Hann er ekki fíkill þó svo hann hafi fiktað við fíkniefni í nokkur ár en hann er útskúfaður af öðrum hópum en þeim sem eru í fíkniefnum og jafnvel glæpum. Þeirra sem geta notfært sér hann. Erfiðleikar hans ná allt aftur til þriggja eða fjögurra ára aldurs.
Hann er ekki fíkill þó svo hann hafi fiktað við fíkniefni í nokkur ár en hann er útskúfaður af öðrum hópum en þeim sem eru í fíkniefnum og jafnvel glæpum. Þeirra sem geta notfært sér hann. Erfiðleikar hans ná allt aftur til þriggja eða fjögurra ára aldurs.
Hann er ekki fíkill þó svo hann hafi fiktað við fíkniefni í nokkur ár en hann er útskúfaður af öðrum hópum en þeim sem eru í fíkniefnum og jafnvel glæpum. Þeirra sem geta notfært sér hann. Erfiðleikar hans ná allt aftur til þriggja eða fjögurra ára aldurs.
Hann er 17 ára gamall og greindur með ódæmigerða einhverfu, mótþróaröskun, blandaðar sértækar þroskaraskanir, ADHD og almenna kvíðaröskun.
Snemma í barnæsku var hann farinn að sýna erfiða hegðun, skapofsa, átti erfitt með fínhreyfingar, skilning, takmörk og tjáningu. Samt var hann glaðlyndur, opinn og félagslyndur. Hann sótti í félagsskap annarra barna en kunni ekki mörkin. Hann gerði allt til þess að fá athygli frá fullorðnum og börnum og hikaði ekki við að beita ofbeldi ef svo bar undir.
Hann tók dót af öðrum börnum án þess að skilja að eitthvað væri athugavert við það. Kunni ekki að taka tillit og var mjög klunnalegur og klaufskur bæði í líkamstjáningu og í tali. En hann talaði mikið, líka yfir aðra. Hafði hátt og var með læti og látalæti, segir móðir hans.
Hann átti það mikið til að eigna sér nýja bestu vini og án þess að hitt barnið sýndi honum neinn áhuga þá var hann búinn að ákveða að viðkomandi væri besti vinur hans. „Það kom ýmislegt upp á og við vorum oft mjög óvinsæl,“ segir hún.
Hún lýsir því þegar hann eignaðist tvo hamstra þegar hann er sex eða sjö ára: „Hann átti tvo litla hamstra í búri á þessum tíma. Einu sinni á dag tókum við þá úr búrinu og hann fékk að halda á þeim og strjúka í stutta stund á meðan ég var hjá honum. Oftar en einu sinni kreisti hann þá allt of fast. Svo gerðist það að hann, allt í einu upp úr þurru, grýtir öðrum hamstrinum í vegg. Ég þurfti að útskýra fyrir honum að þetta mætti alls ekki og að hamsturinn hefði getað dáið. Hann var ekki að skilja það, fannst þetta bara frekar fyndið. Þá fengu hamstrarnir nýtt heimili,“ segir móðir hans.
Um 9-10 ára aldur kemur í ljós að hann er með alvarlega málþroskaröskun og lesblindur og erfiðleikar í námi og útskúfun félagslega leiða til þess að hann leitar til annarra sem eru að reykja og skrópa. Honum finnst það kúl. Hann er ekki lengur glaður og bjartur heldur er með stæla og vill vera töffari. Með þvi að kveikja í, skrópa, reykja og fer að sýna ofbeldishegðun og skapofsa. Hann spáir mikið í því hverju hann klæðist. Hann kaupir sér vini. Þá með því að gefa öðrum eitthvað sem hann á eða að gera hvað sem er ef hann er beðinn um það, segir hún.
„Það eru ófá hjólin, símar, tölvuleikir, föt og peningar sem hafa horfið af heimilinu svo að … geti fært nýja besta vini sínum gjafir sem svo lætur sig hverfa stuttu seinna. Eða hann gleymt því einhvers staðar eða óvart skemmt það,“ bætir hún við.
Fjórtán ára fer hann að strjúka að heiman á sama tíma og hann fer að neyta kannabis. Í fyrsta skiptið fannst hann eftir tvo sólarhringa. Úti í nístandi frosti á þunnum jakka og sokkalaus. Um svipað leyti veikist móðir hans enda álagið gríðarlegt. Hún verður ekki lengur fær um að vera úti á vinnumarkaði þar sem öll hennar orka fer í að sinna drengnum og leita eftir aðstoð fyrir fjölskylduna. Því hvert barn sem glímir við alvarlegan vanda á fjölskyldu á bak við sig. Þessi drengur á ekki bara móður heldur einnig lítið systkini sem hefur þurft að taka af heimilinu þegar skapofsaköstin eru verst.
Þessi drengur er einn þeirra fjölmörgu sem Guðmundur Fylkisson, aðalvarðstjóri í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefur leitað að en í þrjú ár hefur hann stýrt leit að týndum börnum á höfuðborgarsvæðinu.
Oft koma beiðnirnar frá barnavernd á landsbyggðinni og Guðmundur segir að þrátt fyrir að hann starfi fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu þá reyni hann að aðstoða fólk alls staðar af landinu.
Börnin eru niður í ellefu ára gömul sem er leitað að en þau elstu eru að verða átján ára gömul. Vaktinni lýkur ekki þar því Guðmundur fylgist með þunguðum konum sem óttast er að fari í neyslu þannig að sum börnin sem hann hefur leitað að eru enn í móðurkviði. „Yngsta barnið sem ég hef leitað að var 28 vikna fóstur. 18 ára falla þau ekki lengur undir skilgreininguna á barni en ég fylgist nú oft lengur með þeim ef þau tengjast inn í hópa þar sem börn eru sem ég er að leita að,“ segir Guðmundur.
Guðmundur kýs að nefna verkefnið götubörnin. „Sumir eru ósáttir við að ég noti nafnið götubörnin og sjá fyrir sér götubörn í Brasilíu en það sem ég hef bent á er að þau börn sem eru á þessum stað hér á landi eru ekki heima hjá sér og ekki í skólanum. Jú þau eru einhvers staðar úti á götu. Þar eru þau með öðrum krökkum – á götunni þrátt fyrir að búa ekki þar. Á þessum aldri eiga þau að vera heima hjá sér og í skóla en þau eru það ekki.“
Þau börn sem er leitað að eru ekki endilega í fíkniefnum heldur getur alveg legið önnur ástæða á bak við að börn strjúka.
Hann segir að hægt sé að skipta börnunum í fjóra hópa: börn sem eru í neyslu, börn sem glíma við andleg veikindi, óþekku krakkarnir – það eru sjálfstæðu krakkarnir sem oft eru á undan jafnöldrum sínum í þroska – eru ekki komin í neyslu en hættan svo sannarlega fyrir hendi. Því þau tengjast oft eldri krökkum. Síðan er það fjórði hópurinn – börn sem eru að flýja heimilisaðstæður.
Yngstu börnin eru að sögn Guðmundar yfirleitt ekki í neyslu en eru oft með fleiri en eina greiningu á bakinu; börn sem passa ekki í kassann sem þeim er ætlað að falla inn í og í raun ekki í neitt eitt box.
„Þetta þýðir að þau fá ekki þann stuðning sem þau þurfa á að halda. Hér áður var þessi hópur tekinn út úr aðstæðum og boðið upp á allt annað umhverfi en það hefur breyst. Eftir því sem greiningum fjölgar og vandinn eykst þá hef ég á tilfinningunni að það sé erfiðara að fá hjálp,“ segir Guðmundur.
Beiðni um að leita að barni kemur frá barnvernd, ekki foreldrum eða öðrum ættingjum. Hann segir það gert til þess að tryggja að barnavernd sé inni í máli barnsins allt frá upphafi.
Það er því að miklu leyti í höndum starfsmannsins hjá barnavernd hvert framhaldið er hjá barninu. Stundum þekkir starfsmaðurinn viðkomandi barn og sögu þess en ekki alltaf. Hjá barnavernd Reykjavíkur er sólarhringsvakt en Mosfellsbær, Seltjarnarnes, Garðabær, Hafnarfjörður og Kópavogur skipta með sér bakvaktinni. Þannig að það getur verið að starfsmaðurinn sem er á bakvaktinni í þetta skiptið sé í Hafnarfirði en barnið úr Garðabæ.
Á Suðurnesjum fer þetta aftur beint til lögreglu. Götubörn af Suðurnesjum koma stundum til kasta Guðmundar sem og börn annars staðar af landinu. Enda mörg þeirra sem leita á höfuðborgarsvæðið. Verkefnið er samt sem áður innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og það var Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, sem hafði frumkvæðið að verkefninu. Fyrsta árið naut það stuðnings frá ríkinu en ekki lengur þrátt fyrir að börnin komi alls staðar að.
Flestir hafa orðið varir við auglýsingar eftir börnum í fjölmiðlum en þegar Guðmundur tók yfir þennan málaflokk var ákveðið að draga úr þessum myndbirtingum og auglýsingum og nota það úrræði ekki fyrr en allt annað var fullreynt.
Börnin voru ekki öll sátt við að vera ekki fjölmiðlamatur í fyrstu því það þótti flott að vera eftirlýstur af lögreglu. „En í dag eru þau ákaflega fegin enda fylgir þetta þér það sem eftir er ævinnar. Því netið gleymir engu,“ segir Guðmundur.
Hann segir að oft séu það strákar á aldrinum 18-23 ára sem eru að hýsa krakka sem er leitað að. „Þeir koma margir úr sama umhverfi og þessir krakkar sem við erum að leita að. Ungir menn sem eru staðnaðir þar sem þeir fóru ungir í neyslu og dugði sú aðstoð sem þeir fengu ekki til,“ segir Guðmundur.
Að sögn Guðmundar hafa nýverið fallið þrír dómar á þessa ungu menn, annars vegar fyrir kynferðisbrot gagnvart stúlku yngri en fimmtán ára og hins vegar fyrir að svipta foreldra forræði, barnsrán í raun og veru (193. gr. hegningarlaga: Hver, sem sviptir foreldra eða aðra rétta aðilja valdi eða umsjá yfir barni, sem ósjálfráða er fyrir æsku sakir, eða stuðlar að því, að það komi sér undan slíku valdi eða umsjá, skal sæta sektum … 1) eða fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt.).
Fleiri dómar eru á leiðinni á þennan hóp sem ekki er langt síðan var á barnsaldri. Guðmundur segir að hann reyni að ræða við þessa ungu menn og koma þeim í skilning um að ef stúlka, undir lögaldri, sem er leitað að, finnst hjá þeim þá geti það haft afleiðingar fyrir þá.
Að sögn Guðmundar eru mismunandi úrræði hjá sveitarfélögunum og á höfuðborgarsvæðinu eru öll stóru sveitarfélögin með úrræði fyrir börn. En svo eru önnur sveitarfélög sem eru ekki með nein úrræði fyrir börn sem hafa strokið að heiman – götubörnin.
„Einu sinni varð ég að sleppa barni, með samþykki barnaverndar og foreldris, og það var skrýtið skref. En þetta var barn sem vildi ekki fara heim og foreldrar vildu ekki barnið heim. Það var fullt á Stuðlum og það eina sem var í boði var að vista barnið í fangaklefa þar sem sveitarfélagið hafði ekki yfir neinum skammtímaúrræðum að ráða líkt og eru hér á höfuðborgarsvæðinu.“
Vitað var að barnið myndi ganga út ef það yrði farið með það heim og foreldrið gerði sér alveg grein fyrir því að ekki þýddi að beita valdi til að halda barninu heima. Eftir einhvern tíma hafði viðkomandi ungmenni samband við Guðmund og óskaði eftir aðstoð. Málalyktir urðu þær að viðkomandi fór heim aftur og voru bæði foreldri og barnið mjög sátt við þá niðurstöðu.
Guðmundur segir að hann fari ekki heim með börn sem ekki vilja fara heim. Því ekki megi gleyma því að sum þeirra eru að flýja heimilisaðstæður. „Barn sem er að flýja ástand á heimili á ekki að eiga það yfir höfði sér að vera neytt af lögreglu inn í aðstæðurnar sem það er að flýja,“ segir Guðmundur.
Hluti þeirra sem Guðmundur finnur eftir strok fer á Stuðla sem eru reknir af Barnaverndarstofu.
Halldór Hauksson, sviðsstjóri meðferðar- og fóstursviðs Barnaverndarstofu, segir að yfirleitt sé það þannig að þeir sem vistaðir eru á lokaðri deild á Stuðlum eru þar vegna alvarlegrar vímuefnaneyslu, afbrotahegðunar eða langvarandi útigangs.
„Vistunartíminn er að hámarki 14 dagar (en að jafnaði um 4-5 dagar) meðan jafnvægi er komið á eða barnaverndarnefnd undirbýr frekari úrræði sem getur verið vistun á meðferðardeild sem er 8-10 vikur að jafnaði. Sum þeirra barna sem ljúka vistun á meðferðardeild Stuðla fara til áframhaldandi meðferðar á meðferðarheimilum eins og Lækjarbakka eða Laugalandi.
Í einhverjum tilvikum hefur þurft að vista börn á lokaðri deild sem glíma við vægari vanda og væri ugglaust betur borgið í vægara úrræði en almennt gæta barnaverndarnefndir vel að því að neyðarvista aðeins á lokaðri deild ef brýn nauðsyn krefur. Megináherslan sé lögð á að aðstoða foreldra við að taka við barninu heim,“ segir Halldór.
Síðan Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna varð að lögum hér á landi árið 2013 er óheimilt að vista unglinga í fangelsum með fullorðnum. Þannig hafa Stuðlar sinnt þeim einstaklingum yngri en 18 ára sem úrskurðaðir eru til vistunar á viðeigandi stofnun (sem er ígildi gæsluvarðhalds sem fram fer í fangelsi).
Þetta er gert í sérstökum og rúmgóðum hluta lokaðrar deildar, þar sem er svefnherbergi, dagstofa, gangur og önnur aðstaða. Slíkir úrskurðir hafa verið mjög fáir á þessu tímabili eða einungis þrír.
Í tveimur þessara tilvika var ákveðinn hluti úrskurðarins um vistun á viðeigandi stofnun með ákvæðum um takmarkað samneyti við umheiminn sem er í raun ígildi einangrunar vegna rannsóknarhagsmuna.
Þar mat dómari það svo að það þjónaði hagsmunum unglings betur að vistast á lokaðri deild Stuðla en í gæsuvarðhaldi í einangrun sem fram fer í fangelsi þótt ekkert í lögum banni slíkt enda þá ekki um samneyti við fullorðna fanga að ræða, segir Halldór.
Sama gildir um afplánun óskilorðsbundinna fangelsisdóma. Fyrir lögfestingu Barnasáttmálans var í gildi samningur milli Barnaverndarstofu og Fangelsinsmálastofnunar um að einstaklingar yngri en 18 ára mættu velja hvort þeir afplána fangelsisdóma á meðferðarheimili eða í fangelsi.
„Eftir lögfestingu barnasáttmálans er hins vegar óheimilit að börn séu í fangelsi með fullorðnum en íslensk stjórnvöld hafi tekið þá metnaðarfullu ákvörðun að reisa ekki sérstök unglingafangelsi heldur skyldu þessir unglingar afpláni dóma á meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu. Einungis einn slíkur dómur hefur fallið á undanförum 5 árum og var til 6 vikna. Öll meðferðarheimili Barnaverndarstofu hafa komið jafnt til greina við slíka afplánun í meðferð, allt eftir því hvað hentar þörfum og vanda viðkomandi barns best hverju sinni. Á því varð engin breyting við lögfestingu barnasáttmálans,“ segir Halldór.
Meðferðarheimilinu Háholti í Skagafirði var lokað um mitt ár en að sögn Halldórs sögðu rekstraraðilar upp samningnum við Barnaverndarstofu frá og með 1. júlí sl. en Barnaverndarstofa greiðir húsaleigu til sveitarfélagsins Skagafjarðar til áramóta. Hún er aðeins brot af því sem fór í reksturinn.
Halldór segir að nýtingin á Háholti hafi verið ófullnægjandi síðustu fimm árin. Eins og fram hefur komið í áherslum Barnaverndarstofu, velferðarráðuneytis og í skýrslum Ríkisendurskoðunar þarf stöðugt að huga að faglegum og fjárhagslegum sjónarmiðum þegar ákvarðanir eru teknar um rekstur meðferðarheimila fyrir börn og unglinga.
„Við höfum verið að undirbúa nýtt meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu með Framkvæmdasýslu ríkisins en enn er því miður óljóst hvar það verður nákvæmlega reist og hvenær það tekur til starfa. Sumarið 2015 kom niðurstaða frá velferðarráðuneytinu um að Barnaverndarstofa mætti hefja vinnu við að koma slíku úrræði upp. Það var ekki fyrr en í apríl 2016 sem loksins lá fyrir öll forvinna eins og þarfagreining og húsrýmisáætlun og niðurstaða Framkvæmdasýslunar var að óraunhæft væri að finna leiguhúsnæði sem hentaði slíkri starfsemi. Það var engu að síður látið reyna á að finna leiguhúsnæði en þau tilboð sem bárust voru langt frá því að uppfylla þarfir um húsrými eða staðsetningu.
Við teljum mikilvægt að úrræðið verði á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að um 85% barna á Íslandi búa á höfuðborgarsvæðinu og í stuttri akstursleið frá. Einnig auðveldar slík staðsetning aðkomu annara sérfræðinga, betra aðgengi að fagmenntu starfsfólki auk nálægðar við Stuðla. Á nýja meðferðarheimilinu verða væntanlega rými fyrir sex unglinga í vistun sem verður 6-9 mánuðir en á hverjum tíma verður fleiri fjölskyldum sinnt í eftirmeðferð í 4-5 mánuði eftir að vistun lýkur. Heimilið verður að hluta mjög öruggt og tilbúið að gæta barna sem þess þurfa tímabundið en að öðru leyti mjög opið út í nærumhverfið, til að meðhöndla áhættuþætti og bakslög jafnóðum og tryggja aðlögun að fjölskyldu, skóla, vinnu og tómstundum í því umhverfi sem barnið mun snúa aftur í og búa í að lokinni vistun.
Boðið verður upp á áframhaldandi meðferð og mikinn stuðning eftir að vistun lýkur. Það gleymist stundum að meðferð gengur ekki út á inn- og útskrift af stofnun heldur þarf að aðlaga börn og auka hæfni þeirra í sínu heimaumhverfi. Það gerum við með takmörkuðum hætti ef við förum með þau langt í burtu frá sínum heimahögum þó að fyrir ákveðin börn geti verið mikilvægt að stunda hægari aðlögun að nærumhverfinu.
Því miður gengur allt of hægt að hefja framkvæmdir og fá vilyrði um hentuga lóð fyrir hið nýja meðferðarheimili sem þarf að vera í jaðri byggðar en í námunda og góðum tengslum við grunn- og framhaldsskóla og aðra þjónustu.
Síðastliðið vor var nauðsyn þessarar starfsemi ítrekuð með samþykki Alþingis á framkvæmdaáætlun í barnavernd þar sem fram kemur að hefja beri annan áfanga við byggingu nýs meðferðarheimilis á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. hönnun og byggingu og að hún skuli vera langt komin næsta vor. Hvort það næst veit ég ekki en ég er enn bjartsýnn,“ segir Halldór.
Guðmundur segir mjög bagalegt að hér á landi sé ekki starfrækt úrræði sem uppfyllir barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um fangelsi fyrir börn.
„Háholt var notað sem strákaúrræði. Sveitabær rétt innan við Varmahlíð og þangað fóru strákar sem áttu í miklum erfiðleikum. Þarna voru strákar sem voru erfiðir en það tókst að koma þeim í vinnu og nám. Fengu það aðhald sem þeir þurftu á að halda. Bara það að fara að sofa á kvöldin og vakna á morgnana. Að sitja við matarborð með öðrum og þrífa sig og klæða. Stundum þarf einfaldlega að ná þeim út úr þeim aðstæðum sem þeir sitja fastir. Í dag er ekkert úrræði í boði fyrir þá,“ segir Guðmundur.
Hann er í miklum samskiptum við ungmenni og miklu fleiri en þau sem hann er að vinna með. Einhver þeirra skila sér heim á nóttunni en svo eru til börn sem enginn virðist hafa áhyggjur af.
Guðmundur segir að það verði að skoða hvar hlutirnir fóru úrskeiðis hjá götubörnunum og vísar í rannsóknir Sigrúnar Sigurðardóttur, lektors við Háskólann á Akureyri, en hún hefur rannsakað bakgrunn kvenna sem hafa glímt við fíkn.
Í ljós kom að flestar þeirra höfðu lent í áfalli í æsku, yfirleitt kynferðislegu ofbeldi af einhverju tagi. Guðmundur segist vera sammála henni um að finna verði rót vandans og vonandi verði reynt að aðstoða götubörnin við að finna hvar þeirra vandi á upptök sín.
Nokkur mál hafa komið upp þar sem börnin tengjast kynferðisbrotum á einhvern hátt, ekki endilega sem þolendur sjálf heldur hafa þau upplifað slík brot í nærumhverfinu, eða eitthvað annað ofbeldi og misnotkun.
„Þessi börn þurfa að vita að þau geti lagt fram kæru hafi verið brotið á þeim,“ segir Guðmundur en um 240 börn hafa frá því verkefnið fór af stað haustið 2014 verið hluti af götubörnunum. Það eru börn sem hefur verið leitað að af lögreglu.
Enn hefur ekkert þessara barna látist en árið 2014 dóu þrjú ungmenni sem hafði verið leitað að af lögreglu og árin á undan létust alltaf einhver úr þessum hópi.
„Ekkert þeirra hefur látist en sum þeirra hafa verið ansi nálægt því þegar þau hafa fundist. Ég fullyrði að ef ekki hefði verið fyrir þetta verkefni þá hefðu þau látist. Það er einn sem tengist inn í hópinn sem er látinn. Ég leitaði aldrei að honum persónulega en hann var tengdur krökkum sem ég leitaði að. Ef verkefnið hefði verið farið af stað fimm árum áður hefði hann væntanlega fallið þar inn og kannski verið enn á lífi. Ég veit það ekki. Í raun er þetta stærsti mælanlegi kvarðinn sem við höfum á að þetta verkefni á svo sannarlega rétt á sér,“ segir Guðmundur.
Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir SÁÁ, segir að á Vogi sé rekin ungmennadeild fyrir 20 ára og yngri. 11 rúm eru á deildinni og er hún lokuð öðrum. Flest þeirra sem þangað leita eru 17 ára og eldri og þar er sérvakt allan sólarhringinn. Á deildinni starfa ráðgjafar og sálfræðingur í fullu starfi og dagskráin er sérstaklega sniðin að þessum aldurshópi. Enginn biðlisti er á deildina. Árið 2015 lögðust 130 sjúkingar inn á Vog sem voru 19 ára og yngri. Aðalvímuefnafíknin hjá 59% hópsins tengdist kannabis. Áfengi var aðalefni 8%, áfengi ásamt öðru hjá 5%, amfetamín var aðalvímugjafi 25% þessara ungmenna.
Ólafur B. Einarsson, verkefnastjóri hjá embætti landlæknis, segir að Ísland sé ólíkt flestum öðrum löndum að því leyti að hér er ekki heróín heldur eru lyfseðilsskyld helsti vímugjafi þeirra sem sprauta sig. Mörg ungmenni sem hafa lent á glapstigum eru á lyfjum sem þau hafa fengið vegna greininga, svo sem ADHD og því getur oft skapast vandi með áframhaldandi lyfjameðferð þegar upp kemur fíknivandi.
Sama á við um fullorðna sem eru með ADHD og eru einnig að glíma við fíknivanda, í slíkum tilfellum mæla klínískar leiðbeiningar gegn ávísunum örvandi lyfja. Ef ungmenni eru í vanda og að fá lyf eins og Ritalin má líka velta fyrir sér hvort það sé meiri hætta á að einhverjir sækist eftir lyfjunum þeirra. Öll meðferð lyfja verður erfiðari þegar annar vandi bætist við,“ segir Ólafur.
„Í öðrum löndum eins t.d. Danmörku, Svíþjóð og Noregi eru færri einstaklingar settir á lyf við ADHD og það eru tvær spurningar sem koma upp í hugan varðandi þennan mun á Íslandi.
Í fyrsta lagi hvort aðstæður hér á landi séu þess valdandi að fleiri eru að greinast og í öðru lagi hvort hægt sé að breyta meðferð hér þannig að fólk með ADHD geti stundað vinnu og skóla án örvandi lyfja.
Á hinum Norðurlöndunum er meðhöndlun við ADHD með öðrum hætti en hér á landi. Það er meiri stuðningur í tengslum við skólakerfi til að bæta umhverfi og líðan barns til að einkenni komi síður fram, bæði í skólastarfi og á heimili þess.
Á Íslandi er eins og mennta- og heilbrigðishlutinn tali ekki saman. Hjá fullorðnum er utanumhald greininga og meðferða í höndum þverfaglegra teyma í tengslum við stofnanir.
Maður heyrir lítið af annarri meðferð hér á landi en lyfjameðferð en greiningar fara að mestu fram hjá sérfræðingum á einkastofum en aðrir læknar koma líka að lyfjameðferð.
Heilsugæslulæknar hafa mikið kvartað undan því að „taka við einstaklingum á háum skömmtum frá sérfræðingum“ og því má segja að það séu mjög misjafnar skoðanir um meðferð meðal lækna,“ segir Ólafur.
Líkt og foreldrar barna sem kerfið hafnaði benda á er útlitið ekki bjart þegar þau horfa til framtíðar barnsins. Tala þau jafnvel um að kerfið sé að framleiða afbrotamenn og fíkla og vel sé hægt að tala um fjöldaframleiðslu því börnin skipta hundruðum sem eru að glíma við alvarlega vanda.
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að þegar barn er orðið fullorðið og kemur í þjónustu hjá Fangelsismálastofnun eru 150 til 200 aðrir fangar í afplánun í fangelsum. Um 200 eru að afplána í samfélagsþjónustu á hverjum tíma, 200 eru á reynslulausn og 550-600 eru að bíða eftir því að fara í afplánun. Alls rúmlega eitt þúsund einstaklingar.
Þessum hópi sinna þrír sálfræðingar, tveir félagsráðgjafar og einn meðferðarfulltrúi. Af skjólstæðingum Fangelsismálastofnunar eru 50-70% að glíma við einhvers konar fíkn.
„Við getum ekki sinnt hverjum og einum með fullnægjandi hætti. Einn til tveir sálfræðingar sem fara í fangelsi geta ekki sinnt 200 föngum en þetta er það sem við höfum til ráðstöfunar. Þegar ungmenni, eldri en 18 ára, kemur til afplánunar hjá okkur þá eru þetta sérfræðingarnir sem við höfum yfir að ráða.
Þetta veldur því að við verðum að forgangsraða og við gerum það. Einstaklingar sem sitja inni fyrir mjög alvarleg brot fara framarlega í röðina ásamt nokkrum öðrum hópum en við setjum unga fanga alltaf í fyrsta forgang. En við sinnum þeim ekki með fullnægjandi hætti því miður og á það sérstaklega við um geðheilbrigðismálin. Þetta hefur ítrekað komið fram og eftirlitsstofnanir bent á þetta án árangurs.
Má þar nefna pyntinganefnd Evrópusambandsins og Ríkisendurskoðun. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli af þeirra hálfu um að gripið verði til úrbóta gerist ekkert.
Það eina sem hefur gerst er að skjólstæðingum Fangelsismálastofnunar hefur fjölgað mikið. Meðal annars með opnun nýs fangelsis á Hólmsheiði. Þar er ekki einu sinni búið að bjóða út heilbrigðisþjónustu fyrir fangelsið. Ekki búið að skilgreina hver hún eigi að vera og ekki heldur hver eigi að veita hana,“ segir Páll.
„Við höfum ekki verið með geðlækni á Litla-Hrauni í mörg ár vegna þess að það hefur einfaldlega ekki fengist geðlæknir til þess að sinna þjónustunni. Yfirvöld almennt, hvar sem þau eru stödd í flokki, hafa ekki áhuga á þessum málaflokki. Það hefur gengið illa að selja stjórnmálamönnum að þetta geti verið góð fjárfesting til lengri tíma. Að draga úr afbrotum og hjálpa fólki sem er veikt. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar eftirlitsaðila með fangelsum á Íslandi,“ segir Páll. En hér má bæta við að í nýjum ríkisstjórnarsáttmála er hvergi minnst á fangelsismál.
Að sögn Páls er þetta umhverfið sem mætir ungmennum þegar þau koma til kasta Fangelsismálastofnunar.
„Við búum þó betur núna en áður að því leyti það fara ekki flestir á Litla-Hraun eins og áður. Það var langstærsta fangelsið og er enn stærsta fangelsið en við erum með þrisvar sinnum fleiri pláss í opnum fangelsum eins og Kvíabryggju og Sogni en þar er eru nú rými fyrir 45 fanga en voru áður 14.
Á Hólmsheiði er fangelsið deildarskipt og eigum við því auðveldara með að skilja að hópa fanga. Þannig að það eru meiri líkur en áður að ungum óhörðnuðum einstaklingum, sem ekki eru komnir langt í afbrotum, sé haldið frá harðasta kjarnanum í afplánun.“
Lögum um fullnustu refsinga var breytt í fyrra á þann veg að ungir fangar geta að uppfylltum skilyrðum fengið reynslulausn hafi þeir afplánað einn þriðja af refsingu. Áður var ekki hægt að sækja um reynslulausn fyrr en eftir afplánun helmings eða tveggja þriðju hluta refsingar.
Þannig að ungir fangar sem hafa nýtt sér þá þjónustu sem er í fangelsunum eiga möguleika á reynslulausn eftir einn þriðja afplánunar. Skiptir þar engu hversu langur dómurinn en aðeins þeir eiga möguleika á reynslulausn sem hafa sýnt góða hegðun í fangelsi og þeir nýtt sér þau úrræði sem eru til staðar í fangelsinu. Páll segir að oft eigi þessir krakkar við verulegan hegðunarvanda að stríða og það batni ekki daginn sem þau stíga sín fyrstu skref í fangelsi.
Í rannsókn sem Hildur Hlöðversdóttir gerði árið 2015 í tengslum við meistaraprófsritgerð í félagsvísindadeild Háskóla Íslands kom í ljós að tæplega 16% fanga hefur ekki verið greindur með örðugleika. 17,4% fanga eru greindir með lesblindu, 4,5% með skrifblindu, 20,4% eru greindir ofvirkir og 28,4% með athyglisbrest. 13,4% voru með aðrar greiningar. Yfir 75% fanga svaraði könnun Hildar þannig að þýðið er vel marktækt.
Líkt og Páll bendir á eru 50-70% fanga að glíma við fíkn þannig að ljóst er að þörfin fyrir aðstoð fagaðila er fyrir hendi.
„Að fara í fangelsi ýtir undir andleg veikindi og eykur líkur á þunglyndi og kvíða. Miklir áhættuþættir eru fylgjandi því að senda mann í fangelsi og því ættum við að leggja meiri áherslu á að reyna að draga úr þessum neikvæðum áhrifum innilokunar,“ segir Páll.
Hann segir ekki nóg að bjóða upp á aðstoð sálfræðinga og félagsráðgjafa því mikil þörf er á meðferð í fangelsum vegna vímuefnamisnotkunar. Einn meðferðargangur er í íslensku fangelsi og hann er á Litla-Hrauni. Þar er pláss fyrir 11 fanga. Á Litla-Hrauni eru þeir fangar sem eru harðasti kjarni þeirra sem eru í afplánun.
Einn meðferðarfulltrúi er starfandi hjá Fangelsismálastofnun og hann starfar á Litla-Hrauni og eins og Páll segir þá nær hann ekki að sinna öllum þeim sem þurfa á hjálpa að halda þrátt fyrir að vera hörkuduglegur og sinna föngum af alúð.
Samtök eins og AA, Samhjálp og SÁÁ hafa stutt meðferðarstarf í ríkisfangelsum á Íslandi og segir Páll stofnunina mjög þakkláta fyrir þann stuðning.
„En það er sorglegt, vitandi að stór hluti þeirra sem fara í fangelsi eru þar vegna áhrifa frá áfengi og vímuefnum, að þeir fá síðan ekki aðstoð þar til þess að glíma við vandann og reyna að stöðva hann. Þetta er fullkomlega galið,“ segir Páll.
Hann segir átakanlega lítið sem fangelsismálayfirvöld geti gert til þess að veita þeim sem glíma við geðræn vandamál aðstoð. Fangar eru ekki heldur í forgangi á geðdeildir spítalanna enda þær yfirfullar og skjólstæðingar Fangelsismálastofnunar oft mjög erfiðir.
„Í mínum huga er þetta tiltölulega einfalt. Það þarf að gera heildarúttekt á heilbrigðisþjónustu fyrir þennan hóp, skilgreina hvað eigi að gera og síðast en ekki síst að framkvæma. Þetta þarf að vera á einni hendi og það er ekki gott að þessi málaflokkur heyri undir mismunandi ráðuneyti og mismunandi stofnanir. Hingað til hefur hver vísað á annan sem aftur hefur haft þær afleiðingar að ekkert gerist.
Það er staðreynd að í vissum tilvikum hafa fangar þurft að afplána lengur í fangelsi en aðrir vegna veikinda.
Það er eitthvað að kerfi þar sem hlutirnir eru þannig. Okkur hefur aftur á móti þótt betra að vista viðkomandi áfram hjá okkur heldur en að henda honum fárveikum út á götuna þar sem ekkert er í boði,“ segir Páll og tekur undir orð flestra ef ekki allra viðmælenda mbl.is.
„Kerfið er ekki að virka.“ Hann hefur starfað lengi innan lögreglunnar og hjá Fangelsismálastofnun og hefur kynnst mörgum þeirra sem dæmdir hafa verið í fangelsi undanfarin ár. „Ég þori að fullyrða að það er hægt að finna eitthvað gott í öllum. Okkur ber skylda til að veita fólki lögbundna þjónustu, líka föngum. Í dag erum við því miður ekki að gera þetta með viðunandi hætti,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri en með þessum orðum lýkur þessari umfjöllun um börn sem kerfið týndi hér á mbl.is.