Hlaðvarpsstjórnandinn og tónlistarmaðurinn Snæbjörn Ragnarsson ætlar að stíga til hliðar sem stjórnandi hlaðvarpsins Besta platan sem framleidd er af hlaðvarpssamsteypunni Hljóðkirkjan. Í Bestu plötunni hafa Snæbjörn Ragnarsson og dr. Arnar Eggert Thoroddsen fjallað um bestu plötur hljómsveita og eru plöturnar orðnar alls 100 talsins. Baldur Ragnarsson, bróðir Snæbjörns, hefur stýrt umræðunum.
Þeir Arnar og Baldur standa þó ekki bara tveir eftir í hlaðvarpinu heldur bætist Haukur Viðar Alfreðsson við og mun fjalla um plötur ásamt Arnari Eggerti. Haukur er ekki ókunnur hlaðvarpsþáttum en hann er einnig í þáttunum Dómsdagur sem Hljóðkirkjan gefur út.
„Við tókum 100 plötur á jafn mörgum vikum og þegar nær því dró fann ég að þetta var orðið gott hjá mér, allavega í bili. Bæði er þetta mikil vinna og eins var plötuskápurinn aðeins farinn að tæmast. Ég ákvað því að gera gamlan brandara að alvöru og fjallaði um bestu plötuna í þætti númer 100, svona til þes að fara út með smá hvelli. Mér hefði samt ekki liðið vel með þetta ef þátturinn hefði ekki fengið framhaldslíf og það gerði ákvörðunina auðveldari að vita að Haukur Viðar myndi stökkva beint inn í minn stað. Ferskur heili með annan plötuskáp. Nú kem ég að þessu hinum megin frá og hlakka strax til að rífa kjaft og hafa skoðun í umræðunum,“ segir Snæbjörn í samtali við mbl.is.
„Fyrsta hugmyndin var bara að skrifa pistla um hljómplötur. Plötuna sem sjálfstætt verk og eina heild og útgangspunkturinn var að ég ætti hana á vínyl. Ég fann samt strax að þetta yrði frekar skammlíft og bragðdauft ef ég bara skrifaði út í loftið og til þess að búa til umræðuefni og samræður gaf ég mér að Vitalogy væri besta platan með Pearl Jam. Og þá urðu allir brjálaðir og samtalið var komið. Og nafnið auðvitað, Besta platan,“ segir Snæbjörn.
En pistlarnir lifðu stutt því í fyrstu vikunni kom upp sú hugmynd að gera hlaðvarp. Það var Arnar Eggert sem kveikti á perunni og ákváðu þeir að gera þættina með Baldri bróður Snæbjörns sem hafði fyrir það verið að framleiða Dómsdag.
„Platan er bara eitthvað svo fallegt form, og sérstaklega vínyllinn. Og auðvitað tónlist og allt sem henni viðkemur. Við erum með umræðuhóp á Facebook, Besta platan – Umræðuhópur, sem telur 2.000 manns og um leið og búið er að velta upp róttækum skoðunum á borð við það að Disintegration sé besta platan með The Cure verður allt brjálað og umræðurnar fara á fullt. Það hjálpar auðvitað að hafa mig svona kjaftgleiðan, og doktor í tónlistarfræðum á móti mér sem heldur þessu niðri. Þetta er ákveðinn galdur,“ segir Snæbjörn.
Snæbjörn segir mikinn tíma fara í verkefni af þessum toga og launin ekki sanngjörn. Hann sest þó alls ekki í helgan stein, enda í dagvinnu hjá auglýsingastofunni Pipar, á tvö börn, er í nokkrum hljómsveitum og rekur Hljóðkirkjuna ásamt Baldri. Snæbjörn er einnig með viðtalsþættina Snæbjörn talar við fólk sem notið hafa mikilla vinsælda.
„Tíminn sem losnar núna fer heldur ekkert til spillis, við erum á fullu að byggja upp Hljóðkirkjuna, endurskipuleggja og færa okkur upp á næsta level. Við erum akkúrat núna að leita okkur að stærra húsnæði, við þurfum meira pláss og stærri glugga. Þegar mest hefur látið höfum við verið með 8 þætti í gangi við nú viljum við geta verið með fleiri en einar tökur í gangi í einu, boðið fólki að koma til okkar í upptökur með sína eigin þætti og þar fram eftir götunum,“ segir Snæbjörn.