Gáfnaljósum á öllum aldri gefst nú kostur á að spreyta sig á vel völdum spurningum heiman úr stofu þegar fyrsti þáttur af Ertu viss? verður sýndur í beinni útsendingu í kvöld, fimmtudagskvöld. Þátturinn hefst á slaginu kl. 19.00 hér á mbl.is og er þátttaka ókeypis.
Um er að ræða nýjan skemmti- og spurningaþátt úr smiðju Árvakurs í framleiðslu Studio M sem systurnar og skemmtikraftarnir Eva Ruza og Tinna Miljevic stýra öll fimmtudagskvöld í vetur.
„Mér líður bara eins og ég sé að fara í ferðalag með Evu þannig ég er rosalega róleg,“ segir Tinna aðspurð um spennustigið. Tinna er heldur betur að stíga út fyrir sinn þægindaramma en þetta verður í fyrsta sinn sem hún verður fyrir framan sjónvarps- og myndavélar fyrir framan alþjóð.
„Ég er búin að vera að æfa mig mjög mikið og hef verið að spjalla svolítið við spegilinn undanfarið,“ segir Tinna og hlær. „Þegar ég stend við hliðina á Evu þá dett ég ósjálfrátt í gírinn með henni svo þetta getur ekki klikkað. Við nærumst á hvor annarri,“ segir Tinna með mikilli tilhlökkun fyrir kvöldinu.
Samstarfsaðilar þáttarins sjá til þess að sigurvegurum verða veittir veglegir vinningar, svo sem raftæki og gjafabréf, en tíu efstu þátttakendur fá vinning ásamt einum aðalvinningshafa kvöldsins.
Þátttaka er einföld en þátttakendur þurfa á skrá sig til leiks á vefslóðinni mbl.is/ertuviss og fylgjast með beinu streymi á þættinum þaðan eða á rás 9 hjá Sjónvarpi Símans. Fyrir bestu mögulegu upplifun er mælt með að þátttakendur horfi á útsendinguna í einu viðtæki en spili með í öðru.
Spilaðar verða fimm lotur í hverjum þætti þar sem hver lota inniheldur fimm spurningar sem háðar eru ákveðnu þema; menningu og listum, dægurmálum, tónlist, íþróttum eða fréttum líðandi stundar. Spilað er upp á hvaða þátttakandi er sneggstur að svara rétt.
Vertu viss um að vera viss og taktu þátt! Nánari upplýsingar má finna með því að smella hér.