Tæplega 38% öryrkja, sjö þúsund og tvö hundruð manns, eru öryrkjar á grundvelli geðröskunar sem fyrstu greiningar. Hlutfallið fer upp í 56,6% eða hátt í ellefu þúsund manns þegar litið er til allra þeirra sem eru með geðgreiningu ásamt fleiri greiningum. Mesta fjölgun örorkutilfella er meðal ungra karlmanna með geðgreiningu og hefur þeim fjölgað um 41% á síðustu sex árum miðað við upphaf áranna 2012 og 2018. Þessi hópur þarf yfirleitt á bæði heilbrigðis- og félagsþjónustu að halda, segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.
Tæplega 38% öryrkja, sjö þúsund og tvö hundruð manns, eru öryrkjar á grundvelli geðröskunar sem fyrstu greiningar. Hlutfallið fer upp í 56,6% eða hátt í ellefu þúsund manns þegar litið er til allra þeirra sem eru með geðgreiningu ásamt fleiri greiningum. Mesta fjölgun örorkutilfella er meðal ungra karlmanna með geðgreiningu og hefur þeim fjölgað um 41% á síðustu sex árum miðað við upphaf áranna 2012 og 2018. Þessi hópur þarf yfirleitt á bæði heilbrigðis- og félagsþjónustu að halda, segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.
Tæplega 38% öryrkja, sjö þúsund og tvö hundruð manns, eru öryrkjar á grundvelli geðröskunar sem fyrstu greiningar. Hlutfallið fer upp í 56,6% eða hátt í ellefu þúsund manns þegar litið er til allra þeirra sem eru með geðgreiningu ásamt fleiri greiningum. Mesta fjölgun örorkutilfella er meðal ungra karlmanna með geðgreiningu og hefur þeim fjölgað um 41% á síðustu sex árum miðað við upphaf áranna 2012 og 2018. Þessi hópur þarf yfirleitt á bæði heilbrigðis- og félagsþjónustu að halda, segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.
Samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er innan við helmingur 139 aðildarríkja stofnunarinnar með opinbera geðheilbrigðisstefnu og þrátt fyrir opinbera stefnu kosta mörg ríki litlu til að bæta þjónustuna á þessu sviði.
Samkvæmt útreikningum WHO skilar hver króna sem fjárfest er í meðferð við geðsjúkdómum sér fjórfalt til baka með bættri heilsu og getu einstaklinga til þess að fara út á vinnumarkaðinn. Að sama skapi er dýrt að bregðast ekki við og kostnaður ríkja heims vegna þess að fólk fær ekki þá meðferð sem það þarf á að halda sem hluti af hagkerfi heimsins er stjarnfræðilega hár. Í raun eru tölurnar svo háar að það er ekki hægt að skrá þær í íslenskum krónum.
Þrjú þúsund manns eru félagar í Geðhjálp og segir Anna Gunnhildur að nánast öll þjóðin tengist geðröskunum á einhvern hátt, ýmist af eigin raun eða sem aðstandendur.
„Geðheilbrigðisþjónusta er einn stærsti þáttur heilbrigðisþjónustunnar og geðraskanir eru ört vaxandi vandi í samfélaginu eins og við sjáum meðal annars í nýgengi örorku meðal ungs fólks með geðgreiningu. Hátt í 57% allra öryrkja er með geðgreiningu, ýmist eina sér eða með öðrum greiningum. Geðvandi kostar samfélagið gríðarlega háar fjárhæðir, svo ekki sé minnst á sársauka viðkomandi einstaklinga og nánustu aðstandenda þeirra,“ segir Anna Gunnhildur.
Viðtalið við Önnu Gunnhildi birtist einnig um helgina í greininni Ég fylgdi syni mínum til himna.
Geðhjálp eru hagsmunasamtök fólks með geðrænan vanda, aðstandenda þeirra, fagfólks og annarra sem láta sig geðheilbrigðismál varða. Samtökin eru að stórum hluta rekin með beinu fjárframlagi frá almenningi í gegnum stuðningsfélagakerfi sem Anna Gunnhildur segir mjög mikilvægt enda nauðsynlegt að samtökin geti veitt bæði opinberum aðilum sem og öðrum aðhald í þessum málaflokki. Sem dæmi um hversu víðfeðmur málaflokkurinn sé megi nefna að einn af hverjum þremur sem leiti til heilsugæslunnar geri það vegna geðræns vanda af einhverju tagi.
Geðheilsu almennings fer hrakandi nánast hvert sem litið er í hinum vestræna heimi og spáir WHO því að árið 2020 verði þunglyndi önnur helsta ástæða fötlunar á eftir hjarta- og æðasjúkdómum. Íslenskar rannsóknir sýna svipaða þróun meðal ungs fólks þar sem þunglyndi og kvíði hafa aukist jafnt og þétt á allra síðustu árum.
Hér á landi hafa ástæður þessarar þróunar ekki verið rannsakaðar en bent hefur verið á þætti eins og samfélagsmiðla, aukna neyslu fíkniefna, styttingu framhaldsskólans, vaxandi þátttöku ungs fólks á vinnumarkaði og almennan þrýsting og streitu í samfélaginu. Nýlega bárust fréttir af því að nýjustu rannsóknir Rannsókna og greiningar hefðu leitt í ljós að 9% ungs fólks í framhaldsskólum hefðu reynt sjálfsvíg á unglingsárunum og brá mörgum í brún við hversu hátt hlutfallið reyndist vera í íslensku samfélagi.
Anna Gunnhildur segir að Geðhjálp hafi beitt sér fyrir vitundarvakningu gagnvart geðheilbrigði ungs fólks undir merkjum Útmeð'a. „Við hvetjum ungt fólk og raunar fólk á öllum aldri til að setja líðan sína í orð og leita sér aðstoðar hjá fagfólki ef á þarf að halda. Niðurstöður rannsókna leiða því miður í ljós versnandi líðan ungs fólks, reyndar svo mjög að segja má að rauð ljós blikki fyrir framan okkur í íslensku samfélagi. Þá skiptir auðvitað höfuðmáli að úrræðin séu fyrir hendi. Ég er þeirrar skoðunar að við ættum að bregðast við með því að bjóða öllum ungmennum á aldrinum átján til tuttugu og fimm ára tíu ókeypis eða 85% niðurgreidda tíma hjá sálfræðingi eða öðrum viðeigandi fagaðila til að mæta þessum vanda. Sá kostnaður myndi skila sér ríkulega til viðkomandi einstaklinga, aðstandenda þeirra og svo samfélagsins alls.“
Geðhjálp hefur haft áhyggjur af vaxandi kulnun á vinnumarkaði. Konur í kvennastéttum, svo sem hjúkrun og kennslu, virðast vera sérstaklega útsettar fyrir kulnun í starfi. Við sjáum sjúkrasjóði stéttarfélaga komna að fótum fram vegna þessa vanda. Stéttarfélögin hafa unnið gott verk með því að beita sér fyrir vitundarvakningu meðal starfsmanna um vandann. Hins vegar er Geðhjálp þeirrar skoðunar að mestu máli skipti að vinnuveitendur taki til í sínum ranni. Því kulnun í starfi má oftast rekja til aðstæðna og krafna á vinnustað. Til að mynda vegna mikils álags, óvissu um til hvers er krafist af viðkomandi og fleira,“ segir Anna Gunnhildur.
Líkt og heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, benti á í skýrslu um geðheilbrigðismál á síðasta löggjafarþingi koma geðræn vandamál oft snemma í ljós og geta haft mikil og langvarandi áhrif á líf fólks. Um helmingur geðraskana er kominn fram á táningsárum og 75% geðraskana eru komin fram þegar einstaklingar eru á þrítugsaldri. Talið er að einn af hverjum fjórum muni einhvern tíma á ævinni glíma við geðrænan vanda.
Anna Gunnhildur segir að eina raunverulega stefnumótunin í geðheilbrigðismálum þjóðarinnar sé stefna og aðgerðaáætlun í þeim málum til ársins 2020 en framkvæmd hennar sé talsvert á eftir áætlun. Hún segir að stærsta áskorun málflokksins sé að hann nái yfir heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins og félagsþjónustu á vegum sveitarfélaganna. Í geðheilbrigðisáætluninni sé talað um að binda í lög að ríki og sveitarfélög geri með sér samstarfssamninga um framkvæmd þjónustunnar. Hins vegar viti hún ekki til að hafist hafi verið handa við að vinna að því verkefni. Meðal leiða sem Geðhjálp hefur bent á til að stuðla að betri samfellu í þjónustu og betri nýtingu fjármuna er stofnun þverfaglegs stýrihóps embættismanna í þessum málaflokki.
Geðheilbrigðisþjónusta takmarkast ekki við heilbrigðishluta velferðarráðuneytisins því fleiri koma að málaflokknum. Margir skjólstæðingar geðheilbrigðiskerfisins njóta félagsþjónustu sveitarfélaganna sem og þjónustu félagsþjónustuhluta velferðarráðuneytisins. Jafnframt koma önnur ráðuneyti að, svo sem dómsmálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið. Eins má leiða að því rök að fjármálaráðuneytið, sem og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, ættu að eiga fulltrúa í slíkum þverfaglegum stýrihópi sem hugmyndin er að starfi í nánum tengslum við notendur
Með slíkum þverfaglegum stýrihópi væri vonandi hægt að vinna enn betur í þágu þessa hóps og nýta um leið fjármunina betur. Fordæmin eru fyrir hendi, til að mynda hafa stýrihópar á sviði byggðamála og mannréttindamála þvert á ráðuneyti gefið góða raun.
Meginhlutverk hópsins yrði að vinna að stefnumótun og samhæfingu í geðheilbrigðisþjónustu á vegum ríkis og sveitarfélaga til næstu ára. Með sama hætti yrði hópnum falin eftirfylgni og eftirlit með framkvæmd stefnunnar á ólíkum sviðum þvert á ráðuneyti.
„Stýrihópurinn gæti greint vandann og hversu miklum fjármunum er varið til hans því umfangið er mikið og vex og vex. Ég held að við nýtum fjármagn best með því að bjóða stuðning strax og fólk veikist, bæði við það sjálft og nánustu aðstandendur, þ.m.t. börn í fjölskyldunni. Ekki bara út frá fjárhagslegu sjónarmiði heldur líka til að stuðla að betri árangri í þágu einstaklinga og fjölskyldna þeirra.
Tíminn hjá börnum og ungmennum með geðrænan vanda er til að mynda afskaplega dýrmætur og nokkrir mánuðir geta valdið því að vandi og vanlíðan vinda verulega upp á sig. Börn eiga að fá að lifa við gott geðheilbrigði eins og líkamlegt heilbrigði. Biðlistar eftir þjónustu stofnana á borð við BUGL, Greiningarstöð ríkisins og Þroska- og hegðunarstöð eiga ekki að vera til, a.m.k. á að setja lög um að bið barna eftir þjónustu megi ekki fara yfir ákveðin tímamörk eins og gert er í löndum eins og Bretlandi,“ segir Anna Gunnhildur og bætir við að fólk með geðfötlun standi hvað höllustum fæti allra hópa í samfélaginu, þar með talið annarra hópa fatlaðs fólks í samfélaginu.
„Hann hefur lengi staðið í skugganum og verður fyrir margháttaðri og oft ósýnilegri mismunun í samfélaginu, t.a.m. má geta þess að tölfræði bendir til þess að fólk með geðröskun sé beitt einhvers konar þvingun á hverjum degi á Íslandi. Þá hafa vinnuveitendur mesta fordóma gagnvart því að ráða fólk með geðröskun í vinnu af öllum hópum fólks með fötlun. Góðu fréttirnar eru þær að fólk með geðrænan vanda er að fá meiri athygli í þjóðfélaginu líkt og umræðan undanfarin misseri sýnir.“
Samkvæmt geðheilbrigðisáætluninni er talað um að aðgengi eigi að vera að sálfræðingum á helmingi heilsugæslustöðva í lok árs 2017 og 90% í lok árs 2019. Í dag eru starfandi sálfræðingar til að sinna börnum á höfuðborgarsvæðinu en mikið vantar upp á að fullnægjandi þjónusta sé í boði fyrir fullorðna. Heilbrigðisráðherra hefur gefið út að eyrnamerkt hafi verið fé til að uppfylla markmið um eitt stöðugildi sálfræðings fyrir hverja 9.000 íbúa. Því markmiði verði væntanlega náð á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári.
Eins og er þarf fólk að leita til sjálfstætt starfandi sálfræðinga og greiða fjórtán til sextán þúsund krónur að jafnaði fyrir hvern tíma. „Þessu vill Geðhjálp breyta með því að fjölga sálfræðingum innan heilsugæslunnar og færa þjónustu sálfræðinga inn í tryggingakerfið líkt og tíðkast með þjónustu sjúkraþjálfara því það er alls ekki mögulegt fyrir alla að kaupa sér þessa þjónustu. Svo hefur því líka verið varpað fram hvort þessi mikla notkun geðlyfja hér á landi gæti að einhverju leyti tengst lélegu aðgengi að þjónustu sálfræðinga og annarra viðeigandi faghópa, það er fólk fær einfaldlega ekki viðeigandi meðferð við sínum sjúkdómi,“ segir Anna Gunnhildur og bætir við að jafningjastuðningur sé einnig mikilvægur þáttur í allri geðheilbrigðisþjónustu.
Hún bendir á vandann sem þær sjúkrastofnanir landsins sem sinna þjónustu fyrir fullorðna, Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri, stríða við. Má þar nefna skort á fagfólki, legurýmum og fjármagni. Á geðdeild Landspítalans hefur nýting sjúkrarúma verið um 108% á árinu og gefur augaleið að það gengur ekki upp til lengdar, segir Anna Gunnhildur.
„Mikill skortur er á geðlæknum á Íslandi, ekki síst á landbyggðinni, og sérhæfð þjónusta ekki í boði nema á þessum tveimur stöðum, höfuðborgarsvæðinu og Akureyri, þar sem fagfólkið safnast á þessa tvo staði. Til að mynda er enginn geðlæknir starfandi á Vestfjörðum og enginn hefur fengist til starfa á Litla-Hrauni þar sem ekki er um fullt stöðugildi að ræða,“ segir hún og bætir við að geðheilbrigðisþjónusta við fanga á Íslandi sé sérkapítuli þar sem verulega þurfi að bæta úr.
Anna Gunnhildur segir að margt jákvætt hafi komið fram í skýrslu heilbrigðisráðherra á vorþingi en umfjöllun um félagsleg úrræði sé heldur rýr og telji aðeins fimm línur af heildartextanum.
Hvergi sé að finna upplýsingar um umfang eða spá um þróun vandans í einstökum landshlutum af þeirri einföldu ástæðu að slíkar tölur séu ekki fyrir hendi. Brýnt sé að bæta úr því í þeim tilgangi að stuðla að betri og markvissari þjónustu við fólk með geðrænan vanda um land allt. Sú staðhæfing skýrsluhöfundar að boðið sé upp á geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum á landinu öllu samræmist ekki ábendingum notenda á landsbyggðinni til Geðhjálpar. Þvert á móti virðist mikið vanta þar upp á, segir Anna Gunnhildur.
Eitt af því sem Geðhjálp hefur lagt til við heilbrigðisráðherra er að skipaður verði starfshópur til að meta kosti þess að færa fyrirframgerða ákvarðanatöku fólks með geðrænan vanda inn í íslenska löggjöf. Svokölluð fyrirframgerð ákvarðanataka (Advance Directives) hefur rutt sér til rúms víða á Vesturlöndum, en hugtakið felur í sér formlega viðurkenningu samfélagsins á vilja sjúklings í sjúkdómsmeðferð og heimafyrir, til að mynda gagnvart börnum og fjármálum, hafi það verið metið svo að hann hafi misst getuna til að taka ákvarðanir um eigið líf (mental capacity).
Hugmyndin er að skapa fólki með geðræna sjúkdóma lagaramma til að lýsa yfir vilja sínum í tengslum við alvarleg veikindi og persónuleg mál fyrirfram. Þetta er í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar er lagt blátt bann við því að fólk með geðfötlun og aðra fötlun sé beitt þvingunum eða ofbeldi á grundvelli fötlunar sinnar. Anna Gunnhildur segir að ráðherra hafi tekið erindinu vel þegar honum var afhent minnisblað þess efnis fyrir ári. Samtökin bíði spennt eftir að einhver hreyfing komist á málið.
Verkefni Geðhjálpar eru ærin að sögn framkvæmdastjóra samtakanna en eitt af þeim er Bataskóli Íslands. Skólinn er byggður á þriggja ára samningi Geðhjálpar við Reykjavíkurborg. Aðrir helstu samstarfsaðilar skólans eru Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Landspítalinn og Samráðsvettvangur geðúrræðanna ásamt bataskólanum í Nottingham.
Nám í Bataskólanum er ætlað fólki, átján ára og eldra, með geðrænar áskoranir, aðstandendum þeirra og starfsfólki á heilbrigðis- og velferðarsviði. Áskoranirnar eru af ýmsum toga, til að mynda kvíði, ADHD og þunglyndi, og svo líka þyngri sjúkdómar eins og geðklofi og geðhvörf.