Stöðug leit og þróun

Ulrike Haage.
Ulrike Haage. Ljósmynd/Thomas Nitz

Þýska kvikmyndin Grüße aus Fukushima, eða Kveðja frá Fukushima, frá árinu 2016, er ein þeirra sem sýndar eru á Stockfish-kvikmyndahátíðinni sem nú stendur yfir í Bíó Paradís. Leikstjóri hennar er Doris Dörrie en höfundur tónlistar er landi hennar, tónskáld, píanóleikari og útvarpsleikskáld með meiru, Ulrike Haage. Haage mun sitja fyrir svörum að lokinni sýningu á myndinni í kvöld sem hefst kl. 18. Að því loknu heldur hún tónleika á skemmtistaðnum Græna herbergið við Lækjargötu en á þeim mun hún leika verk af sólóplötum sínum og úr kvikmyndinni.

Kveðja frá Fukushima er dramatísk kvikmynd með kómísku ívafi og segir af sambandi tveggja kvenna, hinnar ungu og þýsku Marie og hinnar japönsku og öldruðu Satomi sem var geisja á yngri árum. Marie heldur til Japans með það verkefni að skemmta, í gervi trúðs, öldruðu fólki sem missti heimili sín í Fukushima-héraði þegar öflugur jarðskjálfti reið þar yfir og flóðbylgja í kjölfarið, árið 2011, sem leiddi svo til kjarnorkuslyss. Satomi tekst að fá Marie til að fara með sér á bannsvæðið þar sem rústir heimilis hennar standa og milli kvennanna myndast náin vinátta.

Kynntust í Japan

Haage segir í samtali við blaðamann að hún sé mikill unnandi japanskrar menningar. Árið 2012 dvaldi hún í þrjá mánuði við listsköpun í Kyoto og segir hún Japan hafa haft mikil áhrif á sig. Þar kynntist hún leikstjóra kvikmyndarinnar, Dörrie, sem er, líkt og hún, mikill. aðdáandi japanskrar menningar. „Hún sótti tónleika sem ég hélt í Japan og spurði mig að þeim loknum hvort ég hefði áhuga á að semja tónlist við kvikmynd sem hún ætlaði að taka upp í Japan. Hún var að læra japanska skrautskrift og kennarinn hennar var mikill aðdáandi minn og lék tónlistina mína í tímum. Þannig að hún kynntist tónlistinni minni í Japan þó báðar séum við frá Þýskalandi,“ segir Haage kímin.

Spurð að því hvort hún hafi dregið einhvern lærdóm af hefðbundinni, japanskri tónlist segist Haage hafa gert það óbeint. „Ég sem ekki japanska tónlist en hún hefur haft áhrif á tónsmíðarnar mínar að því leyti að ég vil ekki hafa nóturnar of margar, ef þannig mætti komast að orði, og þá sérstaklega þegar kemur að tónlist við kvikmyndir. Að því leyti hef ég lært af japanskri tónlist.“

Haage segir kvikmyndatónlist verða að þjóna þeim myndum sem birtast á hvíta tjaldinu en hún geti líka styrkt þær, dregið þær betur fram. Þegar best heppnist til renni þessi tvö form saman, tónlist og kvikmynd, og bjóði upp á e.k. aukaupplifun fyrir áhorfandann. Haage segir samt sem áður mikilvægt að tónlistin beri ekki myndirnar ofurliði.

Vann út frá ljósmyndum

„Ég byrjaði að semja tónlistina út frá svarthvítum ljósmyndum sem teknar voru við tökur kvikmyndarinnar. Frá byrjun hafði ég ákveðnar hugmyndir um hvernig tónlistin ætti að vera, m.a. að hafa fá hljóðfæri,“ segir Haage. Píanó og selló séu áberandi hljóðfæri í tónlistinni sem sé fíngerð og ekki mjög drungaleg.

Haage segist á seinni stigum tónsmíðanna hafa séð fyrstu útgáfu af kvikmyndinni, fyrsta klipp, og verið mjög hrifin. „Hún [Dörrie] dregur upp mjög sannfærandi mynd af Þjóðverjum og Japönum, það er margt í myndinni mjög dæmigert fyrir hegðun Þjóðverja og annað dæmigert fyrir Japani,“ segir Haage og hlær. Hún segir Japani átta sig vel á því svarta spaugi sem sjá megi í myndinni og kannast við menningarlega árekstra kvennanna tveggja.

-Þetta hlýtur að vera viðkvæmt umfjöllunarefni í Japan, þessir hörmungaratburðir í Fukushima og afleiðingar þeirra?

„Já, það er vissulega viðkvæmt í Japan,“ svarar Haage og segir stjórnmálamenn enn deila um hvort framleiða eigi raforku með kjarnorkuverum í Japan. Eyðileggingin sem orðið hafi á náttúru Fukushima-héraðs sé skelfileg.

Ólst upp við djass

-Þú hefur komið víða við á listamannsferli þínum, byrjaðir í djassi og hefur verið í popphljómsveit, samið fyrir kvikmyndir og leikhús, gert útvarpsleikrit o.fl. Það virðist skipta þig miklu að sinna ólíkum verkefnum og flakka milli listgreina?

„Já. Í æsku hlustaði ég á hljómplötur foreldra minna sem voru allar djassplötur og þær höfðu mikil áhrif á mig. Það var leikinn djass alla daga heima hjá mér og mér þótti mjög áhugavert að hlusta á píanóleikara á borð við Bill Evans og Thelonius Monk,“ svarar Haage. Foreldrar hennar hafi verið miklir tónlistarunnendur og keypt píanó handa henni. Haage segir þetta djassuppeldi hafa orðið til þess að hún gerði miklar kröfur til sjálfrar sín og vildi þróa eigin stíl.

Haage hlaut Þýsku djassverðlaunin, Deutsche Jazzpreis, árið 2003 og er fyrsta og eina konan sem hefur hlotið þau en verðlaunahafar eru orðnir 12 að henni meðtalinni. „Ég er hissa á því að ég sé ennþá eina konan sem hefur hlotið þau. Þetta eru ansi karllæg verðlaun,“ segir Haage og hlær.

Varð mjög hissa

Við bökkum aftur um 13 ár, til ársins 1990 en þá gekk Haage til liðs við popphljómsveitina Rainbirds. „Ég varð mjög hissa og sló til af því að ég er mjög forvitin og opin fyrir öllu,“ rifjar Haage upp en hjómsveitin hafði samband við hana að fyrra bragði og bauð henni að ganga til liðs við hana. „Þetta tengdist auðvitað leit minni að eigin rödd og stíl,“ segir Haage um poppárin.

Og hvað uppeldið varðar segist hún líka hafa alist upp við að hlusta á útvarpsleikrit. Mikil og rík hefð sé fyrir útvarpsleikhúsi í Þýskalandi og hún hafi alla tíð haft mikinn áhuga á tungumálum, orðum og þeirra hljóðan. Þegar henni hafi verið boðið að taka þátt í viðamiklu útvarpsleikriti með leikurum og tónlistarmönnum hafi hún því ekki getað afþakkað.

„Ég sóttist ekki eftir þessum verkefnum, þau rak bara á fjörur mínar,“ segir Haage um þau fjölmörgu og ólíku verkefni sem hún hefur komið að. Hún segist hafa þörf fyrir nýjar áskoranir, að ögra sjálfri sér og því sé ferill hennar jafnfjölbreyttur og raun ber vitni og tónlist hennar í sífelldri þróun.

Lýst eftir Jóni

Talið berst að Íslandi og segist Haage lengi hafa haft áhuga á landinu eða allt frá því hún var táningur. Og nú hlær hún óvænt og segir blaðamanni skondna sögu, tengda Íslandi. „Þegar ég var 13 ára gerðist ég pennavinur einhvers Jóns á Íslandi – ég man ekki hvað hann hét fullu nafni – og sendi honum bréf en fékk aldrei bréf frá honum,“ segir Haage og skellihlær. Það hafi verið afskaplega svekkjandi fyrir táningsstúlkuna.

-Á ég að auglýsa eftir Jóni í þessu viðtali? Kannski lætur hann þá sjá sig á tónleikunum þínum í Reykjavík?

„Já, einmitt! Jón, viltu gjöra svo vel að mæta, ég sendi þér bréf fyrir mörgum árum og þú svaraðir mér aldrei!“ segir Haage ákveðin og hlær svo innilega. Hún er að lokum spurð að því hvort hún hafi aldrei komið til Íslands og svarar, alvarleg í bragði, að því miður sé það svo. „Mig hefur alltaf langað til Íslands og ég hlakka mikið til ferðarinnar,“ segir Haage og blaðamaður fullvissar hana um að hún þurfi ekki að skammast sín fyrir að hafa aldrei komið hingað áður.

Stilla úr kvikmyndinni Kveðja frá Fukushima.
Stilla úr kvikmyndinni Kveðja frá Fukushima.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þér hafi tekist að leggja fyrir að undanförnu ættirðu ekki láta ginnast af gylliboðum um skjótfenginn gróða. Frestaðu því ekki til morguns sem þú getur klárað í dag.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riely og Lucinda Riley
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þér hafi tekist að leggja fyrir að undanförnu ættirðu ekki láta ginnast af gylliboðum um skjótfenginn gróða. Frestaðu því ekki til morguns sem þú getur klárað í dag.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riely og Lucinda Riley
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg