Aldrei unnið á helsta meini hans

Börnin okkar og úrræðin | 15. september 2018

Aldrei unnið á helsta meini hans

Sonur þeirra er á þrítugsaldri og er hörkuduglegur fjölskyldufaðir. En lífið hefur ekki alltaf reynst honum auðvelt því stóran hluta ævinnar hefur líf hans verið eins og rússíbanareið. Ekki bara hans líf, því hjarta allra á heimilinu sló í takt við líðan hans hverju sinni. Þrátt fyrir að hafa náð sér upp úr neyslu þá hefur hann ekki enn unnið á mesta meini sínu, áfallastreituröskun vegna atburða í æsku.

Aldrei unnið á helsta meini hans

Börnin okkar og úrræðin | 15. september 2018

mbl.is/Hari

Sonur þeirra er á þrítugsaldri og er hörkuduglegur fjölskyldufaðir. En lífið hefur ekki alltaf reynst honum auðvelt því stóran hluta ævinnar hefur líf hans verið eins og rússíbanareið. Ekki bara hans líf, því hjarta allra á heimilinu sló í takt við líðan hans hverju sinni. Þrátt fyrir að hafa náð sér upp úr neyslu þá hefur hann ekki enn unnið á mesta meini sínu, áfallastreituröskun vegna atburða í æsku.

Sonur þeirra er á þrítugsaldri og er hörkuduglegur fjölskyldufaðir. En lífið hefur ekki alltaf reynst honum auðvelt því stóran hluta ævinnar hefur líf hans verið eins og rússíbanareið. Ekki bara hans líf, því hjarta allra á heimilinu sló í takt við líðan hans hverju sinni. Þrátt fyrir að hafa náð sér upp úr neyslu þá hefur hann ekki enn unnið á mesta meini sínu, áfallastreituröskun vegna atburða í æsku.

Hann var að nálgast sjálfræðisaldur þegar hann var greindur með áfallastreituröskun en hann var aðeins átta ára þegar hann fékk ADHD- og mótþróastreituröskunargreiningu auk fleiri greininga. Þá fékk hann meðferð hjá geðlækni sem fjölskylda hans segir hafa gengið að mestu út á að gefa honum lyf. 

Hann hefur alist upp hjá föður og stjúpmóður frá þriggja ára aldri en móðir hans glímir við tvíþættan vanda, það er bæði geðræn veikindi og fíkn. Vegna átaka um forræði yfir honum gekk í raun erfiðar að fá aðstoð fyrir hann en annars hefði væntanlega verið. En þau segja að þó svo að hann hafi fengið greiningu átta ára gamall hafi þau verið búin að gera sér grein fyrir því löngu fyrr að eitthvað bjátaði á.

Vanlíðan sem ekki er hægt að laga með ADHD-lyfjum

Þegar hann var enn í barnaskóla tilkynntu þau sig til barnaverndar, þar sem þau sáu að vandinn væri að verða of mikill fyrir þau til að glíma við án stuðnings. Þá hafði þegar farið mikil vinna fram með skólanum í að aðstoða drenginn en barnavernd taldi ekki rétt að grípa inn í.

Þau segja að hann hafi varla verið hæfur til þess að vera inni í skólastofu með öðrum en það sem bjargaði miklu var frábær stuðningsfulltrúi sem reyndist drengnum gríðarlega vel. Lyfin höfðu lítið að segja, enda vanlíðan svo mikil hjá honum. Vanlíðan sem ekki lagast með ADHD-lyfjum. 

Þegar hann fór til móður sinnar tók langan tíma að ná honum á rétt ról og einu sinni tók hún hann án heimildar og tók þau fleiri mánuði að fá drenginn til baka þrátt fyrir að þau væru með fullt forræði. Á þeim tíma gekk hann ekki í skóla, hóf neyslu fíkniefna og aðstoðaði móður sína við dreifingu fíkniefna. 

Eftir þetta gekk allt á afturfótunum hjá honum varðandi skólann og var hann settur aftur á lyf, bæði ADHD-lyf og svefnlyf þrátt fyrir að eiga ekkert erfitt með svefn. „Okkar tilfinning var sú að það væri verið að reyna að deyfa hann og gera hann óvirkan í stað þess að leita að rót vandans, sem er andleg líðan,“ segja foreldrar hans. 

Hann flosnaði fljótlega úr almennum skóla og var um tíma í skammtímaúrræðum fyrir börn sem eru í vanda. En hann entist ekki þar og þar sem hann hafði misst mikið úr sóttist námið illa.

„Það vantaði alveg stað fyrir krakka eins og hann. Krakka sem passa hvergi inn, með brotna sjálfsmynd og eiga hvergi heima í kerfinu. Þessir krakkar eru fljót að finna hvert annað og tengjast, því eðlilega vilja fáir aðrir umgangast þau. Því miður leiðir þetta oft til þess að þau gera hluti sem ekki samrýmast lögum og reglum og það átti við um okkar dreng."

Hann var lagður inn á barna- og unglingageðdeildina eftir ítrekaðar …
Hann var lagður inn á barna- og unglingageðdeildina eftir ítrekaðar sjálfsvígstilraunir. mbl.is/Hari

Þarf ekki barn sem reynir að hengja sig hjálp?

Þau fóru snemma að berjast fyrir því að hann yrði sendur í burtu úr þessum aðstæðum og fór hann meðal annars í tímabundið fóstur á vegum barnaverndaryfirvalda. Gekk það þokkalega í byrjun en endaði ekki vel.

Honum leið einfaldlega svo illa og var aldrei að fá aðstoð við að vinna úr þeim áföllum sem hann hafði gengið í gegnum, segja þau, en þar gerði hann tilraun til sjálfsvígs. 14 ára gamall.

Í stað þess að vera lagður inn á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) var hann sendur heim, þar sem starfsmenn deildarinnar töldu að honum væri ekki alvara – hann væri bara að kalla á athygli. Faðir hans segist spyrja sjálfan sig hvort barn sem gerir svona, reynir að hengja sig, þurfi ekki hjálp. Hvort sem það er að kalla á athygli eður ei. 

Hann fór í nýtt skammtímafóstur og þar gerði hann aftur tilraun til sjálfsvígs og mátti litlu muna að honum tækist ætlunarverkið.

„Þá gáfum við okkur ekki. Hann skyldi fá aðstoð á BUGLinu. Við skiljum ekki hvers vegna foreldrar eru settir í þessar aðstæður. Að berjast fyrir barninu sínu sem líður svo illa að það sér enga leið út úr þessu aðra en að binda enda á eigið líf.“

Hann var viku á BUGLinu og fór eftir það heim og í sama ruglið. „Við reyndum allt sem í okkar valdi stóð en án árangurs,“ segja þau.

Við tóku ýmis úrræði en ekkert gekk. „Honum er í raun alls staðar hafnað og það er ekki gott fyrir barn sem er veikt, að upplifa höfnun hvert sem leitað er. Á þessum tíma var hann orðinn mjög reiður út í okkur því það vorum alltaf við sem vorum grýlan. Við sjáum hins vegar eftir á að öll þessi barátta skilaði sér. Að við gáfum okkur aldrei í baráttunni fyrir hann. Sem betur fer. Við erum hins vegar enn að glíma við eftirköstin því við eigum fleiri börn sem bjuggu á fárveiku heimili þar sem allt snerist um þennan eina einstakling. Eins hefur þetta mikil áhrif á fjárhagsstöðu fólks því það þetta er ekki ókeypis, svo ekki sé talað um vinnutap og fleira. En það er þess virði þegar við horfum á son okkar í dag, á lífi,“ segja þau.  

Sonur þeirra var meðal annars um tíma á Stuðlum.
Sonur þeirra var meðal annars um tíma á Stuðlum. mbl.is/ Hari

Hann fór í ýmiss konar úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda en ekkert þeirra hentaði honum. Sama sagan var á öllum stöðum, lítil sem engin sálfræðiþjónusta eða önnur meðferðarúrræði, heldur snerist allt meira um að finna geymslustað fyrir erfiða krakka. Eftir að hann kom aftur á höfuðborgarsvæðið gekk allt ágætlega í einhvern tíma en leitaði fljótt í sama farið, mikil neysla og innbrot. 

Hélt að þetta væru endalokin

Á þessum tíma var hann greindur með áfallastreituröskun sem foreldrarnir eru sannfærðir um að sé rót vanda drengsins, ekki neyslan. „Hún var miklu frekar afleiðing af skelfilegri vanlíðan sem ekki var reynt að vinna á,“ segja foreldrar hans.

Næstu misseri var hann í einhverri neyslu en ekki jafn mikilli og áður. Síðan gerðist eitthvað og hann hætti sjálfur allri vímuefnaneyslu. Þau þakka það því að hann hafi gert sér grein fyrir því að botninum væri náð og að það væri ekkert eftir.

„Þarna var hann orðinn allur í sárum eftir sprautur og leit hreinlega skelfilega út. Ég man þegar ég hitti hann á þessum tíma og hann sýndi mér sprautuförin og ég fór að hágráta. Þetta væru endalokin,“ segir faðir hans. 

Vandi hans var ekki fíknin heldur geðrænn vandi og þau áföll sem hann upplifði sem barn, segja þau bæði. Öll skólagangan var stríð vegna vanlíðunar hans og sjálfsmynd hans í molum, segja þau. 

„Þetta er sama sagan hjá öllum sem við höfum rætt við sem eiga börn í sömu sporum. Vandann má alltaf rekja til áfalla og það er þarna sem kerfið mætti taka sig betur á. Að sinna geðheilsu barna sem sýna að það amar eitthvað að. Eins eru forvarnir svo mikilvægar og þær þurfa að vera hluti af skólakerfinu og ekki byrja of seint. Forvarnir þurfa heldur ekki að kosta svo mikið, ekki síst ef litið er til þess hvað þær geta sparað fyrir okkur síðar meir,“ segja foreldrar þessa unga manns. 

Forvarnir verði líka að taka mið af breyttu neyslumynstri ungmenna, því það sé búið að hræða þau svo við áfengi en upphefja kannabis. Þau telja nauðsynlegt að fræða börn um skaðsemi kannabis og hættuna sem fylgir því. Til að mynda hættuna á geðrofssjúkdómum.

„Við myndum vilja sjá úrræði fyrir ungt fólk, frá 15 ára aldri til 25 til 30 ára. Úrræði þar sem haldið er utan um þau. Eitthvað í líkingu við Laugarásinn þar sem ungt fólk með geðhvörf fær meðferð,“ segja foreldrar hans.

Áföll í æsku hafa oft forspárgildi

Hjördís Björg Tryggvadóttir, sem stýrir Teigi, dagdeildarhluta fíknigeðdeildar Landspítalans, segir að mjög margir þeirra sem glími við vímuefnavanda glími við ýmislegt annað og þung áfallasaga sé mjög algeng hjá þessum hópi.

„Í rannsókn sem við gerðum meðal fólks sem var að koma í meðferð hjá okkur á Teigi kom í ljós að 97% þeirra sem sóttu þjónustu til okkar á þeim tíma höfðu orðið fyrir að minnsta kosti einu áfalli og á milli 68-72% (mismunandi eftir kynjum) voru með þannig einkenni að þau myndu uppfylla skilyrði fyrir áfallastreituröskun. Þetta er fólk með þungar byrðar og í sumum tilvikum er neyslan orðin hluti af bjargráðum til að lifa með annarri erfiðari líðan, öðrum geðröskunum. Þetta er ekki eitthvað sem leysist á nokkrum vikum heldur er þetta langtíma verkefni sem þú byrjar einhvers staðar og tekur langan tíma. Stundum verða bakslög á leiðinni en þú kemur aftur og heldur áfram.”

Talsvert hefur verið fjallað um áhrif erfiðra uppvaxtarskilyrða og áfalla á andlega og líkamlega heilsu og vellíðan fólks síðar á ævinni, segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Vincent Felitti og rannsóknarhópur hans í Bandaríkjunum standa að baki þekktustu rannsókninni á þessu sviði. Hún gengur undir heitinu Adverse Childhood Experiences (ACE), eða Dulin áhrif áfalla í bernsku á heilsufar á fullorðinsárum, og náði til 17.000 manna úrtaks á síðasta áratug 20. aldarinnar.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að erfiðar uppeldisaðstæður og áföll í æsku auki til muna líkurnar á því að fólk veikist bæði andlega og líkamlega eða eigi við félagslegan vanda að stríða á fullorðinsárum. ACE-mælikvarðinn gengur út að leggja fyrir fólk 10 spurningar um líkamlegt ofbeldi, andlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, líkamlega vanrækslu og fleira í æsku. Svarandinn fær eitt stig við hvert jákvætt svar. Eftir því sem stigin eru fleiri er talið líklegra að viðkomandi eigi eftir að stríða við andlegan eða líkamlegan heilsubrest og félagsleg vandamál og/eða deyja ótímabærum dauðdaga.

Sem dæmi um afleiðingar þess að hafa orðið fyrir fjórum eða fleiri slíkum áföllum í bernsku aukast líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini, langvinnum lungnasjúkdómum, áhættuhegðun, geðröskunum og ótímabærum dauða. Ef áföllin eru sex eða fleiri styttist ævin að meðaltali um 20 ár, að því er fram kemur í rannsókn Felettis.

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að áföll í æsku …
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að áföll í æsku auki líkurnar á alvarlegum sjúkdómum síðar á lífsleiðinni. mbl.is/Hari

Eitt af verkefnum Geðhjálpar er að auka fræðslu um ACE, bæði meðal heimilislækna og almennings, ásamt því að vekja athygli á mikilvægi barnaverndar og forvörnum almennt.

Bjargráð sem ógna heilsunni

Sæunn Kjartansdóttir, hjúkrunarfræðingur og sálgreinir, er einn af stofnendum Miðstöðvar foreldra og barna. Hún hefur bæði skrifað um áföll í æsku og mikilvægi þess að grípa snemma inn í þegar börn eiga í hlut.

„Áföll í æsku hafa verið mjög mikið rannsökuð og niðurstöður ACE-rannsóknarinnar eru viðurkenndar enda er um að ræða umfangsmestu rannsókn á þessu sviði sem hefur verið endurtekin víða um heim. ACE-rannsóknin sýnir að áföll í æsku hafi mikið forspárgildi varðandi það sem síðar kemur á lífsleiðinni. Þetta á við bæði um líkamlega og andlega heilsu. Mörg alvarleg áföll í barnæsku geta stytt ævina um 20 ár og í ljós hefur komið að ef þú ert með sex eða fleiri áföll af þeim tíu sem skilgreind eru á ACE-listanum þá eru 4.600% meiri líkur á að þú verðir sprautufíkill,“ segir Sæunn.

Hún segir að við áföll breytist efnaskipti líkamans, streitan aukist og í óhóflegu magni hafi hún skaðleg áhrif á mikilvæg líffæri. „Ekki síst heilann því að streita eyðir tengingum á milli taugabrauta í heilanum. Streita hefur því bein lífeðlisfræðileg áhrif á hvernig líkami okkar þroskast og þá alveg sérstaklega heilinn.“

Til viðbótar við lífeðlisfræðilegu áhrifin tileinkum við okkur ýmiss konar bjargráð við sársauka eða vanlíðan en það eru einmitt bjargráðin sem geta ógnað heilsunni, að sögn Sæunnar.

„Það geta verið bjargráð að loka á hvernig manni líður. Ef þau viðbrögð verða ráðandi missir maður mikilvæg tengsl við sjálfan sig og getur þar af leiðandi ekki brugðist við á viðeigandi hátt þegar tilfinningarnar og innsæið fá ekki að leiðbeina manni. Annað bjargráð getur verið að borða þegar manni líður illa, eða reykja, drekka, stunda áhættusamt kynlíf eða neyta hugbreytandi efna. Þegar vel er að gáð miðar allt þetta atferli að því að draga úr sársauka og vanmætti. Því miður er áherslan oft á að meðhöndla einkennin, eða bjargráðin, en ekki raunverulega vandann. ACE-rannsóknin hefur einmitt leitt í ljós að einkennin sem fólk leitar aðstoðar við eru oft upplifuð sem „lausn” á vandanum. Þess vegna rígheldur fólk í niðurbrjótandi atferli, þrátt fyrir góðan vilja, en við þurfum að horfa lengra og einblína ekki á einkennin heldur vinna jafnframt með undirliggjandi vanda.

Ástæðan fyrir því að fólk fer í neyslu er oft ekki einföld eða augljós en ACE-rannsóknin miðar að því að greina ástæðurnar á bak við. Margir hafa upplifað áföll á lífsleiðinni án þess að nokkur hafi skilgreint þau sem slík, hvað þá brugðist við þeim,“ segir Sæunn.

„Með snemmtækri íhlutun er hægt að spara umtalsverða vinnu og …
„Með snemmtækri íhlutun er hægt að spara umtalsverða vinnu og fjármuni, að ekki sé minnst á þjáningar barns og fjölskyldu,“ segir Sæunn Kjartansdóttir. mbl.is/Hari

Undanfarin ár hefur Sæunn unnið mikið með foreldrum ungbarna. „Þegar um ungbörn ræðir beinist athyglin ekki að stórum og greinilegum áföllum eins og hjá fullorðnum heldur svokölluðum tengslaáföllum. Þau eru ekki jafn afmörkuð og þau sem ACE fjallar um, heldur er um að ræða endurtekin samskipti þar sem barni er sinnt á ófyrirsjáanlegan hátt, það er vanrækt eða það býr við mikla streitu. Þetta getur stafað af tengslaáföllum foreldra í þeirra eigin æsku en erfið reynsla getur verið þeim fjötur um fót og hindrað þá í að sinna barninu eins og það þarf á að halda.

Börn sem upplifa óöryggi og viðvarandi streitu grípa til viðbragða sem miða að því að útrýma sársauka eða öryggisleysi, sum gráta mikið, önnur láta lítið fyrir sér fara og í alvarlegum tilvikum loka þau á umhverfið. Oft er hegðun barna ekki skoðuð í samhengi við umhverfi þeirra. Þess í stað höfum við tilhneigingu til að setja stimpil á barnið – að eitthvað sé að því – þegar raunin getur verið að barnið sé að bregðast við óheilbrigðum aðstæðum.

Með þessu er ekki verið að stimpla foreldra sem ómögulega heldur getur verið að þeir þurfi hjálp til að ná niður eigin streitu til þess að þeir geti skilið barnið betur, sem er forsenda þess að þeir geti brugðist við því af meiri nákvæmni. Markmið okkar sem vinnum með foreldra og ungbörn er að stuðla að öruggum tengslum þeirra, en kjarni öruggra tengsla er að barn fái að sýna þarfir sínar og líðan og að því sé mætt jafnt og þétt á viðeigandi og fyrirsjáanlegan hátt. Erlendar rannsóknir sýna að milli 65-70% barna eru með örugg tengslamynstur og rúm 30% eru með óörugg tengslamynstur,“ segir Sæunn.

Hvað með erfðir?

„Ég ætla ekki að útiloka þátt gena en mér vitrari erlendir kollegar halda því fram að horfurnar séu mun betri fyrir þá sem hafa léleg gen en fá gott atlæti heldur en þá sem fæðast með góð gen en alast upp í erfiðu umhverfi. Erfðir koma hins vegar ekki bara með genunum, þú erfir líka viðhorf og aðferðir til að takast á við líðan, t.d. hversu hæfir foreldrar þínir voru um að hugsa um sjálf sig og aðra.

Ef þú áttir foreldra sem voru mjög uppteknir, kannski vegna áfengisneyslu, þunglyndis eða voru fjarverandi, þá hafa þeir ekki getað gefið þér það sem þú þurftir. Hættan er að normið erfist frá einni kynslóð til þeirra næstu þó að birtingarmyndin sé kannski ný. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr erum við undir áhrifum foreldra okkar. Góðu fréttirnar eru samt þær að hafi maður ekki fengið gott veganesti úr foreldrahúsum er hægt að vinna með það, til dæmis í góðum vinar- eða ástarsamböndum eða sálfræðimeðferð,“ segir Sæunn.

Hún segir að þegar foreldrar leiti eftir aðstoð sé mikilvægt að bregðast skjótt við. Ungbörn geti ekki beðið og foreldrar séu yfirleitt mjög tilbúnir að þiggja aðstoð sem styrki þá í foreldrahlutverkinu. „Bæði hjá okkur og teyminu á geðsviði Landspítalans, Foreldrar, meðganga barn (FMB) [Það er þjónusta  fyrir foreldra, sem eiga von á barni, eða eru með barn á fyrsta ári, sem eru með alvarlegan geðrænan vanda og/eða áhyggjur af tengslamyndun við barnið, innskot blaðamanns],“ segir Sæunn.

Hún segir það aldrei af illum ásetningi sem foreldrar bregðist börnum sínum, yfirleitt sé það vegna eigin vanlíðunar eða vangetu. „Þér þarf að líða bærilega til þess að geta sett líðan annarrar manneskju í forgang allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, allan ársins kring. Ef þér líður illa í grunninn ertu verr í stakk búin til þess að annast barnið þegar það er óvært og þá getur auðveldlega myndast vítahringur. Þetta eykur hættu á líkamlegu ofbeldi, en breskar rannsóknir sýna að börn á fyrsta ári eru í áttfalt meiri hættu á að verða fyrir alvarlegu ofbeldi en eldri börn. Þetta þarf ekki að koma á óvart, því að ungbörn eru svo þurfandi og gera þess vegna kröfur sem foreldrar geta upplifað sem óheyrilegar. Ef foreldrar eru einir með börn sín eða fá lítinn stuðning getur skapast hættulegt ástand eins og dæmi eru um. Þetta er erfið vitneskja en ástæðurnar geta verið margar, svo sem álag, kvíði og fjárhagslegir erfiðleikar eins og margt ungt fólk á í,“ segir Sæunn.

Þorum frekar að tala um vandann

Samkvæmt breskum tölum eru í 36% af alvarlegustu barnaverndarmálunum börn á fyrsta ári. 26% breskra barna eiga foreldri með geðröskun, í neyslu eða sem búa við heimilisofbeldi. Sæunn segist ekki telja ástæðu til að ætla að Íslendingar séu mikið öðruvísi. Hún telur heldur ekki að þessi vandi sé að aukast heldur séum við orðin upplýstari og meðvitaðri um hann.

„Við þorum frekar að tala um þetta en samt sem áður erum við enn upptekin af því að láta ekki foreldrum líða illa og ekki viljum við vekja hjá þeim sektarkennd. Þeirri staðreynd verður hins vegar ekki breytt að þeir eru áhrifamestu einstaklingarnir í lífi hvers barns og þess vegna þurfum við að hlúa að heilsu þeirra og líðan,“ segir Sæunn.

Hún segir að hægt sé að gera ótal margt og mjög mismunandi sé hversu mikla aðstoð foreldrar þurfi. „Sumir þurfa aðeins á fræðslu að halda en aðrir meiri stuðning, til dæmis frá fjölskyldum sínum. Enn aðrir þurfa meðferð til þess að vinna úr erfiðri reynslu. Fólk sem kemur til okkar hefur oft ekki velt reynslu sinni mikið fyrir sér og telur sig hafa lifað sléttu og felldu lífi því það hefur ekki lent í neinu sem fellur að skilgreiningu um stóráföll.

En kannski ólst það upp við þunglyndi á heimilinu eða upplifði erfiðan skilnað foreldranna sem lítið hefur verið gert úr. Fyrir einhverja er þetta ekkert mál en fyrir aðra getur þetta verið stórmál sem barnsfæðing leysir úr læðingi. Þá getur grátur barnsins vakið vanlíðan sem foreldrið skilur ekki. Ef foreldri á reynslu af ofbeldi í æsku, eins og að hafa orðið vitni að ofbeldi milli foreldra, getur gömul áfallastreita brotist fram þegar lítið barn öskrar stöðugt á það.“

Hlúa þarf betur að leikskólum

Sæunn segir mikilvægt að efla unga foreldra sem standi höllum fæti og gera þá hæfari í foreldrahlutverkinu. „Það getur breytt öllu lífi þeirra og framtíð. Reynslan erlendis hefur sýnt að meðferð fyrir ungar mæður getur verið valdeflandi á fleiri sviðum en í foreldrahlutverkinu, sumar fá kjark til að halda áfram í námi eða að þær komast út í atvinnulífið að nýju og skila þá til samfélagsins í stað þess að vera háðar stuðningi frá því. Það er löngu búið að sýna fram á að fjármunum sem er varið í fyrstu ár barna skila langmestu aftur til samfélagsins. Með stuðningi við barnafjölskyldur fáum við mest fyrir krónuna,“ segir hún.

Ekkert eitt heldur margt

Að hennar sögn er ekki eitthvað eitt sem við þurfum að gera heldur margt. Til að mynda þarf að hlúa betur að leikskólunum með betri mönnun og hæfu starfsfólki. Þangað inn þarf að velja nægilega margt hæft starfsfólk sem hefur áhuga á börnum og menntun eða reynslu til þess að sinna þeim.

Í nýbirtri skýrslu OECD um menntatölfræði kemur fram að raunlaun leikskólakennara á Íslandi voru lægri en OECD-meðaltalið og lægri en í hinum Norðurlandaríkjunum nema Finnlandi. Munurinn á Íslandi og OECD var -3,4%. Grunnskólakennarar voru með lægri raunlaun en kennarar á Norðurlöndunum og meðaltal OECD. Munurinn á Íslandi og OECD var -9,1%.

„Börn sem búa við streitu á heimili slökkva ekki á streituviðbrögðum þegar þau koma á leikskóla eða síðar í grunnskóla. Þessi börn virka oft erfið og eru jafnvel skilgreind með námserfiðleika en oft er ekkert að greind eða hugrænni getu þeirra. Sá sem er með streitukerfið í botni getur á hinn bóginn ekki lært, og mikið áreiti og takmarkaður stuðningur í leikskóla eða skóla getur aukið á vandann.

Við þurfum að horfa á stærra samhengið en ekki meðhöndla börn sem sýna frávik í hegðun eins og þau séu með sjúkdóma. Óróleiki þeirra eða mótþrói getur vissulega haft mjög truflandi áhrif í skólastarfi en slík hegðun getur verið eðlileg viðbrögð barns sem er hrætt og á varðbergi, jafnvel þó að hinir fullorðnu sjái enga ástæðu fyrir viðkomandi barn til að vera óöruggt“ segir Sæunn, sem telur gríðarlega mikilvægt að fólk sem kemur að umönnun barna, hvort sem það er í leikskólum eða síðar, hafi til þess þekkingu og skilning á börnum.

Lyf ættu að vera síðasta úrræðið

Langir biðlistar eru eftir greiningu á börnum á Íslandi. Skólar fá ekki fjármagn til að sinna barni sérstaklega nema greining liggi fyrir og segir Sæunn þetta í mörgum tilvikum þýða að börn bíði eftir hjálp á mikilvægasta mótunartíma ævinnar.

„Börn eru hópur sem á allra síst að bíða, því með því að grípa snemma inn er hægt að hafa svo mikil áhrif. Með snemmtækri íhlutun er hægt að spara umtalsverða vinnu og fjármuni, að ekki sé minnst á þjáningar barns og fjölskyldu,“ segir Sæunn.

Sé ekkert gert í byrjun getur sama barn verið orðið mjög truflandi í leikskóla um þriggja ára aldur og þá er vandinn búinn að vinda upp á sig. Við erum allt of fljót að grípa til sjúkdómsgreininga og lyfja en lyf ættu í flestum tilvIkum að vera síðasta úrræðið þegar allt annað hefur verið reynt, að sögn Sæunnar.

Börn þurfa sátta foreldra sem líður nægilega vel til að geta glaðst yfir þeim, segir hún. „Barni er enginn greiði gerður með því að vera heima með þunglyndu eða vansælu foreldri sem vill frekar vera úti á vinnumarkaðnum, því er mun betur komið á leikskóla svo framarlega sem hann stendur undir nafni.

Fyrir tveggja til þriggja ára aldur er það er hins vegar ekki þörf barna að vera sinnt í hópi margra barna og fárra fullorðinna heldur fyrirkomulag sem samfélagið hefur komið sér saman um. Lítil börn hafa jú gaman af því að vera innan um önnur börn, innan vissra marka, en fyrst og fremst hafa þau þörf fyrir fullorðnar manneskjur.

Þessar manneskjur þurfa ekki að vera foreldrar þeirra en þær þurfa að hafa rými fyrir barnið í huganum og vilja og getu til að sinna því sem einstaklingi með sínar einstöku þarfir og tilfinningar. Það er allt of algengt að mikilvægar ákvarðanir sem varða börn séu teknar á forsendum fullorðinna. Við getum alveg ákveðið að það sé hagkvæmast fyrir samfélagið að annast lítil börn í stórum hópum en höfum það alveg á hreinu að slík ákvörðun er ekki tekin út frá þörf barna,“ segir Sæunn.

Oft erfitt að forgangsraða

Hún segir erfitt fyrir ungt fólk að forgangsraða í dag því að samfélagsleg viðhorf séu oft svo skökk. Öll erum við afsprengi samfélagsins sem við búum í og ákvarðanir okkar litast af normum þess.

„Ungt fólk fær skilaboð úr öllum áttum um að allt þurfi að gerast á sama tíma, þau þurfa að eignast börn, stærri íbúð, nýjan bíl, bæta við sig námi, sinna vinum, líkamsræktinni, fara til útlanda og svo mætti lengi telja. Það er miklu minni umræða um þörf barna fyrir foreldra sína og oft er henni drepið á dreif með umfjöllun um jafnréttismál – hvort konur eigi ekki rétt á að vinna úti og hvort rétt sé að láta foreldra fá samviskubit. Þetta er geld umræða. Nágrannalöndin eru komin mun lengra í að viðurkenna að börn þurfi tíma og það kosti peninga að eiga þau og ala þau upp, bæði fyrir fjölskyldur og samfélag. Við sjáum þetta meðal annars í lengd fæðingarorlofsins og styttri vinnutíma í löndum eins og Noregi og Svíþjóð. Börn þurfa athygli og tíma, sem er mjög krefjandi. Álagið til að mynda á einstæða foreldra, sem fá kannski lítinn stuðning frá hinu foreldrinu eða fjölskyldu, er oft hrikalegt,“ segir Sæunn.

Ein af þeim hugmyndum sem hafa komið upp hjá starfsmönnum Miðstöðvar foreldra og barna er að hér verði sett á laggirnar fjölskylduhús þar sem annars vegar væri í boði aðstoð af ýmsum toga fyrir þá sem þarfnast hennar en hins vegar væri þetta vettvangur fyrir foreldra til að hitta aðra foreldra. Ekkert slíkt sé í boði nema helst foreldramorgnar í kirkjum.

„Foreldrar sem kjósa að vera heima eiga á hættu að einangrast og þeim leiðist oft. Hefðu þeir aðgengilegan vettvang til að hitta aðra foreldra í sömu sporum fengju þeir mikilvægan félagsskap og börnin þeirra gætu notið þess að vera innan um önnur börn en þau væru samt í nálægð foreldra sinna,” segir Sæunn Kjartansdóttir.

mbl.is