Sonur þeirra framdi sjálfsvíg rúmlega þrítugur eftir að hafa glímt við fíkn og geðræn veikindi. Hann var eitt af þessum börnum sem hvergi pössuðu inn, hvorki í skóla né annars staðar.
Sonur þeirra framdi sjálfsvíg rúmlega þrítugur eftir að hafa glímt við fíkn og geðræn veikindi. Hann var eitt af þessum börnum sem hvergi pössuðu inn, hvorki í skóla né annars staðar.
Sonur þeirra framdi sjálfsvíg rúmlega þrítugur eftir að hafa glímt við fíkn og geðræn veikindi. Hann var eitt af þessum börnum sem hvergi pössuðu inn, hvorki í skóla né annars staðar.
Hann átti erfitt með að fóta sig í lífinu en hann varð fyrir alvarlegu áfalli í æsku þegar hann var misnotaður kynferðislega af konu sem tengdist honum ekki fjölskylduböndum. Hann sagði foreldrum sínum aftur á móti ekki frá því fyrr en nokkrum árum fyrir andlátið. Skömmin var of mikil.
„Sonur okkar var með sjúkdóm sem varð til þess að hann varð fyrir miklu einelti í grunnskóla. Við tókum hann því út úr þeim skóla en í nýjum skóla sneri hann við blaðinu og er sá sem er ódæll og erfiður.
Í kjölfarið er hann lagður inn á barna- og unglingageðdeildina og gengur í skóla á hennar vegum. Á þessum tíma var hann misnotaður kynferðislega en sagði okkur ekki frá þessu,“ segir móðir hans.
„Minningin var svo slæm að hann lokaði á þetta og vildi ekki ræða það. En þetta hafði skelfileg áhrif á hann og allt hans líf. Leiðin sem hann valdi var að taka hugarbreytandi efni, sem hann fékk hjá læknum, til þess að gleyma, en það vissum við ekki,“ segir faðir hans.
Þau hjónin eru sammála um mikilvægi þess að skoða sögu barna sem glíma við erfiðleika og nota samtalsmeðferð í stað lyfja.
„Hann notaði fíkniefni frá unglingsaldri en hans aðalefni voru lyfseðilsskyld lyf. Hann var alltaf að leita að leið fyrir sig sjálfur og hann fór þessa leið – að skófla í sig pillum sem deyfðu allar hans tilfinningar og hann fékk stundarhvíld í huganum frá vondum tilfinningum, en þeim fylgdu mikill kvíði og þunglyndi.
Ég áttaði mig ekki á því hvað hann glímdi við fyrr en ég heyrði fólk lýsa áfallastreituröskun í útvarpsþætti, því þetta hefði alveg eins getað verið hann sem var að tala í útvarpið. Þá var hann orðinn fullorðinn,“ segir hún.
Viðtalið birtist einnig á mbl.is um síðustu helgi
Þau segjast hafa reynt allar leiðir sem þau vissu um til þess að hjálpa honum að verða edrú. Í raun hafi þau horft mest á neysluna þegar hann var um tvítugt enda vissu þau ekki um rót vandans – áfallið sem lá eins og mara á sál hans.
„Við vitum að hann fór sjálfur inn á geðdeild í nokkur skipti eftir að hann varð átján ára en við vitum ekki með fullri vissu hvort hann hafi reynt að taka eigið líf áður en honum tókst það um þrítugt.
Mín persónulega skoðun er sú að þegar um svona alvarlega fíknsjúkdóma og meðfylgjandi kvíða og þunglyndi er að ræða eigi læknar að láta fjölskyldur svona veikra einstaklinga vita. Þeir eiga í flestum tilfellum fjölskyldur sem þrá ekkert heitar en að styðja við bakið á þeim, sama á hverju gengur í lífi þeirra. Því ef við vitum ekki hvernig þeim líður, hvernig eigum við þá að geta hjálpað þeim?“ segir móðir hans.
„Drengurinn okkar ánetjaðist lyfseðilsskyldum lyfjum og var það það sem eftir var. Hann dó ekki af því að hann vildi deyja, hann dó af því að hann gat ekki ekki lifað.
Hann var alltaf kátur og glaður og sýndi aldrei út á við hvað honum leið illa og sinnti alltaf vinnu. Hann átti fjöldann allan af vinum og kunningjum en hann gat ekki lifað og því miður valdi hann þessa leið,“ bætir hún við.
Sjálfsvíg eru skelfileg fyrir alla fjölskylduna sem situr eftir og það er mikil vinna að vinna sig út úr áfalli sem þessu og segja þau að maður missi ekki barnið sitt í sjálfsvígi og takist á við lífið að nýju án aðstoðar. Þau hafi fengið mikla og góða aðstoð, bæði áfallahjálp sem og annan stuðning, og sveitarfélagið þar sem þau bjuggu hjálpaði þeim við að greiða hluta af kostnaðinum sem fylgdi.
„Ég þurfti á mikilli aðstoð að halda því ég gat ekki sætt mig við það að sonur minn hefði verið misnotaður og ég sem móðir ekki vitað af því. Maður glímir við spurningar eins og: hvað gerði ég rangt og hvað gerði ég ekki? Ól ég hann ekki eins upp og hin börnin því ekkert þeirra hefur lent í því sem hann lenti í sem barn? Enn þann dag í dag hugsa ég með sjálfri mér: ef við hefðum gert þetta eða ekki gert hitt, hvað þá?
Maður spyr sjálfan sig alltaf og fer ósjálfrátt í að ásaka sig en við hjónin vorum strax ákveðin í að láta þetta ekki buga okkur. Við myndum gera allt til þess að vinna okkur upp á við. Við sóttum okkur hjálp með því að taka þátt í starfi hópa fyrir fólk sem hefur misst nákomna.
Sonur okkar er dáinn og við getum ekki breytt því en við höfum reynt að koma sorginni og reiðinni í farveg. Því reiði fylgir áfalli sem þessu og ekki endilega á sama tíma hjá báðum foreldrum,“ segir hún.
Hún svaf lítið sem ekkert sólarhringum saman og reyndi að fá útrás fyrir orkuna sem fylgdi reiðinni með því að hreyfa sig. Hún hjólaði upp um fjöll og firnindi og gekk milli fjalls og fjöru. Nokkuð sem hún hafði aldrei gert áður. Jafnframt fór hún í pílagrímsgöngu sem gerði henni mjög gott.
„Ég segi í dag að ég hafi fylgt syni mínum til himna. Maður fylgir barninu sínu fyrsta daginn í leikskóla, grunnskóla, á fótboltaæfingu og annað sem leið barnanna liggur. Ég fylgdi mínum syni áleiðis til himna og þetta hjálpaði mér ótrúlega mikið. Ég var búin að skila drengnum mínum til himna. Eftir þetta hef ég náð meiri ró innra með mér þó svo að þetta sé enn gríðarlega erfitt. Ekki bara fyrir okkur foreldrana heldur einnig aðra í fjölskyldunni.
Fyrstu árin þarf maður að laga sig að nýju lífi, nýjum veruleika, þar sem vantar einn náinn einstakling inn í fjölskylduna. Jól án hans og fjölskyldusamkomur án hans. Afmælisdagurinn hans var mjög erfiður fyrsta árið og margir aðrir dagar sem við áttum.
Við tölum oft um hann og reynum að halda minningu hans mjög á lofti því við viljum ekki þegja um drenginn okkar og þó svo að farið hafi verið í felur með svona dauðdaga hér áður fyrr, og skömm oftast fylgt sjálfsvígi, þá á það ekki að gera það. Það á að ræða sjálfsvíg með virðingu en ekki upphefja þau. Eitt sem er svo skelfilegt við það þegar fólk velur þessa leið er hversu endanleg hún er. Það er alltaf til einhver önnur lausn, en það er eins og þeir sem svipta sig lífi finni ekki þessa leið, hún sé þeim lokuð.“
Hún segist hafa lesið bókina Þrá eftir frelsi eftir Beverly Cobain og Jean Larch en Beverly er geðhjúkrunarfræðingur og frænka Kurts Cobains, söngvara Nirvana, sem framdi sjálfsvíg tuttugu og sjö ára gamall. Bókinni er ætlað að styðja aðstandendur þeirra sem falla fyrir eigin hendi.
„Eftir að hafa lesið bókina skilur maður betur aðdragandann að sjálfsvígum. Villuna sem kemur upp í huga þeirra. Sumir halda að þeir séu að gera foreldrum sínum greiða því þeir séu byrði. Þeir eru með ranghugmyndir um lífið og sjálfa sig.
Sonur okkar fór oftast sínar eigin leiðir í lífinu og þrátt fyrir ítrekaðar meðferðir féll hann alltaf aftur,“ segir hún.
Þau segja að það vanti mikið upp á þrautseigju gagnvart krökkum eins og honum þegar þau koma í meðferð á Vogi. Að minnsta kosti á þeim tíma sem hann fór ítrekað í meðferð.
„Ef þú ert á sjúkrahúsi með krabbamein eða aðra sjúkdóma og gerir eitthvað á sjúkrahúsinu sem þú mátt ekki gera er þér ekki hent umsvifalaust út.
En ef þú ert átján eða nítján ára og í meðferð við fíkn á sjúkrahúsinu á Vogi, og gerir eitthvað sem þú mátt ekki gera samkvæmt reglum sjúkrahússins, þá er þér fyrirvaralaust, án undantekninga, vísað út á götuna aftur og aðstandendur fá enga vitneskju um það og er þeim því ekki mögulegt að grípa neitt inn í sem gæti orðið þeim til hjálpar.
Þetta eru börnin okkar, hvort sem þau eru fimm ára eða átján ára. Við fæddum þau inn í þennan heim og ólum þau upp. Það á að vera réttur foreldra að fá að vita um veikindi barna sinna svo við getum stutt við bakið á þeim,“ segir móðir ungs manns sem ekki sá aðra leið færa en svipta sig lífi.