„Börnunum mínum leið greinilega aðeins of vel í bumbunni“

Hjónin Eyrún Rakel Agnarsdóttir og Elvar Páll Sigurðsson eiga tvö …
Hjónin Eyrún Rakel Agnarsdóttir og Elvar Páll Sigurðsson eiga tvö börn saman, þau Elís Arnar og Emmu Hjördísi.

Eyrún Rakel Agnarsdóttir skráði sig óvænt í grunnnám í talmeinafræði þegar hún og eiginmaður hennar, Elvar Páll Sigurðsson, fóru á fótboltastyrk til Bandaríkjanna til að stunda þar nám. Hún kláraði síðan meistaranám í talmeinafræði við Háskóla Íslands árið 2018 og starfar í dag sem talmeinafræðingur bæði í leik- og grunnskólum hjá Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ auk þess að halda úti fræðslusíðunni Töfratal á Instagram. 

Auk þess heldur Eyrún úti fræðslusíðunni Töfratal, en í ársbyrjun stofnaði hún fyrirtækið Töfratal ásamt tveimur öðrum talmeinafræðingum og í kjölfarið fræðslusíðu undir sama nafni. Þar deila þær allskyns fróðleik um málþroska og lestur, en með Töfratali vilja þær leggja sitt af mörkum til þess að fræða og aðstoða foreldra barna á öllum aldri. 

„Hugmyndin spratt út frá því að okkur fannst vanta fleiri aðgengileg verkfæri sem foreldrar geta nýtt sér. Í raun til þess að valdefla foreldra, þeir hafa mikið vægi þegar kemur að máltöku barna. Við höfðum undirbúið þetta lengi og settum í loftið Instagram síðu fyrr á þessu ári. Við ætlum svo að fylgja því eftir með heimasíðu og fleiri skemmtilegum verkefnum,“ segir Eyrún. 

„Frá því ég byrjaði að starfa sem talmeinafræðingur hefur mér …
„Frá því ég byrjaði að starfa sem talmeinafræðingur hefur mér alltaf fundist vanta meiri fræðslu og ráðleggingar fyrir foreldra um allt sem við kemur tali og málþroska barna.“

Kolféll fyrir Elvari á lokahófi í fótboltanum fyrir 14 árum

Eyrún og Elvar kynntust á lokahófi Knattspyrnusambands Íslands árið 2010 sem var sameiginlegt lokahóf fyrir öll lið eftir sumarið. „Ég sá sætan strák með ljósa lokka og kolféll fyrir honum, en við spiluðum bæði fótbolta á þessum tíma,“ segir Eyrún. 

Fyrir ári síðan gengu Eyrún og Elvar svo í hjónaband, en þau eiga saman tvö börn, þau Elís Arnar sem er sex ára og Emmu Hjördísi sem er þriggja ára. Eyrún segir foreldrahlutverkið hafa haft kennt henni mikið og leggur hún sérstaka áherslu á að örva málþroska og orðaforða barnanna sinna í uppeldinu.

Eyrún og Elvar héldu upp á eins árs brúðkaupsafmæli í …
Eyrún og Elvar héldu upp á eins árs brúðkaupsafmæli í júní síðastliðnum.

Að sögn Eyrúnar fylgdi því mikil gleði og þakklæti í bæði skiptin þegar hún komst að því að hún væri ófrísk. Þá segir hún meðgöngurnar hafa verið frekar svipaðar. „Ég var mjög heilsuhraust og mér leið vel mest allan tímann nema undir lokin þá var allt orðið erfiðara, kannski ekki nema von þar sem börnunum mínum leið greinilega aðeins of vel í bumbunni. Ég gekk ellefu daga fram yfir settan dag með strákinn minn og níu daga fram yfir með stelpuna mín og það er alltaf ákveðin áskorun bæði líkamlega og andlega,“ útskýrir hún.

„Það sem var frábrugðið á þessum tveimur meðgöngum var að við vissum kynið með strákinn okkar en vissum ekki kynið með stelpuna okkar. Maðurinn minn fékk að ráða í fyrra skiptið og vildi endilega vita kynið en svo með stelpuna mína þá fékk ég að ráða og vildi ekki vita kynið og mér fannst það miklu skemmtilegra,“ bætir hún við. 

Eyrún segir báðar meðgöngurnar hafa gengið vel.
Eyrún segir báðar meðgöngurnar hafa gengið vel.

Fyrir fyrri fæðinguna segist Eyrún hafa undirbúið sig vel andlega. „Ég fór í jóga hjá Auði í Jógasetrinu og var búin að æfa haföndun sem virkaði ótrúlega vel fyrir mig. Ég var að vonast eftir því að geta átt strákinn minn án inngrips, þó svo að ég vissi líka alveg að það gæti ýmislegt gerst og það geta komið upp aðstæður sem maður stjórnar ekki. Það gekk sem betur fer eftir og ég var ótrúlega þakklát fyrir það. Ég missti vatnið um miðja nótt og þá fór boltinn strax að rúlla og hann var fæddur um morguninn,“ rifjar hún upp. 

„Í seinni fæðingunni ákváðum við maðurinn minn að skoða það að fæða í Björkinni. Við fórum í viðtal hjá þeim og eftir það var ekki aftur snúið því okkur leið ótrúlega vel hjá þeim. Í þetta skiptið fékk ég að upplifa að „malla“ af stað . Ég byrjaði að finna fyrir verkjum í hádeginu og fór stuttu seinna til þeirra í Björkinni og stelpan mín kom í heiminn seinni partinn. Dásamleg fæðing og yndisleg upplifun hjá þeim. Maður heyrir oft sögur af erfiðum fæðingum svo það er líka mikilvægt að heyra þegar það gengur vel,“ bætir Eyrún við. 

Eyrúnu þykir mikilvægt að fólk heyri líka af jákvæðu fæðingarsögunum …
Eyrúnu þykir mikilvægt að fólk heyri líka af jákvæðu fæðingarsögunum þar sem hlutirnir gengu vel.

Eins og íslenska veðrið

Aðspurð segir Eyrún lífið hafa gjörbreyst eftir að hún varð móðir. „Nú snýst lífið um dásamlegu börnin mín sem halda mér heldur betur á tánum á hverjum einasta degi. Þau hafa kennt mér á lífið,“ segir hún. 

„Ég vissi ekki að það væri hægt að elska svona mikið en á sama tíma hefur reynt á alla mína þolinmæðisþræði. Núna, með einn sex ára og eina þriggja ára, er þetta í rauninni svona eins og veðrið á Íslandi. Eina stundina er sól og almenn gleði svo á augabragði erum við í miðjum stormi. Ég held að flestir foreldrar tengi við þetta en á sama tíma er þetta svo ótrúlega skemmtilegt og gefandi,“ útskýrir Eyrún. 

Eyrún segir móðurhlutverkið vera dásamlegt þó það geti reynt á …
Eyrún segir móðurhlutverkið vera dásamlegt þó það geti reynt á þolinmæðina.

Eyrún skráði sig í talmeinafræði árið 2011 þegar hún og eiginmaður hennar fóru saman til Bandaríkjanna þar sem þeim var báðum boðinn fótboltastyrkur til þess að geta stundað þar nám.

„Ég ætlaði upprunalega að fara í viðskiptafræði en sá svo að það var í boði að læra grunnnám í talmeinafræði. Ég hafði alltaf haft mikinn áhuga á að vinna með börnum svo ég fann strax að þetta var það sem ég vildi gera. Grunnnámið er ekki kennt hér á Íslandi eins og staðan er núna, en ég vona svo sannarlega að það breytist fljótlega. Áður en ég tók ákvörðun um að skrá mig í talmeinafræði sá ég að það var í boði að taka meistaranám í Háskóla Íslands og þá var þetta kjörið, klára grunnnámið úti og taka meistaranámið hér heima á Íslandi,“ segir hún. 

„Starfið mitt er mjög fjölbreytt og skemmtilegt. Margir halda að ég starfi við það að kenna /r/ og /s/ allan daginn en það er einungis lítill partur af mínu starfi. Ég vinn bæði í leik- og grunnskólum svo skjólstæðingahópurinn minn er á breiðu aldursbili. Ég sinni greiningum, bæði málþroska- og framburðargreiningum. Einnig sinni ég talþjálfun og svo er stór partur af mínu starfi að veita ráðleggingar bæði til foreldra og kennara,“ útskýrir Eyrún.

Eyrún skráði sig óvænt í talmeinafræði þegar þau Elvar fóru …
Eyrún skráði sig óvænt í talmeinafræði þegar þau Elvar fóru á fótboltastyrk til Bandaríkjanna í nám.

Hvernig geta foreldrar örvað málþroska barna?

„Hér gæti ég nefnt svo margt. Ég myndi segja að það allra mikilvægasta sé að gefa sér tíma til að spjalla við börnin sín helst einn á einn, þessi gagnvirku samskipti. Það er svo mikill hraði í samfélaginu að það er gott að minna sig á að gefa sér alltaf smá tíma á dag þar sem spjallað er um heima og geima.

Einnig að vera dugleg að fræða börnin um hitt og þetta. Sem dæmi þegar við förum í hjólatúr eða göngutúr að tala um það sem er í náttúrunni, „sjáið þið orminn ... hann er langur ... hann fer á stjá þegar það kemur rigning“ o.s.frv. Líka að lesa sögubækur. Þar finnum við orð sem við notum ekki í daglegu tali.

Og svo eitt annað sem kemur í hugann er að í staðinn fyrir að fara í yfirheyrsluleikinn eins og að spyrja of margra spurninga „hvað er þetta“ „hvernig er þetta á litinn“ „hvað segir kýrin“ o.s.frv. að segja frekar „þetta er kýr, hún er svört og hvít á litinn og segir „muuuuu“. Ástæðan fyrir því er að það verður náttúrulegra flæði þegar við breytum spurningum í staðhæfingar. Börn eru líklegri til þess að spjalla áfram við okkur þegar þau finna ekki þessa pressu um að þurfa að svara ákveðnum spurningum. Ég stend sjálfa mig oft að þessu enn þann dag í dag en það er gott að minna sig á þetta af og til.“

Eyrúnu þykir mikilvægast að gefa sér tíma til að spjalla …
Eyrúnu þykir mikilvægast að gefa sér tíma til að spjalla við börnin sín, helst einn á einn.

En orðaforða?

„Orðaforði er undirstaða alls náms. Allt nám í leik- og grunnskólum fer fram á íslensku svo það er gott að hafa það í huga. Foreldrar geta gert mjög mikið til þess að efla orðaforða, m.a. það sem ég hef nefnt hér að ofan, þetta tengist allt, orðaforði er hluti af málþroskanum.

Ein árangursríkasta leiðin til þess að auka orðaforða er í gegnum lestur sögubóka. Ég mæli með því að lesa a.m.k. einu sinni á dag. Það þarf ekki alltaf að lesa í langan tíma í senn. Verum óhrædd við að nota fjölbreytilegan orðaforða við börnin okkar. Notum samheiti yfir algeng orð. Sem dæmi sögnin „að labba“, hér getum við m.a. notað orð eins og að ganga, rölta, skunda o.s.frv.

Annað sem mér dettur í hug til þess að efla orðaforða er að setja orð á alla hluti/athafnir. Til dæmis í staðinn fyrir að segja við barn: „réttu mér þetta“ eða „farðu með þetta þangað“ þá gæti maður sagt „viltu rétta mér skeiðina“ og „viltu fara með bílinn inn í herbergið þitt“.

Einnig að bæta við orð/setningu hjá barni. Tökum dæmi: Ungt barn sem er ekki farið að tengja tvö orð saman. Barnið tekur upp bíl og segir „bíll“ þá gætum við bætt við það sem barn segir „þetta er bíll“ „bíllinn segir brum brum“ „bíllinn er stór“ o.s.frv. Svona gæti ég haldið endalaust áfram.“

View this post on Instagram

A post shared by TÖFRATAL ✨ (@tofratal)

Lesa með börnunum á hverju kvöldi

Eyrún segir foreldrahlutverkið hafa kennt sér mikið og hefur hún prófað ýmislegt í uppeldi barnanna sinna til þess að finna hvað hentar þeim best þegar kemur að því að örva málþroska og orðaforða.

„Börn eru misjöfn og það sem hentar vel fyrir strákinn minn þarf ekki endilega að vera eins fyrir stelpuna mína. En það sem við gerum alltaf með þeim báðum er að lesa á kvöldin, það hefur hentað okkar rútínu vel. Ég hef verið mjög meðvituð um hversu mikilvægt það er í hröðu samfélagi að gefa sér tíma, leggja frá sér símann og setjast inn í leik með þeim. Það skiptir máli að vera virkur þátttakandi í leiknum, því þar náum við að lýsa því sem þau eru að gera og/eða það sem ég er að gera ásamt því að eiga þessar gagnvirku samskipti/samræður sem skipta miklu máli,“ segir hún. 

Eyrún bendir á að börn séu misjöfn og því sé …
Eyrún bendir á að börn séu misjöfn og því sé ekki endilega eitthvað eitt sem henti öllum.

„Það sem ég hef reynt að gera í lok hvers dags þegar þau eru að fara sofa er að rifja upp allan daginn í smáatriðum. Þá byrja ég á að segja „þú vaknaðir í morgun og fórst á klósettið ... manstu þú varst alveg í spreng! ... svo fékkstu þér rúsínur og ég greiddi þér og þú vildi bara fá eina teygju í hárið ... “ o.s.frv. Þeim finnst svo gaman að heyra sögur af sér og spjalla um sjálfan sig, hvað þau voru að gera. Þegar við rifjum upp daginn koma oft upp mjög skemmtilegar samræður.

Það sem ég þurfti meira að huga að þegar stelpan mín fæddist var að hún er ekki eins karakter og strákurinn minn. Strákurinn minn hefur alltaf sótt mikið í samskipti, talar mjög mikið og spyr mikið af spurningum en stelpan mín er ekki eins. Ég þurfti því markvisst að gefa mig meira að henni og passa að hún fengi tíma bara við tvær og geri það enn. Ég hef séð betur og betur hvað það er mikilvægt að vera meðvitaður um þetta,“ útskýrir hún. 

„Það er yndislegt þegar börn eru dugleg í sjálfstæðum leik. Samt sem áður er gott að hafa í huga að þau börn sem sækja minna í samskipti og sækja meira í það að leika ein, þau þurfa líka þessa gæðastund. Þar setjumst við með þeim í leik og lýsum því hvað þau eru að gera og spjöllum saman. Ég er náttúrulega með málþroska á heilanum svo ég hugsa flestar samverustundir sem málörvunarstundir,“ bætir hún við. 

Feðgarnir í góðum gír.
Feðgarnir í góðum gír.

Hefur skjátími áhrif á málþroska eða orðaforða barna?

„Já skjátími getur haft áhrif á málþroska og orðaforða barna. Það fer eftir því hvað börn eru að horfa á og hversu mikinn tíma þau eyða fyrir framan skjáinn. Þegar íslensk börn, þar sem einungis er töluð íslenska inni á heimilinu, horfa á enskt sjónvarpsefni og læra orð/frasa á ensku en geta ekki nefnt það á íslensku, þá er það á kostnað íslenskunnar. Öll börn læra ensku á endanum, við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af því miðað við þróunina í okkar samfélagi. Við viljum styrkja íslenskuna og efla íslenskan málþroska þeirra vegna þess að allt nám í leik- og grunnskóla fer fram á íslensku.

Þegar börn vita ekki hvað er í boði á ensku þá þekkja þau ekkert annað en að horfa á íslenskt efni. Svo eru bara allir að gera sitt besta, en það er gott að hafa þetta í huga.“

Eyrún deilir ýmsum góðum ráðum með lesendum.
Eyrún deilir ýmsum góðum ráðum með lesendum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert