér finnst mjög gaman að klifra, sérstaklega klettaklifur, og svo keypti ég mér kajak fyrir nokkrum árum sem ég er að vísu búin að selja núna, en það er svo fallegt að fara út á kajak hérna á Höfn.“

Það er í sérstöku uppáhaldi að ganga við og á …
Það er í sérstöku uppáhaldi að ganga við og á jöklum.

„Einu skiptin sem ég nenni út að hlaupa er fyrir utanvegahlaup og geri það af og til, en það er alltaf markmið hjá mér að vera duglegri við það. Ég elska að fara í sjósund og synda í vötnum. Langskemmtilegast finnst mér þó á snjóbretti. Ég fékk loksins „split board“ um jólin frá pabba, snjóbretti sem hægt er að nota sem gönguskíði á leið upp fjöll og svo bretta niður, það er nýjasta æðið hjá mér.

Annars finnst mér útivist bara snúast um að leyfa sér að njóta úti í náttúrunni, það þarf ekki að vera neitt markmið. Mér finnst voða gott til dæmis að fara bara út og slaka á í náttúrunni á meðan hundarnir hlaupa um. Á Höfn er svæðið við Bergárfoss í uppáhaldi hjá mér.“

Að mati Valdísar snýst útivist aðallega um að njóta úti …
Að mati Valdísar snýst útivist aðallega um að njóta úti í náttúrunni.

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?

„Erlendis er ég hrifnust af þar sem maður getur gefið sér tíma til að kynnast öðruvísi menningu og skoða fallega náttúru, ég dregst mjög að sjónum og fallegum ströndum. Innanlands er ég hrifnust af hálendinu, jöklum og umhverfinu í kringum þá.“

Valdís er hrifnust af ferðalögum á hálendinu og jöklum.
Valdís er hrifnust af ferðalögum á hálendinu og jöklum.

Uppáhaldsstaðir á Íslandi?

„Á persónulegri nótum þá segi ég Ísafjörður sem hefur alltaf verðið í uppáhaldi – kíkja í heimsókn til ömmu Valdísar og afa Gunnars og á æskuslóðir pabba. Svo er líka svo ofboðslega fallegt þar, algjört möst að skreppa og skoða Dynjanda í leiðinni sem er fallegasti foss landsins.“

Valdís og hundurinn Churro við Dynjanda.
Valdís og hundurinn Churro við Dynjanda.

„Ég fer reglulega í sumarbústaðinn hjá ömmu Systu og afa Auðunni í Grímsnesi þar sem við erum umkringd náttúru. Það eru ófár gönguferðir sem afi hefur farið með okkur barnabörnin í skóginn þar. Svo að lokum verð ég að segja Hornafjörður, hér er ég umkringd fallegri náttúru, jöklum, sjónum og frábæru fólki.“

Blíðviðrisdagur á Kerlingafjöllum árið 2023.
Blíðviðrisdagur á Kerlingafjöllum árið 2023.

Uppáhaldsgönguleið á Íslandi?

„Laugavegurinn er alltaf æði, maður upplifir svo rosalega fjölbreytta náttúru á leiðinni. Svo allar gönguleiðirnar í Hornafirði við alla skriðjöklana frá Vatnajökli, til dæmis Kristínartindar og Hrútfjallstindar.“

Á Hrútfjallstindum sem er ein af uppáhaldsgönguleiðum Valdísar.
Á Hrútfjallstindum sem er ein af uppáhaldsgönguleiðum Valdísar.

Eftirminnilegasta ferðalagið á Íslandi?

„Það held ég að sé fjögurra daga tjaldferð með skólanum upp á Öræfajökul í maí 2022. Við settum upp tjaldbúðir við Vestari Hnapp, bjuggum til klósett, eldhúsborð og skjólveggi með snjónum og eyddum svo dögunum í toppa tindana þar; Hvannadalshnúk, Dyrhamar, Sveinstind, Sveinsgnípu, Rótarfjallshnúk og Vestari Hnapp, og æfðum allskonar tækni eins og að koma okkur upp úr sprungum. Þetta var mögnuð upplifun.“

Hið fínasta eldhúsborð útbúið í snjónum!
Hið fínasta eldhúsborð útbúið í snjónum!

Áttu þér uppáhaldsstað til að klifra, ísklifra og skíða á?

„Það er alltaf gaman og góð stemming að klifra á Hnappavöllum í Öræfum. Uppáhaldsskíðasvæðið hérna á Íslandi er Oddsskarð fyrir austan.“

Klifur á Hnappavöllum í Öræfum er í uppáhaldi.
Klifur á Hnappavöllum í Öræfum er í uppáhaldi.

Hvaða staði á Íslandi myndir þú mæla með að fólk heimsæki í sumar?

„Allir á Hornafjörð! Það er svo mikið hægt að gera hérna og skoða. Skaftafell er æðislegur staður, þar eru allskonar gönguleiðir og Svartifoss, og sumir segja að þar sé alltaf gott veður.

Á Hornafirði er hægt að skoða Múlagljúfur, Diamond Beach, alla jöklana og jökullónin, Bergárfoss, Vestrahorn, Skútafoss, Lónsöræfi, þar eru margar fallegar gönguleiðir og lengi mætti telja. Svo er hægt að að fara í allskonar ferðir; zodiac á Fjallsárlóni og Jökulsárlóni, kajak, jöklagöngur, ísklifur, snjósleðaferðir, skoða lunda, canyoning og fleira. Það er líka nóg af gististöðum, tjaldsvæðum og veitingahúsum í sýslunni.“

Valdís mælir með því að allir heimsæki Hornafjörð í sumar!
Valdís mælir með því að allir heimsæki Hornafjörð í sumar!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert