Lífshættulegur kókaínfaraldur

Börnin okkar og úrræðin | 16. september 2018

Lífshættulegur kókaínfaraldur

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, gerði geð- og fíknivanda meðal annars að umræðuefni við þingsetningu fyrr í vikunni. 36 lyfjatengd andlát á þessu ári eru til skoðunar hjá Embætti landlæknis. Þetta eru 25 karlar og 11 konur. Meðalaldur þeirra er tæp 47 ár. Af þeim hafa látist með þessum hætti 11 eru einstaklingar yngri en 35 ára.

Lífshættulegur kókaínfaraldur

Börnin okkar og úrræðin | 16. september 2018

Maríanna Bernharðsdóttir, Sigurður Örn Hektorsson og Hjördís Björg Tryggvadóttir stýra …
Maríanna Bernharðsdóttir, Sigurður Örn Hektorsson og Hjördís Björg Tryggvadóttir stýra fíknigeðdeild Landspítalans. mbl.is/Hari

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, gerði geð- og fíknivanda meðal annars að umræðuefni við þingsetningu fyrr í vikunni. 36 lyfjatengd andlát á þessu ári eru til skoðunar hjá Embætti landlæknis. Þetta eru 25 karlar og 11 konur. Meðalaldur þeirra er tæp 47 ár. Af þeim hafa látist með þessum hætti 11 eru einstaklingar yngri en 35 ára.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, gerði geð- og fíknivanda meðal annars að umræðuefni við þingsetningu fyrr í vikunni. 36 lyfjatengd andlát á þessu ári eru til skoðunar hjá Embætti landlæknis. Þetta eru 25 karlar og 11 konur. Meðalaldur þeirra er tæp 47 ár. Af þeim hafa látist með þessum hætti 11 eru einstaklingar yngri en 35 ára.

Guðni Th. talaði um hamingjuna og niðurstöður kannana, að óvíða um heim væri landslýður eins hamingjusamur og hér á landi. „Um leið vitum við hins vegar af ærnum vanda, kvíða og vanlíðan meðal of margra, ungra sem aldinna, álagi og kulnun í starfi, misnotkun lyfja og vímuefna, stundum með hörmulegum afleiðingum, vaxandi kostnaði við að hlúa að sjúkum, fötluðum og öldruðum, auk allra annarra sem þurfa aðhlynningar við. Hvað er dýrmætara en heilsa og hamingja? Til hvers er fullveldi ef fólki líður illa? Hvað skiptir máli þegar allt kemur til alls?"

Þegar fjallað er um málefni geðsviðs, ekki síst fíknigeðdeildar, í fjölmiðlum þá sætir sviðið og starfsfólk þess oft óvæginni gagnrýni sem Sigurður Örn Hektorsson, yfirlæknir fíknigeðdeildar Landspítalans, segir oft erfitt að svara enda brot á lögum ef starfsfólk tjáir sig um mál einstakra sjúklinga. „En þegar farið er beinlínis rangt með varðandi sviðið þá reynum við að svara slíkri órökstuddri og um leið rangri gagnrýni.”

Meðal annars hafa foreldrar verið ósáttir við að fá ekki upplýsingar um hvort börn þeirra séu á deildinni og erfitt sé að fá ungmenni nauðungarvistuð. Hér er verið að tala um ungmenni sem hafa náð átján ára aldri.

Sigurður segir umræðuna um vistun á fíknigeðdeild oft byggða á misskilningi meðal annars þar sem sjúklingurinn gefi starfsfólki aðrar upplýsingar en hann gefur aðstandendum sínum.

Sigurður bætir við að þó svo að ekki sé um beina upplýsingagjöf að ræða til foreldra ungmenna sem eru eldri en átján ára þá eigi starfsmenn deildarinnar í samskiptum og samvinnu við foreldrana þó svo að ekki megi segja þeim allt sem fer á milli ungmennis og starfsmanna í meðferðinni. Jafnvel þó svo að ungmenni meini starfsfólki að veita ættingjum upplýsingar um persónulega hagi sína þá reyni starfsfólk deildarinnar að vera í góðu samstarfi við nánustu ættingja viðkomandi.

Yfirleitt yfirflæði inniliggjandi sjúklinga

Þrjár deildir heyra undir fíknigeðdeild Landspítala: göngudeild, innlagnardeild (32A) og dagdeild, Teigur. Deildirnar sinna aðallega fólki sem á við vímuefnavanda, auk annars geðræns vanda, að stríða – svonefndar tvígreiningar. Margir sem leita þangað eiga einnig þunga áfallasögu, eru félagslega illa staddir og glíma við langvarandi geðröskun. Þá sinna deildirnar sérstaklega málum sem koma frá Barnavernd og eru í náinni samvinnu við áhættumeðgönguteymi Landspítala.

Fimmtán sjúkrarúm eru á 32A en iðulega eru átján sjúklingar inniliggjandi, þar sem möguleiki á þremur yfirflæðisrúmum er nýttur til hins ýtrasta. Þetta þýðir að biðlistar myndast ítrekað inn á deildina, meðal annars vegna kókaínfaraldurs sem hefur geisað hér á landi í á annað ár. Þrátt fyrir að hlutverk deildarinnar sé einkum að sinna fólki með tvígreiningar, það er fíkni- og geðvanda, þá er fólki sem ekki er með geðsjúkdóma en er jafnvel í sturlunarástandi vegna neyslu, veitt aðstoð.

Sigurður segir að til þeirra leiti fólk sem er að nota gríðarlega mikið af kókaíni og það framkalli geðeinkenni tiltölulega fljótt og hleypi fólki oft í geðrof. Jafnframt fylgi sjálfsvígshætta mikilli neyslu kókaíns.

mbl.is/Hari

Geðrof af völdum kókaíns gerist á ógnarhraða

„Við fáum margt fólk sem er kannski bæði að drekka og nota mikið magn af kókaíni og hrynur síðan niður, eftir neyslulotuna, í alvarlegt þunglyndi án þess að vera með geðsjúkdóm heldur er um þunglyndisástand að ræða sem er afleiðing af kókaínneyslunni,” segir Sigurður.

Fólk sem hefur neytt kannabis í langan tíma geti einnig endað í geðrofi og sjálfsvígshættu en það gerist ekki á sama ógnarhraða og af neyslu kókaíns.

Maríanna Bernharðsdóttir, deildarstjóri fíknigeðdeildar, segir að starfsfólk fíknigeðdeildarinnar geti ekki sagt um til hvort neysla vímuefna sé að aukast eða ekki en þau sjái alvarlegar og vaxandi afleiðingar hennar. Bæði hjá hópnum sem er með tvígreiningar og eins fólki með þunga áfallasögu.

„Við sjáum í meira mæli fólk sem er að fikta í efnum eins og kókaíni. Efnum sem geta haft svo alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þetta er hópur sem leitar til okkar í auknum mæli því fólk er örvæntingarfullt og því líður svo skelfilega. Fólk með alvarleg og lífshættuleg einkenni, svo sem sjálfsvígshugsanir. Þetta fólk kemur hingað til okkar og fíknigeðkerfið er orðið afar þungt í vöfum. Svo erum við með hóp sem ekki er hægt að útskrifa þar sem ekkert úrræði bíður hans. Neysla er lífshættuleg og fólk sem á í miklum vanda kemur hingað og telur sig koma að lokuðum dyrum. En úrræðin eru svo takmörkuð. Á meðan við erum bara með 15 rúm þá getum við ekki tekið við nema sárafáum. Þetta þýðir að við erum stundum að slökkva elda sem kvikna aftur nokkru síðar,” segir Maríanna.

Hjördís Björg Tryggvadóttir, sálfræðingur sem stýrir dagdeildinni Teigi, segir að oft þegar fólk leiti til geðdeildarinnar eftir þjónustu telji það eina kostinn í stöðunni vera innlögn. Slíkt er metið með viðtali, hvort viðkomandi eigi að leggjast inn eða önnur þjónusta sjúkrahússins, svo sem dagdeild eða göngudeild, geti komið til greina og jafnvel nýst skjólstæðingnum betur.

„Á göngudeildinni starfa reyndir hjúkrunarfræðingar auk sálfræðinga og lækna. Stundum getur göngudeild verið hentugra úrræði en innlögn þar sem viðkomandi getur komið daglega í bæði einstaklingasviðtöl sem og í hópastarf. Fólk getur þannig verið í tengslum við okkur á hverjum einasta degi á meðan það er að komast yfir erfiðasta hjallann. Þegar á líður er hægt að fækka komum og færa sig úr einstaklingsstuðningi yfir í hópmeðferð á dagdeild Teigs,” segir Hjördís.

Upplýsingarnar skila sér ekki alltaf réttar heim

Þau segja að það gerist stundum að einhver komi til þeirra á fíknigeðdeildina og sé boðin innlögn að loknu viðtali. Viðkomandi er hins vegar ekki endilega tilbúinn til þess og fer heim og færir fjölskyldunni þær upplýsingar að starfsfólk deildarinnar hafi ekki viljað veita honum aðstoð og leggja hann inn. „Upplýsingarnar sem aðstandendur fá eru því ekki endilega nákvæmlega þær sömu og við veitum viðkomandi einstaklingi sem er 18 ára gamall og sjálfráða,” segir Sigurður.

Þetta veldur oft því að ættingjar eiga erfitt með að skilja hvers vegna þvinguðum úrræðum sé ekki oftar beitt en gert er á deildinni, ekki síst þegar um ungt fólk er að ræða. Þetta er að einhverju leyti byggt á misskilningi því fólk er mjög oft vistað í 72 klukkustundir á geðdeild án þess að viðkomandi vilji leggjast inn. Úrræðinu er aftur á móti ekki beitt nema brýnir hagsmunir liggi að baki, sjálfsvígshætta, alvarlegt þunglyndi eða geðrof.

mbl.is/Hari

Hjördís segir mikilvægt að hafa í huga að þegar fólk glímir við fíknivanda þá er sá vandi ekki læknaður án þess að manneskjan sé tilbúin til þess að takast á við hann. „Þú þarft að vera tilbúinn að horfast í augu við það að vandinn er til staðar, hann er þessi og þig þarf að langa til að breyta honum og leggja á þig alls konar vinnu til að ná því fram.

Við skiljum svo vel að foreldrar vilji setja viðkomandi einstakling í hendurnar á okkur eða öðru fagfólki og honum sé skilað heilbrigðum til baka þannig að hann geti farið aftur út í lífið og látið drauma sína ræstast en því miður er þetta ekki þannig. Þetta er langt ferli og það eru oft nokkrir kollhnísar á leiðinni sem því miður geta verið lífshættulegir. Þannig að maður þarf að vita hvenær á að grípa inn til að afstýra hörmunum með nauðungarvistunum og hvenær hlutirnir eru að gerast á annan hátt,” segir Hjördís.

Þvinganir gefa ekki góða raun

Maríanna segir að rannsóknir sýni og það hafi sýnt sig hjá Landspítalanum að ekki sé góður árangur af því að þvinga fólk í fíknimeðferð en vissulega beiti geðsviðið oft nauðungarvistun í 72 klukkustundir eins og heimild er til án þess að þurfa að óska sérstaklega eftir því við yfirvöld.

„Það gerist í raun nánast á hverjum einasta degi sem einhverjir eru nauðungarvistaðir til skemmri tíma á meðan við erum að reyna að átta okkur á vandanum. Síðan förum við oft út í lengri nauðungarvistanir en það er ekki endilega vænlegra til árangurs líkt og rannsóknir hafa sýnt fram á,” segir Maríanna.

Ekki heimilt að svipta fólk sjálfræði vegna neysluvanda

Lögum um nauðungarvistanir og sjálfræðissviptingar var breytt árið 2016 og ber töluvert á því að upplýsingar um hvað felist í lögunum séu á reiki. Fjallað er um nauðungarvistanir í 19. grein lögræðislaganna. 

Sigurður segir að árið 2016 hafi heimild til þess að sjálfræðissvipta fólk eingöngu vegna neysluvanda verið felld út. „Ekki er hægt að svipta fólk sjálfræði sem er að fara sér að voða með langvinnri neyslu, til að mynda að eyðileggja í sér lifrina eða önnur líffæri. Heldur þarf að vera geðveiki fyrir hendi svo hægt sé að beita þessu úrræði.“

Nauðungarvistun er einkum með þrennum hætti samkvæmt lögunum: Læknar geta nauðungarvistað fólk í allt að 72 tíma eins og kom fram hér að framan án þess að leita heimildar en ákvörðunin þarf að vera vel rökstudd. Bæði læknirinn sem skrifar undir nauðungarvistunina og sjúkrahúsið sem á hlut að máli geta fengið á sig kæru frá þeim sem er nauðungarvistaður ef hann sættir sig ekki við úrskurðinn og er það þá héraðsdómara að úrskurða þar um. 

Þau segja að í ákveðnum tilvikum sé 72 tíma nauðungarvistun beitt þó svo viðkomandi sé ekki með geðsjúkdóm. Það er þegar fólk er í geðrofsástandi vegna neyslu og óttast er um líf þess. 

„Ef til dæmis ungmenni sem reykir mikið kannabis fær mikil geðrofseinkenni og óttast er um líf þess þá getum við gripið inn í með 72 tíma nauðungarvistun. Ef við teljum að viðkomandi þurfi á lengri vistun að halda án þess að hann vilji það þá ber okkur að hafa samband við félagsþjónustu í sveitarfélaginu þar sem viðkomandi er með lögheimili og beina því til hennar að sækja um nauðungarvistun í allt að 21 dag hjá sýslumanni. Sýslumaður úrskurðar síðan um það að fengnu læknisvottorði og greinargerð frá félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags. Þessum úrskurði er síðan hægt að skjóta til héraðsdóms,“ segir Sigurður.

Þriðji kosturinn er síðan sá að læknar geta sótt um allt að 12 vikna framlengingu á nauðungarvistun án þess að viðkomandi sé sjálfræðissviptur. „En ef þetta dugar ekki til og um endurteknar komur á geðdeild er að ræða og allt kemur fyrir ekki er hægt að beina því til félagsþjónustu eða aðstandenda að sækja um sjálfræðissviptingu til héraðsdóms. Ef fallist er á það af dómara (á grundvelli læknisvottorðs) er viðkomandi yfirleitt sjálfræðissviptur í sex mánuði eða eitt ár, og jafnvel lengur. En það er aðeins gert á grundvelli þess að viðkomandi sé með alvarlegan geðsjúkdóm auk fíknisjúkdóms,” segir Sigurður.

Verðum að geta sett okkur í spor sjúklingsins

Þau segjast oft verða vör við misskilning fólks varðandi nauðungarvistanir. Til að mynda það að ef um er að ræða nauðungarvistun í tiltekinn tíma þá sé henni ekki haggað og viðkomandi lokaður inni í þann tíma.

„En það er ekki svo enda mæla lögin fyrir um að við megum ekki halda fólki lengur en brýna nauðsyn ber til. Okkur ber að sleppa viðkomandi ef honum batnar á tímabilinu og ástandið, sem var forsenda nauðungarvistunar, er ekki lengur til staðar. Sama gildir gagnvart sjálfræðissviptum sjúklingum,“ segir Hjördís og bætir við að þetta eigi ýmsir aðstandendur erfitt með að skilja. „En við verðum líka að geta sett okkur í spor sjúklingsins sem er sviptur frelsi. Hér verður að fara varlega og fylgja lögum í hvívetna, alltaf.”

Sigurður og Maríanna taka undir þetta enda sé það heilagasti réttur einstaklingsins að ganga um og geta um frjálst höfuð strokið í samfélaginu.

Frá ár­inu 2000 hef­ur rúm­um á geðsviði Land­spít­al­ans fækkað úr 247 í 114 á tíu legu­deild­um. Auk þess sem Land­spít­al­inn rek­ur átta dag- og göngu­deild­ir og eitt sam­fé­lags­geðteymi. Niður­stöður far­alds­fræðirann­sókna benda til þess að um 45% lands­manna þurfi á geðheil­brigðisþjón­ustu að halda ein­hvern tím­ann á æv­inni og eft­ir­spurn­in hef­ur auk­ist jafnt og þétt.

Eða líkt og María Ein­is­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri geðsviðs Land­spít­al­ans, bend­ir á má rekja rót ör­orku á Íslandi í 38% til­vika til geðsjúk­dóma og þetta hlut­fall fer hækkandi, einkum meðal ungra karl­manna.

Ýmsar áherslubreytingar hafi átt sér stað í meðferð við geðsjúkdómum á þessu tímabili og er aukin áhersla lögð á endurhæfingardeildir, göngu- og dagdeildir, frekar en innlagnir. Á þessu tímabili hefur rúmum á bráðadeild geðsviðsins fækkað um 44%. Á sama tíma nemur fólksfjölgunin 25%. 

Sigurður segir að það gefi auga leið að bráðadeildirnar anni ekki álaginu enda hafi endurhæfingar- og dagdeildirnar teppst vegna fráflæðisvanda með þeim afleiðingum að það mæðir miklu meira á bráðadeildunum en til stóð þegar rúmunum var fækkað á sínum tíma.

Í sumar þurfti að loka legudeildinni á fíknigeðdeildinni í sjö vikur en úrræði deildarinnar voru opin að mestu leyti, það er göngu- og dagdeildin. Móttökugeðdeildirnar tóku á móti sjúklingum en rúmum fækkaði um 15-18. Þetta var harðlega gagnrýnt og segir Sigurður að vonir standi til að hægt verði að fá nægt fjármagn til þess að reka þessar þjónustueiningar allan ársins hring auk þess að greiða fyrir sumarafleysingar svo hægt sé að að manna deildirnar hjúkrunarfólki.

„Stærsta áhyggjuefnið til lengri tíma litið er mönnunarvandinn á Landspítalanum, einkum og sér í lagi hjúkrunarfræðinga. Við búum vel varðandi sálfræðinga en hefur gengið illa að manna stöður hjúkrunarfræðinga, lækna og félagsráðgjafa," segir hann.

Af 36 voru 28 með þrjú lyf eða fleiri í blóði

Sjúkrasjóðir umönnunarstétta á Íslandi eru við það að tæmast vegna kulnunar fólks í starfi og Sigurður segir að þegar álagið er jafn mikið á starfsfólki og raun ber vitni þá beri meira á veikindum og starfsfólk oft við það að bugast af álagi. „Þetta gerist á sama tíma og holskefla mikillar kókaínneyslu og annarrar neyslu í samfélaginu ríður yfir okkur,” segir Sigurður.

Af þessum 36 einstaklingum sem talið er að hafa látist af ofskömmtun lyfja það sem af er ári höfðu 15 fengið litlu eða engu af þeim lyfjum sem í þeim fundust ávísað af lækni. Hjá 21 fundust ópóíðar, áfengi hjá níu, sex voru með amfetamín í líkamanum og sami fjöldi hafði neytt kannabis fyrir andlátið. Fimm þeirra höfðu tekið inn kókaín. Í 20 einstaklingum fundust róandi lyf (benzodíazepín) en mismikið þó. Alls fundust þrjú eða fleiri lyf/efni í blóði 28 þeirra. 

Hjördís segir að neyslumynstur ungs fólks hafi breyst á undanförnum árum. Til dæmis hafi fyrir nokkrum árum mikið borið á neyslu kannabis og áfengis meðal þeirra sem leituðu eftir aðstoð fíknigeðdeildarinnar. „Þessa neyslu var oft hægt að stöðva með því að aðstoða fólk á göngudeild. En í dag er blandan önnur. Nú er það kannabis og kókaín, kannabis og amfetamín eða kannabis og einhver verkjalyf. Þetta er verri blanda sem erfitt er að aðstoða fólk við hætta neyslu á án innlagnar vegna fráhvarfa, geðrofs eða sjálfsvígshættu sem fylgir þessari hörðu neyslu,“ segir hún. 

Maríanna tekur undir þetta því erfitt geti reynst fyrir fólk að stöðva neysluna nema það komist í skjól og fái aðhlynningu fagfólks. „Biðlistinn á legudeildina er þungur en þar er veikasta fólkið og þeir sem eru í mestri neyð,“ segir Maríanna.

Brýnt að auka framboð úrræða

Sigurður segir alveg ljóst að heildarfjöldi rúma við fíknisjúkdómum í í samfélaginu, hvort sem fólk er með geðsjúkdóma eða ekki, annar ekki eftirspurninni.

„Eftirspurnin er töluvert meiri en framboðið og ég held að það sé mjög brýnt verkefni að auka framboðið núna á meðan þessi faraldur er. Við reynum að stýra þessu flæði og forgangsraða með því að taka þá fyrst inn sem eru í mikilli neyð,” segir Sigurður. Fyrir vikið geta aðrir þurft að bíða vikum saman eftir plássi á legudeildinni til að komast í inniliggjandi afeitrun. Þrátt fyrir að fólk komist ekki strax í innlögn er samt reynt að fylgjast með því af starfsfólki deildarinnar en stundum geti það reynst þrautin þyngri, ekki síst ef fólk er heimilislaust. 

Hjördís segir að það sé ekki nóg með að það vanti afeitrunarpláss heldur líka hvað tekur við að lokinni afeitrun. „Þannig að þetta sé ekki endurtekið ferli að fólk komi hingað í einhvern tíma en endi aftur í neyslu að lokinni meðferð hér,” segir Hjördís.

Barna- og unglingageðdeild Landspítala
Barna- og unglingageðdeild Landspítala mbl.is/Hari

Hún segir að þau myndu gjarnan vilja hafa yfir að ráða endurhæfingareiningu sem tilheyrði fíknigeðdeildinni og þar væri boðið upp á framhaldsmeðferð.

„Fyrir fólk sem hefur lokið afeitrun en þarf lengri tíma til að byggja sig upp með aðstoð fagfólks á þessu sviði. Fyrirmyndirnar eru til staðar því í öðrum ríkjum á Norðurlöndum eru rekin slík meðferðarhús, svo sem í Noregi. Þar byrjar fólk í innlögn þar sem því er boðið upp á sálfræðimeðferð og lífsleikni, svo sem að vakna á morgnana, elda, búa um rúmið sitt og taka ábyrgð á fjármálum sínum. Sem sagt um algjöra heildarnálgun er að ræða,” segir Hjördís.

Sigurður tekur undir þetta og það vanti ýmiskonar úrræði og fjölbreytni úrræða en því sé alls ekki þannig farið að það vanti allt og engin úrræði séu í boði. „Geðheilbrigðiskerfið er alls ekki hrunið eins og oft er látið í veðri vaka. Við erum með margvísleg úrræði en vandinn er líka sá að halda fólki í úrræðunum. Við stöndum svo oft frammi fyrir því að fólk útskrifast gegn læknisráði, nú eða útskrifast með meðferðarplan og góð áform en heldur ekki út.

Að tilhlutan Landspítalans, Barnaverndarstofu og umboðsmanns barna er nú búið að setja á fót stýrihóp á vegum velferðarráðuneytisins, með aðkomu bæði heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytisins, til þess að reyna að finna lausn á vanda ungmenna yngri en 18 ára sem eru með neysluvanda og þurfa afeitrun og meðferð á sjúkrahúsi.

Sigurður segir að vandi ungmenna yngri en 18 ára með neysluvanda sé kapítuli út af fyrir sig og er vandi sem ekki hefur enn tekist að finna viðunandi lausn á, en er nú verið að vinna að.

„Þessum hópi hefur hingað til verið sinnt af tveimur aðilum. Annars vegar heilbrigðiskerfinu, sem er þá barna- og unglingageðdeild LSH (BUGL) og SÁÁ (Vogi), og síðan er það barnavernd. Það er ekki alveg rétt að börnum með neysluvanda sé alfarið vísað frá barna- og unglingageðdeildinni, en það vantar sérhæfða fíknigeðdeild hér á Landspítalanum eða annars staðar sem getur tekið ungmenni yngri en 18 ára inn í þvingaðar innlagnir þar sem ekki er um að ræða blöndun við eldri einstaklinga. Það er það sem vantar en við höfum samt tekið við börnum yngri en átján ára inn til okkar í innlögn á fíknigeðdeildina ef um mjög bráða nauðsyn er að ræða. Eins eru þau tekin inn á bráðageðdeildina (32C) þegar liggur ljóst fyrir að viðkomandi þarf á geðgjörgæslu að halda og ekki er hægt að koma viðeigandi úrræðum við á neyðarvistuninni á Stuðlum.

Stuðlar eru ekki heilbrigðisstofnun heldur úrræði á vegum Barnaverndarstofu. Þar er hægt að vista  börn og unglinga með neysluvanda gegn þeirra vilja, það er nauðug, og þar er viss aðstaða til þess - en þegar þessi börn eru orðin veik þá eru Stuðlar ekki rétti staðurinn fyrir þau enda ekki heilbrigðisstofnun. Þar hefur þó SÁÁ komið inn með ráðgjöf fíknilækna frá Vogi. Sjúkrahúsið Vogur hefur einnig tekið þessi börn að sér til fíknimeðferðar, en blöndun aldurshópa hefur verið gagnrýnd og Vogur hefur því kippt að sér höndunum hvað varðar meðferðir fyrir börn,” segir Sigurður.

Hafa þurft að útskrifa fárveikt fólk beint á götuna

Geðsviðið líkt og önnur svið Landspítalans glímir við fráflæðisvanda þar sem fólk sem þarf á vistun að halda á hjúkrunarrýmum sem ekki eru til staðar. Nokkrir slíkir sjúklingar hafa undanfarið þurft að dvelja á fíknigeðdeildinni vegna þessa. Þetta þyngir rekstur deildarinnar mjög enda hefur hún aðeins yfir að ráða 15 rúmum. 

„Það er þar sem skórinn kreppir,” segir Hjördís, „fólk sem er fast hjá okkur og ekki er hægt að útskrifa af Landspítalanum þar sem fá úrræði eru í boði fyrir viðkomandi annars staðar.”

Þau segja það ekki eina vandann varðandi útskrift af deildinni því líkt og Maríanna segir hafi síðasti vetur einkennst af þessum vanda, að fólk sem átti hvergi höfði sínu að halla, var útskrifað.

„Við þurftum að útskrifa fólk beint á götuna og kannski fárveikt fólk sem jafnvel var með bæði þungan neysluvanda og þungan geðsjúkdóm. Tvígreinda einstaklinga sem jafnvel eru á götunni. Þeir koma hingað inn í einhvern tíma og eru síðan útskrifaðir aftur á götuna þar sem það eru engin úrræði í boði.”

Eðlilega blöskrar fólki þegar það heyrir þetta og það er ekkert öðruvísi með okkur sem vinnum hérna, segir Hjördís og að þetta sé ekki eitthvað sem þau séu sátt við. 

Umboðsmaður Alþingis gagnrýnir úrræðaleysi sveitarfélaga þegar kemur að þessum hóp, ekki síst Reykjavíkurborgar þar sem vandinn er mestur þar sem íbúarnir eru flestir. Vandinn er hjá fleiri en þeim sem eru með tvígreiningar því einstæðir foreldrar, sem glíma við neysluvanda, eru að missa húsnæðið sem  þeir búa í með börnum sínum og eiga ekki í neitt hús að venda. Að fara að vinna í grunnvinnu varðandi fíknina og sálfræðivinnu á sama tíma og þú átt hvergi heima er erfitt og í raun varla gerlegt.

Dæmi eru um að fólk leiti þá á náðir meðferðarúrræða til þess að komast í skjól og segir Sigurður ekki skrýtið að fólk reyni að bjarga sínum bráða húsnæðisvanda með úrræðum í heilbrigðiskerfinu. Þannig sé kannski hægt að redda málunum í einhvern tíma. 

Annað sem þau sjá mun á er hvað áfangaheimilin eiga erfitt með að taka á móti nýju fólki þar sem þau eru mettuð. „Heimili sem eiga að vera hluti af endurhæfingu á leið út í lífið að nýju. Þar bjó fólk áður í nokkra mánuði eftir meðferð og fékk sér síðan íbúð á almennum markaði. Núna er þetta eiginlega ekki inni í myndinni þar sem fólk býr orðið á áfangaheimilunum,” segir Hjördís.

Á áfangaheimilum er neysla bönnuð en þeir sem eru í neyslu gista í Konukoti og Gistiskýlinu jafnvel langtímum saman. Stundum kemur upp sú staða að þessi neyðarúrræði taka ekki við fólki og þá er ekkert annað í boði en gatan.

mbl.is/Hari

Þær eru bráð karla sem leita uppi konur sem eiga hvergi skjól

Hún er á þrítugsaldri og er á götunni vegna neyslu og geðrænna veikinda. Fjölskylda hennar er ráðalaus og óttast mjög um afdrif hennar í vetur. Því gatan er ekki heimili og ekki öruggur staður, ekki síst fyrir ungar konur þar sem hópur karla leitar slíkar konur uppi og nýtir sér neyð þeirra. Þær eru bráð þessara karla, konur sem eiga hvergi skjól.

„Ég sá hana í fyrsta skipti í geðrofsástandi eftir að hún tók amfetamín og þá var hún lögð inn á geðdeild að eigin ósk. Þá hafði hún verið í amfetamínneyslu í nokkra daga samfleytt. Hún var gríðarlega grönn á þessum tíma, örugglega ekki nema rúmlega fjörutíu kíló. Þetta er fyrir þremur eða fjórum árum.

Áður að þessu kom hafði hún notað alls konar fíkniefni og kannabisneyslan kom á svipuðum tíma og hún fór að drekka áfengi eða um fimmtán ára aldur.

Ekkert af þeim efnum hafði farið svona með hana þó svo að hún hafi oft verið erfið í samskiptum. Eitthvað sem við litum bara á sem kost, hún var mjög ákveðin og lét engan vaða yfir sig. En eftir að hún veiktist varð hún nánast ósjálfbjarga og á erfitt með að tjá sig á sama hátt og áður,” segir náinn ættingi hennar í samtali við mbl.is.

Hann segir að hún hafi alltaf átt í skrýtnum samböndum við karlmenn og yfirleitt verið með mönnum sem eru talsvert eldri en hún. Nokkuð mörg ár eru síðan hún fór í meðferð og gekk ágætlega þar. Kynntist þar manni sem var að nota fíkniefni í æð. Þau stóðu sig bæði ágætlega í einhvern tíma en féllu svo bæði.

 Hún átti marga góða vini hér áður en fáir ef engir þeirra treysta sér í að vera í samskiptum við hana í dag vegna þess hversu veik hún er. Hún er full ranghugmynda varðandi aðra og mistúlkar oft viðbrögð fólks.

Oft getur verið betra fyrir fólk að leggjast ekki inn …
Oft getur verið betra fyrir fólk að leggjast ekki inn á geðdeild heldur nýta sér meðferðarúrræði á göngu- og dagdeildum. mbl.is/Hari

Búin að mála sig út í horn alls staðar

„Okkur er alltaf sagt að hún glími við persónuleikaröskun en við höfum horft á hana í geðrofi sem fylgir geðhvarfasjúkdómum og það eru slíkir sjúkdómar í fjölskyldunni. Hún er með ranghugmyndir og talar við ósýnilegt fólk. Auðvitað getur geðrofið tengst neyslunni en það er ekki hægt að fullyrða það. Enda veit enginn í hversu mikilli neyslu hún er eða hefur verið í. Enginn nema hún sjálf. Jafnframt er hún mjög hvatvís og eyðir öllum peningum sem hún fær og oft í einhverja tóma vitleysu. Hún gistir kannski á hótelum og drekkur út peningana á nokkrum dögum. Hún er búin að mála sig út í horn alls staðar. Jafnvel rónarnir hafa hver annan en hún er ein. Hún er allt öðru vísi enda svo ofboðslega veik og enginn getur verið nálægt henni,” segir hann.

Hann segir að þegar henni líði sem verst og fjölskyldan hafi óttast um líf hennar hafi þau reynt að fá hana lagða inn á geðdeild án árangurs þar sem hún hefur ekki viljað sjálf leggjast inn.

„Stundum óskar hún sjálf eftir því að leggjast inn þar sem hún á engra kosta völ en er þá oft vísað á brott þar sem það er enginn tilbúinn til að taka á móti henni. Henni hefur jafnvel verið vísað frá Konukoti og þær konur sem ekki fá inni í Konukot hafa í engin önnur hús að venda. Hvað bíður hennar á götunni þar sem karlar leita uppi ungar konur eins og hana sem þeir misnota.

Það á enginn að vera í þessum sporum

Það á enginn að vera á götunni í þessu velferðarþjóðfélagi sem við segjum Ísland vera. Hún ráfar um og reynir að komast í skjól einhvers staðar og núna er að koma vetur. Við vitum alveg að hún er ekki auðveld og mætir ekki í viðtöl sem henni er ætlað að mæta í hjá félagsþjónustunni en hún er svo veik að hún er einfaldlega ekki fær um það. Manneskja eins og hún er ekki fær um að sinna slíku. Það er eðli málsins samkvæmt ekkert auðvelt að nauðungarvista fólk en í sumum tilvikum er ekkert annað úrræði í boði til þess að afeitra fólk eins og hana,” segir fjölskylda ungu konunnar sem blaðamaður ræddi við.

Þau segjast óska þess að þurfa ekki að vera í þessum sporum – að vilja hana vistaða á geðdeild án hennar vilja en þau sjái ekkert annað sem mögulega gæti bjargað lífi hennar eins og staðan er í dag.

mbl.is/Hari

Foreldrar hennar reyndu að halda henni uppi í einhver ár, leigðu fyrir hana íbúð og keyptu mat og annað fyrir hana. En það gekk ekki til langs tíma þar sem þangað leitaði fólk sem líka var í neyslu og íbúðin varð fljótt að bæli. Þar sem raunveruleikaskyn hennar er ekkert og hvatvísin slík að hún æðir beint upp í fangið á næstu manneskju.

„Hún hugsaði svo vel um sig áður en í dag er það allt farið og erfitt að ímynda sér að þetta sé sama manneskjan og hún var fyrir nokkrum árum. Það sem þyrfti að gera er að koma henni inn á lokaða deild til þess að afeitra hana og svo þarf hún á virkri eftirmeðferð að halda. Að öðrum kosti á hún ekki afturkvæmt út á vinnumarkaðinn en henni tókst að ljúka námi áður en fíknin tók af henni völdin.

Eins og staðan er í dag þá er hún of veik til þess að sækja sér aðstoð sjálf og því ófær um að fara í meðferð eins og á Laugarásnum. Hún þarf líka að komast í búsetuúrræði,” segja þau.

Til að mynda skorti hana innsæi og hún segi eitt í dag og annað á morgun – einn daginn segist hún vera að fara á geðdeild en næsta dag segist hún kannski geta unnið á geðdeild.

Nauðungarvistun hræðilegur kostur en það eina sem gæti bjargað henni

„Nauðungarvistun er hræðilegur kostur en málið er að ástandið á henni er þannig í dag að það er sennilega eina úrræðið sem gæti bjargað henni. Ef ég væri í hennar sporum þá vildi ég óska þess að einhver tæki þessa ákvörðun fyrir mig. Það er að vista mig á geðdeild þangað til ég fengi innsæið að nýju,” segir manneskja sem er henni nákomin.

Fjölskylda ungu konunnar segir að þrátt fyrir að gott sé að vita að Konukot taki á móti konum sem eiga í miklum vanda þá sé það ekki nóg. Starf Konukots byggist á starfi sjálfboðaliða. Hætta sé á ofbeldi því þar gisti konur sem eru í neyslu og einhverjar eru ofbeldishneigðar. Aðrar séu ekki í neinni neyslu og aðrar glíma við geðrænan vanda. Bjóða þurfi upp á úrræði fyrir þessar konur þar sem fagfólk starfi sem kunni að takast á við vanda þeirra.

„Við erum sterkt bakland fyrir hana og gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að styðja við hana en það eru ekki allir sem eiga slíkt bakland því við erum með fólk sem á enga að og þarf á góðum málsvara að halda. Eitthvað sem ekki öllum stendur til boða,” segja þau og benda á að áður hafi það verið neyslan sem hafi verið það sem þau höfðu mesta áhyggjur af en í dag sé það geðvandi hennar sem þau óttast mest.

Hún fór í meðferð en féll og hún hefur verið nauðungarvistuð í þrjá sólarhringa á geðdeild en sleppt eftir það þar sem talið var að geðrofið stafaði af neyslu ekki geðhvörfum og þá ekkert hægt að gera fyrir hana þar.

„Við viljum bjarga henni úr sjálfsvígshugleiðingum og tryggja henni aðstoð sem hún er ekki að fá. Við höfum komið að lokuðum dyrum hjá velferðar- og heilbrigðiskerfinu og erum að gefast upp. Veikasta fólkið okkar er á götunni. Fólk sem hefur ekki vit fyrir sjálfu sér og fer ekki eftir neinum reglum þar sem það getur það ekki. Við höfum tekið hana inn á heimilið þegar hún hefur verið veik en vitum oftast ekki hvar hún heldur sig því hún býr á götunni. Þú ferð ekki og bankar upp á hjá fólki sem er á götunni og kannar hvernig það hefur það. Þegar hún hefur verið hér heima höfum við þurft að kalla lögreglu til að aðstoða okkur því hún er stjórnlaus í geðrofi. Þá var hún vistuð í fangaklefa sem er skelfilegt því hún er fárveik en ekki glæpamaður. Hún missir oft stjórn á skapi sínu og er í raun ekki fær um að búa í hefðbundnu leiguhúsnæði heldur þyrfti hún að vera í úrræði fyrir veikt fólk eins og hana. Lögreglan hefur hins vegar komið mjög vel fram við hana og yfirleitt sýnt skilning þó svo að hún geti verið mjög erfið,” segja aðstandendur hennar sem óttast að ekkert annað sé í boði fyrir hana í vetur en að „hírast í einhverjum skúmaskotum,“ segir hennar nánasta fjölskylda.

Sigurþóra Bergsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir koma að stofnun nýrra samtaka …
Sigurþóra Bergsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir koma að stofnun nýrra samtaka um rekstur meðferðarseturs fyrir ungt fólk. mbl.is/Hari

Fór í gegnum flest úrræði án þess að fá hjálp

Sigurþóra Bergsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, standa að stofnun samtaka um meðferðarsetur fyrir ungt fólk. Stofnfundurinn er á mánudagskvöldið, á afmælisdegi Bergs Snæs, sonar Sigurþóru. Hann hefði orðið 22 ára þann dag ef hann hefði lifað en hann framdi sjálfsvíg aðeins 19 ára gamall.

Hann fór í gegnum flest þau úrræði sem voru til hjálpar án þess að fá þá hjálp sem hann þurfti á að halda og hann missti vonina með þessum skelfilegu afleiðingum.

Sigurþóra segir að fjölmargir séu í sömu sporum og hennar fjölskylda var í og úrræðaleysið sem blasir við fjölskyldum ungmenna sem eiga í vanda sé hræðilegt. „Við sjáum það á viðtölum við alla þessa foreldra að ráðaleysið er algjört. Við finnum að stjórnvöld vilja gera eitthvað en við erum á sama tíma ekki að upplifa aðgerðir.

Ef maður skoðar samfélagsmiðla þá blasir þetta alls staðar við. Nú er nóg komið, unga fólkið okkar og alls konar hópar í gangi þar sem umræðuefnið er svipað – hvað getum við gert,“ segja þær Sigurþóra og Sigrún.

Hvernig varð Kvennaathvarfið til kom upp í huga Sigurþóru þegar hún var sem oftar að hugsa um hvað væri til ráða.

„Það sem við erum að reyna að gera er að koma verkefninu af stað og saman geti stærri hópur haldið verkefninu áfram, að stofna meðferðarsetur fyrir ungt fólk. Við fjölskyldan stofnuðum sjóð í minningu Bergs Snæs eftir að hann lést og mun sjóðurinn leggja samtökunum til stofnfé og vonandi koma fleiri samtök og einstaklingar að verkefninu sem og stjórnvöld.

Stofnfundur Samtaka um kvennaathvarf var haldinn 2. júní 1982. Þar var ákveðið að opna athvarf fyrir konur sem ekki gætu búið heima hjá sér vegna ofbeldis og 6. desember sama ár var Kvennaathvarfið opnað. Samtök um kvennaathvarf voru í upphafi grasrótarsamtök líkt og við erum að tala um varðandi þessi samtök. Það tók Kvennaathvarfið sex mánuði og vonandi verðum við komin með einhverja starfsemi í gang eftir álíka langan tíma, það er í vor.”

Draumurinn er kynskiptar innlagnardeildir auk göngu- og dagdeilda

Að sögn Sigurþóru og Sigrúnar er hugmyndin að koma á laggirnar úrræði fyrir ungmenni á aldrinum 18-25 ára.

Sigrún segir að þær sjái fyrir sér meðferðarsetur þar sem ungt fólk geti komið og fengið ráðgjöf, ekki ósvipað því sem Virk og starfsendurhæfingar víða um land bjóða upp á og eins verði hægt að leggjast inn fyrir þá sem þess þurfa. „Með stofnun samtakanna vonumst við til þess að hægt verði að safna saman þekkingunni á þessum málaflokki og fara í þá vinnu sem þarf til þess að þetta verði að veruleika.“

Sigurþóra segir að ætlunin sé að halda ráðstefnu um þennan málaflokk í nóvember og eins að kynna sér hvaða úrræði hafi gefist best annars staðar.

„En draumurinn er að setja upp kynskiptar innlagnardeildir auk göngu- eða dagdeilda þar sem hægt er að koma yfir daginn eða hluta úr degi og vera heima um nætur. Nálgunin er einsaklings- og áfallamiðuð, þar sem unnið er heildrænt og þverfaglega með einstaklingnum.  Göngu- eða dagdeildarúrræði er fyrir þá sem þurfa minni stuðning. Þetta gæti bæði verið línulegt, það er að upphafið sé innlögn á meðferðardeild, síðan taki dagdeild við og að lokum göngudeild á meðan ungmennið fikrar sig út í lífið að nýju. Líka verði boðið upp á að nýta sér aðeins hluta starfseminnar svo sem göngudeildina. Að öllum líkindum yrði að stigskipta verkefninu, byrja á göngudeild og svo koll af kolli.“

Sigrún segir að hugmyndin sé sú að horfa til þessa hóps sem ekki hefur fundið úrræði sem virka fyrir hann í dag, hvort sem fólk glímir við fíkn, geðrænan vanda, áföll eða eitthvað slíkt. Greining er ekki skilyrði fyrir því að fá stuðning og aðstoð. „Við erum að horfa til þess hóps sem ekki er með nein úrræði. Í raun að búa til brú á milli barna og fullorðinna án þess að það sé sett skilyrði um að viðkomandi hætti allri neyslu. Þetta er ekki sett til höfuðs einum eða neinum af þeim úrræðum sem eru þegar í boði á Íslandi heldur ný nálgun, má einnig segja nokkurs konar regnhlífarsamtök yfir það sem til er og grípa þá sem detta á milli kerfa,“ segir Sigrún.

Stofnfundur annað kvöld í Iðnó

Samtökin verða eins og áður sagði stofnuð á mánudagskvöldið í Iðnó og hefur fulltrúum stjórnvalda, fagfólki auk ýmissa hagsmunahópa, verið boðið að taka þátt í stofnun samtakanna og eru allir áhugasamir velkomnir.

„Útgangspunktur okkar er tvíþátta greiningarmódel í meðferðarstarfi fyrir ungmenni á aldrinum 18-25 ára. Hugmyndin er að vinna út frá valdeflingu og endurhæfingu og að koma ungu fólki í þessari stöðu til heilsu og virkni. Að öll meðferð miði við einstaklinginn en ekki greiningarnar. Við viljum nota bestu gagnreyndu aðferðirnar í meðferðarstarfi og flétta inn í daglegt starf listir og íþróttir og lífsleikni í breiðasta skilningi. Finna eldinn innra með unga fólkinu okkar og virkja þau til heilsu og virkni. Það liggja mikil verðmæti í þessum hóp sem ég held að við getum virkjað til hagsbóta fyrir unga fólkið okkar og ekki síður samfélagið í heild,” skrifaði Sigurþóra í aðsendri grein á Vísi fyrir nokkrum dögum.

Sigrún segir mikilvægt að koma á laggirnar úrræði þar sem ungt fólk getur fengið meðferð hjá fagfólki hvort sem það er til þess að vinna í áfallasögu viðkomandi ungmennis eða einfaldlega að aðstoða það við að vakna á morgnana og sinna daglegri rútínu sem er kannski löngu horfin úr þeirra lífi. Mikilvægt sé að slík starfsemi sé nálægt höfuðborgarsvæðinu svo hægt sé að nýta þá sérfræðiþekkingu sem þar er og það er minni kostnaður ef aðkeypt þjónusta er ekki langt frá. „Einnig er mikilvægt að vera þó aðeins fyrir utan miðbæinn til þess að hafa gott aðgengi að náttúrunni til þess að stunda útivist og fleira sem á að vera eðlilegur hluti af lífinu og höfum við áhuga á að vera með náttúrutengda endurhæfingu.“

Ekki verði um þvingað meðferðarúrræði að ræða heldur þurfi ungmenni að vera reiðubúin til þess að gera breytingar á sínu lífi og þiggja hjálp. Einnig er mikilvægt að þjónustan verði opin allan sólarhringinn þannig að ungmenni geti haft samband þegar þörfin fyrir hjálp kemur, hvort sem er að degi eða nóttu.

„Það virðist vera einhver vanmáttur þegar kemur að ungu fólk sem á erfitt, er að deyfa sig með neyslu eða öðrum sjálfsskaða og eiga við áföll, kvíða eða annan geðvanda. Ungt fólk sem dettur út úr framhaldsskólum, missir vinnugetu og/eða flakkar á milli vinna og nær ekki tökum á lífinu. Nær allir sem ég hitti frá degi til dags eiga barn, frænku eða frænda, barnabarn, bróður, systur, barn vina eða einhverja nálægt sér sem þau hafa áhyggjur af og gengur ekki nógu vel að fóta sig í lífinu sem ungar manneskjur. Tölur um vanlíðan ungs fólks, sjálfsvígshugsanir/tilraunir, brottfall úr skólum og aukning í örorku hjá þessum hóp ríma við þessar sögur.

Það að við náum ekki utan um þessi mál snýst ekki um að það vanti fagfólk eða þekkingu á Íslandi. Við eigum svo mikið af ótrúlega færu og flottu fólki menntuðu í geðheilbrigði, fíkn, áfallavinnu, endurhæfingu, kennslu og öllu hinu. Við þurfum bara að búa til vettvang þar sem við söfnum þessari þekkingu saman og búum til meðferðarúrræði miðað við það sem best gerist.

Þetta er það sem við viljum gera. Virkja allt þetta fólk sem hefur brennandi áhuga á þessum málum og setja á stofn samtök með það að markmiði að koma af stað meðferðarsetri fyrir ungt fólk á Íslandi. Nú þegar er kominn öflugur hópur fólks sem vill fara af stað í verkefnið, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingur, annað fagfólk, kennarar, háskólafólk og foreldrar og aðstandendur eins og ég,” segir Sigurþóra í greininni þar sem hún kynnti hugmyndina að baki stofnun samtakanna. 

Inga Wessman hefur sérhæft sig í jaðarpersónuleikaröskun en sjúkdómurinn herjar …
Inga Wessman hefur sérhæft sig í jaðarpersónuleikaröskun en sjúkdómurinn herjar helst á ungt fólk. mbl.is/Hari

Önnur geðræn vandamál fylgja oft jaðarpersónuleikaröskun

Inga Wessman, sálfræðingur hjá Litlu kvíðameðferðarstöðinni (Litlu KMS), sérhæfir sig í jaðarpersónuleikaröskun (borderline personality disorder, BPD). Jaðarpersónuleikaröskun er geðrænn vandi sem einkennist af slakri tilfinningastjórn, breytilegri sjálfsmynd, hvatvísi og samskiptavanda. Oftast er vandinn ekki greindur fyrr en eftir 18 ára aldur þó svo að einkennin geti komið mun fyrr fram. Um 2-6% fólks er með jaðarpersónuleikaröskun og er kynjahlutfallið jafnt þó að fyrri rannsóknir hafi bent til að röskunin væri algengari hjá konum. Oft fylgja önnur geðræn vandamál jaðarpersónuleikaröskun og má þar nefna þunglyndi, kvíða, misnotkun áfengis eða fíkniefna og átraskanir.

Til að greinast með geðröskunina þurfa fimm af níu einkennum röskunarinnar að vera til staðar yfir lengri tíma og við fjölbreyttar aðstæður.

„Það sem gerir röskunina að persónuleikaröskun er að vandinn speglar hvernig einstaklingurinn hugsar, líður og hegðar sér að jafnaði ólíkt röskunum sem vara yfirleitt í afmarkaðan tíma eins og meiriháttar þunglyndi.”

Megineinkenni jaðarpersónuleikaröskunar er slök tilfinningastjórn sem má oft rekja til mikils tilfinninganæmis. Hjá fólki með mikið tilfinninganæmi þarf minna til að kalla fram tilfinningar og viðbrögð þess eru sterkari og vara lengur heldur en hjá öðru fólki. Í öðrum geðröskunum er fólk oft með aukið næmi gagnvart ákveðnum tilfinningum, eins og kvíða í kvíðaröskunum. En tilfinninganæmi hjá fólki með jaðarpersónuleikaröskun er gagnvart flestum tilfinningum. Bæði gagnvart þægilegum og óþægilegum tilfinningum. Fólk verður því auðveldlega mjög glatt, mjög leitt og svo mjög kvíðið innan nokkurra klukkustunda eða daga svo dæmi séu tekin,” segir Inga.

Oft ranglega greint sem geðhvörf

Inga segir að algengt sé að fólk með jaðarpersónuleikaröskun sé ranglega greint með geðhvörf (bipolar) en þar standa sveiflur í skapi yfir í lengri tíma og eru sjaldgæfari ásamt því að önnur einkenni en skapsveiflur greina á milli hvorri röskun fyrir sig. Því er mikilvægt að fagfólk sem vinnur við að greina geðhvörf þekki vel til mismunagreiningar á jaðarpersónuleikaröskun og öfugt til þess að fólk fái rétta meðferð. En munurinn á þessum greiningum hefur mikil áhrif á hvort mælt sé með lyfjameðferð og þá hvaða lyfjameðferð og eins hverskonar sálfræðimeðferð og í hve miklum mæli henti viðkomandi best.

Mikill reiðivandi fylgir oft þessari röskun segir Inga. Af hverju?

„Það er kannski vegna þess að það er algengt að fólk sem er með þessa röskun noti reiði til þess að takast á við aðrar tilfinningar. Oft telur fólk að tilfinningar eins og depurð og sorg séu ekki í lagi eða séu merki um veikleika. Einnig finnst mörgum depurð eða sorg óbærileg og notar þá reiði frekar til þess að tjá tilfinningar sínar. Reiðin getur þó einnig stafað af ákveðnum kjarnaviðhorfum eins og að lífið eða aðrir séu ósanngjarnir.

Fólk með jaðarpersónuleikaröskun upplifir einnig mikla og ítrekaða tómleikakennd sem því finnst vera mjög óþægilegt ástand og algengt að fólk fái þá miklar sjálfsvígshugsanir. Tómleikakenndin getur stafað af því að fólk aftengir sig frá tilfinningum sínum vegna þess að þær eru svo margar og sterkar. Slík aftengingin, sem kallast hugrofsástand, verður einnig til þess að fólk sýnir ekki svipbrigði þegar sagt er frá mjög erfiðum hlutum en það verður til þess að aðrir eiga erfitt með að skilja og setja sig í spor þess, eða taka mark á því sem það segir. En það er vonlaust að ætla að bægja tilfinningum frá til lengri tíma og því verða þær oft mjög miklar og sterkar í kjölfarið. Fólk með jaðarpersónuleikaröskun fer á milli þessara öfga, það er enginn millivegur. Eins er fyrirvarinn oft lítill sem enginn og því mjög erfitt fyrir aðra að átta sig á því hvað er í gangi,” segir Inga.

Fyrst og fremst tilfinningavandi sem leiðir til samskiptavanda

Hún segir deilt um hvort jaðarpersónuleikaröskun sé fyrst og fremst tilfinningavandi eða samskiptavandi. Rannsóknir styðja bæði en frumniðurstöður rannsóknar sem hún er að gera benda til þess að megineinkenni röskunarinnar sé slök tilfinningastjórn sem síðan veldur vandamálum í samskiptum.

Undanfarin ár hefur Inga verið með annan fótinn í Bandaríkjunum að sérhæfa sig í díalektískri atferlismeðferð (DAM) meðferð í Seattle hjá upphafskonu meðferðarinnar Mörshu Linehan, og fá þjálfun sem meðferðaraðili og sinna rannsóknum á McLean-spítala við Harvard-háskóla og svo heima á Íslandi að klára doktorsgráðu í klínískri sálfræði og vinna á Litlu kvíðameðferðarstöðinni, en hún er nýkomin heim að fullu til starfa hjá Litlu KMS.

Til stendur að þróa og bæta þjónustu fyrir ungt fólk sem er með slaka tilfinningastjórn, bæði þá sem uppfylla greiningarviðmið jaðarpersónuleikaröskunar og einnig þá sem eru með vægari einkenni en þurfa þó aðstoð með tilfinningastjórn. Það er í samræmi við þróun á meðferð við tilfinningastjórn erlendis, en meðal þeirra sem greinast seinna með jaðarpersónuleikaröskun má oft greina erfiðleika við tilfinningastjórn mun fyrr sem hefði mátt grípa inn í og hugsanlega koma í veg fyrir að vandinn yrði jafn mikill á fullorðinsárum.

Annað einkenni jaðarpersónuleikaröskunar er höfnunarnæmi. Hún segir að það sé ekkert skrýtið að þessar manneskjur upplifi það sterkt þegar þeim er hafnað, það er vegna tilfinninganæmisins. En þær eru einnig líklegri til að halda að verið sé að hafna þeim þegar svo er ekki.

„Það þarf kannski ekki meira en að vinkona hringi og segist ekki komast með þér í bíó þá upplifir þú það þannig að vinkonan vilji ekki koma með þér í bíó. Viðbrögðin við höfnun eru oft óhjálpleg og ýta jafnvel fólki í burtu, til dæmis að segjast ætla að enda eigið líf eða að grátbiðja viðkomandi um að yfirgefa sig ekki. Fólk með röskunina á það einnig til að vera svarthvítt í hugsun sem hefur áhrif á hvernig það lítur á fólk. Oft birtist það með því að dýrka fólk og dá eina stundina en þola það ekki hina stundina.”

Inga segir einnig að „fólk með jaðarpersónuleikaröskun er oft með breytilega sjálfsmynd. Það felur í sér erfiðleika með að átta sig á eigin tilfinningum, löngunum, gildum o.s.frv. Það verður til þess að þau breyta mikið um stefnu í lífinu og aðlaga sig að því fólki sem þau eru  með hverju sinni. Það ætti því ekki að koma á óvart að þeir sem hafa röskunina hafi mikið höfnunarnæmi þar sem þeir reiða sig oft á aðra til að vita hverjir þeir eru. Því getur reynst erfitt að vera yfirgefin/n.”

Hvatvísi einn af fylgifiskunum

Hvatvísi er mjög algeng hjá þeim sem eru með jaðarpersónuleikaröskun. Til að mynda að keyra óvarlega, stunda óvarlegt kynlíf eða með ókunnugum, áfengis- eða vímuefnavandi og átköst. Það er möguleg ástæða þess að fólk með röskunina er oft ranglega greint með margar aðra raskanir eins og geðhvarfasýki, áfengis- eða vímuefnavanda og átröskun. Einnig er þetta fólk oft með reiðivanda, en það verður til þess að kjarni vandans er aldrei meðhöndlaður, sem er slök tilfinningastjórn.

Sjálfskaði og sjálfsvígshugsanir eru ekki óalgengar hjá fólki með jaðarpersónuleikaröskun.
Sjálfskaði og sjálfsvígshugsanir eru ekki óalgengar hjá fólki með jaðarpersónuleikaröskun. mbl.is/Hari

Skaða sig til þess að draga úr vanlíðan

„Svo er sjálfskaði og sjálfsvígshegðun mjög algeng hjá fólki með jaðarpersónuleikaröskun. Slík hegðun er stundum notuð til að draga úr erfiðum tilfinningum. En sjálfsvígshegðun, sjálfskaði eða hugsanir um sjálfsvíg geta dregið mikið úr vanlíðan til skamms tíma en hjálpa ekki til lengri tíma og koma í veg fyrir bata.

Stundum skaðar fólk sig eða sýnir sjálfsvígshegðun vegna þess að það leiðir til stuðnings og umhyggju frá öðrum og það kann ekki heppilegri aðferðir til þess að fá það sem það vill. Mikilvægt er að hafa í huga að rannsóknir hafa leitt í ljós að fólk með þessa röskun á oft erfitt með að muna atburðarás og á þá í erfiðleikum með að átta sig á hvers vegna það skaðar sig eða sýnir sjálfsvígshegðun. Það er því ekki endilega meðvitað að skaða sig eða sýna sjálfsvígshegðun til að fá stuðning og umhyggju.

Aðrir hugsa um sjálfsvíg og sýna sjálfsvígshegðun vegna þess að þeir vilja deyja og um 8-10% fólks með jaðarpersónuleikaröskun enda eigið líf. Það er því ljóst að sjálfsvígshugsanir og hegðun getur gegnt ólíku hlutverki og mikilvægt að bera kennsl á það svo meðferðin sé bæði markviss og árangursrík.

Skjólstæðingar öðlast betri innsýn í vandann með því að fara endurtekið yfir hvaða ytri atburðir áttu sér stað í aðdraganda sjálfskaða eða sjálfsvígshegðunar, hvað viðkomandi voru að hugsa, hvernig þeim leið og hvernig þeir brugðust við áður en þeir voru komnir í það mikla vanlíðan að gripið var til sjálfskaða eða sjálfsvígshegðunar. Þessi þjálfun byggist á keðjugreiningum sem eru töluvert ítarlegri og meira krefjandi en hefðbundin kortlagning á vanda í HAM-meðferð. Svo byggist meðferðin á því að læra hjálplegri aðferðir til að eiga við erfiðar tilfinningar, byggt á þeim upplýsingum sem fást með keðjugreiningum,” segir Inga.

Díalektísk atferlismeðferð (DAM) sem þróuð var af Marsha Linehan um 1980 er gagnreynd meðferð við jaðarpersónuleikaröskun. DAM byggist á þeirri hugmynd að fólk sé almennt að gera sitt besta en geti gert betur með því að læra hjálplegri aðferðir til að eiga við tilfinningar sínar. Þá geti það byggt upp líf sem er þess virði að lifa. Ef fólk hefur ekki þau tæki og tól sem þarf til að takast á við mjög erfiðar tilfinningar þá er ekki skrýtið að það noti þær aðferðir sem það kunni til að draga úr eða stjórna þeim jafnvel þó þær séu óhjálplegar til lengri tíma litið, því þær virka í augnablikinu. Til dæmis getur sjálfskaði komið fólki úr hugrofsástandi en til eru mun þægilegri og óskaðlegar aðferðir til þess að koma sér úr hugrofsástandi.

Flestir ná bata innan nokkurra ára

„Áður fyrir var því haldið fram að jaðarpersónuleikaröskun væri þrálátur vandi en nú er vitað að það er ekki rétt. Langtímarannsókn sem staðið hefur yfir í rúm 25 ár hefur leitt í ljós að um 50% þeirra sem greinast með jaðarpersónuleikaröskun greinast ekki lengur með hana fjórum árum seinna og fleiri ná bata þegar á líður. Einungis um 6% af þeim sem fylgst hefur verið með, hafa greinst aftur með röskunina síðar. Það er töluvert lægra hlutfall en hjá þeim sem greinast oftar en einu sinni á ævinni í alvarlegri geðlægðarlotu eða það sem í daglegu tali er kallað þunglyndi,” segir Inga.

Fordómar ríkjandi gagnvart röskuninni

Hún segir alls kyns fordóma ríkja gagnvart jaðarpersónuleikaröskun og jafnvel af hálfu þeirra sem sinna meðferð. Það hefur orðið til þess að fagfólk vill síður greina fólk með röskunina og jafnvel sleppir því að segja skjólstæðingnum frá því að þeir uppfylli greiningarviðmið fyrir röskunina.

„En það er svona svipað og að segja ekki einstaklingi með krabbamein frá sjúkdómnum, hvernig á fólk að leita sér viðeigandi meðferðar ef það veit ekki hver vandinn er?” segir Inga.

„Við vitum líka að það eitt að veita skjólstæðingi með jaðarpersónuleikaröskun fræðslu um röskunina, framvinduna og meðferð dregur úr fjölda og/eða alvarleika einkennanna. Það er því ljóst að margir sem þurfa á aðstoð að halda fá hana ekki eða fá ranga aðstoð þegar til dæmis átröskun, áfengis- og fíkniefnavandi eða þunglyndi er meðhöndlað í stað kjarna vandans,“ segir Inga Wessman. 

mbl.is