Skólasálfræðingur MH segist vonast til þess að ekki verði hætt að bjóða upp á ókeypis sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum en í vor lýkur tilraunaverkefni um þjónustuna. Alls leituðu 152 nemendur til Bóasar síðasta vetur og ástæðurnar ýmsar, svo sem kvíði og vanlíðan.
Skólasálfræðingur MH segist vonast til þess að ekki verði hætt að bjóða upp á ókeypis sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum en í vor lýkur tilraunaverkefni um þjónustuna. Alls leituðu 152 nemendur til Bóasar síðasta vetur og ástæðurnar ýmsar, svo sem kvíði og vanlíðan.
Skólasálfræðingur MH segist vonast til þess að ekki verði hætt að bjóða upp á ókeypis sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum en í vor lýkur tilraunaverkefni um þjónustuna. Alls leituðu 152 nemendur til Bóasar síðasta vetur og ástæðurnar ýmsar, svo sem kvíði og vanlíðan.
Nokkrum sinnum hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga um að Alþingi feli menntamálaráðherra að sjá til þess að öllum nemendum í framhaldsskólum landsins verði tryggt aðgengi að sálfræðiþjónustu innan veggja skólanna þeim að kostnaðarlausu. Í tillögunni sem síðast var lögð fram, í febrúar á þessu ári, er lagt til að ráðherra hafi samráð við Kennarasamband Íslands og Sálfræðingafélag Íslands um tilhögun þjónustunnar, m.a. um meðferð sem veitt er, fjölda nemenda á hvern sálfræðing o.fl.
„Í hvítbók mennta- og menningarmálaráðherra um úrbætur í menntun sem gefin var út í júní 2014 kemur fram að aðeins 44% íslenskra framhaldsskólanema ljúka námi á tilsettum tíma. Ungt fólk hverfur frá námi og mun langtímaáhrifa þess gæta víða í samfélaginu og eru þau þegar farin að sjást. Þetta má að hluta rekja til slæmrar geðheilsu ungmenna hér á landi en sjálfsvíg eru til að mynda helsta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi. Þessum vanda þarf að mæta, t.d. með auknu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.
Vegna þessa hefur álag aukist mikið á kennara, skólahjúkrunarfræðinga og námsráðgjafa, sem hvorki hafa sérstaka menntun né forsendur til þess að takast á við vandann. Það er því mikilvægt að bregðast við kallinu og auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu innan veggja skólanna.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögu sem lögð var fram á Alþingi síðasta vetur en veturinn 2015–2016 var flutt þingsályktunartillaga þar að lútandi. Sama þingsályktunartillaga var lögð fram á næsta löggjafarþingi.
Í vor lýkur tilraunaverkefni Menntamálastofnunar til að draga úr brotthvarfi úr framhaldsskólum á Íslandi. Nokkrir skólar ákváðu að fara af því tilefni í gang með að bjóða upp á ókeypis sálfræðiþjónustu til að bregðast við því að nokkuð stór hópur nemenda virðist hætta í skóla vegna andlegra erfiðleika.
Einn skólanna er Menntaskólinn við Hamrahlíð og hefur Bóas Valdórsson sálfræðingur sinnt starfinu frá því verkefnið hóf göngu sína. Hann segist vonast til þess að verkefninu verði ekki hætt enda hafa bæði nemendafélög og foreldrar nemenda í framhaldsskólum þrýst á að áfram verði boðið upp á þessa þjónustu.
Bóas segir að gott aðgengi að slíkri þjónustu geti skipt sköpum. Það hefur sýnt sig að nemendur nýta sér vel þá þjónustu þegar aðgengi er að sálfræðingi innan veggja skólans. Mikilvægt sé að kostnaður sé ekki fyrirstaða fyrir ungt fólk þegar það þarf á slíkri þjónustu að halda og að aðgengi sé á þess forsendum í þess nærumhverfi.
„Við vísum þeim sem eru með þungan eða flóknari vanda á úrræði í heilbrigðiskerfinu. Til að mynda ef um alvarlegt þunglyndi er að ræða eða átröskun svo einhver dæmi séu nefnd. Þó svo að skólasálfræðingur geti ekki tekið á slíkum vanda með fullnægjandi hætti þá er auðvelt fyrir hann að hjálpa viðkomandi við að komast í viðeigandi þjónustu og aðstoða með fyrstu skrefin. Stundum er stærsta skrefið fyrir einstakling að opna á það að um vandamál sé að ræða og því mikilvægt að fyrstu viðbrögð við slíkri frásögn séu markviss og fagleg,“ segir Bóas.
Hann segir að flestir þeirra sem til hans leita séu með vanda sem hægt er að vinna úr innan veggja skólans. „Ef vandinn er meiri er yfirleitt fyrsta skrefið að fá foreldra á fund hvort sem ungmennið er yngra eða eldra en 18 ára. Mikilvægt er fyrir ungt fólk að standa ekki eitt í að takast á við viðamikla erfiðleika og flestir vilja fá foreldra sína að borðinu þegar aðstæður eru þannig að þau eiga erfitt með að vinna úr þeim sjálf. Okkar hlutverk er oft að reyna að virkja stuðningsnetið og ræða þá möguleika sem í boði eru. Vissulega er heilsugæslan fyrsti viðkomustaður en það er líka hægt að vísa í sérhæfð teymi, svo sem göngudeildarteymi, bráðateymi eða átröskunarteymi ef vandinn er þannig að það þarf að leita til Landspítalans. Eins eru sjálfstætt starfandi sálfræðingar að veita meðferðir við kvíða, gera ADHD-greiningar eða leggja mat á einkenni á einhverfurófi.“
Viðtalið við Bóas birtist einnig á mbl.is helgina í greinaflokknum Gætt að geðheilbrigði
Bóas segir að hann hafi reynt allt frá upphafi að sníða þjónustuna þannig að hún sé fyrir alla hvað svo sem bjátar á hjá viðkomandi. „Eins kem ég með fræðslu inn í alla áfanga skólans í lífsleikni þannig að ég hitti alla nemendur skólans einhvern tíma á meðan skólagöngu þeirra stendur,“ segir Bóas.
Hann segir að meiri spurn sé eftir þjónustu sálfræðings á haustönn en á vorönninni sem væntanlega skýrist af því að lífsleiknin er kennd á haustönn og því opnað almennt meira á umræður um þessi málefni. Í fyrirlestrunum er lögð áhersla á að fræða nemendur um tilfinningastjórnun, kvíðaeinkenni, vanlíðan og streitu en þetta eru þeir þættir sem oftast rata inn á borð Bóasar í vinnunni.
Alls leituðu 152 nemendur til Bóasar síðasta vetur og ástæðurnar ýmsar. Kvíði, vanlíðan, streita og álag í daglegu lífi eru eins og áður sagði algengar ástæður sem nemendur gáfu upp þegar þeir komu í viðtal við skólasálfræðinginn í MH. Þunglyndi og kvíði hefur verið að minnka í MH undanfarin tvö ár, samkvæmt því sem kemur fram í Skólapúlsinum og má velta því fyrir sér hvort ástæðan sé að einhverju leyti auðvelt aðgengi að sálfræðingi í skólanum.
Af þeim sem leituðu til skólasálfræðings MH í fyrra voru 60-80 nemendur í reglulegu sambandi við sálfræðing skólans yfir veturinn.
Að sögn Bóasar nefna 25-28% nemenda kvíða sem ástæðu fyrir því að þeir óskuðu eftir einkaviðtali við hann síðustu tvö ár. Þar á eftir koma atriði eins og depurð, streita, erfiðar heimilisaðstæður og uppákomur í einkalífinu.
„Kvíði meðal ungs fólks er ekki nýr af nálinni og við erum svo heppin að ungt fólk er miklu opnara í dag en það var fyrir einhverjum árum síðan. Þau vita að þau eiga að segja frá og leita sér aðstoðar ef þau eru að upplifa vanlíðan en um leið verður þjónustan að vera í boði fyrir þau með þeim hætti að þau geti nýtt sér hana. Það gengur ekki að þau láti vita af vanlíðan en fái ekki þann stuðning sem þau eru að leita eftir.“
Mjög mikilvægt er að hafa í huga að fæstir þeirra nemenda sem leita til Bóasar eru að glíma við klínískan vanda. Þeir takast á við krísur og mótmæli en þeir eru líka að takast á við sig sjálfa og læra á sín eigin viðbrögð í nýjum aðstæðum.
„Hér áður heyrði það til undantekninga að fólk talaði um vanlíðan sína en ég efast ekki um að fólki í gegnum tíðina hafi liðið jafnilla og ungu fólki í dag. Við eigum að þakka fyrir að þetta er ekki jafnmikið feimnismál og áður og að fólk leiti sér aðstoðar. Því á þessum aldri er svo margt að gerast í lífi fólks og það ætti að vera keppikefli að grípa það og aðstoða sem fyrst. Að þjónustan sé nær fólki og aðgengilegri en hún hefur verið,“ segir Bóas.
Bóas byrjar alltaf á því að fara yfir þá dagskrá nemenda og þær skyldur sem þeir hafa tekið að sér. Ekki er óalgengt að í ljós komi að viðkomandi er í fullu námi og 40% vinnu auk þess að stunda íþróttir eða aðrar tómstundir.
„Við erum kannski að horfa á ungmenni í 140-150% vinnu ef nemandi er í skóla, æfa íþróttir og í vinnu með og það er oft einfaldlega of mikið. Þá er ekkert skrýtið að þú upplifir sterkar tilfinningar, svo sem vanlíðan eða kvíða.
Mín skoðun er að unga fólkið í dag er ekkert á leið til fjandans eins og stundum er haldið fram heldur er álagið oft og tíðum allt of mikið. Þetta er of mikið álag sem getur leitt til þess að þau flosna úr námi eða glíma við kvíða,“ segir Bóas og segist stundum velta því fyrir sér hvort ekki sé tímabært fyrir marga að draga aðeins úr kröfunum og hjálpa ungu fólki að skipuleggja betur tíma sinn og taka ekki of mikið að sér á hverjum tíma.
„Ég reyni að fara yfir þetta allt með þeim og hvað þau geta gert til þess að bæta líðan sína. Þar bendi ég fyrst á ódýrustu sálfræðimeðferðina sem er svefn. Að sofa nægjanlega mikið til þess að geta tekist á við áskoranir daglega lífsins óþreytt er sennilega besta ráðið sem hægt er að gefa ungu fólki,“ segir Bóas.
Ekki er hægt að taka viðtal við skólasálfræðing öðruvísi en að minnast á snjalltækjanotkun. Bóas segir að það séu öll ungmenni með aðgang að snjalltækjum og noti samfélagsmiðla. Honum finnist stundum eins og fólk taki fulldjúpt í árinni í að gagnrýna ungt fólk og ekki síst á þessu sviði.
„Fólk er oft fljótt að kenna snjalltækjunum um allt sem miður fer. Tæknin hefur skapað mörg tækifæri, tengt fólk saman og auðveldað samskipti. Þetta er eins og með margt annað, við leitum alltaf að sökudólgi. Með snjalltækjum og tækninýjungum fylgja ýmsar áskoranir fyrir okkur öll sem samfélag og ég hef mikla trú á því að ungt fólk muni leiða það ferli hvernig við getum notað og nýtt okkur þau tækifæri með uppbyggilegum hætti. Maður heyrir á ungu fólki að þau eru mjög meðvituð um hvernig samfélagsmiðlar hafa áhrif á sig og mörg hver eru farin að gera róttækar ráðstafanir til að bregðast við því með því að breyta notkun sinni og hugafari gagnvart þeim áhrifum sem koma í gegnum þessa miðla.
Í mínum huga eigum við að vera stolt af ungu fólki í dag. Þau eru meðvitaðri en ungt fólk var áður. Þeirra lífstíll er í flestum tilvikum betri, drekka minna af áfengi og færri reykja. Fíkniefnaneyslan er sennilega ekki mikið meiri en áður en efnin eru sennilega harðari en áður. Þau upplifa tilfinningar eins og kvíða en kunna að greina frá kvíðanum. Þegar ég var í framhaldsskóla töluðu afar fáir um tilfinningar sínar en í dag er það eðlilegasti hlutur í heimi að hnippa í mig hér á göngum MH og óska eftir viðtali. Ég tel að við eigum að fagna því að ungt fólk er opnara en áður en á sama tíma verðum við líka að vera til staðar fyrir þau ef þau biðja um hjálp,“ segir Bóas Valdórsson, skólasálfræðingur í MH.