5 uppeldisráð Steinunnar Jónsdóttur

Steinunn Jónsdóttir og Gnúsi Yones giftu sig síðastliðið sumar.
Steinunn Jónsdóttir og Gnúsi Yones giftu sig síðastliðið sumar. Samsett mynd

Steinunn Jónsdóttir, Reykjavíkurdóttir og Amabadama, starfar sem tónlistar- og fjölmiðlakona auk þess sem hún hefur verið að halda námskeið í textasmíði fyrir börn víðs vegar um landið og kenna texta- og lagasmíðar í Fellaskóla í Breiðholti. 

Hún varð móðir 23 ára þegar frumburður hennar og eiginmannsins Gnúsa Yones, hinn nú ellefa ára Jón Bragi, kom í heiminn. Rúmum átta árum síðar eignuðust þau svo hann Martein Nóa sem nú er að verða þriggja ára. 

Hér deil­ir hún fimm af sín­um bestu uppeldisráðum með les­end­um Fjöl­skyld­unn­ar á mbl.is.

Virðingarríkt tengslauppeldi

„Ég er mjög hrifin af því sem ég hef lesið mér til um virðingarríkt uppeldi, jafnvel þó mér hafi ekki tekist að fara alveg eftir fræðunum þegar kemur að því að ala upp mín eigin börn. Eitt af því sem hafði mikil áhrif á mig er þessi hugmynd um að börn eru alltaf góð og að þau vilji í grunninn standa sig vel.

Í virðingarríku uppeldi er lögð áhersla á að hegðun er tjáning og þegar að börn hegða sér á óæskilegan hátt er það yfirleitt vegna þess þau eiga erfitt með sig og vantar aðstoð eða hjálp frá okkur fullorðna fólkinu. Þá er sérstaklega mikilvægt að mæta þeim af virðingu og skilning. Sýna þeim að okkur þykir vænt um þau líka þegar þau eru ekki upp á sitt besta.

Ég hef reynt að hafa þetta sem leiðarljós bæði í samskiptum við syni mína en líka börnin sem ég hef fengið að kenna. Það er nefnilega þannig að þó að við höldum að það verði auðveldara og fljótlegra að ná stjórninni á erfiðum aðstæðum með því að öskra og skammast þá er það sjaldan þannig og ef við föllum í þá gryfju er mun líklegra að hegðunin sem við erum að reyna að stoppa endurtaki sig. Komum fram við börnin alveg eins og við myndum vilja að væri komið fram við okkur þegar við erum óörugg.“

„Höldum væntingum okkar til barnsins raunhæfum“

„Ef við viljum ekki að óvitinn okkar tússi á gluggakistuna eða nýmálaðan vegginn þá skulum við ekki skilja hann eftir einan í stofunni með tússlitina fyrir framan sig. Höldum væntingum okkar til barnsins raunhæfum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að lítið barn viti að það má bara lita á lítinn flöt sem kallast blað en alls ekki annars staðar.

Við megum ekki gleyma því að við berum alltaf ábyrgð á börnunum okkar. Einn daginn verður barnið komið með þroska til þess að geta verið eitt með tússlitunum, en þangað til eru það okkar mistök að hafa skilið litina og barnið eftir án eftirlits, ekki þeirra mistök að hafa litað þar sem má ekki lita. Þetta má svo yfirfæra yfir á alls konar aðstæður.“

„Spila með“

„Nú á ég strák sem er alveg að verða unglingur og því fylgir eins og hjá fleirum þessi eilífa barátta við skjáinn.

Ég heyrði það góða ráð að í stað þess að kvarta og kveina væri vænlegra fyrir foreldra að gefa sér tíma til þess að taka þátt í þessu áhugamáli. Spila með! Ég er reyndar sjálf ekki kannski alveg nógu dugleg við það en ég finn samt að þegar ég sýni því sem sonur minn er að gera í tölvunni eða símanum áhuga þá verður hann glaður og langar að sýna mér meir, þannig að ég er sannfærð um að þetta sé gott ráð; jafnvel þó ég mætti vera duglegri að fylgja því sjálf!“

Lestur er mikilvægur

Eitt af því sem ég þakka oft fyrir úr minni eigin æsku er að pabbi minn og mamma voru dugleg að lesa fyrir okkur systkinin og síðar hvetja okkur til þess að lesa sjálf þegar við höfðum færni til. Það varð til þess að ég gat aldrei farið að sofa án þess að lesa allavega einn kafla fyrir háttinn og gat setið tímunum saman á daginn yfir góðri bók (og get enn!).

Það er engin betri leið til þess að kynnast tungumálinu og virkja ímyndunaraflið en að lesa eða hlusta á góða sögu. Ég las og les með strákunum mínum eða leyfi þeim að hlusta á sögur á Spotify eða Storytel. Jón Bragi hefur alltaf skorað fáránlega hátt á öllum lesprófum og ég er viss um að það sé að miklu leyti vegna þessa.“

„Börnin læra það sem fyrir þeim er haft“

„Ég veit að þetta er kannski gömul tugga en ég ætla samt að nefna þetta: Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.

Ef við viljum að börnin leggi frá sér símann eða líti upp úr tölvuskjánum, þá verðum við að gera það líka. Ef þau sjá okkur velja það að lesa bók frekar en að skrolla, eða spila eða spjalla saman frekar en að horfa á mynd þá er mun líklegra að þau velji það líka. Það sama á við um að temja sér góðar matarvenjur, stunda hreyfingu og koma vel fram.

Kannski þessu tengt; vöndum hvernig við tölum um annað fólk, sérstaklega fyrir framan börnin okkar. Ef okkur finnst í lagi að gera grín að frambjóðendum, tala illa um áhrifavalda eða setja út á útlendinginn sem afgreiddi okkur á ensku en ekki íslensku hvað erum við þá að kenna börnunum okkar? Getum við sagt þeim að það sé bannað að uppnefna eða tala illa um aðra ef við hikum ekki við að gera það sjálf? Ég ætla að reyna að passa þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka