Tengsl geðraskana og sjálfsvíga eru vel þekkt en margar geðraskanir eru áhættuþættir fyrir sjálfsvígshegðun. Hið sama á við um sjálfsskaða og geðraskanir. Að sögn Ingu Wessman sálfræðings er nauðsynlegt að starfsfólk á bráðamóttökum kunni að aðstoða fólk í sjálfsvígshættu. „Þetta fólk þarf aðstoð og aðstoðin á að vera til staðar því það er alltaf von, alltaf.“
Tengsl geðraskana og sjálfsvíga eru vel þekkt en margar geðraskanir eru áhættuþættir fyrir sjálfsvígshegðun. Hið sama á við um sjálfsskaða og geðraskanir. Að sögn Ingu Wessman sálfræðings er nauðsynlegt að starfsfólk á bráðamóttökum kunni að aðstoða fólk í sjálfsvígshættu. „Þetta fólk þarf aðstoð og aðstoðin á að vera til staðar því það er alltaf von, alltaf.“
Tengsl geðraskana og sjálfsvíga eru vel þekkt en margar geðraskanir eru áhættuþættir fyrir sjálfsvígshegðun. Hið sama á við um sjálfsskaða og geðraskanir. Að sögn Ingu Wessman sálfræðings er nauðsynlegt að starfsfólk á bráðamóttökum kunni að aðstoða fólk í sjálfsvígshættu. „Þetta fólk þarf aðstoð og aðstoðin á að vera til staðar því það er alltaf von, alltaf.“
Sjálfsskaði (non-suicidal self injury) felst í að valda skaða á yfirborði líkamans viljandi, stundum svo blæði eða myndist marblettur, þannig að viðkomandi upplifi sársauka, án þess að ætla sér að enda eigið líf.
Dæmi um sjálfsskaða eru til dæmis að skera, stinga, klóra, brenna eða slá sig eða slá höfðinu í vegg. Sjálfsskaði hefst oftast snemma á unglingsaldri og getur viðhaldist í mörg ár ef aðstoð er ekki veitt.
Sjálfsskaði er eitthvað sem oft er auðvelt að laga en getur tekið smá tíma, segir Inga Wessman, sálfræðingur á Litlu kvíðameðferðarstöðinni. Lykilatriðið er að gefa sér ekki að maður viti af hverju einhver skaðar sig. Það er til dæmis algengt að fólk með jaðarpersónuleikaröskun (borderline personality disorder) sé sakað um að skaða sig til þess að fá athygli.
„En viljum við ekki öll athygli? Vandinn er ekki athyglissýki heldur skortur á heppiliegri aðferðum til að ná athygli eða fá hlýju og stuðning.
Fólk með jaðarpersónuleikaröskun er með mikið tilfinninganæmi. Það þýðir að væg áreiti kalla fram stekar tilfinningar sem vara lengi. Það geta aðrir átt erfitt með að skilja og átta sig því ekki á, eða bregðast við því hversu illa viðkomandi líður, fyrr en þeir hafa skaðað sig eða sýnt sjálfsvígshegðun.
Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að samskiptafærni er kennd í gagnreyndri meðferð við jaðarpersónuleikaröskun. Hún felur m.a. í sér að kenna skjólstæðingum að fá sínu framgengt í samskiptum án þess að grípa til sjálfsskaða eða annarra leiða sem skemma fyrir samböndum og sjálfsvirðingu,“ segir Inga.
Viðtalið við Ingu birtist einnig um helgina í greinaflokknum Gætt að geðheilbrigði hér á mbl.is.
Að sögn Ingu eru fjórar algengar ástæður fyrir því að fólk skaði sig:
„Í fyrsta lagi til að draga úr erfiðum tilfinningum. Enda virkar það,“ segir hún. „Þegar fólk skaðar sig getur athygli þess færst á líkamlegan sársauka í stað andlegs, sem sumum finnst bærilegra. Því til viðbótar geta erfiðar tilfinningar eins og kvíði minnkað við það eitt að skaða sig vegna þess að líkaminn bregst við með því að hægja á líkamsstarfseminni til að tryggja að við lifum af. En við getum kennt aðrar aðferðir sem hafa sömu áhrif en eru ekki skaðlegar.“
„Í öðru lagi til að losa sig út úr hugrofsástandi (dissociation). Hugrofsástand aftengir okkur frá tilfinningum okkar og kannast um 20% mannfólks við að hafa upplifað slíkt ástand. Hugrof getur hjálpað okkur í krísu með því að aftengja okkur frá yfirþyrmandi erfiðum tilfinningum. En um leið lokar hugrofsástand fyrir þægilegar tilfinningar eins og gleði eða tilhlökkun svo þetta er ekki hjálplegt ástand til lengri tíma litið.
Þeir sem fara oft í hugrof geta upplifað mikla og þráláta tómleikakennd, sem er mjög óþægilegt og oft óbærilegt ástand. Þegar allar tilfinningar eru farnar situr ekkert eftir, bara tómleikinn og viðkomandi finnst hann varla vera lifandi. Í slíku ástandi er algengt að fólk skaði sig, fái sjálfsvígshugsanir eða sýni sjálfsvígshegðun.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að þegar fólk gerir tilraun til sjálfsvígs vegna svona ástands að þá sér það á eftir því um leið og það finnur aftur fyrir tilfinningum, jafnvel kvíða, því þá er tómleikakenndin horfin og því finnst það vera á lifandi.
Þriðja ástæðan er refsing; ég á þetta skilið. Sumir telja sig vera einskis virði, vera ógeðslegir og jafnvel hata sig. Slíkt sjálfshatur eða ógeð getur einnig leitt til sjálfsskaða,“ segir Inga.
„Fjórða ástæðan er þessi sem flestir gera ráð fyrir, til að fá stuðning, umhyggju eða athygli frá öðrum. Sumir eru meðvitaðir um að vera að skaða sig í þessum tilgangi en aðrir eru alls ekki meðvitaðir um þessa tengingu og átta sig því ekki á því hvers vegna þeir skaða sig. En mikilvægt er að hafa í huga að viðkomandi kann hugsanlega ekki heppilegri aðferðir til þess að biðja um stuðning, umhyggju og athygli.
Að lokum nefnir Inga að fólk skaði sig ekki einungis til þess að losna frá óþægilegu innra ástandi eða til að fá athygli. Stundum skaðar fólk sig til að upplifa þægilegt innra ástand sem er stundum lýst sem eins konar sæluvímu.“
Munurinn á skammtíma- og langtímaafleiðingum
Þó að sjálfsskaði geti haft jákvæðar skammtímaafleiðingar er hann ekki hjálplegur til lengri tíma litið. Sjálfsskaði kemur í veg fyrir að fólk læri gagnlegar aðferðir til að takast á við tilfinningar sínar. Hann eykur oft vanlíðan til lengri tíma litið, þar sem margir fá sektarkennd og skammast sín fyrir sár, ör og annað sem af hlýst. Sjálfsskaði getur leitt til varanlegra öra og jafnvel líkamlegs skaða sem er óafturkræfur. Sjálfsskaðahegðun hefur líka yfirleitt neikvæð áhrif á sambönd við vini og vandamenn.
„Meðferð við sjálfsskaða getur tekið tíma og þolinmæði en það er svo sannarlega þess virði að hjálpa fólki að byggja upp líf sem það vill lifa,“ segir Inga.
Hún segir mikilvægt að fá fólk til þess að losa sig við það sem notað er til að skaða sig, s.s. henda rakvélablöðum, kveikjurum og klippa neglurnar. „Aðgengi að því sem notað er spáir hvað best fyrir um sjálfsskaða,“ segir hún. Það sama á við um aðra hvatvísi eins og áfengisdrykkju. Ef einstaklingur er að reyna að hætta að drekka getur verið mikilvægt að vera ekki í kringum áfengi á meðan færni til að meðhöndla löngunina til að drekka lærist.
„Eins getur verið mikilvægt að forðast aðstæður sem eru kveikjan að löngun til sjálfsskaða, þar til viðkomandi hefur öðlast færni til að takast á við vandann og telur sig getað þolað við í návist kveikjunnar, án þess að skaða sig. Slíkar kveikjur eru t.d. ákveðin tónlist eða kvikmyndir. Mikilvægt er að hafa í huga að þó að hægt sé að forðast eða flýja sumar ytri kveikjur þá er ekki hægt að gera það sama við innri kveikjur. Innri kveikjur eru hugsanir, tilfinningar, langanir og líkamleg viðbrögð. Því er mkilvægt að kenna fólki færni til að þola erfitt innra ástand án sjálfsskaða. Við köllum það krísufærni,“ segir Inga Wessman.
„Krísufærni felst meðal annars í aðferðum sem breyta innra ástandi og hjálpa fólki að dreifa athygli og bæta augnablikið. Ein öflug aðferð er til dæmis að dýfa hausnum ofan í ískalt vatn. Þá virkjar þú flökkutaugina (vagus nerve) sem hægir á allri líkamsstarfsemi. Þetta er gott að endurtaka þangað til þér líður betur. Þar á eftir má síðan dreifa athyglinni, til dæmis með því að horfa á sjónvarpsþætti eða teikna. Það getur hjálpað að hlusta á tónlist sem kallar fram andstæðar tilfinningar en þær sem þú ert að reyna að losna við.
Markmiðið er að læra að þola við erfiðar tilfinningar án þess að skaða sig. Það getur tekið tíma að finna hvaða færni reynist hjálpleg og hve mörg skref þurfi í krísuplanið, en þetta virkar hjá þeim sem nota það. Einnig er mikilvægt að hjálpa fólki að minnka tilfinninganæmi sitt þannig að viðbrögðin verði ekki eins sterk þegar það lendir í erfiðleikum. Aðalatriðið er að hjálpa skjólstæðingnum að byggja upp líf sem er þess virði að lifa því,“ segir Inga.
Það er mikilvægt að greina á milli sjálfsskaða annars vegar og sjálfsvígshugsana og hegðunar hins vegar. Þegar fólk skaðar sig er ekki hugsun eða löngun eða ætlun um að enda eigið líf. Að sjálfsögðu getur fólk sem skaðar sig einnig verið með sjálfsvígshugsanir og sýnt sjálfsvígshegðun, því þarf alltaf að spyrja út í sjálfsvígshugsanir og hegðun hjá þeim sem skaða sig, segir hún.
En það er eitt að hugsa um að gera eitthvað og annað að langa að gera það og annað að ætla sér að gera það og mikilvægt að greina þar á milli þegar það kemur að sjálfsvígshugsunum og -hegðun.
Stundum þjóna sjálfvígshugsanir og -hegðun sama tilgangi og sjálfsskaði, það er að draga úr vanlíðan eða fá stuðning eða umhyggju frá öðrum. Líkt og með sjálfsskaða getur það virkað til skemmri tíma litið en aukið á langtímavanda og komið í veg fyrir að fólk læri aðrar aðferðir til þess að byggja upp líf sem er þess virði að lifa.
„Mikilvægt er að hafa í huga að rannsóknir hafa leitt í ljós að fólk á oft erfitt með að muna atburðarásir og á þá í erfiðleikum með að átta sig á hvers vegna það sýnir sjálfsvígshegðun. Það er því ekki að endilega meðvitað að sýna sjálfsvígshegðun til að fá stuðning og umhyggju.
Þeir sem nota sjálfsvígshegðun vegna þess að það leiðir til stuðnings og umhyggju frá öðrum kunna oft ekki heppilegri aðferðir til þess að fá þessum eðlilegu þörfum mætt, líkt og með sjálfsskaða,“ segir hún.
„En svo eru aðrir sem hugsa um sjálfsvíg og sýna sjálfsvígshegðun vegna þess að þá langar og ætla sér að deyja. Þar sem sjálfsvígshugsanir og hegðun geta gegnt svona ólíkum hlutverkum er mikilvægt að spyrja ítarlega út í hugsanir og ímyndir sem fólk hefur tengt sjálfsvígi og þeirri sjálfsvígshegðun sem það sýnir. Síðan þarf að ræða við fólk um hvort það hafi hugsað um aðferðir til að enda eigið líf og tryggja að fólk hafi ekki aðgang að því sem það hefur hugsað sér að nota til að fremja sjálfsvíg.
Ímyndir geta veitt mikilvægar upplýsingar um hlutverk sjálfsvígshugsana. Þegar búið er að bera kennsl á hlutverkið sem sjálfsvígshugsanirnar og -hegðunin gegna er mikilvægt að kenna fólki færni til að þola við erfiðar tilfinningar til að koma í veg fyrir að það endi eigið líf, ásamt því að byggja upp líf sem það vill lifa,“ segir Inga.
Hún segir að margir nefni að þeir telji sig betur komna dána. Að þeir vilji sofna og ekki vakna aftur eða deyja í slysi eða af völdum sjúkdóms. „Þá spyrðu; fyrir hvern er það betra? Ef svarið er; fyrir mig, þá spyrðu; „hvers vegna?“ og reynir að vinna út frá því.“
Sjálfsvíg eru oft rómantíseruð en það er ekkert fallegt við að taka eigið líf. Einhverjir sjá fyrir sér friðsælan dauðdaga en það er bara ekki þannig. Ef þú til dæmis tekur of stóran skammt af lyfjum eða hengir þig, þá missir þú stjórn á losun úrgangsefna, segir Inga.
„Við vitum heldur ekki hvað gerist þegar við deyjum. Það hefur enginn komið til baka og sagt okkur það. Dauðinn er endanlegur. Það er ekki aftur snúið. Ef það er líf eftir dauðann er engin trygging fyrir því að þjáningu okkar ljúki þar. „Kannski þarftu að læra að takast á við sömu tilfinningar og þú varst að forða þér undan, við höfum ekki hugmynd. Sjálfsvíg er varanleg „lausn“ við tímabundnum vanda. Nauðsynlegt er að gera fólki sem er í þessum hugleiðingum grein fyrir því,“ segir Inga.
„Ef svarið er að það sé betra fyrir hina vegna þess að viðkomandi telur sig vera byrði, þá þarf að fara yfir það með viðkomandi hvort því sé í raun þannig farið? Rannsóknir sýna að sjálfsvíg skilur að jafnaði eftir sjö nákomna manni sem syrgja ástvinamissi. Eru þeir allir í raun betur settir?“ spyr hún.
Að sögn Ingu er ástæða þess að fólk segir oft ekki frá sjálfsvígshugsunum og -hegðun fordómar um geðræn vandamál. Fordómar búa til skömm og skömm leiðir til þöggunnar. Með fræðslu er hægt að hjálpa fólki að skilja sjálfsvígshugsanir og hegðun svo það sé sennilegra til að segja frá og leita sér fagaðstoðar.
Orsakir og áhrifaþættir sjálfsvígshugsana og -hegðunar eru margir og samspil þeirra flókið. Þrátt fyrir að við skiljum ekki algjörlega hvað leiðir til og hefur áhrif á sjálfsvígshugsanir og -hegðun þá virðast fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki.
Í fyrsta lagi getur ítarlegur fréttaflutningur sem fegrar sjálfsvíg og fjallar sérstaklega um aðferðir til að enda eigið líf leitt til smitáhrifa, segir Inga.
„Til að mynda var aukinn viðbúnaður á deildinni sem ég vann á í Boston í vor þegar nokkrir frægir einstaklingar frömdu sjálfsvíg. Það var gert vegna ótta við að fleiri myndu fylgja á eftir líkt og gerðist þegar Robin Williams framdi sjálfsvíg fyrir nokkrum árum. Það köllum við smitáhrif. Þess vegna er nauðsynlegt að umræðan um sjálfsvíg sé leidd af fagaðilum sem þekkja vel til málaflokksins. Við eigum ekki að þegja um sjálfsvíg en við eigum að stunda ábyrga umfjöllun. Ef við tölum ekki um sjálfsvíg þá getum við ekki ætlast til þess að fólk þori að segja frá því að það hugsi um sjálfsvíg.
Í öðru lagi geta fjölmiðlar frætt almenning um sjálfsvígshugsanir og -hegðun og hvatt þá sem eru í sjálfsvígshættu til að leita sér aðstoðar. Það er því mikilvægt að fjölmiðlar fylgi leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um hvernig fjalla eigi um sjálfsvíg.“
Á hverju ári fremur tæp milljón jarðarbúa sjálfsvíg. Það þýðir að á 40 sekúndna fresti fellur einhver fyrir eigin hendi. „Fólk segir að sjálfsvígstíðni sé að hækka en ég held að það sé ekki alveg rétt,“ segir Inga.
„Þrátt fyrir miklar framfarir í greiningu og meðferð við geðröskunum hefur sjálfsvígstíðni haldist fremur stöðug síðastliðin 100 ár en þó verða einhverjar sveiflur í tíðni innan ákveðinna hópa yfir tíma.
Það er algengt að þeir sem fremja sjálfsvíg hafi leitað sér aðstoðar á undangengnu ári. Við vitum að fleiri leita aðstoðar hjá heimilislæknum en hjá geðheilbrigðisstarfsfólki. Niðurstöður erlendra rannsókna benda til þess að heimilislæknar spyrji sjaldan um sjálfsvígshugsanir og hegðun, meðhöndli vandann, eða vísi fólki í sjálfsvígshættu til viðeigandi sérfræðinga. Hið sama á því miður oft við um geðheilbrigðisstarfsfólk.
Við vitum að sjálfsvíg eru það sem geðheilbrigðisstarfsmenn óttast hvað mest í meðferð og rannsóknum. Niðurstöður erlendra rannsókna sýna að algengt sé að meðferðaraðilar fólks í sjálfsvígshættu sendi það frá sér til annarra sérfræðinga. Því til viðbótar er oft notast við ógagnreyndar aðferðir til að meðhöndla sjálfsvígshættu.
Þrátt fyrir að sjálfsvíg séu ellefta algengasta dánarorsök heims höfðu aðeins 48 (RCT) rannsóknir á meðferðarárangri við sjálfsvígshugsunum og hegðun farið fram árið 2013. Í mörgum af þessum rannsóknum voru sjálfsvígshugsanir og -hegðun ekki skilgreind eða metin með mælitækjum þar sem áreiðanleiki og réttmæti höfðu ekki verið metin. Þar að auki er fólk í mikilli sjálfsvígshættu oft ekki haft með í rannsóknum sem kanna árangur af meðferð við ýmsum geðröskunum, jafnvel þeim rannsóknum sem einblína sérstaklega á árangur meðferðar við sjálfsvígshugsunum og -hegðun,“ segir Inga.
Ekki hefur verið sýnt fram á að spítalainnlögn beri árangur til að draga úr sjálfsvígum, þvert á móti eykst sjálfsvígshætta töluvert eftir innlögn, segir Inga. „Samt erum við enn þá að leggja fólk í sjálfsvígshættu inn á spítala til að koma í veg fyrir að það endi eigið líf. Við sjáum einnig að almenningur á Íslandi virðist telja að það sé sú meðferð sem einstaklingar í sjálfsvígshættu þurfi.
Sennileg ástæða þess að spítalainnlögn gagnast ekki til að draga úr sjálfsvígum er sú að líf einstaklingsins utan spítalans hefur ekki breyst við það að leggjast inn á geðdeild. Við verðum að tryggja að meðferðaraðilar og rannsakendur hérlendis fái kennslu og þjálfun í að nota gagnreynt mat og meðferð við sjálfsvígshugsunum og -hegðun. Það myndi ekki bara bæta meðferð fyrir þá sem þjást heldur gefa meðferðaraðilum aukið sjálfstraust og vilja til að meðhöndla og rannsaka sjálfsvíg,“ segir hún.
Lítið dæmi um gagnreynt inngrip við sjálfsvígum segir Inga vera að senda fólki bréf eftir að það fer af bráðamóttöku vegna sjálfsvígshugsana eða -hegðunar. Bréfið þarf ekki að vera langt heldur aðallega að sýna fólki að það skipti máli. Að það sé einhver sem hugsar til þess. Einföld eftirfylgni sem virkar ef hún er endurtekin.
Díalektísk atferlismeðferð eða DAM-meðferð var þróuð fyrir sjálfsvígshugsanir og -hegðun en varð fljótlega meðferð fyrir jaðarpersónuleikaröskun. Meðferðin hefur reynst gagnleg til að draga úr sjálfsskaða, sjálfsvígshugsunum og -hegðun. Upphafskona hennar var Marsha Linehan en Inga var nemi á rannsóknarstofu hennar í eitt ár, ásamt því að hafa unnið í tvö ár á McLean-spítala í Boston sem er með sérhæfða DAM-meðferð.
Inga segir að það hafi „gefið góða raun að kenna fólki aðferðir til að þola við erfiðar tilfinningar svo það bregðist ekki við sjálfsvígshugsunum þegar það er í krísu og svo að hjálpa fólki að byggja upp líf sem er þess virði að lifa því.“
Það er nauðsynlegt að starsfólk á bráðamóttökum kunni að aðstoða fólk í sjálfsvígshættu og að gagnreynd viðbragðsáætlun og þjálfun sé fyrir hendi. „Þetta fólk þarf aðstoð og aðstoðin á að vera til staðar því það er alltaf von, alltaf,“ segir Inga Wessman.