Rikard Thorstensen var dreginn úr hópi fjölmargra þátttakenda sem spiluðu með í skemmti- og spurningaþættinum Ertu viss? í síðustu viku en veitt voru sérstök þátttökuverðlaun í lok þáttarins.
Hlaut Rikard stórglæsilegan vinning, Samsung Galaxy Book2 Pro 360 fartölvu frá Tæknivörum, og ljóst að tölvan á eftir að koma Rikardi og fjölskyldu að góðum notum.
„Ég hugsa að ég ætli að gefa konunni minni tölvuna,“ sagði hinn gjafmildi Rikard þegar hann kom og sótti vinninginn í höfuðstöðvar Morgunblaðsins í Hádegismóum fyrr í vikunni.
„Mig langar til að þakka ykkur fyrir að fara af stað með þennan leik. Þetta er leikur sem hefur sameinað alla fjölskylduna. Vanalega fara allir og loka að sér inni í herbergjum sínum eftir kvöldmat en síðustu fimmtudagskvöld höfum við setið og spilað leikinn saman,“ sagði Rikard glaður í bragði og lýsti ánægju sinni á þættinum.
Bein útsending á gangvirka skemmti- og spurningaþættinum Ertu viss? hefst stundvíslega kl. 19.00 hér á mbl.is og á rás 9 hjá sjónvarpi Símans. Ertu viss? er skemmtilegur spurningaþáttur í anda Kahoot og pöbbkviss. Hver sem er getur tekið þátt og spreytt sig á vel völdum spurningum heiman úr stofu og spilað með úr sínu snjalltæki.
Smelltu hér til að taka þátt og vertu viss um að spila með!
Systurnar Eva Ruza og Tinna Miljevic eru stjórnendur þáttarins og sjá til þess að bæði spenna og stemning verði við völd í kvöld.