„Ég gat ekkert gert“

Börnin okkar og úrræðin | 22. september 2018

„Ég gat ekkert gert“

Sálfræðingar eru komnir til starfa á öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu en ekki hefur enn verið samþykkt á Alþingi að skólasálfræðingar verði í framhaldsskólum. Mikilvægi forvarna verður seint oflofað og kona sem var í geðrofsástandi í tvö ár varar fólk við hættunni af neyslu kannabis. 

„Ég gat ekkert gert“

Börnin okkar og úrræðin | 22. september 2018

Hún sat klukkustundum saman stjörf og gat ekkert gert.
Hún sat klukkustundum saman stjörf og gat ekkert gert. mbl.is/Hari

Sálfræðingar eru komnir til starfa á öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu en ekki hefur enn verið samþykkt á Alþingi að skólasálfræðingar verði í framhaldsskólum. Mikilvægi forvarna verður seint oflofað og kona sem var í geðrofsástandi í tvö ár varar fólk við hættunni af neyslu kannabis. 

Sálfræðingar eru komnir til starfa á öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu en ekki hefur enn verið samþykkt á Alþingi að skólasálfræðingar verði í framhaldsskólum. Mikilvægi forvarna verður seint oflofað og kona sem var í geðrofsástandi í tvö ár varar fólk við hættunni af neyslu kannabis. 

Hún var rúmlega tvítug greind þegar hún lagðist fyrst inn á geðdeild en upphafið má rekja til mikillar vanlíðanar í kjölfar sambandsslita. Fyrst var það mikið þunglyndi og kvíði en í dag er hún með greind með geðhvörf (bipolar) með geðklofaáhrif.

Hún segir að þegar veikindin komu fyrst upp hafi henni liðið skelfilega og bætir við að hún hafi nú heldur aldrei orðið svona ástfangin aftur þrátt fyrir að hafa upplifað ástina síðar en aldrei með þessum hætti og þarna var. Á þessum tíma voru maníurnar (oflætið) mildari en þær sem síðar áttu eftir að koma og eins stuttar. Það átti eftir að breytast þegar hún fór að reykja kannabis sem hún segir að sé eitur sem kostaði hana geðrof sem stóð yfir í tvö ár.

„Þegar ég veiktist fyrst var ég ekki í neinum efnum, reykti hvorki né drakk. Mín fíkn hófst með misnotkun kvíðalyfja og svo tók áfengið við. Ég notaði þessi efni til þess að slá á kvíðann og róa hugann. Enda svaf ég meira og minna þegar ég var í neyslu. Ég kynntist manni í meðferð og fór að reykja hass með honum eftir að við lukum meðferðinni. Ég reykti hass upp á hvern einasta dag í sex til átta mánuði en þá var þetta líka búið. Ég var meira og minna í geðrofi næstu tvö árin,“ segir hún.

Hélt að börnin væru dáin

Á vefnum persona.is segir svo: Geðrof (psychosis) er ástand sem einkennist af ofskynjunum og/eða ranghugmyndum og stafar af skertum raunveruleikatengslum. Önnur einkenni fara oft saman með geðrofi eða fylgja í kjölfarið, til dæmis félagsleg einangrun eða hlédrægni, hugsanatruflanir sem sjást á ruglingslegu tali og undarlegu látbragði.

Geðrofin eru eins mörg og þau eru ólík, segir viðmælandi mbl.is. „Mitt geðrof var guð og djöfullinn en ég hafði alltaf áður trúað á góðan og umburðarlyndan guð. Í geðrofinu var hann refsiglaður og ég var mjög hrædd við hann. Ég hafði aldrei trúað á að til væri helvíti en það var heldur betur til í mínu geðrofi og ég var skelfingu lostin,“ segir hún en hún var ítrekað nauðungarvistuð á þessum tíma.

„Ég man að í mínu sturlunarástandi þá taldi ég að börnin mín væru dáin. Í hvert skipti sem bjallan hringdi á geðdeildinni var ég sannfærð um að þetta væri prestur kominn til að segja mér að þau væru dáin. Þrátt fyrir öll mín veikindi var alltaf smá skynsemi í hausnum á mér og ég vissi að það var ekki tímabært að syrgja fyrr en búið væri að segja mér formlega frá andláti þeirra. Veistu, hlutirnir geta verið svo hræðilegir að maður getur ekki einu sinni grátið?“ segir hún.

Fyrstu skrefin í átt að bata voru að rjúfa einangrunina.
Fyrstu skrefin í átt að bata voru að rjúfa einangrunina. mbl.is/Hari

Hefði ekki getað lifað með þeirri vitneskju

Hún segist hafa verið mjög erfiður sjúklingur og hafi ekki viljað taka lyfin sín. Hún viti það í dag að án þeirra geti hún ekki verið.

„Ég þakka oft fyrir að maður veit ekki ævi sína fyrr en öll er því ef einhver hefði sagt mér á sínum tíma að ég ætti eftir að vera innskrifuð á geðdeild í tíu ár þá hefði ég dáið. Ég hefði ekki getað lifað með þeirri vitneskju. Lyfið sem ég er á er gamalt geðlyf en vægari úrræði hafa ekki nægt mér. Í fyrstu voru mér gefin vægari lyf en þau dugðu bara ekki til. Ein af aukaverkunum með lyfinu sem ég er á er að maður þyngist og ég var mjög feit um tíma. Eins og við þekkjum sem glímum við geðraskanir þá eru miklir fordómar í garð geðsjúkdóma en ef maður er feitur líka þá versna þeir enn frekar. Eins og maður hafi ekki nóg með að glíma við veikindi að maður þurfi ekki að upplifa það líka. Til að mynda hvernig horft var á mig. Fólk heldur að maður taki ekki eftir þessu en maður gerir það og það er ekki gott.“

Hún segist hafa verið svo veik að þó að hún hafi viljað gera eitthvað þá var það henni ómögulegt. Hún komst ekki einu sinni til læknis því hún sat stjörf í stól heima hjá sér allan daginn, stundum allan sólarhringinn.

„Ég gat ekkert gert. Sat bara stjörf í sama stólnum í 12-18 tíma, gat ekki lesið, ekki horft á sjónvarpið, gat ekkert gert. Ég vildi ekki hafa foreldra mína nálægt mér eða aðra en þau gáfust aldrei upp og komu alltaf í heimsókn til mín. Þau segja að það erfiðasta hafi verið að fá mig nauðungarvistaða en ástandið var þannig að það var ekkert annað í boði,“ segir hún en mörg ár eru liðin frá síðustu nauðungarvistun.

Sama hvað hún var veik þá reyndi hún að fara í sturtu á hverjum degi. Hún segir að það sé kannski eitthvað sem fólki finnist ekkert merkilegt en það hafi verið afrek út af fyrir sig fyrir hana þegar hún var sem veikust. Hún segir að það að vera umlukin vatni hafi verið góð tilfinning sem hún sótti í. Stundum svo að baðferðirnar urðu margar sama daginn.

Eitt sem fylgir þessum veikindum er algjört hrun fjárhagslega. „Ég hef hins vegar alltaf staðið við mínar skuldbindingar og greitt húsaleigu, rafmagn og annað slíkt. Stundum hefur ekkert verið í boði nokkrum dögum eftir mánaðamót annað en að lifa á núðlum það sem eftir lifir mánaðar.“

Eftir að hún veiktist alvarlega lét hún börnin frá sér og segir hún það það versta. „Ég er alltaf með samviskubit og mér finnst ég hafa brugðist þeim en sennilega var þetta það eina rétta, að þau byggju hjá feðrum sínum. Ég er í góðu sambandi við þau öll þó svo rof hafi orðið á því þegar ég var sem veikust.“

Hún hefur verið innrituð í samfélagsgeðteymi í Vesturbænum í meira en tíu ár og bati hennar sé samspil margra hluta. Ekki síst því að hún fór að fara í Hlutverkasetur og losnaði þannig út úr einangruninni sem hún var í. „Ég held að þetta hafi verið fyrsta skrefið í mínum bata – að rjúfa einangrunina. Í vor sagði læknirinn minn mér að hann ætlaði að útskrifa mig úr geðteyminu og þetta var stórkostleg tilfinning, sálin lyftist á annað plan, á sama augnabliki áttaði ég mig líka á því hvað ég hafði verið vonlaus.

Ég hélt að ég yrði aldrei útskrifuð og yrði innskrifuð í teymið það sem eftir væri ævinnar. Síðan þá hefur mér liðið svo vel og lífið blasir við mér. Er að byrja að vinna og þó svo ég sé ekki að fara í fulla vinnu þá er þetta í fyrsta skipti í áratugi sem ég get unnið.“ Hún segist eiga bakland á göngudeildinni á Kleppi og það sé góð tilhugsun að ekki sé búið að sleppa af henni hendinni ef eitthvað kemur upp á.

Gott að komast út á vinnumarkaðinn

„Ég held að ég tali fyrir munn okkar margra sem erum öryrkjar að við erum með svo brotna sjálfsmynd enda ekki allt gáfulegt sem maður hefur gert í veikindunum. Það er mjög gott að komast aftur út á vinnumarkaðinn en það er ekki sama hvernig er staðið að því. Það þarf að hjálpa okkur að vera í vinnu því maður er svo lítill í sér og þarf svo lítinn mótbyr til þess að gefast upp. Að vera í samfélagi á að fela í sér að maður sé samþykktur og ef maður er það ekki þá er það svo vont og þú þarft ekki að vera með geðröskun  til að upplifa það,“ segir hún.

Geðraskanir eru flókið fyrirbæri og segir hún að það geti enginn sett sig í þessi spor nema þeir sem eru með geðraskanir. Þetta er ekkert sem þú harkar af þér líkt og oft er viðhorfið ef fólk opinberar líðan sína.

Hún segir að stundum hafi hún verið við að bugast og sjálfsvígshugsanir komið upp. „En hræðsla mín við hvað guð myndi gera við mig kom í veg fyrir að ég léti verða af því. Myndi hann senda mig í helvíti og yrði ég þar til eilífðar? Og eilífðin er svo rosalega lengi að líða. Þegar ég var í geðrofi þá taldi ég mig vera guð um tíma og í annan tíma var ég Jesú og ég get sko sagt þér að það var ekkert auðveldara. Því það var meira en full vinna því þeir feðgar slökuðu nú aldrei á,“ segir hún og hlær við.

„Þrátt fyrir að hafa verið mjög veik í mörg ár og gert alls konar heimskulega hluti í gegnum tíðina þá finnst mér veikindin hafa gert mig að betri manneskju. Ég er ekki eins dómhörð og ég er umburðarlyndari en ég var áður. Ég sýni öðru fólki miklu meiri skilning en ég gerði áður. Kleppur er víða og geðheilsan er hluti af lífi okkar. Ég er mjög kvíðin og mér fannst oft erfitt að vera með óskilgreindan kvíða, það er hann læðist að mér upp úr þurru án þess að ég geri mér grein fyrir því, en læknarnir segja mér að þetta séu viðbrögð manneskjunnar um að hún eigi að forða sér út úr aðstæðum sem hún er komin inn í. Kvíðinn hefur alltaf fylgt mér, alveg frá því ég var barn, en ég hef lært að lifa með honum og hvernig ég eigi að bregðast við banki hann óvænt upp á,“ segir hún.

„Ég þurfti ekki nema einn smók“

Hún notaði vímuefni af öllu tagi hér áður en kannabisið fór verst með hana. „Ég verð svo reið þegar fólk dásamar hass því ég veit hversu mikið eitur það er. Það er ekkert frábært við það eins og sumir halda fram. Mín fyrsta hugsun er bara: Ég ætla að vona að þú farir aldrei í geðrof. Því það er svo hræðilegt að ég myndi ekki einu sinni óska mínum versta óvini að upplifa það.“

Aðeins einu sinni eftir að hún hætti neyslu reykti hún kannabis og hún heldur að það muni ekki gerast aftur. „Ég þurfti ekki nema einn smók til þess að finna geðrofið hellast yfir mig.“

Hún segist ekki óttast að fara aftur í geðrof því hún fylgi sínum reglum og noti þau bjargráð sem hafa reynst henni vel. Vímuefnin komi ekki til greina framar enda veiti þau falska vellíðan sem er fljót að snúast í andhverfu sína. Hún hefur jafnvel lagt reykingar á hilluna og segir að það hafi nú verið út af leti.

„Ég reykti svakalega, allt upp í fjóra pakka á dag og ég veit eiginlega ekki enn þann dag í dag hvernig ég hafði ráð á því. Ég reykti yfir mig en ég var svo einmana og sígarettan var félagsskapurinn minn. Þegar ég byrjaði í Hlutverkasetri var mér gert að fara út á tröppur til að reykja og ég nennti því nú ekki. Enda löt að eðlisfari þannig að það endaði með því að ég hætti að reykja af leti,“ segir hún.

„Ég fylgi mínum reglum og þær eru kannski ekki merkilegar í huga allra, svo sem að fara í sturtu á hverjum degi. Ég fer á hverjum degi í göngutúra og hitti fólk. Eins held ég heimili mínu hreinu og gæti þess að taka lyfin mín. Um hver mánaðamót borga ég reikningana mína og gæti þess að eiga fyrir lyfjunum því þau skipta svo miklu máli til þess að ég haldi heilsunni. Til að mynda lyfið sem ég tek við hvatvísinni. Lyfið hefur breytt svo miklu í mínu lífi því áður var ég búin að framkvæma hlutina áður en ég hugsaði. Til að mynda að gefa frá mér börnin sem er það eina sem ég er sorgmædd yfir. Hins vegar er ég orðin amma í dag og það er það yndislegasta sem ég hef upplifað. Litlu hlutirnir sem maður upplifir með þeim eru svo dásamlegir og skipta svo miklu máli. Þessi ást sem maður upplifir þegar maður eignast börn og barnabörn.

Öryrkjar hafa einfaldlega ekki ráð á hollri næringu

Ég bý í íbúð frá Félagsbústöðum og hef búið í sömu íbúðinni í tæpan áratug. Ég hef aldrei búið jafnlengi á sama stað frá því ég flutti að heiman 18 ára gömul og það skiptir svo miklu máli. Ekki bara fyrir fólk með geðraskanir heldur alla.“

Hún segir að næringin verði oft út undan þegar kemur að bjargráðum. „Ég hugsa ekki nógu mikið um næringuna en það skýrist af því að ég sem öryrki hef ekki efni á að kaupa mér mat á hverjum degi. Þannig að annan hvern eða þriðja hvern dag borða ég núðlur því ég hef ekki ráð á hollustu. Sem er sorglegt því það er vitað að svefn, hreyfing og næring eru grundvallaratriði þegar kemur að geðheilbrigði. En við öryrkjar höfum einfaldlega ekki ráð á hollri næringu. Mér finnst grænmeti mjög gott en ég hef ekki efni á því. Sem er svo sorglegt þegar maður hugsar til baka og veltir fyrir sér hvað það hafi kostað samfélagið mikið þegar ég var í geðrofi. Ég hef ekki hugmynd um það en get ekki ímyndað mér annað en að það sé mikið,“ segir þessi fallega og lífsglaða kona sem hefur gengið í gegnum erfið veikindi en er í góðum bata. 

Agnes Agnarsdóttir, yfirsálfræðingur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir óskastöðuna þá að sálfræðiþjónusta …
Agnes Agnarsdóttir, yfirsálfræðingur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir óskastöðuna þá að sálfræðiþjónusta sé eðlilegur hluti af grunnheilsuvernd. mbl.is/Hari

Sálfræðingar á öllum heilsugæslustöðvum

Líðan ungmenna, ekki síst stúlkna, hefur versnað á undanförnum árum og er helst talað um kvíða í því samhengi. Þróunin er svipuð víða líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum annars staðar á Norðurlöndum sem og í Bretlandi og víða á meginlandi Evrópu. 

Samkvæmt frétt Guardian í vikunni lýsir aðeins fjórðungur breskra stúlkna á aldrinum sjö til 21 árs sér sem hamingjusömum. Árið 2009 var hlutfallið 41%. Minnst er hamingjan meðal þeirra elstu í hópnum. Ragn­ar Guðgeirs­son­ ráðgjafi, sem leiddi stefnu­mót­un­ar­verk­efni á veg­um vel­ferðarráðuneyt­is­ins í mál­efn­um barna, kynnti í vor niðurstöður rannsóknar á líðan ungmenna á Íslandi. Þar kom meðal annars fram að sjálfsskaði hefur aukist meðal ungmenna sem og sjálfsvígshugsanir og -tilraunir.

Eitt af því sem unnið er að hér á landi er að efla geðheilbrigðisþjónustu. Meðal annars með því að bjóða upp á sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum.

Geðheilbrigðisþjónusta á landsvísu innan heilsugæslunnar verður efld til muna með 650 milljóna króna framlagi til að fjölga geðheilsuteymum og fjölga stöðugildum sálfræðinga, segir í fjárlögum fyrir næsta ár.

Stefnt er að aðgengi að gagnreyndri meðferð sálfræðinga við algengustu geðröskunum, svo sem þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu, sé á 90% heilsugæslustöðva í lok árs 2019, samkvæmt aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í geðheilbrigðismálum.

„Á næsta ári ætti að nást markmið gildandi geðheilbrigðisáætlunar um aðgengi fyrir alla að sálfræðiþjónustu á 90% heilsugæslustöðva. Tölur sýna vaxandi sókn í þjónustu heilsugæslunnar. Áfram verður unnið að því að efla hana sem fyrsta viðkomustað sjúklinga, meðal annars með áherslu á aukna teymisvinnu, forvarnir og fræðslu til sjúklinga. Framlög í þessu skyni verða aukin um 200 milljónir króna,“ segir í fjárlögum næsta árs.

Mörg framfaraskref stigin

Agnes Agnarsdóttir, yfirsálfræðingur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að 15 heilsugæslustöðvar séu reknar á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, allt frá Mosfellsbæ í Hafnarfjörð. Alls eru íbúarnir á þessu svæði um 218 þúsund talsins.

Hún segir að á síðustu tveimur árum hafi verið stigin mörg framfaraskref í að auka þessa þjónustu og er nú boðið upp á gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu fyrir börn að 18 ára aldri á öllum heilsugæslustöðvum umdæmisins. Sálfræðingar fyrir fullorðna hafa nú tekið til starfa á sex stöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Eldri en 18 ára greiða venjulegt komugjald á stöð.

Þjónustan fyrir börn og ungmenni að 18 ára aldri er endurgjaldslaus og sjá sálfræðingar á heilsugæslustöðvunum um að meta, greina og veita meðferð við tilfinninga- og hegðunarvanda barna ásamt því að veita foreldrum ráðgjöf. Þeir sinni auðvitað oft einnig alvarlegri vanda á meðan beðið er eftir þjónustu t.d. á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) eða öðrum úrræðum. 

Spurð um bið eftir tíma hjá sálfræðingi á heilsugæslustöðvunum segir Agnes að biðin hafi ekki verið löng á heilsugæslustöðvum. Nú sé biðin yfirleitt frá einni viku í allt að tólf vikur en geti hugsanlega lengst þegar líður á haustið og verið mismunandi eftir heilsugæslustöðvum.

Agnes segir misjafnt hversu hátt starfshlutfall sálfræðinganna sé á stöðvunum og ekki sé alls staðar sálfræðingur í fullu starfi. Á þeim stöðvum geti biðin verið  lengri en þar sem þjónustan er meiri.  

Bæta þarf þjónustuna fyrir aldurshópinn 18-25 ára.
Bæta þarf þjónustuna fyrir aldurshópinn 18-25 ára. mbl.is/Hari

Forgangsraðað eftir alvarleika

Hún segir að reynt sé að forgangsraða tilvísunum eftir alvarleika hvers tilviks fyrir sig. „Við reynum að koma börnum að fyrr sem þurfa mest á aðstoð að halda svo sem ef vandinn er mjög aðkallandi og alvarlegur. Við erum í góðu samstarfi við BUGL og bjóðum bæði upp á hóp- og einstaklingsmeðferð fyrir börn hér á heilsugæslustöðvunum.

Við erum stöðugt að vinna að því að bæta þjónustuna og þegar það á við myndum við teymi í kringum viðkomandi barn með aðkomu félagsþjónustu, skóla og annarra stofnana sem koma að málum barnsins.

Við erum ekki komin þangað sem við viljum vera en mikil vinna í gangi til þess að bæta úr af því að við erum ekki sátt við að fólk þurfi að bíða lengi eftir þjónustu sálfræðinga. Við viljum efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað þar sem geðheilbrigði er ekki aðskilið annarri þjónustu. Sálfræðiþjónusta á í sjálfu sér að vera eðlilegur hluti þjónustu í grunnheilsugæslu.

Ég er hlynnt því að ef skjólstæðingum er ekki sinnt innan ákveðins tíma þá sé brugðist við og reynt að finna út hvað hægt sé að gera til þess að koma hlutunum í lag líkt og Norðmenn gera en þar eru lög sem taka á slíkum málum þar sem bið eftir meðferð á geðheilbrigðisstofnun má ekki fara fram yfir ákveðinn tíma,“ segir Agnes.

Hefur bráðvantað þjónustu fyrir 18-35 ára

Hingað til hefur lítið verið hægt að sinna sálfræðiþjónustu fyrir fullorðna á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. „Nú í september eru komnir sálfræðingar á sex af fimmtán heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og sjöunda stöðin bætist við í desember. Það er í takt við markmið stjórnvalda um að allir eigi að hafa aðgengi að slíkri þjónustu,“ segir hún.

Hingað til hefur aðeins hefur verið boðið upp á hópmeðferð fyrir þá sem eru 18 ára og eldri og segir Agnes að bráðvantað hafi úrræði fyrir aldurshópinn 18-35 ára. Boðið er upp á hópmeðferð í hugrænni atferlismeðferð (HAM) en í henni felst að kenna aðferðir til að breyta hugsunarhætti sem stuðlar að og viðheldur einkennum geðræns vanda og hins vegar að breyta hegðun. 

Boðið hefur verið upp á HAM-meðferð í hópi á öllum heilsugæslustöðvum og þeir sem taka þátt hafa jafnframt komið í einstaklingsviðtöl þar sem meðal annars alvarleiki og sjálfsvígsáhætta er metin. Um forviðtal er að ræða og ef sálfræðingurinn sem tekur viðtalið metur það sem svo að hópmeðferð nægi ekki þá er brugðist við því. Jafnframt er fylgst með líðan fólks allan tímann sem það er í slíkri hópmeðferð,“ segir Agnes og bætir við að á meðgöngu er einnig fylgst með verðandi mæðrum á heilsugæslustöðvunum og eftir fæðingu. Skimað er reglubundið fyrir þunglyndi og öðrum geðröskunum sem og kvíða.

Sálfræðiþjónustan er því mikið að færast yfir á fyrsta stigið í heilbrigðiskerfinu, það er heilsugæsluna, enda mikilvægt að grípa snemma inn áður en vandinn verður alvarlegri. Framtíðarsýnin er að aðskilja ekki geðheilbrigði frá almennu heilbrigði, þ.e.a.s. að í grunnþjónustu heilsugæslu þurfum við ekki að vísa annað ef um geðræna erfiðleika er að ræða. Auðvitað er vísað annað, s.s. á geðsvið LSH eða á sjálfstætt starfandi sálfræðinga, ef um alvarlegri eða sérhæfðari vanda er að ræða, segir hún.

Tryggja þarf góða grunnþjónustu

Ýmsir foreldrar og sérfræðingar telja heillavænna að bjóða upp á þjónustu sem þessa á einkastofum þar sem sérhæfingin er oft meiri.

Sál­fræðiþjón­usta er ein­ung­is niður­greidd af sjúkra­trygg­ing­um fyr­ir börn yngri en 18 ára sem eru í meðferð hjá sál­fræðing­um sem eru aðilar að ramma­samn­ingi sál­fræðinga og Sjúkra­trygg­inga Íslands.

Að sögn Stein­unn­ar Önnu Sig­ur­jóns­dótt­ur, sál­fræðing­s hjá Litlu kvíðameðferðar­stöðinni (Litlu KMS), er eitt af skil­yrðum samn­ings­ins að aðeins þeir sál­fræðing­ar sem hafa starfað hjá hinu op­in­bera í tvö og hálft ár geti óskað eft­ir að gera slík­an ramma­samn­ing við Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands.

Það er sett fram í samn­ingn­um til þess að tryggja að sál­fræðing­ar hafi öðlast reynslu af meðferð barna og ung­linga. En það þýðir að sál­fræðing­ar, sem hafa tveggja og hálfs árs starfs­reynslu á op­in­ber­um stofn­un­um sem sinna svo til engri meðferð fyr­ir börn og ung­linga með klín­ísk­ar kvíðarask­an­ir, s.s. Grein­ing­ar- og ráðgjaf­ar­stöð rík­is­ins eða skóla­skrif­stof­ur, geta sóst eft­ir að veita niður­greidda meðferð fyr­ir börn og ung­linga, seg­ir Stein­unn.

Sál­fræðing­ar sem fengið hafa alla sína starfs­reynslu og þjálf­un á stofu eins og Litlu kvíðameðferðar­stöðinni munu ekki geta sóst eft­ir að kom­ast á þenn­an ramma­samn­ing þrátt fyr­ir að starfa ein­vörðungu með börn­um og ung­menn­um og njóta hand­leiðslu og teym­is­vinnu mjög reyndra sál­fræðinga bæði hér­lend­is og er­lend­is, seg­ir hún í viðtali við mbl.is í sumar.

Agnes segir eðlilegt að sálfræðiþjónusta hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum sé niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands en samhliða þurfi að uppfylla grunnþarfir í opinberri heilbrigðisþjónustu, það er að bæta aðgengi að sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar í stað þess að dreifa fjármagninu.

Hún segist vera hlynnt gæðakröfum á þessu sviði sem öðrum og að niðurgreidd þjónusta standist ákveðnar gæðakröfur. Þjónusta sé ekki niðurgreidd nema hún standist kröfur um gæði. Eðlilegt sé að þjónustan sé árangursmæld og enda vilji ráðamenn, réttilega, vita í hvað peningarnir fara.

„Við verðum fyrst og fremst að efla grunnþjónustuna sem er fyrir alla en að sjálfsögðu er mikilvægt að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga á einkastofum þar sem einstaklingar geta fengið sérhæfðari þjónustu,“ segir Agnes.

Í dag er það þannig hjá heilsugæslunni að fólk þarf tilvísun frá heimilislækni til þess að fá tíma hjá sálfræðingi á heilsugæslustöð eða ef fólk er ekki með skráðan heimilislækni þá er hægt að panta tíma hjá lækni á stöðinni og hann getur þá vísað á sálfræðing sem starfar á sömu stöð.

„Við vildum fá lækna að málinu þar sem við erum að efla þverfaglega þjónustu, en í framtíðinni sé ég fyrir mér að fólk geti gengið inn á næstu heilsugæslustöð og óskað eftir tíma hjá sálfræðingi eins og fyrirkomulag er hjá læknum. Þetta getur létt álag á heimilislækna sem hafa í raun verið að sinna sínum skjólstæðingum sem eiga við geðrænan vanda [að etja]. Klínískar leiðbeiningar mæla með hugrænni atferlismeðferð sem fyrsta inngripi við m.a. þunglyndi og kvíða eða annarri gagnreyndri meðferð. Ekki lyfjameðferð nema um alvarlegri vanda sé að ræða eða talið er að sálfræðimeðferð ein og sér beri ekki árangur. Við byrjum með vægustu inngripin og ef það þarf frekari inngrip þá er þeim beitt.

Þriðjungur þeirra sem leitar til heilsugæslunnar leitar þangað fyrst og fremst vegna geðræns vanda og við viljum því í framtíðinni sjá samsetningu fagfólks heilsugæslustöðva endurspegla þetta. Helstu ástæður örorku eru af geðrænum toga og í öðru sæti er stoðkerfisvandi. Oft fer þetta tvennt saman, því ef þér líður illa andlega þá hefur það áhrif á líkamann,“ segir Agnes.

„Óskastaðan er að sálfræðiþjónusta sé eðlilegur hluti af grunnheilsuvernd á heilsugæslustöðvum. Alveg eins og ungbarnavernd og mæðravernd. Við erum búin að taka fyrstu skrefin og fólk farið að gera sér grein fyrir því að það á kost á þessari þjónustu á sinni heilsugæslustöð.

Ég sé fyrir mér víðtækara svið innan heilsugæslunnar, með breiðari hópi fagfólks, t.d. sálfræðingum, hreyfistjórum og að félagsþjónustan og heilsugæslan vinni náið saman. Að sá sem þarf á aðstoð að halda geti treyst því að við setjum skjólstæðinginn í öndvegi og sjáum um að veita honum aðstoð sem þverfaglegt teymi. Ekki síst þegar ungt fólk á í hlut,“ segir Agnes.

„Fólk á ekki að þurfa að bíða eftir þjónustu sálfræðings, ekkert frekar en þegar fólk slasast,“ segir Agnes Agnarsdóttir, yfirsálfræðingur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Bóas Valdórsson, skólasálfræðingur í Menntaskólanum við Hamrahlíð, segir að við …
Bóas Valdórsson, skólasálfræðingur í Menntaskólanum við Hamrahlíð, segir að við megum vera stolt af unga fólkinu í dag. mbl.is/Hari

Nokkrum sinnum hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga um að Alþingi feli menntamálaráðherra að sjá til þess að öllum nemendum í framhaldsskólum landsins verði tryggt aðgengi að sálfræðiþjónustu innan veggja skólanna þeim að kostnaðarlausu. Í tillögunni sem síðast var lögð fram, í febrúar á þessu ári, er lagt til að ráðherra hafi samráð við Kennarasamband Íslands og Sálfræðingafélag Íslands um tilhögun þjónustunnar, m.a. um meðferð sem veitt er, fjölda nemenda á hvern sálfræðing o.fl.

„Í hvítbók mennta- og menningarmálaráðherra um úrbætur í menntun sem gefin var út í júní 2014 kemur fram að aðeins 44% íslenskra framhaldsskólanema ljúka námi á tilsettum tíma. Ungt fólk hverfur frá námi og mun langtímaáhrifa þess gæta víða í samfélaginu og eru þau þegar farin að sjást. Þetta má að hluta rekja til slæmrar geðheilsu ungmenna hér á landi en sjálfsvíg eru til að mynda helsta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi. Þessum vanda þarf að mæta, t.d. með auknu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. 

Vegna þessa hefur álag aukist mikið á kennara, skólahjúkrunarfræðinga og námsráðgjafa, sem hvorki hafa sérstaka menntun né forsendur til þess að takast á við vandann. Það er því mikilvægt að bregðast við kallinu og auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu innan veggja skólanna.“

Efla þarf forvarnir

Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögu sem lögð var fram á Alþingi síðasta vetur en veturinn 2015–2016 var flutt þingsályktunartillaga þar að lútandi. Sama þingsályktunartillaga var lögð fram á næsta löggjafarþingi.

Í vor lýkur tilraunaverkefni Menntamálastofnunar til að draga úr brotthvarfi úr framhaldsskólum á Íslandi. Nokkrir skólar ákváðu að fara af því tilefni í gang með að bjóða upp á ókeypis sálfræðiþjónustu til að bregðast við því að nokkuð stór hópur nemenda virðist hætta í skóla vegna andlegra erfiðleika.

Agnes Agnarsdóttir segir að gott starf sé unnið af skólasálfræðingum og skólahjúkrunarfræðingum, sérstaklega í forvörnum en efla þurfi þjónustuna. Þau ungmenni sem þurfi síðan á aðstoð eða meðferð sálfræðings að halda, eiga að geta fengið hana á heilsugæslunni með auðveldu aðgengi og endurgjaldlaust.

„Forvarnir eru svo mikilvægar. Að kenna börnum og ungmennum að tilfinningar svo sem kvíði séu eðlilegar og kenna aðferðir til að bregðast við ef eitthvað bjátar á.

Forvarnir eru ekki eitthvað sem eigi að sinna í eitt skipti heldur er þetta eitthvað sem þarf að vera alltaf. Það að geta gripið snemma inn áður en geðrænn vandi verður alvarlegur getur skipt sköpum varðandi framtíð einstaklinga. Heilsugæslan hefur mikinn áhuga á að koma hér enn frekar inn og ég tel að stjórnvöld séu á sama máli. Þetta tekur tíma en við erum þó komin þessi skref sem þegar hafa verið stigin og höldum ótrauð áfram. Við megum ekki gleyma því góða sem er gert og verið er að vinna að,“ segir Agnes. 

Nemendur nýta þjónustuna vel

Einn skólanna er Menntaskólinn við Hamrahlíð og hefur Bóas Valdórsson sálfræðingur sinnt starfinu frá því verkefnið hóf göngu sína. Hann segist vonast til þess að verkefninu verði ekki hætt enda hafa bæði nemendafélög og foreldrar nemenda í framhaldsskólum þrýst á að áfram verði boðið upp á þessa þjónustu.

Bóas segir að gott aðgengi að slíkri þjónustu geti skipt sköpum. Það hefur sýnt sig að nemendur nýta sér vel þá þjónustu þegar aðgengi er að sálfræðingi innan veggja skólans. Mikilvægt sé að kostnaður sé ekki fyrirstaða fyrir ungt fólk þegar það þarf á slíkri þjónustu að halda og að aðgengi sé á þess forsendum í þess nærumhverfi.

„Við vísum þeim sem eru með þungan eða flóknari vanda á úrræði í heilbrigðiskerfinu. Til að mynda ef um alvarlegt þunglyndi er að ræða eða átröskun svo einhver dæmi séu nefnd. Þó svo að skólasálfræðingur geti ekki tekið á slíkum vanda með fullnægjandi hætti þá er auðvelt fyrir hann að hjálpa viðkomandi við að komast í viðeigandi þjónustu og aðstoða með fyrstu skrefin. Stundum er stærsta skrefið fyrir einstakling að opna á það að um vandamál sé að ræða og því mikilvægt að fyrstu viðbrögð við slíkri frásögn séu markviss og fagleg,“ segir Bóas.

Hann segir að flestir þeirra sem til hans leita séu með vanda sem hægt er að vinna úr innan veggja skólans. „Ef vandinn er meiri er yfirleitt fyrsta skrefið að fá foreldra á fund hvort sem ungmennið er yngra eða eldra en 18 ára. Mikilvægt er fyrir ungt fólk að standa ekki eitt í að takast á við viðamikla erfiðleika og flestir vilja fá foreldra sína að borðinu þegar aðstæður eru þannig að þau eiga erfitt með að vinna úr þeim sjálf. Okkar hlutverk er oft að reyna að virkja stuðningsnetið og ræða þá möguleika sem í boði eru. Vissulega er heilsugæslan fyrsti viðkomustaður en það er líka hægt að vísa í sérhæfð teymi, svo sem göngudeildarteymi, bráðateymi eða átröskunarteymi ef vandinn er þannig að það þarf að leita til Landspítalans. Eins eru sjálfstætt starfandi sálfræðingar að veita meðferðir við kvíða, gera ADHD-greiningar eða leggja mat á einkenni á einhverfurófi.“

„Fólk er oft fljótt að kenna snjalltækjunum um allt sem …
„Fólk er oft fljótt að kenna snjalltækjunum um allt sem miður fer. Tæknin hefur skapað mörg tækifæri, tengt fólk saman og auðveldað samskipti.“ mbl.is/Hari

Þjónustan sniðin að nemendunum

Bóas segir að hann hafi reynt allt frá upphafi að sníða þjónustuna þannig að hún sé fyrir alla hvað svo sem bjátar á hjá viðkomandi. „Eins kem ég með fræðslu inn í alla áfanga skólans í lífsleikni þannig að ég hitti alla nemendur skólans einhvern tíma á meðan skólagöngu þeirra stendur,“ segir Bóas.

Hann segir að meiri spurn sé eftir þjónustu sálfræðings á haustönn en á vorönninni sem væntanlega skýrist af því að lífsleiknin er kennd á haustönn og því opnað almennt meira á umræður um þessi málefni. Í fyrirlestrunum er lögð áhersla á að fræða nemendur um tilfinningastjórnun, kvíðaeinkenni, vanlíðan og streitu en þetta eru þeir þættir sem oftast rata inn á borð Bóasar í vinnunni.

Alls leituðu 152 nemendur til Bóasar síðasta vetur og ástæðurnar ýmsar. Kvíði, vanlíðan, streita og álag í daglegu lífi eru eins og áður sagði algengar ástæður sem nemendur gáfu upp þegar þeir komu í viðtal við skólasálfræðinginn í MH. Þunglyndi og kvíði hefur verið að minnka í MH undanfarin tvö ár, samkvæmt því sem kemur fram í Skólapúlsinum og má velta því fyrir sér hvort ástæðan sé að einhverju leyti auðvelt aðgengi að sálfræðingi í skólanum.

Af þeim sem leituðu til skólasálfræðings MH í fyrra voru 60-80 nemendur í reglulegu sambandi við sálfræðing skólans yfir veturinn.

Að sögn Bóasar nefna 25-28% nemenda kvíða sem ástæðu fyrir því að þeir óskuðu eftir einkaviðtali við hann síðustu tvö ár. Þar á eftir koma atriði eins og depurð, streita, erfiðar heimilisaðstæður og uppákomur í einkalífinu.

„Kvíði meðal ungs fólks er ekki nýr af nálinni og við erum svo heppin að ungt fólk er miklu opnara í dag en það var fyrir einhverjum árum síðan. Þau vita að þau eiga að segja frá og leita sér aðstoðar ef þau eru að upplifa vanlíðan en um leið verður þjónustan að vera í boði fyrir þau með þeim hætti að þau geti nýtt sér hana. Það gengur ekki að þau láti vita af vanlíðan en fái ekki þann stuðning sem þau eru að leita eftir.“

Mjög mikilvægt er að hafa í huga að fæstir þeirra nemenda sem leita til Bóasar eru að glíma við klínískan vanda. Þeir takast á við krísur og mótmæli en þeir eru líka að takast á við sig sjálfa og læra á sín eigin viðbrögð í nýjum aðstæðum.

„Hér áður heyrði það til undantekninga að fólk talaði um vanlíðan sína en ég efast ekki um að fólki í gegnum tíðina hafi liðið jafnilla og ungu fólki í dag. Við eigum að þakka fyrir að þetta er ekki jafnmikið feimnismál og áður og að fólk leiti sér aðstoðar. Því á þessum aldri er svo margt að gerast í lífi fólks og það ætti að vera keppikefli að grípa það og aðstoða sem fyrst. Að þjónustan sé nær fólki og aðgengilegri en hún hefur verið,“ segir Bóas.

Eru jafnvel í 140-150% vinnu

Bóas byrjar alltaf á því að fara yfir þá dagskrá nemenda og þær skyldur sem þeir hafa tekið að sér. Ekki er óalgengt að í ljós komi að viðkomandi er í fullu námi og 40% vinnu auk þess að stunda íþróttir eða aðrar tómstundir.

„Við erum kannski að horfa á ungmenni í 140-150% vinnu ef nemandi er í skóla, æfa íþróttir og í vinnu með og það er oft einfaldlega of mikið. Þá er ekkert skrýtið að þú upplifir sterkar tilfinningar, svo sem vanlíðan eða kvíða.

Mín skoðun er að unga fólkið í dag er ekkert á leið til fjandans eins og stundum er haldið fram heldur er álagið oft og tíðum allt of mikið. Þetta er of mikið álag sem getur leitt til þess að þau flosna úr námi eða glíma við kvíða,“ segir Bóas og segist stundum velta því fyrir sér hvort ekki sé tímabært fyrir marga að draga aðeins úr kröfunum og hjálpa ungu fólki að skipuleggja betur tíma sinn og taka ekki of mikið að sér á hverjum tíma.

Eigum að fagna því hvað ungt fólk er opið í dag

„Ég reyni að fara yfir þetta allt með þeim og hvað þau geta gert til þess að bæta líðan sína. Þar bendi ég fyrst á ódýrustu sálfræðimeðferðina sem er svefn. Að sofa nægjanlega mikið til þess að geta tekist á við áskoranir daglega lífsins óþreytt er sennilega besta ráðið sem hægt er að gefa ungu fólki,“ segir Bóas.

Ekki er hægt að taka viðtal við skólasálfræðing öðruvísi en að minnast á snjalltækjanotkun. Bóas segir að það séu öll ungmenni með aðgang að snjalltækjum og noti samfélagsmiðla. Honum finnist stundum eins og fólk taki fulldjúpt í árinni í að gagnrýna ungt fólk og ekki síst á þessu sviði.

„Fólk er oft fljótt að kenna snjalltækjunum um allt sem miður fer. Tæknin hefur skapað mörg tækifæri, tengt fólk saman og auðveldað samskipti. Þetta er eins og með margt annað, við leitum alltaf að sökudólgi. Með snjalltækjum og tækninýjungum fylgja ýmsar áskoranir fyrir okkur öll sem samfélag og ég hef mikla trú á því að ungt fólk muni leiða það ferli hvernig við getum notað og nýtt okkur þau tækifæri með uppbyggilegum hætti. Maður heyrir á ungu fólki að þau eru mjög meðvituð um hvernig samfélagsmiðlar hafa áhrif á sig og mörg hver eru farin að gera róttækar ráðstafanir til að bregðast við því með því að breyta notkun sinni og hugafari gagnvart þeim áhrifum sem koma í gegnum þessa miðla.

Í mínum huga eigum við að vera stolt af ungu fólki í dag. Þau eru meðvitaðri en ungt fólk var áður. Þeirra lífstíll er í flestum tilvikum betri, drekka minna af áfengi og færri reykja. Fíkniefnaneyslan er sennilega ekki mikið meiri en áður en efnin eru sennilega harðari en áður. Þau upplifa tilfinningar eins og kvíða en kunna að greina frá kvíðanum. Þegar ég var í framhaldsskóla töluðu afar fáir um tilfinningar sínar en í dag er það eðlilegasti hlutur í heimi að hnippa í mig hér á göngum MH og óska eftir viðtali. Ég tel að við eigum að fagna því að ungt fólk er opnara en áður en á sama tíma verðum við líka að vera til staðar fyrir þau ef þau biðja um hjálp,“ segir Bóas Valdórsson, skólasálfræðingur í MH.

mbl.is