„Þegar við vorum að ákveða hvaða lög við ættum að setja á Köntry skotnu plötuna okkar þá eiginlega gleymdum við PICKING FIGHTS AND PULLING GUNS. Það var þegar platan var meira og minna tilbúin að ég var eitthvað að fara í gegnum bunkann okkar af efni og fann þetta lag aftur sem við höfðum verið að vinna í fyrir rúmum tveimur árum og sendi það á Ágústu Evu í tölvupósti,“ segir Gunni Hilmarsson sem er í hljómsveitinni Sycamore Tree ásamt Ágústu Evu Erlendsdóttur og bætir við:
„Það eru óvenjuleg samskipti fyrir okkur tvö en á covid tímum þá hittist fólk sjaldnar og hún svaraði bara strax „Let´s do it.“ Lagið með þetta langa nafn er lokahnykkurinn á „Western Sessions“ plötunni sem kemur út á næstu dögum. Þetta er smá svona 60´s kúrekamynda stemnings lag þar sem auðvelt er að sjá fyrir sér senu með Clint Eastwood sem ríður á hesti sínum yfir heita sléttuna með sólina í andlitinu við undirleik tónlistar frá Ennio Morricone og það er stutt í næsta skotbardaga þar sem hetjan mun ein standa eftir.
Okkur finnst gaman að vinna með myndir, senur og með lögunum okkar að búa til stemningu þar sem hlustandinn getur nánast lokað augunum og verið komin eitthvað annað en þar sem hann er þá og þegar. Þetta lag fer vonandi með hlustandann þangað, beint aftur í tímann í villta vestrið,“ segir hann.
Lagið og textinn eftir mig en textinn er byggður á gömlum kúreka frösum og orðum sem voru notuð í villta vestrinu.
„Þetta er líka fyrsta lagið sem að við höfum karlmannsrödd með okkur sem tekur dúett með Ágústu Evu. Það er samstarfsmaður okkar til nokkurra ára, Arnar Guðjónsson sem hefur verið í hljómsveitum eins og Leaves og Warmland sem fer í hlutverk útlaga kúrekans í laginu og er þar á heimavelli ! Það drýpur af honum töffaraskapurinn og stutt í næsta skotbardaga hjá honum ! Hann útsetur að auki lagið. Það eru svo Amerískir kúrekar sem ríða inn í sólarlagið á meðan við flytjum lagið alla leið úr Hveragerði, hinu íslenska villta vestri.“
Hægt er að hlusta á lagið á YouTube en það kemur ekki fyrr en 20. nóvember í streymisveitur heimsins.