Lærði flugmanninn og gerðist flugfreyja út frá lofthræðslu

Helga Rós Arnarsdóttir er mikil ævintýrakona sem ákvað að læra …
Helga Rós Arnarsdóttir er mikil ævintýrakona sem ákvað að læra flugmanninn og gerast flugfreyja út frá lofthræðslu. Samsett mynd

Helga Rós Arnarsdóttir er ævintýragjörn Hafnafjarðarmær sem ákvað að læra flugmanninn og gerast flugfreyja vegna lofthræðslu sem hún glímdi við. Hún lauk atvinnuflugmannsréttindum síðastliðið vor og starfar hjá Icelandair sem flugfreyja auk þess að vinna aukalega við rafvirkjun. 

„Ég er ekki lærður rafvirki en hef samt gaman af starfinu sjálfu og gæti alveg hugsað mér að taka sveinsprófið einn daginn. en svo er ég líka búin að skrá mig í annað nám í vetur og er að hugsa um að bæta einu við, en ég sé bara til hvað ég geri,“ segir hún. 

Flugævintýri Helgu hófst þegar hún byrjaði að læra einkaflug samhliða menntaskólanum og í dag er hún búin að fljúga mikið um norðurlöndin og í Ameríku auk þess að ferðast víða og fara í stopp í starfi sínu sem flugfreyja. 

Í dag starfar Helga sem flugfreyja hjá Icelandair.
Í dag starfar Helga sem flugfreyja hjá Icelandair.

Aðspurð segir Helga áhuga sinn á flugi í raun hafa kviknað þegar hún hóf námið. „Það var enginn í kringum mig sem starfaði við þetta eða neitt þannig heldur er ég svo lofthrædd að ég ákvað þetta út frá því frekar en áhuga. Svo var það bara þannig að þegar ég byrjaði þá gat ég ekki hætt því áhuginn helltist yfir mig,“ segir Helga. 

Hún segir upphafið að þessari vegferð í rauninni vera í fermingarfræðslu þegar presturinn sagði frá því að stundum þyrfti maður að gera hluti sem manni langar ekkert sérstaklega til að gera. „Séra Einar sagði frá því hvað honum fannst erfitt að kynna verkefni og tala fyrir framan hóp í skóla og að hann hafi virkilega þurft að takast á við þann ótta þegar hann hóf nám í guðfræði. Í dag vinnur hann svo við að tala fyrir framan hóp af fólki,“ segir Helga. 

„Þetta var svona gæsahúða-móment hjá 12 ára mér og ég beit þar með strax í mig að ég vildi starfa við minn helsta ótta. Ég var svo lofthrædd að ég gat ekki staðið úti á svölum eða farið yfir brú nema ég myndi loka augunum og leiða mömmu mína, og ég var alveg orðin vandræðalega fullorðin þegar ég komst yfir það,“ útskýrir hún. 

„Þannig ég ætlaði bara eins hátt og ég gæti og valdi flugið þá – og bara sem dæmi um þrjóskuna og hvað ég er ákveðin þá stóðst þetta allt og hér er ég í dag,“ bætir hún við. 

Helga ákvað að sigrast á ótta sínum.
Helga ákvað að sigrast á ótta sínum.

Vildi prófa fluglífstílinn í flugfreyjustarfinu

Þegar Helga lauk bóklega hluta flugnámsins ákvað hún að sækja um starf sem flugfreyja og hóf störf hjá Icelandair árið 2023. „Upphaflega ákvað ég að sækja um sem flugfreyja bara til að prófa lífsstílinn í kringum flugheiminn, en svo heyrði ég flugfreyjur líka tala um hvað það sé gott að vinna með flugmönnum sem hafa starfað sem flugfreyjur eða -þjónar áður. Þá varð þetta markmið, að geta starfað við eitthvað sem myndi hjálpa mér að verða betri í mínu draumastarfi,“ segir Helga. 

Eftir útskrift úr bóklega hluta flugnámsins sótti Helga um starf …
Eftir útskrift úr bóklega hluta flugnámsins sótti Helga um starf sem flugfreyja.

Hvað er það skemmtilegasta við flugfreyjustarfið?

„Fólkið! Klárlega fólkið – ef maður hefur ekki gaman af fólki þá er þetta ekki fyrir mann. Á hverjum degi í vinnunni kynnist ég nýju fólki, bæði samstarfsfélögum og farþegum. Það eru ómetanleg lífsgæði að mæta í vinnu þar sem allir elska starfið sitt og eru til í daginn, einnig er ég að gera þetta með tveimur af mínum bestu vinkonum og finn hvað það hjálpar mikið að þær skilji flugheiminn þar sem þetta er ekki fyrir hvern sem er. Svo er alveg ótrúlega gaman að deila þessari reynslu og áhuga með æskuvinkonum sínum. Eins hef ég unnið með fólkinu sem kenndi mér og eru búin að styðja við mig gegnum allt námið sem mér þykir ótrúlega vænt um, samfélagið í fluginu er engu líkt.“

Helga segir samstarfsfólk sitt og farþega vera það skemmtilegasta við …
Helga segir samstarfsfólk sitt og farþega vera það skemmtilegasta við vinnuna sína.

En mest krefjandi?

„Fyrir mig er mest krefjandi að stjórna svefninum. Mér finnst mjög gott að vakna snemma og byrja daginn af krafti en það er oft erfitt þegar við lendum klukkan sjö um morguninn og sofum frá klukkan átta til tvö á daginn. Þetta ruglar alveg í líkamanum og öllu kerfinu en maður þarf bara að vera skipulagður og agaður ef maður vill vera í rútínu.“

Rútínuleysi á svefninum getur verið krefjandi.
Rútínuleysi á svefninum getur verið krefjandi.

Áttu þér uppáhaldsstopp?

„Mitt uppáhaldsstopp er Minneapolis því þangað er oftast flogið á Boeing 757 sem er stærri vél og þægilegri að vinna á og svo er stoppið sjálft svo þægilegt. Hótelið er á háskólasvæði svo það er ekki mikið af fólki þar og rólegt hverfi, við fáum líka aðgang að ræktinni sem háskólinn á. Það er líkamsrækt á fimm hæðum og ég er þar alveg í tvo til þrjá tíma þar sem maður kemst að í allt og það er allt til alls þarna – klifursalur, sundlaug, hlaupabraut, körfuboltasalur og fimm til tíu eintök af öllum græjum. Svo er hægt að taka Uber í sundlaugagarð og vera þar í 25 gráðum og maður liggur undir flugumferð sem er að koma inn til lendingar, svo ég ligg bara að skoða flugvélar.

Uppáhaldsborgin er samt alltaf Chicago, hún kemur virkilega á óvart og miðað við stórborg er hún svo snyrtileg og hrein. Byggingarnar eru bæði svona amerísk gler háhýsi og svo falleg hús í evrópskum stíl. Eins er á sem liggur í gegnum borgina og ég á eftir að fara í siglingu þar en margar flugfreyjur hafa farið og segja að það sé æði.“

Uppáhaldsborg Helgu er Chicago í Bandaríkjunum.
Uppáhaldsborg Helgu er Chicago í Bandaríkjunum.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í stoppi?

„Ég fer alltaf í ræktina, finnst það algjört möst og líka gaman að koma í nýjar líkamsræktarstöðvar og prófa nýjar græjur. Einnig verð ég líka ómöguleg ef ég er föst í flugvél í fimm til sjö tíma og ekkert búin að hreyfa mig.

En svo er ég líka a „certified yapper“ og hringi vanalega tvo til þrjú símtöl í fólkið heima eða vini mína sem eru líka í stoppum erlendis. Þá fer ég oft út að ganga um borgirnar og sest niður á kaffihúsi eða í garði og reyni að nýta sólina. Svo er líka bara gaman að sitja í þessum borgum og fylgjast með fólkinu í kringum sig, tískan og menningin er svo allt öðruvísi en heima.“

Helga nýtur þess að prófa nýjar líkamsræktarstöðvar í stoppum sínum.
Helga nýtur þess að prófa nýjar líkamsræktarstöðvar í stoppum sínum.

Áttu þér uppáhaldsbúðir til að versla í stoppi?

„Amazon er mín uppáhaldsverslun þar sem þá fæ ég allt sent til mín og þá eru alltaf jól hjá mér uppi á hótelherbergi. En ég er ein af fáum flugfreyjum sem nennir ekki að versla í stoppum ég fer bara í nauðsynja verslunarferðir ef ég þarf að fara inn í búðir. Ég hef bara ekki þolinmæðina né orkuna í búðir og er búin á því eftir svona ferðir, ég hef oft verið plötuð í búðir í stoppum með vinkonum mínum og er alltaf jafn hissa hvað þær nenna að klappa flíkunum í þessum búðum lengi.

Ég vil frekar hvíla mig aðeins og geta mætt hress í flugið heim um kvöldið því ég virka ekki ef ég verð þreytt.“

Helga er lítið fyrir að versla í búðum og því …
Helga er lítið fyrir að versla í búðum og því er Amazon í miklu uppáhaldi.

Hvað er framundan hjá þér?

„Ég er að skoða flugkennaranámið auk áfanga sem tengjast mannlega þættinum við flug sem ég hef mikinn áhuga á. Eins datt mér í hug að skrá mig í Tækniskólann svo ég sé bara þegar nær dregur hvaða nám ég byrja í haust. Ég hef úr nægu að velja úr og vil helst gera þetta allt en það er víst ekki hægt.

Ég er líka að sækja um öll flugmanns störf þar sem ég uppfylli kröfurnar og það er útum allan heim og á allskonar flugvélum. Útsýnisflug á Íslandi, einkaþotur í Saudi, cargo flug í Uzbekistan og farþegaflug í Svíþjóð. Listinn er endalaus og ég er bara til í hvað sem er, fara bara og ná mér í reynslu og prófa nýja hluti. Þannig í rauninni veit ég ekkert hvað ég geri í haust en líklegast verður þetta smá púsluspil og þá er ég rosa heppin að geta alltaf mætt aukalega í rafvirkja starfið og leikið mér þar þess á milli sem ég sæki um erlendis.“

Það er margt spennandi framundan hjá Helgu!
Það er margt spennandi framundan hjá Helgu!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert