Nokkur ár eru síðan fagfólki varð ljóst að fólki með geðhvörf væri ekki sinnt nægjanlega vel hér á landi. Víða erlendis var farið að stofna sérhæfða þjónustu utan um þennan hóp.
Nokkur ár eru síðan fagfólki varð ljóst að fólki með geðhvörf væri ekki sinnt nægjanlega vel hér á landi. Víða erlendis var farið að stofna sérhæfða þjónustu utan um þennan hóp.
Nokkur ár eru síðan fagfólki varð ljóst að fólki með geðhvörf væri ekki sinnt nægjanlega vel hér á landi. Víða erlendis var farið að stofna sérhæfða þjónustu utan um þennan hóp.
Í byrjun árs 2017 var geðhvarfateymi Landspítalans sett á laggirnar og starfar það undir hatti Laugarássins.
Birna Guðrún Þórðardóttir geðlæknir og Halla Ósk Ólafsdóttir sálfræðingur vinna í geðhvarfateyminu og segja þær að markhópur teymisins sé ungt fólk sem er nýgreint með geðhvörf.
„Við sáum að teyminu væri best fyrir komið hjá Laugarásnum vegna samlegðaráhrifa og það er ekki óalgengt að fólk sé bæði á Laugarásnum og hjá okkur því það er stundum óljóst í upphafi um hvaða geðrofssjúkdóm er að ræða og eins nýtist þjónustan á Laugarási oft okkar skjólstæðingum vel. Um leið og við fórum af stað þá skynjuðum við þörfina,“ segir Birna Guðrún.
Viðtalið var einnig birt um síðustu helgi á mbl.is í greinaflokknum Gætt að geðheilbrigði
Skjólstæðingar teymisins eru með geðhvörf 1 (bipolar 1) en það er það form geðhvarfa sem einkennist af óvenjumiklum sveiflum á geðslagi, oflætissveiflum þar sem viðkomandi getur misst tengsl við raunveruleikann og hefur ekki innsæi í að um veikindaástand sé að ræða og djúpar þunglyndislotur með uppgjöf, vonleysi og jafnvel sjálfsvígshugsunum.
Fólk með þessa tegund af geðhvörfum setur hvað mestan svip á sjúkdóminn og gefur honum andlit. Þetta eru einstaklingarnir sem í oflætinu eru ósigrandi og búa yfir óþrjótandi orku til að sigra heiminn, segir í fræðslu sem Héðinn Unnsteinsson hefur tekið saman og er birt á vef Geðhjálpar.
Að sögn Höllu hefur verið sýnt fram á að sérhæfð meðferð gagnist hvað best við meðhöndlun geðhvarfa. Fyrir tilkomu teymisins hafi ungt fólk með geðhvörf verið hópur sem var illa sinnt en rannsóknir sýni að ef gripið er inn snemma er hægt að hafa mikil áhrif á framgang sjúkdómsins og hversu mikil áhrif hann hefur á líf fólks. Hún segir að þjónustan hér sé gagnreynd meðferð að danskri og spænskri fyrirmynd en þar hefur mikil vinna verið lögð í þróun á meðferðarúrræðum fyrir fólk með geðhvörf.
„Við sjáum að það er hægt að bæta lífsgæði þessa hóps á þann veg að fólk geti haldið áfram með líf sitt. Meðal annars með því að halda áfram í námi eða starfi í stað þess að fara á örorku. En til þess þurfa úrræði eins og þetta að vera til staðar svo hægt sé að grípa snemma inn,“ segir Halla.
Að sögn Birnu er þjónustan unnin í þverfaglegu teymi sem virðist gefa góða raun. Um göngudeildarþjónustu sé að ræða og einstaklingsbundið hversu oft fólk kemur í eftirlit. Eitt það fyrsta sem þarf að gera er að koma fólki í skilning um að þetta sé alvarlegur sjúkdómur sem þarfnast meðferðar og oftar en ekki langtímalyfjameðferðar.
„Með geðhvörf, líkt og aðra geðrofssjúkdóma, er lyfjameðferð algjör lífsbjörg. Eitt af því sem hefur verið vandamálið með ungt fólk er að meðferðarheldni er oft léleg, fólk fær ekki næga fræðslu um lotubundinn gang veikindanna og hvernig hann hegðar sér og hættir oft að taka lyf þegar vel gengur. Yfirleitt farnast fólki best ef það sættist á að taka lyfin reglulega og þá í fyrirbyggjandi tilgangi. Stór hluti af okkar vinnu felst í fræðslu, að fræða fólk um veikindin og hvað lyfjameðferð er mikilvæg,“ segir Birna. „Við viljum gera einstaklinginn að sérfræðingi í eigin veikindum,“ bætir hún við.
Þær segja að auk fræðslu byggist starfsemi teymisins á hugrænni atferlismeðferð þar sem fólk fær verkfæri til að takist á við geðhvörfin og annan samhliða vanda en kvíðaraskanir eru til að mynda algengur fylgifiskur geðhvarfa. Meðferðin er bæði hóp- og einstaklingsmiðuð og þar sem flestir þeirra sem eru í teyminu eru á aldrinum 18-30 ára er unnið mikið með fjölskyldum.
„Að megninu til er þetta ungt fólk sem býr heima hjá foreldrum þannig að öll fjölskyldan kemur að meðferðinni. Það gerum við meðal annars með fræðslu um hvernig eigi að bregðast við ef fer að bóla á nýrri veikindalotu og grípa til viðeigandi ráðstafana ef veikindi láta á sér kræla, það skiptir sköpum að hafa góðan stuðning í svona veikindum,“ segja þær.
Í fyrstu er mest um einstaklingsmeðferð að ræða en þegar á líður og líðan fólks er orðin stöðug er boðið upp á hópmeðferð. Um er að ræða 16 vikna meðferð með 8-10 þátttakendum. Hópmeðferðin hefur notið vinsælda og sést það meðal annars á því hversu góð mætingin er í alla tíma. Oft er líka gott fyrir ungt fólk að kynnast öðrum sem eru með sama sjúkdóm og það og finna að það er ekki eitt á báti. Þær segja að starfssystkini þeirra í öðrum löndum hafi sömu sögu að segja af hópmeðferð meðal ungs fólks með geðhvörf. Almennt séð hafi slíkt starf gefið góða raun.
„Oftar en ekki er þetta í fyrsta skipti sem fólk er að hitta einhvern annan með geðhvörf og þarna fær fólk fræðslu frá fagfólki en ekki einhverju sem það les á netinu. Þau sem eru að koma ný inn eru stundum hrædd við lyfjameðferð, halda að lyfin séu ávanabindandi og þau breyti persónuleika þeirra. Þetta er oftar en ekki eitthvað sem þau hafa fundið við leit á netinu eða heyrt út í bæ. Það er mikilvægt að þau fái réttar upplýsingar svo þau geti vegið og metið gagnsemi meðferðar með réttar upplýsingar í höndunum,“ segir Birna.
Birna segir að oft þurfi ungt fólk sem er að byrja að veikjast að leggjast inn á sjúkrahús undir þrýstingi aðstandenda. Innsæisleysi er oft hluti af veikindunum. Það skynjar ekki að það sé veikt og skilur ekki hvers vegna það eigi að taka lyf og vera inni á sjúkrahúsi. Þess vegna þarf stundum að grípa til nauðungarvistana. Með teyminu hefur bæði innlögnum og innlagnardögum fækkað hjá þessum hópi og þeir sem eru í teyminu hafa sjaldnar þurft að leggjast inn á sjúkrahús en áður en þeir komu í teymið.
Halla og Birna segja að þjónustan sé gjaldfrjáls og það sé lykilatriði. Flest þeirra sem eru í teyminu eru ung og í skóla eða háð foreldrum á einn eða annan hátt. Jafnframt er þess gætt að auðvelt sé að ná í starfsfólk teymisins og ef líðan fólks versnar eru samskiptin aukin til muna, þau mæta þá jafnvel nokkrum sinnum í viku í viðtöl eða þeim er fylgt eftir með reglubundnum símtölum, allt eftir þörfum hvers og eins.
Eins og staðan er í dag eru 65 ungmenni innan vébanda teymisins og ljóst að það annar engan veginn eftirspurn þar sem starfsmennirnir eru aðeins fjórir í 2,4 stöðugildum.
„Við erum því miður með langan biðlista sem er alls ekki nógu gott því við myndum vilja geta tekið við fólki um leið og það sýnir fyrstu merki veikinda. Því við vitum að því vegnar miklu betur ef það er gert og því mikið í húfi,“ segir Birna.
Fyrst eftir að teymið tók til starfa gekk vel að anna eftirspurn en í dag þarf fólk að bíða í þrjá til sjö mánuði eftir því að komast að. „Þetta er mikil synd því við höfum sýnt fram á að með því að fyrirbyggja veikindi er hægt að koma í veg fyrir mikla þjáningu sem og spara mikið fé. Það er mestur gangur í veikindunum í upphafi og ef okkur tekst að aðstoða fólk og kenna því á sjúkdóminn og hvernig best er fyrir það að hegða lífinu sínu er svo mikið áunnið,“ segja þær Birna og Halla.
Einn af fylgifiskum geðhvarfa er vitræn skerðing og er hún mest eftir veikindalotur. Ef um endurteknar lotur er að ræða er hætta á varanlegum skaða. Þær segja mikilvægt að upplýsa fólk um veikindin og fylgifiska þeirra því þá eru meiri líkur á að fólk taki upplýsta ákvörðun um hvernig það vilji haga lífi sínu.
„Hluti af okkar vinnu fer í að eltast við skjólstæðingana þar sem fólk á eðlilega erfitt með að sætta sig við og viðurkenna veikindin. Telur jafnvel að veikindalotan muni ekki endurtaka sig. Þetta er eðlileg tilfinning þegar þú ert um tvítugt en eitt af því sem við erum að reyna að segja fólki er að það geti ekki tekist á við þetta seinna. Því ef veikindin eru farin að valda varanlegum skaða verður oft erfiðara að ráða við sjúkdóminn og loturnar sem honum fylgja verða tíðari og lyfjasvörun verri,“ segir Birna.
Töluvert hefur verið rætt um málefni tvígreindra, það er fólks með geðrofs- og fíknisjúkdóm og að sögn Birnu og Höllu eru fíknisjúkdómar miklu algengari hjá fólki með geðhvörf en öðrum. Á meðan algengi fíknisjúkdóma er almennt um 13% þá er hlutfallið 50% hjá fólki með geðhvörf.
Ekki er vitað hvað veldur, hvort sem fólk er að reyna að meðhöndla einhver einkenni eða þetta er hluti af birtingarmynd veikindanna er þetta hópur sem leitar meira í neyslu áfengis og annarra vímuefna.
„Við teljum að það væri æskilegt að við gætum boðið okkar skjólstæðingum upp á markvissari vímuefnameðferð þar sem við teljum að það eigi að meðhöndla geðhvörfin og fíknina á sama tíma. Þetta er eitt af því sem við erum að skoða en hingað til höfum við reynt í viðtölum að hvetja fólk til þess að minnka neyslu eða hætta henni alveg auk þess að vera í samstarfi við meðferðarstofnanir ef við á,“ segja þær.
Að sögn Höllu og Birnu er margt sem þarf að haldast í hendur til þess að koma í veg fyrir alvarlegar veikindalotur. Að gæta þess að taka lyfin og huga vel að álagsþáttum. Að þekkja einkennin svo hægt sé að bregðast snemma við eða áður en komið er í slæma veikindalotu. Með þessu er oft hægt að minnka verulega þau áhrif sem veikindin hafa á líf fólks og komast hjá innlögn á sjúkrahús sem er allra hagur, segja þær Birna Guðrún Þórðardóttir og Halla Ósk Ólafsdóttir.