Tók u-beygju eftir 20 ár sem forritari og skráði sig í sálfræði

Sigurbirna Hafliðadóttir er meistaranemi í klínískri sálfræði við Háskólann í …
Sigurbirna Hafliðadóttir er meistaranemi í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík.

Nýverið var óskað eftir þátttakendum í rannsókn sem unnið er að um þessar mundir við Háskólann í Reykjavík þar sem áhrif hugrænnar atferlismeðferðar (HAM), sem veitt er í gegnum internetið, á kvíða, streitu og/eða þunglyndi eru könnuð hjá konum með frjósemisvanda.

Rannsóknin er hluti af meistaraverkefni Sigurbirnu Hafliðadóttur í klínískri sálfræði og er framkvæmd af henni undir handleiðslu Dr. Fjólu Daggar Helga­dótt­ur og Dr. Magnúsar Blöndahl Sig­hvats­sonar. 

Sér tækifæri í að samtvinna greinarnar

Sigurbirna er tölvunarfræðingur og meistaranemi í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík, en hún hafði starfað sem forritari í tæp 20 ár áður en hún tók u-beygju og skráði sig í sálfræði. „Margir eru hissa þegar ég segi að ég, forritarinn, sé að læra klíníska sálfræði og finnst fólki þessar greinar oft lítið eiga sameiginlegt á meðan ég sé bara tækifæri í því að samtvinna þessar tvær greinar,“ segir hún.

„Það er margt sem dró mig að klínískri sálfræði – mér finnst starfið gefandi, mig langaði að breyta til og vinna meira með fólki og ég hef mikinn áhuga andlegri heilsu. Einnig vegna tæknibakgrunns míns, en ég hef þá von að tæknilausnir geti mögulega aukið aðgengi og einfaldað fyrir marga að sækja sér aðstoð vegna sálræns vanda,“ segir Sigurbirna og ítrekar mikilvægi þess að öll ný meðferðarúrræði séu rannsökuð til að tryggja gagnsemi þeirra. 

Sigurbirna hefur sjálf ekki glímt við frjósemisvanda en hefur séð áhrifin sem slíkur vandi getur haft á fólk. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunninni má áætla að allt að einn af hverjum sex glími við frjósemisvanda einhvern tímann á lífsleiðinni, en ófrjósemi er skilgreind sem árangurslausar tilraunir til að geta barn eftir að hafa stundað óvarið kynlíf í a.m.k. tólf mánuði.

„Ég er, eins og mörg okkar, með einstaklinga í nærumhverfi mínu sem hafa glímt við frjósemisvanda og langaði þess vegna að framkvæma þessa rannsókn í von um að mögulega bæta við úrræðum fyrir þennan hóp,“ segir Sigurbirna. 

„Rannsóknir hafa sýnt að áhrif frjósemisvanda á líf einstaklinga geta verið víðtæk. Eins sýna rannsóknir að einstaklingar sem glíma við vandann sækja sér oft ekki sálræna aðstoð þrátt fyrir þessi víðtæku áhrif. Þess vegna tel ég að netmeðferð vegna frjósemisstreitu geti verið áhugaverður valmöguleiki til að auka aðgengi og úrræði fyrir þessa einstaklinga,“ bætir hún við, en þótt fjölbreytt úrval netmeðferða og forrita við frjósemisstreitu séu á markaðnum segir Sigurbirna skort vera á rannsóknum sem styðja árangur margra þeirra. 

Lítill hluti kvenna leita sér meðferðar

Aðspurð segir Sigurbirna að oft sé talað um frjósemisstreitu til að lýsa einkennum sem geta komið í kjölfarið á því að glíma við frjósemisvanda. Hún segir rannsóknir sýna að birtingamynd frjósemisstreitu geti meðal annars falið í sér einkenni eins og lágt sjálfsálit, kvíðaeinkenni, þunglyndiseinkenni, streitu, félagsleg einangrun og félagslega erfiðleika.

„Rannsóknir sýna að þunglyndis- og kvíðaeinkenni eru algengari hjá einstaklingum sem glíma við frjósemisvanda en meðal almennings. Þrátt þá vanlíðan sem frjósemisvandi getur valdið leitar aðeins lítill hluti kvenna eða u.þ.b. 8-21% meðferðar til að létta á sálrænum afleiðingum frjósemisvandans,“ útskýrir hún. 

Í rannsókninni er Overcome Fertility Stress (OFS) netmeðferðin notuð sem Fjóla hefur verið að hanna frá árinu 2013, en meðferðin er ætluð konum með frjósemisvandamál og byggir á meginreglum HAM. „Forritið hannar einstaklingsmiðaða meðferðaráætlun til að meta neikvæðar hugsanir, hegðun og tilfinningaleg viðbrögð þátttakenda út frá einkennum sem þeir upplifa vegna frjósemisvandans. Einstaklingar fara í gegnum meðferðina á sínum tíma í tölvu án beinnar aðkomu sálfræðings,“ útskýrir Sigurbirna. 

Hægt er að lesa nánar um rannsóknina og sækja um að taka þátt hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert