Þrátt fyrir að við séum talin hamingjusöm þjóð líða mörg börn fyrir erfiðar uppeldisaðstæður og glíma við kvíða, depurð, áfallaröskun, veikindi og erfiðleika í námi. Þessum hópi þarf að hlúa betur að og fjölskyldur þeirra þurfa að fá markvissari aðstoð til að hver einstaklingur fái að njóta hæfileika sinna, annars er hætta á að vandinn fari á milli kynslóða.
Þrátt fyrir að við séum talin hamingjusöm þjóð líða mörg börn fyrir erfiðar uppeldisaðstæður og glíma við kvíða, depurð, áfallaröskun, veikindi og erfiðleika í námi. Þessum hópi þarf að hlúa betur að og fjölskyldur þeirra þurfa að fá markvissari aðstoð til að hver einstaklingur fái að njóta hæfileika sinna, annars er hætta á að vandinn fari á milli kynslóða.
Þrátt fyrir að við séum talin hamingjusöm þjóð líða mörg börn fyrir erfiðar uppeldisaðstæður og glíma við kvíða, depurð, áfallaröskun, veikindi og erfiðleika í námi. Þessum hópi þarf að hlúa betur að og fjölskyldur þeirra þurfa að fá markvissari aðstoð til að hver einstaklingur fái að njóta hæfileika sinna, annars er hætta á að vandinn fari á milli kynslóða.
Hópi barna og ungmenna líður mjög illa, er kominn í öngstræti með líf sitt og heldur að eina leiðin sé að hverfa af sviði lífsins. Við sem erum fullorðin þurfum að vera til staðar fyrir þennan hóp, ekki bara á tyllidögum og ekki bara fagfólk í heilbrigðisgeiranum heldur allt samfélagið. Á hverju ári falla að meðaltali 35-40 Íslendingar á öllum aldri fyrir eigin hendi og sum ár hafa þeir verið fleiri. Þar af eru allt að fjórir yngri en tvítugt en sjálfsvíg eru helsta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi.
Í nýrri framhaldsskólakönnun sem Rannsókn og greining vann fyrir embætti landlæknis kom fram að mörg ungmenni glíma við kvíða, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir.
12% stúlkna og 7% pilta sögðust hafa reynt sjálfsvíg. Tölurnar virðast ekki háar en þegar horft er á ungmennin bak við tölurnar þá eru þær ískyggilegar. Bak við þessar prósentur fyrir árið 2016 eru 963 nemendur í framhaldsskólum. Nemendur sem hafa gert tilraun til sjálfsvígs einhvern tíma á ævinni.
„Við erum að tala um 350 drengi og 613 stúlkur. Þetta eru skuggalegar tölur og okkur ber skylda til að taka þær alvarlega,“ segir Salbjörg Bjarnadóttir, geðhjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri hjá Embætti landlæknis.
Hún bendir á að á sama tíma eigi allir að vera svo glaðir og hamingjusamir. Þessar tölur sýni að því sé ekki svo farið um alla. „Þessar tölur eiga einungis við um þá nemendur sem mættir voru þennan dag sem könnunin var lögð fyrir. Hvað með þá sem ekki voru mættir og þá sem hafa flosnað upp úr námi, hvernig skyldi þeim líða? Sjálfsvíg eru ekki bara mál fagaðila heldur alls samfélagsins,“ segir Salbjörg.
Hún segir forvarnir eitt það mikilvægasta í baráttunni við sjálfsvígsvána og vísar í orð Lars Mehlums, prófessors í geðlækningum og forstöðumanns sjálfsvígsrannsókna- og forvarnamiðstöðvar Óslóarháskóla, um mikilvægi forvarna en í Ósló er rekin sérdeild við háskólann á þessu sviði.
„Hér á landi eru margir að gera smá, hver í sínu horni. Það vantar meiri yfirsýn og samvinnu milli ólíkra kerfa sem öll þurfa að koma að þessum málaflokki og fá alla til að vinna að sameiginlegum hagsmunum allra fjölskyldna.
Því ber að fagna að á málþingi 10. september, alþjóðadegi forvarna gegn sjálfsvígum, kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að allar tillögur sem komu fram hjá þverfaglegum starfshópi á vegum embættis landlæknis í aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum hefðu verið samþykktar og 25 milljónir yrðu settar beint inn í málaflokkinn strax og síðan yrði framhald þar á. Þetta er í fyrsta sinn sem slík upphæð er sett inn í forvarnir gegn sjálfsvígum og þó svo að mikil vinna hafi farið fram í átaksverkefnum verður að segjast að sjálfsvígsforvarnir eru eilífðarverkefni líkt og allar aðrar forvarnir,“ segir Salbjörg.
„Við þurfum ekki að finna upp hjólið er varðar forvarnir, margir hafa lagt hönd á plóg, meðal annars var þverfaglegur hópur á vegum embættis landlæknis í alþjóðlegu samstarfi með verkefni sem hét Þjóð gegn þunglyndi.
Á þessum tíma voru tuttugu og tvær þjóðir að vinna út frá þessu módeli. Í tólf ár voru námskeið víða um land þar sem við fræddum fagaðila og fleiri um helstu geðraskanir, sjálfsvígsatferli og sorg eftir sjálfsvíg. Um var að ræða námskeið fyrir þá sem unnu á heilsugæslum, félagsþjónustuna, presta, lögreglu, kennara og námsráðgjafa. Lagt var upp með að þessir aðilar þekktu helstu orsakir, einkenni, horfur geðræns vanda og hvernig þau gætu brugðist við.
Við finnum það núna, nokkrum árum síðar, að það er orðið tímabært að fara aftur af stað því geðrækt og forvörnum lýkur aldrei, þeim verður að halda við. Við verðum að fylgja kröfum samfélagsins á þessu sviði sem öðrum.
Hraðinn í samfélaginu og í öllu okkar lífi er svo miklu meiri en áður var; krafan um að vera stöðugt að fylgjast með samfélagsmiðlum og um að fá allt strax eykst. Eins og tæknin getur verið góð getur hún einnig aukið hættu á vanlíðan fólks, ekki síst ungs fólks, og ég tala nú ekki um ungar barnafjölskyldur þar sem börn geta liðið fyrir skort á tíma og umhyggju frá foreldrum sem sökkva sér inn í þennan heim. Við þurfum að vera meðvituð um að hjálpast öll að við að gera uppeldisskilyrði barna uppbyggileg og þroskavænleg. Gefum fjölskyldum tækifæri á að njóta samveru,“ segir Salbjörg.
Langflestum gengur vel í lífinu. Auðvitað koma upp erfiðir tímar hjá öllum einhvern tímann en þá þarf fólk að þekkja hvert best er að leita og þekkja tengslanet sitt. Það skiptir líka máli að einstaklingar séu meðvitaðir um viðhorf sín til lífsins, segir Salbjörg.
Hún segir að forvarnir eigi að byrja strax í móðurkviði. „Við þurfum að vera meðvituð um að grípa strax inn í aðstæður sem geta verið erfiðar fyrir börn og foreldra með snemmtæka íhlutun þegar við á.
Við gætum gert svo miklu meira. Strax í meðgönguvernd og ung- og smábarnavernd er hægt að sjá hverjir þurfa aukinn stuðning inn á heimilið til að efla foreldra í foreldrahlutverkinu og hjálpa þeim með tengslamyndun við börnin. Margar ljósmæður vinna mjög vel á þessu sviði og nú eru sálfræðingar starfandi á heilsugæslustöðvum að vinna með þeim. Þá eru einnig sérfræðingar sem starfa í FMB-teymi (foreldrar, meðganga, barn) geðsviðs Landspítalans og Miðstöð foreldra og barna.
Ef gripið er snemma inn er hægt að spara mikinn heilbrigðiskostnað síðar á ævi einstaklinganna og það sem er miklu mikilvægara: koma í veg fyrir harm sem er dýrkeyptur fyrir fjölskyldurnar,“ segir Salbjörg.
Hún segir heilsugæsluna vera fyrsta viðkomustað þegar einstaklingar eru í vanda og þar sé hægt að fá góða þjónustu en styrkja þurfi heilsugæsluna betur með styrkingu á þverfaglegri geðheilbrigðisþjónustu og einnig annars stigs þjónustu geðteymanna, sem eiga að vera þrjú á höfuðborgarsvæðinu og síðan eitt í hverjum landsfjórðungi samkvæmt aðgerðaáætlun í geðheilsustefnunni. Þegar eru komin tvö geðteymi á höfuðborgarsvæðið en enn er verk að vinna og við þurfum að efla geðheilbrigðisþjónustu á öllu landinu, segir Salbjörg.
Í aðgerðaáætlun starfshóps í að fækka sjálfsvígum á Íslandi kemur fram að misnotkun áfengis og annarra vímuefna hafi neikvæð áhrif á geðheilsu og auki sjálfsvígshættu.
„Slík neysla dregur úr dómgreind og hömlum, sem eykur hættu á sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum í rauntíma. Langvarandi neysla og fíkn hefur einnig neikvæð áhrif á almenn lífsgæði, námsástundun, atvinnuþátttöku og fjölskyldutengsl, sem ýtir enn frekar undir vonleysi og sjálfsvígshættu.
Þá er þekkt að neysla vímuefna, svo sem kannabis, geti ýtt undir einkenni geðrofasjúkdóma. Því er brýnt að íslensk stjórnvöld haldi sig við ábyrga stefnu á sviði áfengis, kannabis og annarra vímuefna, m.a. með takmörkun á aðgengi og banni á auglýsingum um áfengi.
Einnig er mikilvægt að efla gagnreyndar forvarnir á sviði áfengis og annarra vímuefna í grunn- og framhaldsskólum en algengast er að ungmenni neyti fyrst vímuefna á framhaldsskólaaldri þótt ákveðinn hópur byrji fyrr,“ segir í niðurstöðum starfshópsins.
Salbjörg bætir við að yngsti hópurinn glími oftar en ekki við ýmsan annan vanda sem þurfi að taka fyrr á og þau fari oft illa út úr samskiptum við eldri einstaklinga sem misnoti traust þessara barna og notfæri sér um leið neyð þeirra.
„Þetta er ótrúlega harður og ljótur heimur sem við verðum að forða ungmennum út úr og okkur ber samfélagsleg skylda til þess. Auk þess er mikilvægt að hafa fjölbreytt úrræði til að grípa til því neyslan er miklu harðari í dag en hún var áður þó svo einstaklingarnir sem eru í slíkri neyslu séu ekki miklu fleiri en áður.“
Skýrsla um sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna sýnir að sjálfsskaði stúlkna hefur aukist frá árinu 2010 og sjálfsvígshugsanir sömuleiðis. Tölur embættis landlæknis sýna hins vegar að sjálfsvígstíðni meðal ungs fólks á aldrinum 15-19 ára hefur farið lækkandi frá árinu 2000.
Niðurstöður skýrslunnar sýna ennfremur að stór hluti ungmenna, 55% stelpna og 38% stráka, þekkir einhvern sem hefur reynt sjálfsvíg og einn af hverjum tíu hefur átt góðan vin eða einhvern nákominn sem fallið hefur fyrir eigin hendi.
Tæplega helmingur stúlkna og rúmlega þriðjungur drengja í framhaldsskólum hefur upplifað að einhver segi þeim frá því að viðkomandi sé að hugleiða sjálfsvíg.
Þá sýna niðurstöður að sterkustu sjálfstæðu áhættuþættir sjálfsvígstilrauna meðal ungs fólks í framhaldsskólum eru sjálfsvígstilraun vinar eða einhvers nákomins, þunglyndi, reiði, kynferðisofbeldi og kannabisneysla.
Um næstu helgi verður meðal annars fjallað í þessum greinaflokki um bjargráð sem hægt er að beita þegar sjálfsskaða- eða sjálfsvígshætta steðjar að.
Salbjörg segir að ýmislegt í þessari skýrslu ýti undir það sem fram kemur í aðgerðaáætlun starfshóps til að fækka sjálfsvígum á Íslandi en skýrslunni var skilað til heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, í apríl. Þar kemur fram að jákvæð uppvaxtarskilyrði barna og góð tengsl við uppalendur séu mikilvægur verndandi þáttur fyrir geðheilsu og vellíðan alla ævi. Þar sé lagður grunnur að hæfni barna til að eiga samskipti og mynda uppbyggileg tengsl við aðra til framtíðar.
„Því er mikilvægt að stjórnvöld marki sér skýra stefnu um málefni fjölskyldna sem miðar að því að börn búi við öryggi og ástríki og fái notið æsku sinnar. Nú þegar liggja fyrir drög að fjölskyldustefnu sem starfshópurinn mælist eindregið til að verði lögð fyrir Alþingi og innleidd hér á landi,“ segir í niðurstöðum starfshópsins.
„Við viljum leggja sérstaka áherslu á að auka markvisst geðrækt og forvarnir innan veggja skólanna. Margir skólar eru að gera mjög vel og það eru fleiri og fleiri sem eru að vinna eftir módeli Heilsueflandi skóla þar sem einn stór þáttur varðar geðrækt.
Mikilvægt er að þetta hlutverk skólans sé viðurkennt og eflt í þeim tilgangi að tryggja öllum reglubundna, markvissa og gagnreynda kennslu og þjálfun sem eflir geðheilsu nemenda og seiglu til lengri tíma. Jafnframt er mikilvægt að nemendur á öllum skólastigum fái þann stuðning sem þeir þurfa á að halda til að blómstra í námi og finna styrkleikum sínum farveg,“ segir í aðgerðaáætluninni.
Salbjörg segir að á hátíðisdögum tölum við um að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn og samhent þorp ef barn býr við erfiðar félagslegar aðstæður, sjúkdóma einelti og/eða námserfiðleika.
„Þetta er ekki svo í raunveruleikanum, við viljum oft ekki vita af þessum fjölskyldum sem glíma við erfiðleika en það er nauðsynlegt að við sem samfélag styðjum við bakið á þessum börnum og fjölskyldum þeirra.
Það á ekki einungis að horfa á hlutfall þeirra sem íhuga sjálfsvíg, það verður að horfa á vandann út frá hverjum og einum og grípa fyrr inn í ferlið. Við verðum að þora að tala um vanlíðan barna og styrkja foreldra til að hlúa að þeim.
Áður en barn fer að hugleiða sjálfsvíg er iðulega margt búið að fara úrskeiðis í lífi þess og það sér illa tilgang með að halda áfram. Barnið langar ekki að deyja, það langar bara ekki til að lifa við þær aðstæður sem eru í lífinu núna. Við þurfum að kenna þeim að það eru til lausnir, það er hægt að fá aðstoð hjá foreldrum, vinum, kennurum, námsráðgjöfum og skólahjúkrunarfræðingum og einnig eru skólasálfræðingar og félagsráðgjafar í skólunum. Hvert barn er einstakt og þarf að fá að njóta styrkleika sinna og hæfileika,“ segir Salbjörg.
Hún er einnig upptekin af réttindum barna sem missa skyndilega foreldra, eiga foreldra sem eiga við alvarlegan fíkni- eða geðvanda að stríða eða eru deyjandi úr krabbameini og öðrum alvarlegum sjúkdómum, hvernig við mætum þeim hópi og fjölskyldum þeirra. „Það er mikilvægt að hafa þennan hóp í huga því hann býr við aðstæður sem valda kvíða, depurð og angist. Þessi börn glíma oft við erfiðleika í námi og einangrun í sorg sinni. Þarna er verk að vinna.“
Að sögn Salbjargar áttar ungt fólk sig heldur ekki alltaf á endanleikanum sem fylgir dauðanum. Að sumu leyti getum við kennt okkur sjálf um, því dauðinn er helst inni á sjúkrahúsum og börnum haldið í burtu til að vernda þau, oft með hvítri lygi eða misskilinni góðsemi hinna fullorðnu, og þau kannski orðin ellefu ára eða eldri þegar þau gera sér grein fyrir endanleikanum sem dauðanum fylgir.
„Að lífið er ekki bara tölvuleikur þar sem persóna rís upp aftur í nýju borði eftir að hafa dáið í næsta borði á undan. Við megum ekki gleyma því að gera börn og ungmenni meðvituð um að dauðinn er endanlegur og lífið kemur aldrei til baka. Það er ekkert nýtt borð í boði, bara þetta eina líf sem við þekkjum með vissu,“ segir Salbjörg.
Ungmenni sem hafa upplifað að einhver greini þeim frá sjálfsvígshugleiðingum eru 5,6 sinnum líklegri til að hafa gert sjálfsvígstilraun sjálf. Þau sem eiga góðan vin eða einhvern nákominn sem hefur reynt sjálfsvíg eru 6,8 sinnum líklegri til að hafa sjálf gert sjálfsvígstilraun, en þau sem eiga góðan vin eða nákominn sem hefur tekið líf sitt eru 4,3 sinnum líklegri til þess að hafa gert tilraun.
Þegar búið er að stjórna fyrir bakgrunnsþáttum, félagslegri einangrun, líðan og vímuefnaneyslu eru þau sem hafa upplifað að einhver greini þeim frá sjálfsvígshugsunum tvöfalt líklegri til að hafa sjálf gert tilraun til sjálfsvígs. Þau sem eiga góðan vin eða einhvern nákominn sem hefur gert tilraun til sjálfsvígs eru 2,7 sinnum líklegri til að hafa sjálf gert tilraun til sjálfsvígs og þau sem eiga góðan vin eða einhvern nákominn sem hefur fallið fyrir eigin hendi eru 1,7 sinnum líklegri, segir í skýrslu embættis landlæknis sem var kynnt á alþjóðlegum degi sjálfsvíga 10. september.
Salbjörg segir að það sé mikilvægt fyrir foreldra að fylgjast með því á hvað börn þeirra eru að horfa, því á netinu sé alls konar efni þar sem dauðinn er upphafinn. Þetta geti haft áhrif á þá sem eru áhrifagjarnir líkt og börn eru oft.
„Við eigum ekki að þagga umræðuna um sjálfsvíg niður en við eigum að vera með ábyrga umræðu. Kjaftasögur eru fljótar að fara af stað á samfélagsmiðlum og jafnvel fjölmiðlum og það skiptir miklu að segja frá á réttan hátt. Sjálfsvíg eru ótímabær dauðsföll og hér á landi um það bil tvöfalt algengari en banaslys í umferðinni. Sjálfsvíg eru vandmeðfarið umræðuefni og framsetning fjölmiðla skiptir miklu máli. Til að mynda upplýsingar varðandi aðstæður og aðferðir. Ef umræðan er ábyrg getur hún nýst vel til þess að koma mikilvægum upplýsingum til almennings,“ segir Salbjörg og vísar hér til aðgerðaáætlunar til að fækka sjálfsvígum.
Seiglan er mikilvæg, segir Salbjörg, og hvetur fólk til þess að vera meðvitað um styrkleika sína og seiglu þegar takast þarf á við erfiða hluti.
„Ef við vissum ekki hvað sorg væri þá vissum við ekki hvað gleði er. Kenna börnum jákvæðni, samheldni og seiglu og umfram allt að vera til staðar fyrir börn og ungmenni. Leggja símanum og snjalltækjunum þegar komið er saman við matarborðið og tala saman. Tíminn sem við eigum saman skiptir svo miklu máli og ekki gleyma því að hann kemur aldrei til baka. Við þurfum að forgangsraða okkar tíma fyrir fjölskylduna, það er okkar að veita þennan tíma, ekki annarra,“ segir Salbjörg.
Jafnframt er mikilvægt að beina sjónum sérstaklega að áhættuhópum, svo sem fólki með geð- og þroskaraskanir.
„Að ungum karlmönnum, konum sem glíma við þunglyndi eða eru með áfallasögu, fólki með fíknivanda, föngum, hælisleitendum, hinsegin ungmennum og aðstandendum þeirra sem hafa framið sjálfsvíg, það er af nógu að taka en við getum gert svo margt vel ef við erum meðvituð um að grípa fyrr inn í aðstæður og setja börn og líðan þeirra og foreldranna í forgang,“ segir Salbjörg.
Sonur þeirra framdi sjálfsvíg rúmlega þrítugur eftir að hafa glímt við fíkn og geðræn veikindi. Hann var eitt af þessum börnum sem hvergi pössuðu inn, hvorki í skóla né annars staðar.
Hann átti erfitt með að fóta sig í lífinu en hann varð fyrir alvarlegu áfalli í æsku þegar hann var misnotaður kynferðislega af konu sem tengdist honum ekki fjölskylduböndum. Hann sagði foreldrum sínum aftur á móti ekki frá því fyrr en nokkrum árum fyrir andlátið. Skömmin var of mikil.
„Sonur okkar var með sjúkdóm sem varð til þess að hann varð fyrir miklu einelti í grunnskóla. Við tókum hann því út úr þeim skóla en í nýjum skóla sneri hann við blaðinu og er sá sem er ódæll og erfiður.
Í kjölfarið er hann lagður inn á barna- og unglingageðdeildina og gengur í skóla á hennar vegum. Á þessum tíma var hann misnotaður kynferðislega en sagði okkur ekki frá þessu,“ segir móðir hans.
„Minningin var svo slæm að hann lokaði á þetta og vildi ekki ræða það. En þetta hafði skelfileg áhrif á hann og allt hans líf. Leiðin sem hann valdi var að taka hugarbreytandi efni, sem hann fékk hjá læknum, til þess að gleyma, en það vissum við ekki,“ segir faðir hans.
Þau hjónin eru sammála um mikilvægi þess að skoða sögu barna sem glíma við erfiðleika og nota samtalsmeðferð í stað lyfja.
„Hann notaði fíkniefni frá unglingsaldri en hans aðalefni voru lyfseðilsskyld lyf. Hann var alltaf að leita að leið fyrir sig sjálfur og hann fór þessa leið – að skófla í sig pillum sem deyfðu allar hans tilfinningar og hann fékk stundarhvíld í huganum frá vondum tilfinningum, en þeim fylgdu mikill kvíði og þunglyndi.
Ég áttaði mig ekki á því hvað hann glímdi við fyrr en ég heyrði fólk lýsa áfallastreituröskun í útvarpsþætti, því þetta hefði alveg eins getað verið hann sem var að tala í útvarpið. Þá var hann orðinn fullorðinn,“ segir hún.
Þau segjast hafa reynt allar leiðir sem þau vissu um til þess að hjálpa honum að verða edrú. Í raun hafi þau horft mest á neysluna þegar hann var um tvítugt enda vissu þau ekki um rót vandans – áfallið sem lá eins og mara á sál hans.
„Við vitum að hann fór sjálfur inn á geðdeild í nokkur skipti eftir að hann varð átján ára en við vitum ekki með fullri vissu hvort hann hafi reynt að taka eigið líf áður en honum tókst það um þrítugt.
Mín persónulega skoðun er sú að þegar um svona alvarlega fíknsjúkdóma og meðfylgjandi kvíða og þunglyndi er að ræða eigi læknar að láta fjölskyldur svona veikra einstaklinga vita. Þeir eiga í flestum tilfellum fjölskyldur sem þrá ekkert heitar en að styðja við bakið á þeim, sama á hverju gengur í lífi þeirra. Því ef við vitum ekki hvernig þeim líður, hvernig eigum við þá að geta hjálpað þeim?“ segir móðir hans.
„Drengurinn okkar ánetjaðist lyfseðilsskyldum lyfjum og var það það sem eftir var. Hann dó ekki af því að hann vildi deyja, hann dó af því að hann gat ekki ekki lifað.
Hann var alltaf kátur og glaður og sýndi aldrei út á við hvað honum leið illa og sinnti alltaf vinnu. Hann átti fjöldann allan af vinum og kunningjum en hann gat ekki lifað og því miður valdi hann þessa leið,“ bætir hún við.
Sjálfsvíg eru skelfileg fyrir alla fjölskylduna sem situr eftir og það er mikil vinna að vinna sig út úr áfalli sem þessu og segja þau að maður missi ekki barnið sitt í sjálfsvígi og takist á við lífið að nýju án aðstoðar. Þau hafi fengið mikla og góða aðstoð, bæði áfallahjálp sem og annan stuðning, og sveitarfélagið þar sem þau bjuggu hjálpaði þeim við að greiða hluta af kostnaðinum sem fylgdi.
„Ég þurfti á mikilli aðstoð að halda því ég gat ekki sætt mig við það að sonur minn hefði verið misnotaður og ég sem móðir ekki vitað af því. Maður glímir við spurningar eins og: hvað gerði ég rangt og hvað gerði ég ekki? Ól ég hann ekki eins upp og hin börnin því ekkert þeirra hefur lent í því sem hann lenti í sem barn? Enn þann dag í dag hugsa ég með sjálfri mér: ef við hefðum gert þetta eða ekki gert hitt, hvað þá?
Maður spyr sjálfan sig alltaf og fer ósjálfrátt í að ásaka sig en við hjónin vorum strax ákveðin í að láta þetta ekki buga okkur. Við myndum gera allt til þess að vinna okkur upp á við. Við sóttum okkur hjálp með því að taka þátt í starfi hópa fyrir fólk sem hefur misst nákomna.
Sonur okkar er dáinn og við getum ekki breytt því en við höfum reynt að koma sorginni og reiðinni í farveg. Því reiði fylgir áfalli sem þessu og ekki endilega á sama tíma hjá báðum foreldrum,“ segir hún.
Hún svaf lítið sem ekkert sólarhringum saman og reyndi að fá útrás fyrir orkuna sem fylgdi reiðinni með því að hreyfa sig. Hún hjólaði upp um fjöll og firnindi og gekk milli fjalls og fjöru. Nokkuð sem hún hafði aldrei gert áður. Jafnframt fór hún í pílagrímsgöngu sem gerði henni mjög gott.
„Ég segi í dag að ég hafi fylgt syni mínum til himna. Maður fylgir barninu sínu fyrsta daginn í leikskóla, grunnskóla, á fótboltaæfingu og annað sem leið barnanna liggur. Ég fylgdi mínum syni áleiðis til himna og þetta hjálpaði mér ótrúlega mikið. Ég var búin að skila drengnum mínum til himna. Eftir þetta hef ég náð meiri ró innra með mér þó svo að þetta sé enn gríðarlega erfitt. Ekki bara fyrir okkur foreldrana heldur einnig aðra í fjölskyldunni.
Fyrstu árin þarf maður að laga sig að nýju lífi, nýjum veruleika, þar sem vantar einn náinn einstakling inn í fjölskylduna. Jól án hans og fjölskyldusamkomur án hans. Afmælisdagurinn hans var mjög erfiður fyrsta árið og margir aðrir dagar sem við áttum.
Við tölum oft um hann og reynum að halda minningu hans mjög á lofti því við viljum ekki þegja um drenginn okkar og þó svo að farið hafi verið í felur með svona dauðdaga hér áður fyrr, og skömm oftast fylgt sjálfsvígi, þá á það ekki að gera það. Það á að ræða sjálfsvíg með virðingu en ekki upphefja þau. Eitt sem er svo skelfilegt við það þegar fólk velur þessa leið er hversu endanleg hún er. Það er alltaf til einhver önnur lausn, en það er eins og þeir sem svipta sig lífi finni ekki þessa leið, hún sé þeim lokuð.“
Hún segist hafa lesið bókina Þrá eftir frelsi eftir Beverly Cobain og Jean Larch en Beverly er geðhjúkrunarfræðingur og frænka Kurts Cobains, söngvara Nirvana, sem framdi sjálfsvíg tuttugu og sjö ára gamall. Bókinni er ætlað að styðja aðstandendur þeirra sem falla fyrir eigin hendi.
„Eftir að hafa lesið bókina skilur maður betur aðdragandann að sjálfsvígum. Villuna sem kemur upp í huga þeirra. Sumir halda að þeir séu að gera foreldrum sínum greiða því þeir séu byrði. Þeir eru með ranghugmyndir um lífið og sjálfa sig.
Sonur okkar fór oftast sínar eigin leiðir í lífinu og þrátt fyrir ítrekaðar meðferðir féll hann alltaf aftur,“ segir hún.
Þau segja að það vanti mikið upp á þrautseigju gagnvart krökkum eins og honum þegar þau koma í meðferð á Vogi. Að minnsta kosti á þeim tíma sem hann fór ítrekað í meðferð.
„Ef þú ert á sjúkrahúsi með krabbamein eða aðra sjúkdóma og gerir eitthvað á sjúkrahúsinu sem þú mátt ekki gera er þér ekki hent umsvifalaust út.
En ef þú ert átján eða nítján ára og í meðferð við fíkn á sjúkrahúsinu á Vogi, og gerir eitthvað sem þú mátt ekki gera samkvæmt reglum sjúkrahússins, þá er þér fyrirvaralaust, án undantekninga, vísað út á götuna aftur og aðstandendur fá enga vitneskju um það og er þeim því ekki mögulegt að grípa neitt inn í sem gæti orðið þeim til hjálpar.
Þetta eru börnin okkar, hvort sem þau eru fimm ára eða átján ára. Við fæddum þau inn í þennan heim og ólum þau upp. Það á að vera réttur foreldra að fá að vita um veikindi barna sinna svo við getum stutt við bakið á þeim,“ segir móðir ungs manns sem ekki sá aðra leið færa en svipta sig lífi.
Tæplega 38% öryrkja, sjö þúsund og tvö hundruð manns, eru öryrkjar á grundvelli geðröskunar sem fyrstu greiningar. Hlutfallið fer upp í 56,6% eða hátt í ellefu þúsund manns þegar litið er til allra þeirra sem eru með geðgreiningu ásamt fleiri greiningum. Mesta fjölgun örorkutilfella er meðal ungra karlmanna með geðgreiningu og hefur þeim fjölgað um 41% á síðustu sex árum miðað við upphaf áranna 2012 og 2018. Þessi hópur þarf yfirleitt á bæði heilbrigðis- og félagsþjónustu að halda, segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.
Samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er innan við helmingur 139 aðildarríkja stofnunarinnar með opinbera geðheilbrigðisstefnu og þrátt fyrir opinbera stefnu kosta mörg ríki litlu til að bæta þjónustuna á þessu sviði.
Samkvæmt útreikningum WHO skilar hver króna sem fjárfest er í meðferð við geðsjúkdómum sér fjórfalt til baka með bættri heilsu og getu einstaklinga til þess að fara út á vinnumarkaðinn. Að sama skapi er dýrt að bregðast ekki við og kostnaður ríkja heims vegna þess að fólk fær ekki þá meðferð sem það þarf á að halda sem hluti af hagkerfi heimsins er stjarnfræðilega hár. Í raun eru tölurnar svo háar að það er ekki hægt að skrá þær í íslenskum krónum.
Þrjú þúsund manns eru félagar í Geðhjálp og segir Anna Gunnhildur að nánast öll þjóðin tengist geðröskunum á einhvern hátt, ýmist af eigin raun eða sem aðstandendur.
„Geðheilbrigðisþjónusta er einn stærsti þáttur heilbrigðisþjónustunnar og geðraskanir eru ört vaxandi vandi í samfélaginu eins og við sjáum meðal annars í nýgengi örorku meðal ungs fólks með geðgreiningu. Hátt í 57% allra öryrkja er með geðgreiningu, ýmist eina sér eða með öðrum greiningum. Geðvandi kostar samfélagið gríðarlega háar fjárhæðir, svo ekki sé minnst á sársauka viðkomandi einstaklinga og nánustu aðstandenda þeirra,“ segir Anna Gunnhildur.
Geðhjálp eru hagsmunasamtök fólks með geðrænan vanda, aðstandenda þeirra, fagfólks og annarra sem láta sig geðheilbrigðismál varða. Samtökin eru að stórum hluta rekin með beinu fjárframlagi frá almenningi í gegnum stuðningsfélagakerfi sem Anna Gunnhildur segir mjög mikilvægt enda nauðsynlegt að samtökin geti veitt bæði opinberum aðilum sem og öðrum aðhald í þessum málaflokki. Sem dæmi um hversu víðfeðmur málaflokkurinn sé megi nefna að einn af hverjum þremur sem leiti til heilsugæslunnar geri það vegna geðræns vanda af einhverju tagi.
Geðheilsu almennings fer hrakandi nánast hvert sem litið er í hinum vestræna heimi og spáir WHO því að árið 2020 verði þunglyndi önnur helsta ástæða fötlunar á eftir hjarta- og æðasjúkdómum. Íslenskar rannsóknir sýna svipaða þróun meðal ungs fólks þar sem þunglyndi og kvíði hafa aukist jafnt og þétt á allra síðustu árum.
Hér á landi hafa ástæður þessarar þróunar ekki verið rannsakaðar en bent hefur verið á þætti eins og samfélagsmiðla, aukna neyslu fíkniefna, styttingu framhaldsskólans, vaxandi þátttöku ungs fólks á vinnumarkaði og almennan þrýsting og streitu í samfélaginu. Nýlega bárust fréttir af því að nýjustu rannsóknir Rannsókna og greiningar hefðu leitt í ljós að 9% ungs fólks í framhaldsskólum hefðu reynt sjálfsvíg á unglingsárunum og brá mörgum í brún við hversu hátt hlutfallið reyndist vera í íslensku samfélagi.
Anna Gunnhildur segir að Geðhjálp hafi beitt sér fyrir vitundarvakningu gagnvart geðheilbrigði ungs fólks undir merkjum Útmeð'a. „Við hvetjum ungt fólk og raunar fólk á öllum aldri til að setja líðan sína í orð og leita sér aðstoðar hjá fagfólki ef á þarf að halda. Niðurstöður rannsókna leiða því miður í ljós versnandi líðan ungs fólks, reyndar svo mjög að segja má að rauð ljós blikki fyrir framan okkur í íslensku samfélagi. Þá skiptir auðvitað höfuðmáli að úrræðin séu fyrir hendi. Ég er þeirrar skoðunar að við ættum að bregðast við með því að bjóða öllum ungmennum á aldrinum átján til tuttugu og fimm ára tíu ókeypis eða 85% niðurgreidda tíma hjá sálfræðingi eða öðrum viðeigandi fagaðila til að mæta þessum vanda. Sá kostnaður myndi skila sér ríkulega til viðkomandi einstaklinga, aðstandenda þeirra og svo samfélagsins alls.“
Geðhjálp hefur haft áhyggjur af vaxandi kulnun á vinnumarkaði. Konur í kvennastéttum, svo sem hjúkrun og kennslu, virðast vera sérstaklega útsettar fyrir kulnun í starfi. Við sjáum sjúkrasjóði stéttarfélaga komna að fótum fram vegna þessa vanda. Stéttarfélögin hafa unnið gott verk með því að beita sér fyrir vitundarvakningu meðal starfsmanna um vandann. Hins vegar er Geðhjálp þeirrar skoðunar að mestu máli skipti að vinnuveitendur taki til í sínum ranni. Því kulnun í starfi má oftast rekja til aðstæðna og krafna á vinnustað. Til að mynda vegna mikils álags, óvissu um til hvers er krafist af viðkomandi og fleira,“ segir Anna Gunnhildur.
Líkt og heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, benti á í skýrslu um geðheilbrigðismál á síðasta löggjafarþingi koma geðræn vandamál oft snemma í ljós og geta haft mikil og langvarandi áhrif á líf fólks. Um helmingur geðraskana er kominn fram á táningsárum og 75% geðraskana eru komin fram þegar einstaklingar eru á þrítugsaldri. Talið er að einn af hverjum fjórum muni einhvern tíma á ævinni glíma við geðrænan vanda.
Anna Gunnhildur segir að eina raunverulega stefnumótunin í geðheilbrigðismálum þjóðarinnar sé stefna og aðgerðaáætlun í þeim málum til ársins 2020 en framkvæmd hennar sé talsvert á eftir áætlun. Hún segir að stærsta áskorun málflokksins sé að hann nái yfir heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins og félagsþjónustu á vegum sveitarfélaganna. Í geðheilbrigðisáætluninni sé talað um að binda í lög að ríki og sveitarfélög geri með sér samstarfssamninga um framkvæmd þjónustunnar. Hins vegar viti hún ekki til að hafist hafi verið handa við að vinna að því verkefni. Meðal leiða sem Geðhjálp hefur bent á til að stuðla að betri samfellu í þjónustu og betri nýtingu fjármuna er stofnun þverfaglegs stýrihóps embættismanna í þessum málaflokki.
Geðheilbrigðisþjónusta takmarkast ekki við heilbrigðishluta velferðarráðuneytisins því fleiri koma að málaflokknum. Margir skjólstæðingar geðheilbrigðiskerfisins njóta félagsþjónustu sveitarfélaganna sem og þjónustu félagsþjónustuhluta velferðarráðuneytisins. Jafnframt koma önnur ráðuneyti að, svo sem dómsmálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið. Eins má leiða að því rök að fjármálaráðuneytið, sem og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, ættu að eiga fulltrúa í slíkum þverfaglegum stýrihópi sem hugmyndin er að starfi í nánum tengslum við notendur
Með slíkum þverfaglegum stýrihópi væri vonandi hægt að vinna enn betur í þágu þessa hóps og nýta um leið fjármunina betur. Fordæmin eru fyrir hendi, til að mynda hafa stýrihópar á sviði byggðamála og mannréttindamála þvert á ráðuneyti gefið góða raun.
Meginhlutverk hópsins yrði að vinna að stefnumótun og samhæfingu í geðheilbrigðisþjónustu á vegum ríkis og sveitarfélaga til næstu ára. Með sama hætti yrði hópnum falin eftirfylgni og eftirlit með framkvæmd stefnunnar á ólíkum sviðum þvert á ráðuneyti.
„Stýrihópurinn gæti greint vandann og hversu miklum fjármunum er varið til hans því umfangið er mikið og vex og vex. Ég held að við nýtum fjármagn best með því að bjóða stuðning strax og fólk veikist, bæði við það sjálft og nánustu aðstandendur, þ.m.t. börn í fjölskyldunni. Ekki bara út frá fjárhagslegu sjónarmiði heldur líka til að stuðla að betri árangri í þágu einstaklinga og fjölskyldna þeirra.
Tíminn hjá börnum og ungmennum með geðrænan vanda er til að mynda afskaplega dýrmætur og nokkrir mánuðir geta valdið því að vandi og vanlíðan vinda verulega upp á sig. Börn eiga að fá að lifa við gott geðheilbrigði eins og líkamlegt heilbrigði. Biðlistar eftir þjónustu stofnana á borð við BUGL, Greiningarstöð ríkisins og Þroska- og hegðunarstöð eiga ekki að vera til, a.m.k. á að setja lög um að bið barna eftir þjónustu megi ekki fara yfir ákveðin tímamörk eins og gert er í löndum eins og Bretlandi,“ segir Anna Gunnhildur og bætir við að fólk með geðfötlun standi hvað höllustum fæti allra hópa í samfélaginu, þar með talið annarra hópa fatlaðs fólks í samfélaginu.
„Hann hefur lengi staðið í skugganum og verður fyrir margháttaðri og oft ósýnilegri mismunun í samfélaginu, t.a.m. má geta þess að tölfræði bendir til þess að fólk með geðröskun sé beitt einhvers konar þvingun á hverjum degi á Íslandi. Þá hafa vinnuveitendur mesta fordóma gagnvart því að ráða fólk með geðröskun í vinnu af öllum hópum fólks með fötlun. Góðu fréttirnar eru þær að fólk með geðrænan vanda er að fá meiri athygli í þjóðfélaginu líkt og umræðan undanfarin misseri sýnir.“
Samkvæmt geðheilbrigðisáætluninni er talað um að aðgengi eigi að vera að sálfræðingum á helmingi heilsugæslustöðva í lok árs 2017 og 90% í lok árs 2019. Í dag eru starfandi sálfræðingar til að sinna börnum á höfuðborgarsvæðinu en mikið vantar upp á að fullnægjandi þjónusta sé í boði fyrir fullorðna. Heilbrigðisráðherra hefur gefið út að eyrnamerkt hafi verið fé til að uppfylla markmið um eitt stöðugildi sálfræðings fyrir hverja 9.000 íbúa. Því markmiði verði væntanlega náð á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári.
Eins og er þarf fólk að leita til sjálfstætt starfandi sálfræðinga og greiða fjórtán til sextán þúsund krónur að jafnaði fyrir hvern tíma. „Þessu vill Geðhjálp breyta með því að fjölga sálfræðingum innan heilsugæslunnar og færa þjónustu sálfræðinga inn í tryggingakerfið líkt og tíðkast með þjónustu sjúkraþjálfara því það er alls ekki mögulegt fyrir alla að kaupa sér þessa þjónustu. Svo hefur því líka verið varpað fram hvort þessi mikla notkun geðlyfja hér á landi gæti að einhverju leyti tengst lélegu aðgengi að þjónustu sálfræðinga og annarra viðeigandi faghópa, það er fólk fær einfaldlega ekki viðeigandi meðferð við sínum sjúkdómi,“ segir Anna Gunnhildur og bætir við að jafningjastuðningur sé einnig mikilvægur þáttur í allri geðheilbrigðisþjónustu.
Hún bendir á vandann sem þær sjúkrastofnanir landsins sem sinna þjónustu fyrir fullorðna, Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri, stríða við. Má þar nefna skort á fagfólki, legurýmum og fjármagni. Á geðdeild Landspítalans hefur nýting sjúkrarúma verið um 108% á árinu og gefur augaleið að það gengur ekki upp til lengdar, segir Anna Gunnhildur.
„Mikill skortur er á geðlæknum á Íslandi, ekki síst á landbyggðinni, og sérhæfð þjónusta ekki í boði nema á þessum tveimur stöðum, höfuðborgarsvæðinu og Akureyri, þar sem fagfólkið safnast á þessa tvo staði. Til að mynda er enginn geðlæknir starfandi á Vestfjörðum og enginn hefur fengist til starfa á Litla-Hrauni þar sem ekki er um fullt stöðugildi að ræða,“ segir hún og bætir við að geðheilbrigðisþjónusta við fanga á Íslandi sé sérkapítuli þar sem verulega þurfi að bæta úr.
Anna Gunnhildur segir að margt jákvætt hafi komið fram í skýrslu heilbrigðisráðherra á vorþingi en umfjöllun um félagsleg úrræði sé heldur rýr og telji aðeins fimm línur af heildartextanum.
Hvergi sé að finna upplýsingar um umfang eða spá um þróun vandans í einstökum landshlutum af þeirri einföldu ástæðu að slíkar tölur séu ekki fyrir hendi. Brýnt sé að bæta úr því í þeim tilgangi að stuðla að betri og markvissari þjónustu við fólk með geðrænan vanda um land allt. Sú staðhæfing skýrsluhöfundar að boðið sé upp á geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum á landinu öllu samræmist ekki ábendingum notenda á landsbyggðinni til Geðhjálpar. Þvert á móti virðist mikið vanta þar upp á, segir Anna Gunnhildur.
Eitt af því sem Geðhjálp hefur lagt til við heilbrigðisráðherra er að skipaður verði starfshópur til að meta kosti þess að færa fyrirframgerða ákvarðanatöku fólks með geðrænan vanda inn í íslenska löggjöf. Svokölluð fyrirframgerð ákvarðanataka (Advance Directives) hefur rutt sér til rúms víða á Vesturlöndum, en hugtakið felur í sér formlega viðurkenningu samfélagsins á vilja sjúklings í sjúkdómsmeðferð og heimafyrir, til að mynda gagnvart börnum og fjármálum, hafi það verið metið svo að hann hafi misst getuna til að taka ákvarðanir um eigið líf (mental capacity).
Hugmyndin er að skapa fólki með geðræna sjúkdóma lagaramma til að lýsa yfir vilja sínum í tengslum við alvarleg veikindi og persónuleg mál fyrirfram. Þetta er í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar er lagt blátt bann við því að fólk með geðfötlun og aðra fötlun sé beitt þvingunum eða ofbeldi á grundvelli fötlunar sinnar. Anna Gunnhildur segir að ráðherra hafi tekið erindinu vel þegar honum var afhent minnisblað þess efnis fyrir ári. Samtökin bíði spennt eftir að einhver hreyfing komist á málið.
Verkefni Geðhjálpar eru ærin að sögn framkvæmdastjóra samtakanna en eitt af þeim er Bataskóli Íslands. Skólinn er byggður á þriggja ára samningi Geðhjálpar við Reykjavíkurborg. Aðrir helstu samstarfsaðilar skólans eru Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Landspítalinn og Samráðsvettvangur geðúrræðanna ásamt bataskólanum í Nottingham.
Nám í Bataskólanum er ætlað fólki, átján ára og eldra, með geðrænar áskoranir, aðstandendum þeirra og starfsfólki á heilbrigðis- og velferðarsviði. Áskoranirnar eru af ýmsum toga, til að mynda kvíði, ADHD og þunglyndi, og svo líka þyngri sjúkdómar eins og geðklofi og geðhvörf.