Hugsaði bara um rassinn á sjálfum sér áður en hann varð pabbi

Þorvaldur Davíð Kristjánsson hefur gefið út sína fyrstu bók.
Þorvaldur Davíð Kristjánsson hefur gefið út sína fyrstu bók. AFP

Leikarinn Þorvaldur Davíð segir tilgang lífsins loksins hafa skýrst um leið og hann varð faðir. Honum er mikið í mun að börn hans upplifi sig örugg í að tjá sig og hefur nú skrifað barnabók sem fjallar um fjölbreytt litróf tilfinningalífsins.

„Ég hef haft löngun til að segja sögur síðan man eftir mér,“ segir Þorvaldur og bætir við: „Hugmyndin að Sokkalöbbunum kom upp fyrir um fimm árum síðan, í leit að barnaefni handa dætrum mínum. Það gekk ekkert sérlega vel og áður en ég vissi af var ég sjálfur kominn með sokka á hendurnar og farinn að segja þeim sögur af tilfinningaríkum sokkum í Sokkalabbalandi. Á þeim tíma var alls ekki markmiðið að gefa út bók en svo var þetta bara orðið svo skemmtilegt að mér fannst ég þurfa að segja fleirum frá Sokkalöbbunum.“

Þorvaldur segist lesa töluvert með dætrum sínum og hefur meðal annars kynnt þær fyrir bókum Guðrúnar Helgadóttur.

„Sá minnsti á heimilinu er hrifnastur af myndabókum og er duglegur að fletta í gegnum Sokkalabbanna og Næturdýrin á kvöldin. Elsta dóttir mín hefur mikið gaman af Kidda Klaufa bókunum, sögunum hans Ævars Þórs og svo auðvitað Langelstur-bókunum hennar Bergrúnar Írisar,“ segir Þorvaldur en Bergrún er einmitt hinn helmingur Sokkalabbateymisins.

Bækur Bergrúnar hlaupa nú á tugum en Þorvaldur kemur nýr inn í bransann, lóðbeint í fjörugt jólabókaflóðið.

„Mér finnst allt við vinnslu og útgáfu bókarinnar mjög áhugavert. Það sem er skemmtilegast er þó að lesa fyrir krakka upp úr bókinni og svo er auðvitað ótrúlega gaman að hugsa til þess að það eru foreldrar og börn einhversstaðar að lesa bókina saman. Lesa eitthvað sem byrjaði bara sem lítil hugmynd heima í stofunni hjá okkur fjölskyldunni.“

Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Hrafntinna Viktoría Karlsdóttir.
Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Hrafntinna Viktoría Karlsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Með bullandi samviskubit gagnvart börnunum

Þorvaldur á þrjú börn ásamt eiginkonu sinnu, Hrafntinnu Viktoríu Karlsdóttur.

„Það sem kom mest á óvart var hvað tilgangur lífsins varð skýr þegar ég varð foreldri. Áður en ég varð pabbi þá snérist lífið að mestu leyti um rassinn á sjálfum mér. Það breyttist um leið og þessar elskur komu í heiminn. Það er líka stór áskorun að vera uppalandi og maður er oft með bullandi samviskubit gagnvart börnunum yfir því að vera ekki að gera þetta rétt, en svo fattar maður að flest allir foreldrar díla við þá tilfinningu. Það eru bara allir að reyna gera sitt besta og meira getur maður ekki gert. Ég treysti því bara að kærleikurinn og vitið sem við Hrafntinna mín höfum skili einhverju góðu til barnanna,“ segir Þorvaldur. 

Nýttu persónulega reynslu sína

Bók Þorvaldar og Bergrúnar, Sokkalabbarnir, fjallar um sokk sem týnist, en slíkt er hvimleitt vandamál á flestum heimilum.

„Sagan segir frá hvítum sokki sem fer í þvottavélina og snýst þar, hring eftir hring, þar til hann þýtur inn í dularfulla og litríka ævintýraveröld sem heitir Sokkalabbaland. Í því landi búa tilfinningaríkir sokkar í ýmsum litum. Hvíti sokkurinn hefur aldrei upplifað tilfinningar áður og finnst skrítið að vera þarna en með hjálpa hinna Sokkalabbanna þá tekst honum að komast yfir óttann við það að vera í nýrri veröld og kljást við allar þær tilfinningar sem því fylgja.“

Sjálfur segir Þorvaldur að hvorki hann, né Bergrún, hafi átt auðvelt með að tjá tilfinningar sínar sem börn. Persónuleg reynsla þeirra kom því að góðum notum við skrif bókarinnar.

„Þegar ég var lítill strákur þá þótti einfaldlega ekki kúl eða í boði að tala um sínar tilfinningar og það hefur satt best að segja aftrað mér í lífinu alla tíð. Það er þjálfunaratriði að tala um og reyna skilja tilfinningar sínar og það er mín skoðun að því fyrr sem þú byrjar á því því færri flækjum þarftu að leysa úr þegar þú verður eldri.“

Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Bergrún Íris Sævarsdóttir.
Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Bergrún Íris Sævarsdóttir.

Ekki Dr. Phil foreldri

Ævintýri eru að sögn Þorvaldar hjálplegt tæki til að opna á samtöl milli barna og foreldra eða forráðamanna.

„Það er von okkar Bergrúnar að bókin um Sokkalabbanna fái foreldra og börnin sjálf til að opna á samtalið um tilfinningar.“

Þorvaldur segir hjálplegt að skoða erfiðleika úr fjarlægð, með hjálp ævintýra.

„Tilfinningalegalegar flækjur verða oft skýrari þegar maður horfir á einhvern annan vera að kljást við þær. Við Bergrún reynum að hafa veröld Sokkalabbanna skýra og einfalda til þess að börnin haldi athyglinni. Sokkarnir sjálfir hafa til að mynda hver sinn lit og ráðandi tilfinningu. Sokkurinnn Sóli er til dæmis alltaf glaður á meðan Æsa er alltaf reið og svo framvegis. Með slíkri einfaldri uppsetningu á söguheiminum vonumst við til þess að börnin sjálf fái svigrúm í gegnum lesturinn til að skilja og tjá sig um hvað er að gerast í sögunni. Þannig geta Sokklabbarnir hjálpað börnum og foreldrum við að stíga fyrstu skrefin í að tala um og reyna skilja betur sínar eigin tilfinningar sem og tilfinningar annara.“

Sjálfur reynir Þorvaldur að skapa börnum sínum öruggt rými til að tjá sig.

„Ég er mjög virkur í því að spyrja út í þeirra eigin tilfinningar og hvernig þeim líður. Það geri ég í raun á hverjum degi en reyni þó að passa mig á því að vera ekki einhver óþolandi Dr. Phil foreldri. Með því að spjalla við börnin mín vil ég koma í veg fyrir að þau skammist sín fyrir tilfinningar sínar eða fari í felur með þær. Sjálfur hefði ég, sem barn, viljað vita að það væri í lagi að líða allskonar og í lagi að tala um hvernig mér leið. Þegar ég er í góðum tengslum við tilfinningar mínar þá er ég betur í stakk búinn að takast á við lífsins áskoranir og vera til staðar fyrir þá sem ég elska.“

Hér er Þorvaldur Davíð 6 ára gamall.
Hér er Þorvaldur Davíð 6 ára gamall.

Týndu sokkarnir rata á skjáinn

Fleiri bækur eru væntanlegar um Sokkalabbana en auk þess dreymir Þorvald um að sjá þessar litríku tilfinningaverur á skjánum.

„Við Bergrún fengum handritastyrk frá Kvikmyndasjóði Íslands og erum núna að vinna að sjónvarpsþáttum byggða á ævintýrum Sokkalabbanna. Vonandi verða þeir að veruleika eftir nokkur ár,“ segir Þorvaldur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert