„Ég kom þarna inn með alvarlega félagsfælni“

Birkir Blær segist fyrst og fremst þakklátur fyrir að hafa …
Birkir Blær segist fyrst og fremst þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt. Skjáskot/Instagram

„Mér líður vel, alveg rosalega vel,“ segir söngvarinn og tónlistarmaðurinn Birkir Blær Óðinsson glaður í bragði þegar blaðamaður nær tali af honum eftir nokkrar tilraunir. Hann má líka vera glaður, enda vann hann sænsku Idol-söngvakeppnina í gærkvöldi eftir æsispennandi og glæsilega úrslitakeppni. Sýnt var frá keppninni á sænsku sjónvarpsstöðinni TV4.

„Hann segist þó ekki enn vera kominn niður á jörðina eftir sigurinn í gær. „Nei, ég veit ekki alveg hvenær það mun gerast. Ég er ennþá svolítið að melta þetta,“ segir hann hlæjandi.

Keppnin stóð yfir í tólf vikur og Birkir segir þetta hafa verið mjög skemmtilegan tíma þótt stress og álag hafi vissulega fylgt. En þátttakan hafi fyrst og fremst verið góður skóli.

„Ég hef lært svo mikið. Þetta er svolítið eins og stuttur skóli, maður lærir sjúklega mikið,“ segir Birkir. Þátttakan hafi breytt honum á jákvæðan hátt. „Ég kom þarna inn með alvarlega félagsfælni og þorði aldrei að fara í viðtöl eða neitt eða standa á sviði án þess að hafa gítar. Svo núna þegar ég hugsa til baka þá finnst mér mjög spes að það séu bara nokkrir mánuðir síðan.“

Hann segist þó aldrei finna fyrir sviðsskrekk svo lengi sem hann er með gítarinn við höndina. „Mér fannst aðallega erfitt að tala við fólk og vera í kringum fólk, það var vandamálið. Sem ég þurfti að gera á hverjum degi hérna.“

„Sturlað“ að fá að syngja í Avicii Arena

Hann segir sigurinn hafa mikla þýðingu fyrir sig en er fyrst og fremst þakklátur fyrir að hafa fengið að vera svona lengi með í keppninni. „Ég er líka þakklátur fyrir að hafa fengið að gera svona mikið af geggjuðum hlutum, eins og að syngja í Avicii Arena, sem er auðvitað sturlað, og hitta Ed Sheeran og alls konar sem hefði ekki gerst ef ég hefði ekki fengið að vera með. Þannig að ég er sjúklega þakklátur bara.“

Aðspurður hvort hann sé ekki núna orðinn vel þekkt andlit í Svíþjóð svarar hann hikandi. „Jú, allavega á hótelinu, ég hef ekki farið mikið út. En jú, það var orðið svolítið þannig áður en ég vann og ég giska á að það sé aðeins meira núna.“

Birkir er regulega stoppaður úti á götu og beðinn að árita myndir af sér. Hann hefur mjög gaman af því. „Mér finnst það mjög „næs“ en ég skil fólk sem finnst það ekki alveg jafn „næs“. Stundum er maður að drífa sig og verður of seinn,“ segir hann og hlær. „En mér finnst það hingað til bara geggjað,“ bætir hann við.

Kórónuveiran setur mögulega strik í reikninginn

Sigri í keppninni fylgir útgáfusamningur við Universal og peningaverðlaun, en Birkir er ekki alveg með á hreinu hvað samningurinn felur í sér. Hann segir að talað hafi verið um að fara í einhvers konar tónleikatúr um Svíþjóð til að þakka áhorfendum og þeim sem kusu hann. Fjölgun kórónuveirusmita í Svíþjóð og hertar sóttvarnaaðgerðir geti þó sett strik í reikninginn varðandi þau áform. Birkir segir það eiga eftir að koma betur í ljós.

Hann fagnaði sigrinum vel og lengi með fjölskyldu og vinum í gær og átti eiginlega að fá frí í dag, en það fylgir því aukaálag að vera Íslendingur sem sigrar í keppni í Svíþjóð. Hann þarf nefnilega að ræða við fjölmiðla í báðum löndum. Hann kippir sér þó lítið upp við það. „Þetta er bara skemmtilegt og svo er ég líka að flytja af hótelinu,“ segir Birkir en hann bjó á hóteli þær tólf vikur sem keppnin stóð yfir. Næstu dagar hjá Birki fara svo í viðtöl í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Varastu að gera nokkuð það sem getur valdið misskilningi um fyrirætlanir þínar. Aðeins vel upplýstur maður getur innt þau störf af hendi, sem þér eru falin.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riley
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Varastu að gera nokkuð það sem getur valdið misskilningi um fyrirætlanir þínar. Aðeins vel upplýstur maður getur innt þau störf af hendi, sem þér eru falin.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riley
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg