Algengt er að fólk með jaðarpersónuleikaröskun sé ranglega greint með geðhvörf (bipolar) en þar standa sveiflur í skapi yfir í lengri tíma og eru sjaldgæfari ásamt því að önnur einkenni en skapsveiflur greina á milli hvorri röskun fyrir sig.
Algengt er að fólk með jaðarpersónuleikaröskun sé ranglega greint með geðhvörf (bipolar) en þar standa sveiflur í skapi yfir í lengri tíma og eru sjaldgæfari ásamt því að önnur einkenni en skapsveiflur greina á milli hvorri röskun fyrir sig.
Algengt er að fólk með jaðarpersónuleikaröskun sé ranglega greint með geðhvörf (bipolar) en þar standa sveiflur í skapi yfir í lengri tíma og eru sjaldgæfari ásamt því að önnur einkenni en skapsveiflur greina á milli hvorri röskun fyrir sig.
Inga Wessman, sálfræðingur hjá Litlu kvíðameðferðarstöðinni (Litlu KMS), sérhæfir sig í jaðarpersónuleikaröskun (borderline personality disorder, BPD). Jaðarpersónuleikaröskun er geðrænn vandi sem einkennist af slakri tilfinningastjórn, breytilegri sjálfsmynd, hvatvísi og samskiptavanda. Oftast er vandinn ekki greindur fyrr en eftir 18 ára aldur þó svo að einkennin geti komið mun fyrr fram. Um 2-6% fólks er með jaðarpersónuleikaröskun og er kynjahlutfallið jafnt þó að fyrri rannsóknir hafi bent til að röskunin væri algengari hjá konum. Oft fylgja önnur geðræn vandamál jaðarpersónuleikaröskun og má þar nefna þunglyndi, kvíða, misnotkun áfengis eða fíkniefna og átraskanir.
Til að greinast með geðröskunina þurfa fimm af níu einkennum röskunarinnar að vera til staðar yfir lengri tíma og við fjölbreyttar aðstæður.
„Það sem gerir röskunina að persónuleikaröskun er að vandinn speglar hvernig einstaklingurinn hugsar, líður og hegðar sér að jafnaði ólíkt röskunum sem vara yfirleitt í afmarkaðan tíma eins og meiriháttar þunglyndi.”
Megineinkenni jaðarpersónuleikaröskunar er slök tilfinningastjórn sem má oft rekja til mikils tilfinninganæmis. Hjá fólki með mikið tilfinninganæmi þarf minna til að kalla fram tilfinningar og viðbrögð þess eru sterkari og vara lengur heldur en hjá öðru fólki. Í öðrum geðröskunum er fólk oft með aukið næmi gagnvart ákveðnum tilfinningum, eins og kvíða í kvíðaröskunum. En tilfinninganæmi hjá fólki með jaðarpersónuleikaröskun er gagnvart flestum tilfinningum. Bæði gagnvart þægilegum og óþægilegum tilfinningum. Fólk verður því auðveldlega mjög glatt, mjög leitt og svo mjög kvíðið innan nokkurra klukkustunda eða daga svo dæmi séu tekin,” segir Inga.
Viðtalið við Ingu birtist á mbl.is fyrr í vikunni sem hluti af stærri umfjöllun um geðheilbrigðismál.
Inga segir að algengt sé að fólk með jaðarpersónuleikaröskun sé ranglega greint með geðhvörf (bipolar) en þar standa sveiflur í skapi yfir í lengri tíma og eru sjaldgæfari ásamt því að önnur einkenni en skapsveiflur greina á milli hvorri röskun fyrir sig. Því er mikilvægt að fagfólk sem vinnur við að greina geðhvörf þekki vel til mismunagreiningar á jaðarpersónuleikaröskun og öfugt til þess að fólk fái rétta meðferð. En munurinn á þessum greiningum hefur mikil áhrif á hvort mælt sé með lyfjameðferð og þá hvaða lyfjameðferð og eins hverskonar sálfræðimeðferð og í hve miklum mæli henti viðkomandi best.
Mikill reiðivandi fylgir oft þessari röskun segir Inga. Af hverju?
„Það er kannski vegna þess að það er algengt að fólk sem er með þessa röskun noti reiði til þess að takast á við aðrar tilfinningar. Oft telur fólk að tilfinningar eins og depurð og sorg séu ekki í lagi eða séu merki um veikleika. Einnig finnst mörgum depurð eða sorg óbærileg og notar þá reiði frekar til þess að tjá tilfinningar sínar. Reiðin getur þó einnig stafað af ákveðnum kjarnaviðhorfum eins og að lífið eða aðrir séu ósanngjarnir.
Fólk með jaðarpersónuleikaröskun upplifir einnig mikla og ítrekaða tómleikakennd sem því finnst vera mjög óþægilegt ástand og algengt að fólk fái þá miklar sjálfsvígshugsanir. Tómleikakenndin getur stafað af því að fólk aftengir sig frá tilfinningum sínum vegna þess að þær eru svo margar og sterkar. Slík aftengingin, sem kallast hugrofsástand, verður einnig til þess að fólk sýnir ekki svipbrigði þegar sagt er frá mjög erfiðum hlutum en það verður til þess að aðrir eiga erfitt með að skilja og setja sig í spor þess, eða taka mark á því sem það segir. En það er vonlaust að ætla að bægja tilfinningum frá til lengri tíma og því verða þær oft mjög miklar og sterkar í kjölfarið. Fólk með jaðarpersónuleikaröskun fer á milli þessara öfga, það er enginn millivegur. Eins er fyrirvarinn oft lítill sem enginn og því mjög erfitt fyrir aðra að átta sig á því hvað er í gangi,” segir Inga.
Hún segir deilt um hvort jaðarpersónuleikaröskun sé fyrst og fremst tilfinningavandi eða samskiptavandi. Rannsóknir styðja bæði en frumniðurstöður rannsóknar sem hún er að gera benda til þess að megineinkenni röskunarinnar sé slök tilfinningastjórn sem síðan veldur vandamálum í samskiptum.
Undanfarin ár hefur Inga verið með annan fótinn í Bandaríkjunum að sérhæfa sig í díalektískri atferlismeðferð (DAM) meðferð í Seattle hjá upphafskonu meðferðarinnar Mörshu Linehan, og fá þjálfun sem meðferðaraðili og sinna rannsóknum á McLean-spítala við Harvard-háskóla og svo heima á Íslandi að klára doktorsgráðu í klínískri sálfræði og vinna á Litlu kvíðameðferðarstöðinni, en hún er nýkomin heim að fullu til starfa hjá Litlu KMS.
Til stendur að þróa og bæta þjónustu fyrir ungt fólk sem er með slaka tilfinningastjórn, bæði þá sem uppfylla greiningarviðmið jaðarpersónuleikaröskunar og einnig þá sem eru með vægari einkenni en þurfa þó aðstoð með tilfinningastjórn. Það er í samræmi við þróun á meðferð við tilfinningastjórn erlendis, en meðal þeirra sem greinast seinna með jaðarpersónuleikaröskun má oft greina erfiðleika við tilfinningastjórn mun fyrr sem hefði mátt grípa inn í og hugsanlega koma í veg fyrir að vandinn yrði jafn mikill á fullorðinsárum.
Annað einkenni jaðarpersónuleikaröskunar er höfnunarnæmi. Hún segir að það sé ekkert skrýtið að þessar manneskjur upplifi það sterkt þegar þeim er hafnað, það er vegna tilfinninganæmisins. En þær eru einnig líklegri til að halda að verið sé að hafna þeim þegar svo er ekki.
„Það þarf kannski ekki meira en að vinkona hringi og segist ekki komast með þér í bíó þá upplifir þú það þannig að vinkonan vilji ekki koma með þér í bíó. Viðbrögðin við höfnun eru oft óhjálpleg og ýta jafnvel fólki í burtu, til dæmis að segjast ætla að enda eigið líf eða að grátbiðja viðkomandi um að yfirgefa sig ekki. Fólk með röskunina á það einnig til að vera svarthvítt í hugsun sem hefur áhrif á hvernig það lítur á fólk. Oft birtist það með því að dýrka fólk og dá eina stundina en þola það ekki hina stundina.”
Inga segir einnig að „fólk með jaðarpersónuleikaröskun er oft með breytilega sjálfsmynd. Það felur í sér erfiðleika með að átta sig á eigin tilfinningum, löngunum, gildum o.s.frv. Það verður til þess að þau breyta mikið um stefnu í lífinu og aðlaga sig að því fólki sem þau eru með hverju sinni. Það ætti því ekki að koma á óvart að þeir sem hafa röskunina hafi mikið höfnunarnæmi þar sem þeir reiða sig oft á aðra til að vita hverjir þeir eru. Því getur reynst erfitt að vera yfirgefin/n.”
Hvatvísi er mjög algeng hjá þeim sem eru með jaðarpersónuleikaröskun. Til að mynda að keyra óvarlega, stunda óvarlegt kynlíf eða með ókunnugum, áfengis- eða vímuefnavandi og átköst. Það er möguleg ástæða þess að fólk með röskunina er oft ranglega greint með margar aðra raskanir eins og geðhvarfasýki, áfengis- eða vímuefnavanda og átröskun. Einnig er þetta fólk oft með reiðivanda, en það verður til þess að kjarni vandans er aldrei meðhöndlaður, sem er slök tilfinningastjórn.
„Svo er sjálfskaði og sjálfsvígshegðun mjög algeng hjá fólki með jaðarpersónuleikaröskun. Slík hegðun er stundum notuð til að draga úr erfiðum tilfinningum. En sjálfsvígshegðun, sjálfskaði eða hugsanir um sjálfsvíg geta dregið mikið úr vanlíðan til skamms tíma en hjálpa ekki til lengri tíma og koma í veg fyrir bata.
Stundum skaðar fólk sig eða sýnir sjálfsvígshegðun vegna þess að það leiðir til stuðnings og umhyggju frá öðrum og það kann ekki heppilegri aðferðir til þess að fá það sem það vill. Mikilvægt er að hafa í huga að rannsóknir hafa leitt í ljós að fólk með þessa röskun á oft erfitt með að muna atburðarás og á þá í erfiðleikum með að átta sig á hvers vegna það skaðar sig eða sýnir sjálfsvígshegðun. Það er því ekki endilega meðvitað að skaða sig eða sýna sjálfsvígshegðun til að fá stuðning og umhyggju.
Aðrir hugsa um sjálfsvíg og sýna sjálfsvígshegðun vegna þess að þeir vilja deyja og um 8-10% fólks með jaðarpersónuleikaröskun enda eigið líf. Það er því ljóst að sjálfsvígshugsanir og hegðun getur gegnt ólíku hlutverki og mikilvægt að bera kennsl á það svo meðferðin sé bæði markviss og árangursrík.
Skjólstæðingar öðlast betri innsýn í vandann með því að fara endurtekið yfir hvaða ytri atburðir áttu sér stað í aðdraganda sjálfskaða eða sjálfsvígshegðunar, hvað viðkomandi voru að hugsa, hvernig þeim leið og hvernig þeir brugðust við áður en þeir voru komnir í það mikla vanlíðan að gripið var til sjálfskaða eða sjálfsvígshegðunar. Þessi þjálfun byggist á keðjugreiningum sem eru töluvert ítarlegri og meira krefjandi en hefðbundin kortlagning á vanda í HAM-meðferð. Svo byggist meðferðin á því að læra hjálplegri aðferðir til að eiga við erfiðar tilfinningar, byggt á þeim upplýsingum sem fást með keðjugreiningum,” segir Inga.
Díalektísk atferlismeðferð (DAM) sem þróuð var af Marsha Linehan um 1980 er gagnreynd meðferð við jaðarpersónuleikaröskun. DAM byggist á þeirri hugmynd að fólk sé almennt að gera sitt besta en geti gert betur með því að læra hjálplegri aðferðir til að eiga við tilfinningar sínar. Þá geti það byggt upp líf sem er þess virði að lifa. Ef fólk hefur ekki þau tæki og tól sem þarf til að takast á við mjög erfiðar tilfinningar þá er ekki skrýtið að það noti þær aðferðir sem það kunni til að draga úr eða stjórna þeim jafnvel þó þær séu óhjálplegar til lengri tíma litið, því þær virka í augnablikinu. Til dæmis getur sjálfskaði komið fólki úr hugrofsástandi en til eru mun þægilegri og óskaðlegar aðferðir til þess að koma sér úr hugrofsástandi.
„Áður fyrir var því haldið fram að jaðarpersónuleikaröskun væri þrálátur vandi en nú er vitað að það er ekki rétt. Langtímarannsókn sem staðið hefur yfir í rúm 25 ár hefur leitt í ljós að um 50% þeirra sem greinast með jaðarpersónuleikaröskun greinast ekki lengur með hana fjórum árum seinna og fleiri ná bata þegar á líður. Einungis um 6% af þeim sem fylgst hefur verið með, hafa greinst aftur með röskunina síðar. Það er töluvert lægra hlutfall en hjá þeim sem greinast oftar en einu sinni á ævinni í alvarlegri geðlægðarlotu eða það sem í daglegu tali er kallað þunglyndi,” segir Inga.
Hún segir alls kyns fordóma ríkja gagnvart jaðarpersónuleikaröskun og jafnvel af hálfu þeirra sem sinna meðferð. Það hefur orðið til þess að fagfólk vill síður greina fólk með röskunina og jafnvel sleppir því að segja skjólstæðingnum frá því að þeir uppfylli greiningarviðmið fyrir röskunina.
„En það er svona svipað og að segja ekki einstaklingi með krabbamein frá sjúkdómnum, hvernig á fólk að leita sér viðeigandi meðferðar ef það veit ekki hver vandinn er?” segir Inga.
„Við vitum líka að það eitt að veita skjólstæðingi með jaðarpersónuleikaröskun fræðslu um röskunina, framvinduna og meðferð dregur úr fjölda og/eða alvarleika einkennanna. Það er því ljóst að margir sem þurfa á aðstoð að halda fá hana ekki eða fá ranga aðstoð þegar til dæmis átröskun, áfengis- og fíkniefnavandi eða þunglyndi er meðhöndlað í stað kjarna vandans,“ segir Inga Wessman.