Ekki flytja allt á sjúkrahúsin

Börnin okkar og úrræðin | 27. september 2018

Ekki flytja allt á sjúkrahúsin

For­stöðulækn­ir geðlækn­inga á Sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri telur að yfirvöld séu á rangri leið ef  flytja á alla þjón­ustu sem hef­ur verið sinnt af sjálf­stætt starf­andi lækn­um inn á sjúkra­hús­in. Sumu sé betur sinnt á sjúkrahúsum öðru í sjálfstæðum rekstri. Auk þess sem það er ódýrara. 

Ekki flytja allt á sjúkrahúsin

Börnin okkar og úrræðin | 27. september 2018

Helgi Garðar Garðarsson, for­stöðulækn­ir geðlækn­inga á Sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri.
Helgi Garðar Garðarsson, for­stöðulækn­ir geðlækn­inga á Sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri. mbl.is/Hari

For­stöðulækn­ir geðlækn­inga á Sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri telur að yfirvöld séu á rangri leið ef  flytja á alla þjón­ustu sem hef­ur verið sinnt af sjálf­stætt starf­andi lækn­um inn á sjúkra­hús­in. Sumu sé betur sinnt á sjúkrahúsum öðru í sjálfstæðum rekstri. Auk þess sem það er ódýrara. 

For­stöðulækn­ir geðlækn­inga á Sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri telur að yfirvöld séu á rangri leið ef  flytja á alla þjón­ustu sem hef­ur verið sinnt af sjálf­stætt starf­andi lækn­um inn á sjúkra­hús­in. Sumu sé betur sinnt á sjúkrahúsum öðru í sjálfstæðum rekstri. Auk þess sem það er ódýrara. 

Mjög hef­ur verið fjallað um þjón­ustu sér­fræðilækna und­an­farið og þar hafa komið upp ólík sjón­ar­mið. Helgi Garðra Garðarsson, for­stöðulækn­ir geðlækn­inga á Sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri, segir að hér á landi hafi sjálf­stætt starf­andi geðlækn­ar sinnt lang­tíma­eft­ir­liti með fólki með geðrask­an­ir, verk­efni sem hef­ur verið sinnt á öðrum Norður­lönd­um af litl­um þjón­ustu­teym­um (distrikt­spsyk­i­atri).

„Við erum enn stutt á veg kom­in í upp­setn­ingu á slíkri þjón­ustu sem hef­ur þó orðið til á nokkr­um stöðum á höfuðborg­ar­svæðinu og á Ak­ur­eyri,“ seg­ir hann. 

Helgi seg­ir að sum­um verk­efn­um heil­brigðisþjón­ust­unn­ar verði bet­ur sinnt inni á sjúkra­húsi, en öðrum verk­efn­um sé betra að sinna í sjálf­stæðum rekstri. Göngu­deild­arþjón­usta inn­an sjúkra­húsa sé bæði dýr­ari og þyngri í vöf­um en sam­bæri­leg þjón­usta á einka­rek­inni stofu úti í bæ, enda ekki ástæða til að vísa fólki, sem dug­ir þjón­usta í fyrstu og ann­arri línu, í þriðju línu þjón­ustu. Starf­semi sjúkra­húsa og einka­stofa geti vel farið sam­an og  væri ósk­andi að umræðan fari úr skot­grafa­hernaði þegar kem­ur að þess­ari þjón­ustu.

Verk­efni geðdeilda og geðlækna eru margþætt og meðal þeirra um­fangs­mestu er meðferð og end­ur­hæf­ing fólks með lang­vinna geðrofs­sjúk­dóma. Þar er oft­ast um að ræða fólk sem veikist ungt og er veikt ára­tug­um sam­an, seg­ir Helgi Garðar Garðars­son.

Viðtalið birtist einnig um helgina í greinaflokknum Gætt að geðheilbrigði

Helgi Garðar er með sér­fræðirétt­indi í geðlækn­ing­um og barna- og ung­linga­geðlækn­ing­um. Eft­ir sér­nám í Dan­mörku starfaði hann um 15 ára skeið á barna- og ung­linga­geðdeild Land­spít­al­ans. Á starfs­tíma sín­um þar sinnti hann um 10 ára skeið ráðgjöf við meðferð ung­menna á sjúkra­hús­inu Vogi. Helgi hef­ur einnig unnið við barna- og ung­linga­geðlækn­ing­ar í Nor­egi. Frá árs­byrj­un 2016 hef­ur hann verið for­stöðulækn­ir geðlækn­inga á Ak­ur­eyri. Hann er jafn­framt menntaður í jungískri sál­könn­un.

Hann seg­ir verk­efni barna- og ung­linga­geðlækn­inga vera margþætt, allt frá væg­um til­finn­inga­vanda yfir í al­var­leg­ar geðrask­an­ir og fötl­un­ar­vanda. Má nefna börn með námserfiðleika og aðlög­un­ar­vanda gagn­vart skólaum­hverfi eða öðru fé­lags­legu um­hverfi. Einnig má nefna fjöl­skyldu­vanda, hegðun­ar­erfiðleika á ung­lings­aldri, fíkni­vanda og al­var­leg­ar geðrask­an­ir sem fylgja börn­un­um yfir á full­orðins­ár. Verk­efni geðlækn­inga full­orðinna eru sömu­leiðis margþætt, allt frá væg­um vanda, sem má sinna í heilsu­gæslu, yfir í mjög flók­inn og sam­sett­an vanda sem ein­ung­is verður sinnt inni á sjúkra­húsi. Flokka þarf al­var­leika­stig og þjón­ustuþörf í fyrstu línu, annarr­ar línu og þriðju línu þjón­ustu, en þá fyrst ber manni að tryggja aðkomu teym­is mis­mun­andi fag­stétta.

Að sögn Helga er það á ábyrgð sam­fé­lags­ins alls að skapa ramma og viðeig­andi meðferðir fyr­ir hina mis­mun­andi hópa sem sækja sér þjón­ustu í geðheil­brigðis­kerf­inu. Mik­il­vægt er að geðdeild­ir og sveit­ar­fé­lög taki hönd­um sam­an við þjón­ustu og end­ur­hæf­ingu þeirra ein­stak­linga sem veikj­ast ung­ir af lang­vinn­um geðrofs­sjúk­dóm­um.

Mik­il­vægt er, að sögn Helga, að sinna þeim veik­ustu mjög vel og breidd­in í úrræðum fyr­ir þenn­an hóp þarf að vera mik­il, allt frá inn­lögn á bráðadeild­ir geðdeilda til lengri eða skemmri tíma, yfir til ým­issa end­ur­hæf­ingar­úr­ræða.

Sveit­ar­fé­lög og önn­ur þjón­ustu­kerfi þurfa að koma þar að og vinna sam­an að þeim úrræðum sem tengj­ast bú­setu, vinnu, e.t.v. með stuðningi og nám­stengd­um úrræðum.

Ekki nóg að þjón­ust­an sé bara á höfuðborg­ar­svæðinu

mbl.is/Hari

„Þjón­usta við fólk með geðrofs­sjúk­dóma og aðrar al­var­leg­ar geðrask­an­ir á að vera í boði víðar á land­inu en á höfuðborg­ar­svæðinu. Oft er um að ræða ungt fólk með um­tals­verða fötl­un vegna sjúk­dóms­ins og því ekki rétt að ætl­ast til þess að það flytji á milli lands­hluta til þess að sækja sér viðeig­andi þjón­ustu. Sú þjón­usta er reynd­ar í boði á Ak­ur­eyri en ekki ann­ars staðar á lands­byggðinni, eins og staðan er í dag,“ seg­ir Helgi.

„Þegar um er að ræða flók­inn og sam­sett­an vanda þarf aðkomu teym­is fag­fólks, lækni, sál­fræðing, fé­lags­ráðgjafa, hjúkr­un­ar­fræðing, iðjuþjálfa og jafn­vel sjúkraþjálfa, því aðkoma eins fagaðila dug­ir ekki. Teymi eru dýr úrræði en betri þjón­usta til lengri tíma litið fyr­ir þá sem eru með svo um­fangs­mik­inn vanda sem geðrofs­sjúk­dóm­ar eru,“ seg­ir Helgi.

Spurður um hvaða sjúk­dóm­ar séu í þess­um flokki seg­ir Helgi að það séu geðrofs­sjúk­dóm­ar eins og geðklofi, geðhvörf, lang­vinn­ar og erfiðar þung­lynd­islot­ur og al­var­leg sál­vef­ræn vanda­mál.

Slík teymi eigi að vera á veg­um geðheil­brigðisþjón­ust­unn­ar en ekki heilsu­gæsl­unn­ar enda sé heilsu­gæsl­an á fyrsta þjón­ustu­stigi. „Í raun­inni er verið að blanda sam­an þriðja stig­inu og fyrsta stig­inu með því að setja upp geðteymi inn­an ramma heilsu­gæsl­unn­ar,“ seg­ir Helgi.

„Teym­in eiga að tryggja mögu­leika geðfatlaðra á bú­setu í heima­byggð með viðeig­andi þjón­ustu. Það á ekki við í nú­tíma­sam­fé­lagi að lang­veik­ir geðfatlaðir búi lang­tím­um sam­an inni á deild­um sjúkra­hús­anna,“ seg­ir Helgi og bend­ir á að það sé ekki nema rúm­ur ára­tug­ur síðan fólk var flutt eft­ir margra ára dvöl á lang­legu­deild­um geðdeilda yfir í viðeig­andi bú­setu í sinni heima­byggð.

Gæt­um horft til Dana og Norðmanna

„Dan­ir gerðu rót­tæka breyt­ingu á rekstri geðheil­brigðis­kerf­is­ins á 8. ára­tug síðustu ald­ar þegar þeir inn­leiddu hverf­is­geðlækn­ing­ar (distrikt­p­syk­i­atri). Áður voru starf­andi átta risa­stór geðsjúkra­hús, hvert með allt upp í tvö þúsund sjúk­linga. Það þýddi að fáir þekktu sjúk­ling­ana til hlít­ar og sögu þeirra.

Á 20 árum voru sett upp 120 geðheil­brigðisteymi þar sem hvert teymi þjón­ar um það bil 40 þúsund manna íbúa­svæði. Hvert teymi er miðlægt í þjón­ustu við skil­greind­an mark­hóp með vanda á nægi­lega háu al­var­leika­stigi til að rétt­læta teymisaðkomu skjól­stæðinga sem þurfa á lang­tíma­eft­ir­liti að halda.

Teymið ber ábyrgð á að tryggja alla þá þjón­ustu sem skjól­stæðing­ur­inn þarf á að halda hvort sem um er að ræða meðferðarúr­ræði sem veitt eru af teym­inu sjálfu eða vinna að samþætt­ingu við önn­ur þjón­ustu­úr­ræði, þar á meðal þá þjón­ustu sem veitt er af sveit­ar­fé­lag­inu, svo sem bú­setu­úr­ræði og aðra fé­lagsþjón­ustu. Mik­il­vægt hlut­verk teym­anna er að stuðla að sam­vinnu þjón­ustu­kerfa. Teymið er hjartað í allri starf­sem­inni og aðrir eru kallaðir til ábyrgðar því þetta þýðir ekki það að öllu sé hent í teymið og aðrir geti firrt sig ábyrgð held­ur bera þeir hluta ábyrgðar­inn­ar áfram.

Norðmenn hafa út­fært lang­tíma­ábyrgð gagn­vart fötluðum börn­um á góðan hátt. Börn með fötl­un eiga rétt á sam­felldri þjón­ustu. Skil­greind­ur er ábyrgðar­hóp­ur sam­sett­ur af tengiliðum úr öll­um þjón­ustu­kerf­um sem koma að mál­um fatlaða barns­ins og halda utan alla þætti sem varða vel­ferð og þroska þess. Þetta teymi hitt­ist með reglu­legu milli­bili þar til barnið nær 18 ára aldri,“ seg­ir Helgi.

Að sögn Helga ber mála­stjóri skjól­stæðings­ins í hverju teymi ábyrgð á því að tryggja sam­fellu í þjón­ustu við hann, jafn­vel um margra ára skeið. Í Nor­egi er að sögn Helga vel staðið að geðheil­brigðismál­um, ekki síst varðandi börn og ung­menni og margt sem við Íslend­ing­ar gæt­um lært af þeim og tek­ur hann þar í sama streng og svo marg­ir viðmæl­end­ur mbl.is við vinnu á þess­um greina­flokki og greina­flokk­um um úrræði fyr­ir börn og ung­menni.

Helgi seg­ir að það sé áhyggju­efni hér­lend­is hvað mikið vanti af öðrum úrræðum fyr­ir ung­menni frá 18 ára aldri til 25 ára. Til dæm­is starfstengd úrræði fyr­ir ung­menni sem eigi erfitt með aðlög­un að fé­lags­legu um­hverfi, skóla eða starfi.

„Við þurf­um að tryggja sam­fellu í þjón­ust­unni og að börn detti ekki á milli kerfa þegar þau kom­ast á full­orðins­ald­ur. Það þarf að setja ábyrgðar­hóp á lagg­irn­ar strax í barnæsku, fyr­ir þjón­ustu­börn, börn með fötl­un­ar­vanda, sem trygg­ir sam­fellu í þjón­ustu við þau.

Sem bet­ur fer ná flest ung­menni góðri aðlög­un að námi eða starfi. Huga þarf að úrræðum fyr­ir þau ung­menni sem ekki ná því að aðlaga sig ald­urs­svar­andi verk­efn­um nema með hjálp. Þá þarf að huga að náms- eða starfstengd­um úrræðum með viðeig­andi hjálp. Það þarf að huga að raun­hæf­um verk­efn­um fyr­ir ung­menn­in sem móta þau. Sam­fé­lagið kem­ur ekki fólki til manns bara með geðheil­brigðisþjón­ustu held­ur mót­ast ung­menn­in af þeim verk­efn­um sem þau taka sér fyr­ir hend­ur.

Hingað til hef­ur sam­fé­lagið leyst þetta með annaðhvort skóla­úr­ræðum eða hefðbund­inni vinnu, en það eru ekki öll ung­menni sem ná að aðlag­ast eða mæta kröf­um sam­fé­lags­ins eins og við þekkj­um, t.d. með miklu brott­falli úr fram­halds­skóla.

Það er brýn nauðsyn að ráða bót á þessu með ein­hverj­um úrræðum sem geta stutt við þroska þess­ara ung­menna. Því miður eru allt of marg­ir þeirra sem detta út úr fram­halds­skóla í verk­efna­leysi heima hjá sér í lang­an tíma eft­ir það. Jafn­vel í ein­hver ár á meðan þau eru að fóta sig og verða burðugri til að halda áfram hvort sem það er í skóla að nýju eða út á vinnu­markaðnum,“ seg­ir Helgi og nefn­ir Fjölsmiðjuna sem sniðugt starfstengt úrræði.

Hún er ekki meðferðarúr­ræði held­ur vinnustaður. Ung­menni fái laun fyr­ir vinnu sína þar og mót­ist af verk­efn­um sem þeim eru fal­in og af þeirri fé­lags­legu um­gjörð sem þau koma inn í.

Þöglu ungmennin sem glíma við mestan vanda

„Því það eru ekki bara þeir sem eru í vímu­efn­um sem detta út úr fram­halds­skól­um og oft er bara horft á þá sem eru erfiðast­ir. Það eru miklu fleiri þarna, svo sem þöglu ung­menn­in sem ekki fer mikið fyr­ir og eru stund­um sá hóp­ur sem glím­ir við hvað mest­an vanda sem end­ar jafn­vel í fé­lags­legri ein­angr­un og geðrofi. Oft fá þau ekki stuðning­inn fyrr en þau eru orðin al­var­lega veik og þá er miklu dýr­ara og erfiðara að aðstoða þau,“ seg­ir Helgi.

Sjúkra­húsið á Ak­ur­eyri sinn­ir svæði þar sem um 50 þúsund manns búa. Geðsviðið þar er því eðli­lega mun minna en á Land­spít­al­an­um, en á sama tíma verður að hafa í huga að á Ak­ur­eyri er nú eng­inn sjálf­stætt starf­andi geðlækn­ir á stofu og því þarf geðdeild­in þar að sinna fjölþætt­ari þjón­ustu en ella. Á höfuðborg­ar­svæðinu eru um 30 sjálf­stætt starf­andi geðlækn­ar á stofu, en þeir eru í raun allt of fáir miðað við þörf­ina.

Helgi seg­ir að um 700 ein­stak­ling­ar nýti sér göngu­deild­arþjón­ust­una á Ak­ur­eyri á hverju ári sem er mikið miðað við fjölda starfs­manna. „Við erum með jafn­stóra göngu­deild og barna- og ung­linga­geðdeild Land­spít­al­ans. Um­fang þjón­ust­unn­ar hef­ur marg­fald­ast frá því að ný geðdeild var stofnuð á Ak­ur­eyri árið 1986 en stækk­un hús­næðis og fjölg­un starfs­fólks hef­ur ekki hald­ist í hend­ur við aukn­ingu þjón­ust­unn­ar.“

Helgi hef­ur áhyggj­ur af lít­illi nýliðun barna- og ung­linga­geðlækna. Stór hluti þeirra sem starfa á Íslandi er um sex­tugt og svo til eng­in nýliðun hef­ur orðið í þess­ari sér­fræðigrein um ára­bil. Heil­brigðisráðuneytið fór á sín­um tíma í átak til að fjölga þeim sem leggja fyr­ir sig heim­il­is­lækn­ing­ar og seg­ir Helgi að það væri ráðlegt að stíga sams kon­ar skref varðandi barna- og ung­linga­geðlækna.

„Inn­an tíu ára stefn­ir í al­var­leg­an skort á barna- og ung­linga­geðlækn­um, reynd­ar einnig geðlækn­um full­orðinna, og það er grafal­var­legt mál. Það tek­ur um það bil fimm til tíu ár að mennta og þjálfa upp hvort sem er geðlækni eða barna- og ung­linga­geðlækni  en þeir eru telj­andi á fingr­um annarr­ar hand­ar sem eru núna í þjálf­un í síðar­nefndu sér­grein­inni,“ seg­ir hann.

Eitt af því sem rætt hef­ur verið um í fjöl­miðlum er hvort ekki þurfi að auka dreif­ingu á þjón­ustu við ungt fólk með al­var­leg­ar geðrask­an­ir. Koma mætti upp lít­illi geðdeild á Norður- eða Aust­ur­landi sem sinn­ir fólki með tvígrein­ing­ar og ung­menn­um með blöndu af væg­ari geðvanda og fíkni­vanda.

Helgi seg­ir slíka þjón­ustu ekki vera til staðar úti á landi og því þurfi ung­menni að leita til Reykja­vík­ur. Á Ak­ur­eyri er starf­rækt lokuð deild fyr­ir full­orðna en ekki þykir væn­legt til ár­ang­urs að blönd­un verk­efna sé of mik­il á einni deild, bæði hvað varðar ald­ur og þá erfiðleika sem fólk glím­ir við.

Heim­il­is­lækn­ar gegna mik­il­vægu hlut­verki

Eitt af því sem Helgi nefn­ir er hlut­verk heim­il­is­lækna og hve oft það er talað niður. „Þetta er vel menntuð stétt og  gegn­ir mik­il­vægu hlut­verki í heil­brigðis­kerf­inu. Oft er líka talað nei­kvætt um lyfjameðferð en lyf gegna mik­il­vægu hlut­verki í geðlækn­ing­um.

Lyf­in eru öfl­ug­asta vopnið sem við höf­um til þess að koma fólki úr geðrofs­ástandi og til að meðhöndla al­var­legt þung­lyndi og kvíða. Marg­ir skjól­stæðing­ar geðdeilda eru með vanda á það háu al­var­leika­stigi að þeir þurfa reglu­lega þjón­ustu um lengri tíma. Við verðum að gæta þess að umræðan verði ekki of ein­hliða og að þjón­ust­an verði sniðin að þörf­um hvers og eins,“ seg­ir Helgi Garðar Garðars­son.

mbl.is