Kom þeim algjörlega í opna skjöldu

Börnin okkar og úrræðin | 30. desember 2018

Kom þeim algjörlega í opna skjöldu

Að opna umræðu og vinna að forvörnum eru fyrstu skrefin í þjóðarátakinu gegn fíkniefnum þar sem áherslan er á misnotkun lyfja meðal ungmenna á Íslandi, segir fjölskylda Einars Darra Óskarssonar. Hann var 18 ára gamall þegar hann lést vegna lyfjaeitrunar í vor. Það sem af er ári hafa yfir 50 dauðsföll komið til rannsóknar hjá embætti landlæknis vegna gruns um lyfjaeitrun og hafa þau aldrei verið jafn mörg á einu ári. Í fyrra voru þau 32 talsins.

Kom þeim algjörlega í opna skjöldu

Börnin okkar og úrræðin | 30. desember 2018

Systur Einars Darra og foreldrar, Aníta Rún Óskarsdóttir, Andrea Ýr …
Systur Einars Darra og foreldrar, Aníta Rún Óskarsdóttir, Andrea Ýr Arnarsdóttir, Óskar Vídalín Kristjánsson og Bára Tómasdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að opna umræðu og vinna að forvörnum eru fyrstu skrefin í þjóðarátakinu gegn fíkniefnum þar sem áherslan er á misnotkun lyfja meðal ungmenna á Íslandi, segir fjölskylda Einars Darra Óskarssonar. Hann var 18 ára gamall þegar hann lést vegna lyfjaeitrunar í vor. Það sem af er ári hafa yfir 50 dauðsföll komið til rannsóknar hjá embætti landlæknis vegna gruns um lyfjaeitrun og hafa þau aldrei verið jafn mörg á einu ári. Í fyrra voru þau 32 talsins.

Að opna umræðu og vinna að forvörnum eru fyrstu skrefin í þjóðarátakinu gegn fíkniefnum þar sem áherslan er á misnotkun lyfja meðal ungmenna á Íslandi, segir fjölskylda Einars Darra Óskarssonar. Hann var 18 ára gamall þegar hann lést vegna lyfjaeitrunar í vor. Það sem af er ári hafa yfir 50 dauðsföll komið til rannsóknar hjá embætti landlæknis vegna gruns um lyfjaeitrun og hafa þau aldrei verið jafn mörg á einu ári. Í fyrra voru þau 32 talsins.

Einar Darri lést 25. maí á heimili sínu og fljótlega eftir andlátið kom í ljós að hann hafði verið að misnota lyfseðilsskyld lyf síðustu vikur lífs síns. Þetta kom fjölskyldu hans í opna skjöldu enda hafði hana ekki grunað að svo væri.

„Fjölmargir vinir hans komu á heimili okkar í Hvalfjarðarsveit eftir að hann lést en þeir vissu að heimili okkar var þeim alltaf opið. Í samtölum við þá kom ýmislegt fram sem við höfðum ekki hugmynd um og við fengum bókstaflega áfall við að heyra allt sem þau vissu,“ segir Bára Tómasdóttir, móðir Einars Darra. „Eftir því sem við vissum meira sáum við að vandamálið var stærra og meira en okkur gat órað fyrir,“ bætir hún við.

Þegar fjölskyldan gerði sér betur grein fyrir umfangi vandans ákvað hún, ásamt vinum Einars Darra, að stofna minningarsjóð um Einar Darra í þeirri von að þau gætu komið öðrum ungmennum til bjargar. Forsvarsmenn Minningarsjóðsins eru Bára Tómasdóttir, móðir Einars Darra, faðir Einars, Óskar Vídalín Kristjánsson og systur Einars, Andrea Ýr Arnarsdóttir og Aníta Rún Óskarsdóttir. Minningarsjóður Einars Darra stendur fyrir þjóðarátakinu Ég á bara eitt líf.

Meðal verkefna eru armbönd sem minningarsjóðurinn hefur gefið fólki um allt land en það að bera armbandið er tákn um samstöðu og að fá ungmenni til þess að hugsa sig um tvisvar áður en þau misnota lyf eða önnur fíkniefni.

Stefnt að þjóðfundi á næsta ári

Jafnframt hefur minningarsjóðurinn gert fræðslu- og forvarnamyndskeið og gefið út lag sem er tileinkað öllum sem hafa látist af völdum eða í tengslum við misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum eða öðrum fíkniefnum

Á næsta ári er stefnt að því að halda þjóðfund unga fólksins þar sem þau ætla að fá ungmenni alls staðar að landinu til þess velta upp og fjalla um vanlíðan og stöðu ungs fólks í dag. Svo sem hvers vegna svo mörg ungmenni leita í misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og fíkniefnum? Hvers vegna eru sjálfsvíg og sjálfsvígshugsanir svona algeng? Hvað veldur ungu fólki kvíða? Hvað getum við gert til að hjálpa unga fólkinu okkar?

Þau vonast til þess að á fundinum verði þessar spurningar krufðar og við þeim fáist svör sem og við mörgum öðrum spurningum sem snúa að ungu fólki. Raddir ungs fólks eiga að heyrast og það á að fá tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum fyrir komandi kynslóðir, segir Andrea. Þau hafa fengið ýmsa aðila með sér að verkefninu sem verður kynnt betur eftir áramót. 

Einar Darri Óskarsson.
Einar Darri Óskarsson.

Gat hvorki ímyndað sér né skilið þennan heim 

Andrea er í meistaranámi í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri og hefur sérhæft sig í misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum. Hún segir að þrátt fyrir að hafa legið í rannsóknum á þessu sviði þá hefði hún ekki getað ímyndað sér né heldur skilið heim fíknarinnar áður en Einar dó og að hafa undanfarna mánuði rætt við þá sem hafa verið í þessum harða heimi.

Fjölskyldan telur að vandinn sé miklu meiri en fólk geri sér almennt grein fyrir. Þetta taki starfsfólk í heilbrigðisþjónustu undir sem og þeir sem vinna við sjúkraflutninga og löggæslu.

Að sögn Óskars hafa þau rætt við fjölmarga sem vegna starfs síns koma að þeim sem misnotaða lyf og alls staðar ber að sama brunni, misnotkunin er gríðarleg. Því miður geri fá ungmenni sér grein fyrir alvarleika slíkrar neyslu því hún geti verið lífshættuleg líkt og við höfum því miður séð ítrekað undanfarin misseri, segir hann.

Þau segja að vinir Einars hafi lýst því fyrir þeim hversu auðvelt aðgengið að lyfjum og öðrum fíkniefnum sé hér á landi, meðal annars hvernig lyfjum er smyglað hingað til lands. Ekkert mál sé að panta þau á netinu og fá lyfin með póstsendingum.

Of mikið einblínt á árangur

„Í einfeldni okkar héldum við fyrst að þetta væri bara svona meðal krakka sem Einar þekkti en síðan fóru miklu fleiri krakkar að hafa samband við okkur og sögurnar eru svipaðar. Lyfin eru alls staðar og eru misnotuð af krökkum úti um allt land. Krakkar sem eru dúxa í skólum eru þar ekkert undanskildir né heldur krakkar sem eru í íþróttum,“ segir Bára.

„Rannsóknir sýna að ungt fólk í framhaldsskólum og háskólum er að misnota örvandi lyf til þess að ná betri árangri í námi og þetta segir okkur að misnotkunin heldur áfram. Til að mynda þegar fólk er að reyna að ná árangri síðar í lífinu þar sem það telur að rétta leiðin að árangri sé að taka lyf,“ segir Óskar og bætir við að hann velti því fyrir sér hvort ekki sé stundum of mikið einblínt á árangur hjá ungu fólki og það ráði einfaldlega ekki við álagið. Ungmenni óttast að standa ekki undir því sem er ætlast til af þeim og leita í lyf í stað þess að fá sálræna aðstoð, meðal annars vegna fordóma í samfélaginu í garð þeirra sem þurfa á slíkri hjálp að halda, sem og í heilsueflingu.

Tvær töflur af Xanax kosta um þrjú þúsund krónur.
Tvær töflur af Xanax kosta um þrjú þúsund krónur. Wikipedia

Þessi lyf eru markaðssett af sölumönnum sem besta ráðið við kvíða, segir Aníta og vísar þar til mikillar aukningar á kvíðalyfinu Xanax meðal ungs fólks. Um er að ræða lyf með virka efninu alprazolam (tafíl) sem er róandi, kvíðastillandi, krampastillandi og vöðvaslakandi. Vísbendingar eru um að slíkar töflur séu slegnar hér á landi og er engin leið að vita með vissu hvaða efni eru í slíkum töflum eða af hvaða styrk þau eru. Með öðrum orðum þegar slík tafla er tekin þá veit viðkomandi ekkert hvað hann er að láta ofan í sig. Ekki fylgi sögunni hjá sölumanninum hversu ávanabindandi slík lyf eru.

Eitt af því sem þau munu fara inn á í forvarnarfræðslu sinni  eru geðheilbrigðismál, ekki síst vegna þess hve margir glími við kvíða og telji enga aðra lausn vera í boði en að leita í lyf. Eða líða illa og þegja um það. „Við viljum fá þeim verkfæri í hendur sem þau geta unnið með,“ segir Andrea.

Líkt og einn viðmælandi mbl.is, sem var í neyslu bæði ólöglegra sem og löglegra lyfja í nokkur ár, segir komust kvíðastillandi lyf, sem yfirleitt ganga undir heitinu Xanax, mjög í tísku snemma fyrir um tveimur árum meðal ungs fólks til að komast í vímu. Hann segir lyfið koma frá læknum eða vera heimatilbúið því framleiðslan sé auðveld og ekkert ósvipuð framleiðslu á e-töflum. „Þú út­veg­ar þér pillupressu eins og eru notaðar við að pressa e-töfl­ur og ger­ir þínar eig­in Xan­ax-töfl­ur.“ 

Þetta er gert úr því sem kall­ast flúni (flunitrazepam, oft kallað ro­hypnol), flúni­duftið er gríðarlega sterkt, að hans sögn og get­ur reynst erfitt að áætla hversu sterk­ar töfl­ur þú ert með í hönd­un­um.

„Við viss­um ekk­ert hvað við vor­um með í hönd­un­um og að þessi lyf­seðils­skyldu lyf eru miklu hættu­legri en þessi ólög­legu efni sem eru í gangi. Það eru ekki bara harðir dóp­ist­ar sem eru að taka þessi lyf því þetta eru venju­leg­ir krakk­ar í mennta­skól­um sem kaupa þessi lyf fyr­ir helg­ar. Tvær töfl­ur kosta kannski þrjú þúsund krón­ur sem dug­ar vel til þess að kom­ast í vímu. Áhrif­in eru hrika­leg án þess að þú ger­ir þér grein fyr­ir því. Þú verður svo kæru­laus og þetta slær á kvíðann. Til dæm­is ef þú ert að nota kanna­bis eða kókaín þá verður þú kvíðinn en svo tek­ur þú Xan­ax og kvíðinn hverf­ur eins og dögg fyr­ir sólu,“ segir þessi ungi maður sem mbl.is ræddi við í sumar um þessi mál.

Andrea segir að á sama tíma og kvíði er alvarlegt vandamál meðal ungs fólks á Íslandi geti það verið mjög auðveld lausn að taka töflu sem taki vanlíðanina sem þú annars glímir við, þar sem fræðslan um skaðsemina og aukaverkanir hefur verið af skornum skammti og vitneskja þá einungis til staðar um jákvæðu hliðar þess að taka töflu en síður þeirra gríðarmiklu neikvæðu hliða sem er án efa ríkjandi viðhorf.

„Ef við setjum okkur sjálf í þessi spor – ég veit ekki hvort ég hefði getað staðist slík gylliboð, með einungis vitneskju um jákvæðu hliðarnar, á sínum tíma hefði ég verið í þeirra sporum,“ segir Andrea.

Hver stenst slíkt gylliboð?

„Töfralausn sem bjargar þér úr vítahring kvíða og gerir þér fært að læra, sofa betur og ganga vel í skólanum,“ segir Óskar. „Hver stenst slíkt gylliboð?“ bætir hann við.

Aníta, sem er rúmlega tvítug, segir að fyrir nokkrum árum hafi verið mun erfiðara að útvega sér eiturlyf en nú er og fólk þurft að fara krókaleiðir að nálgast þau en í dag eru efnin alls staðar.

„Þú getur átt von á að vera boðið efni hvar sem er; úti á götu, í partýum, skemmtistöðum, nefndu það – þetta er alls staðar. Þér er kannski boðin ein tafla frítt og það getur verið erfitt að standast slíkar freistingar ef þú hefur ekki verið upplýst um hverjar afleiðingarnar geta orðið,“ segir Aníta.

Frá því í haust hafa þau heimsótt framhaldsskóla og sagt sögu Einars Darra ásamt vinum hans. Í febrúar byrja þau síðan með fræðslu í grunnskólum á vegum minningarsjóðsins og verður þeirri fræðslu beint að foreldrum, börnum og kennurum.

Bára og Óskar segja að kynslóð Einars Darra og Anítu hafi ekki fengið forvarnafræðslu í skóla enda eitt af því sem var oft skorið niður í hruninu. „Þetta er áhættuhópurinn í dag. Ungt fólk sem ekki fékk þá fræðslu sem krakkar fengu áður og hefur sýnt sig að skilaði árangri,“ segja þau. Við erum að súpa seyðið af þessum niðurskurði í dag og bæta við að fræðsla ungmenna komi því miður annars staðar frá. Fræðslan sem þau fá kemur frá fíkniefnasölum og á netinu frá þeim sem hafa hag af neyslu þeirra.

Aníta Rán og Einar Darri með föður sínum, Óskari.
Aníta Rán og Einar Darri með föður sínum, Óskari.

„Ungt fólk í dag er svo klárt og veit svo mikið,“ segir Bára og bætir við að þeirra starf felist ekki í hræðsluáróðri. Heldur fræða ungmenni og aðstoða þau við að taka upplýsta ákvörðun um hvað þau taka inn og að það sé allt í lagi að segja nei við fíkniefnum og leita sér hjálpar. 

Þær Andrea og Aníta segja vandamálið sennilega stærra en nokkur geri sér grein fyrir. Ekki sé við eitthvað eitt að sakast heldur spili saman margir samverkandi þættir.

Þetta fór fram úr okkur

„Þetta er samfélagsvandamál sem snertir okkur öll og við eigum öll aðild að. Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum við að breyta þessu,“ segir Aníta og Andrea tekur fram að margt gott hafi áunnist hér á landi í heilbrigðismálum. „En þetta fór bara fram úr okkur,“ segir Andrea.

Að sögn Báru er mikilvægt að forvarnastarfið hefjist á heimilunum. Krakkar sjái alls konar lyf í lyfjaskápum foreldra og hjá afa og ömmu vegna þess að oft er ávísað miklu meira magni lyfja en þörf er á. Í stað þess að fara með lyfin í eyðingu séu þau geymd inni í skáp á baði fyrir allra augum. Þarna eru lyf eins og verkjalyf (svo sem ópíóíðar) og því auðvelt að hugsa: mamma á þetta og ég má gera eins og hún. Þetta er eitt af því sem við hjá minningarsjóðnum erum að ítreka við foreldra og aðra: Ekki geyma lyf í ólæstum skápum sem krakkar hafa aðgang að, segir hún.

Óskar segir að eitt af því sem Bandaríkjamenn hafi gripið til vegna ópíóíðafaraldursins þar er að draga úr lyfjaskömmtum til þess að koma í veg fyrir misnotkun.

Ólafur B. Einarsson, verkefnisstjóri hjá embætti landlæknis.
Ólafur B. Einarsson, verkefnisstjóri hjá embætti landlæknis. mbl.is/Hari

Ólafur B. Einarsson, verk­efn­is­stjóri lyfja­mála hjá embætti land­lækn­is, segir að allt bendi til þess að dregið hafi úr ávísunum á ópíóíðalyfjum hér á landi í ár. Það komi fram í tölum fyrir fyrstu 11 mánuði ársins en upplýsingar fyrir árið í heild liggja ekki fyrir fyrr en eftir einhverjar vikur.  Hann segir litla breytingu hafa orðið á ávísunum kvíðastillandi lyfja en umræða meðal lækna og klíniskar leiðbeiningar skili sér í lækkun í ávísunum ópíóíða. Leiðbeiningar við meðferð krónískra verkja hafa verið endurskoðaðar víða annars staðar enda sýni rannsóknir að ópíóíðar henti illa við verkjum til lengri tíma litið. Jafnframt eru þeir ávanabindandi og aukið þol þýði að fólk þarf stærri og stærri skammta til þess að lina verkina.

Af þeim 50 andlátum sem voru til skoðunar hjá embætti landlæknis í lok nóvember voru þrjátíu einstaklingar með ópíóíða í blóði. Margir voru með nokkur mismunandi lyfseðilsskyld lyf í sér og eins ólögleg lyf. En það er eitt af því sem hefur verið einkennandi við þá sem taldir eru hafa látist vegna lyfjaeitrunar á Íslandi undanfarin ár. Þó svo að fleiri andlát séu til skoðunar í ár en undanfarin ár þarf það ekki endilega að þýða að ofskömmtun sé dánarorsökin því niðurstaða dánarmeinaskrár fyrir fyrri hluta ársins sýnir að 16 hafi látist af ofskömmtun lyfja frá byrjun janúar til loka júnímánaðar, 14 karlar og 2 konur. Þetta er svipaður fjöldi og undanfarin ár.

Ólafur bendir á að fólk geti verið með mikið magn lyfja í sér við andlát þrátt fyrir að dánarorsökin sjálf sé önnur, svo sem sjálfsvíg eða óafvitandi lyfjaeitrun, jafnvel umferðarslys. Þeir sem nota mikið af lyfjum og eiga við misnotkunarvanda að stríða eru með skertar lífslíkur, segir Ólafur.

Af þessum fimmtíu eru 19 sem fengu lítið sem ekkert ávísað af lyfjum þannig að allt bendir til þess að viðkomandi hafi keypt lyfin af öðrum. Lyfin geta verið frá fólki sem fékk þau ávísuð eða flutti þau inn í landið. Þetta sé í samræmi við upplýsingar frá tollgæslunni en þar hefur verið lagt hald á meira magn lyfja í ár en undanfarin ár sem bendir til þess að meiru sé smyglað af lyfjum til landsins en áður.

Upplýsingar af bráðamóttökum sýna að þeir sem þangað leita vegna ofskömmtunar séu á öllum aldri og segir fjölskylda Einars Darra að neysla á lyfjum hafi aukist mikið, þar á meðal framhaldsskólanemenda.

Lyf sem innihalda ópíóíða.
Lyf sem innihalda ópíóíða. mbl.is/Valgarður Gíslason

Mælast ekki í áfengismælum á skólaböllum

Lyfin mælast ekki í áfengismælingum á framhaldsskólaböllum og við höfum jafnvel heyrt dæmi um að ungmenni hafi unnið edrúpottinn þrátt fyrir að vera undir áhrifum lyfja, segir Bára.

„Þetta sló okkur illa,“ segir Bára en ungmenni hafa lýst því fyrir þeim hvernig þau taki lyf áður en þau fara á skólaböll og enginn áttar sig á því hvað er í gangi. Ekki einu sinni foreldrarnir þegar komið er heim af ballinu.

Aníta segir að það sé líka ótrúlega mikil neysla á kókaíni meðal ungs fólks en líkt og fram hefur komið í máli lækna á fíknigeðdeildinni geisar kókaínfaraldur á Íslandi.

En hvernig hefur ungt fólk ráð á að nota jafn dýrt fíkniefni og kókaín?

„Ungt fólk á Íslandi vinnur ótrúlega mikið með skóla miðað við hvað gengur og gerist í nágrannalöndunum,“ segja þau Bára og Óskar. Ungmenni eru oft með meiri peninga á milli handanna en krakkar á sama aldri annars staðar. Í hvað fara peningarnir er spurning sem foreldrar geta spurt sig, segir Bára.

„Einar Darri var ekki í neinni skuld þegar hann dó sem var eitthvað sem við áttum alveg von á eftir að hafa gert okkur grein fyrir því hvernig aðstæðum hann var í. Hann átti jafnvel inneign á bankareikningnum sínum. Hann er einn þeirra sem vann með skóla. Hann var ekki mikið úti að skemmta sér heldur var hann mikið heima hjá sér – í tölvunni eða símanum og neyslan var ekki farin að hamla hans lífi. Hann var í námi, hann var í vinnu, hann var alltaf í ræktinni, hann var í tónlist. Hann var einhvern veginn í öllu og við dáðumst öll að dugnaði hans. Ég sagði stundum við hann: Einar minn ég skil ekki hvaða orku þú hefur,“ segir Bára.

Aníta Rán, Einar Darri, með Baltasar Aron, Bára, Árni Kristján, …
Aníta Rán, Einar Darri, með Baltasar Aron, Bára, Árni Kristján, Andrea og eiginmaður hennar, Pétur Freyr, ásamt Ísabellu Rós.

Þau eru sammála um að sennilega hafi Einari Darra fundist hann enn vera á þeim stað að neyslan hafi verið skemmtileg þrátt fyrir að fíknin hafi klárlega verið farin að segja til sín þegar hann fellur skyndilega frá. Sem getur komið fyrir einstaklinga hvenær sem er, ekki síst hjá þeim sem eru nýlega byrjaðir að misnota lyf þar sem þanþolið er minna en hjá þeim sem hafa neytt slíkra efna í lengri tíma.

Þau eru ítrekað spurð að því af foreldrum hvaða einkennum þeir eigi að horfa eftir hjá krökkunum og svar þeirra er: Bókstaflega öllu. Barnið þitt getur verið fyrirmyndarnemandi eða alltaf að djamma eða hvað sem er. Því einkennin eru óendanlega mörg og það er það sem gerir þetta svo erfitt. Þess vegna finnst okkur svo mikilvægt að ná krökkunum áður en þau prófa. Að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann.

Segðu frá því reiður vinur er betri en dáinn vinur

„Forvarnir hafa alltaf verið mikilvægar en við teljum að þær hafi aldrei verið mikilvægari en nú. Við þurfum að ná krökkunum og valdefla þau með vitneskju til að þau geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort þau ætla að prófa slík lyf, sem og að gefa þeim verkfæri í hendurnar, hvert þau geta leitað ef þau þurfa hjálp segir Andrea.

Þau ítreka líka að það sé ekkert að því að segja frá ef þú átt vin sem er farinn að misnota lyf. Börn eru oft hrædd um að svíkja vin með því að segja foreldrum frá og þau hafi upplifað það með vini Einars sem vissu af neyslunni en sögðu hvorki foreldrum hans né systrum frá.

Þetta er eitt af því sem þau hvetja framhaldsskólanemendur til að gera þegar þau koma með fyrirlestra í skólana. „Því það er betra að eiga reiðan vin en dáinn vin,“ segir Aníta.

„Við sjáum að þetta forvarnastarf er að skila sér í meiri árvekni meðal kennara og foreldra. Við vitum um nýlegt dæmi þar sem kennari hafði orðið var við breytta hegðun hjá grunnskólabarni. Í ljós kom að barnið var undir áhrifum kvíðastillandi lyfja. Því það þarf ekki endilega að vera að barnið sé syfjað eða þreytt heldur sljótt af lyfjum. Eða jafnvel öfugt – að hressleikinn og málæðið skýrist af örvandi lyfjum,“ segir Bára.

Fentanyl er 30-50 sinnum sterkara en heróín.
Fentanyl er 30-50 sinnum sterkara en heróín. AFP

Þau segja að það sé ekkert „bara“ þegar kemur að misnotkun lyfja. Til að mynda hafi foreldrar sagt við þau – þarf ég nokkuð að hafa miklar áhyggjur, sonur minn er „bara“ að nota Xanax. Okkar svar er: Jú þú þarft að hafa áhyggjur því dauðsföll hér á landi hafa verið rakin beint til Xanax.

Einhver hluti þeirra sem grunur leikur á að hafi látist af völdum ofskömmtunar lyfja var með kannabis í líkamanum og að sögn Ólafs er ljóst að auðvelt aðgengi er að kannabis á Íslandi og neyslan mikil meðal ungs fólks.

Aníta segir að í öllum heimsóknum sem þau hafi farið í framhaldsskólana undanfarna mánuði hafi ungmenni komið til þeirra og greint frá eigin neyslu og/eða vina. Oft er aðeins um fikt að ræða en það getur líka haft alvarlegar afleiðingar. Þau hafi einnig bent okkur á að það vanti mikið upp á sálfræðiaðstoð fyrir þennan aldurshóp sem og fræðslu um þetta málefni og mörg hver þakka okkur fyrir að segja opinskátt hversu hættuleg misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum getur verið. „Þau eru líka að horfa á krakkana sem eru að lenda í geðrofi vegna kannabis,“ segir Óskar. Þau sjá vini sína lenda í andnauð og hjartastoppi vegna neyslu efna í partýum og annars staðar.

Eitt af því sem þau hafa áhyggjur af er að krakkarnir telja að þeir séu að taka minni áhættu með því að nota lyfseðilsskyld lyf en með ólöglegum fíkniefnum segir Andrea.

Fjölskyldan á jólum.
Fjölskyldan á jólum.

Aníta segir að þeim sé sagt að búið sé að blanda efnum við kvíðastillandi lyfið Xanax sem sé selt á svörtum markaði hér. Með því verði lyfið meira ávanabindandi ekki síst þegar það er blandað með fentanýli en fentanýl er skylt morfíni og hefur sterka verkjastillandi verkun auk slævandi áhrifa. Stór hluti þeirra dauðsfalla sem rakin eru til ópíóíða í Bandaríkjunum eru vegna fentanýls. Lyfið hefur tekið við af heróíni sem það fíkniefni sem dregur flesta til dauða þar í landi.

Hlutur samfélagsmiðla vanmetinn

Einar var mjög virkur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur og segir fjölskylda hans að hann hafi ræktað samband sitt við vini mjög vel. Hvort heldur sem það voru vinir frá því í grunnskóla, framhaldsskóla eða annars staðar frá. Hann var mjög mikið á samfélagsmiðlum og var í samskiptum við fólk þar á öllum tímum sólarhringsins.

Öllum þótti svo vænt um hann meðal annars vegna þess að hann sinnti öllum svo vel. Einar var flott fyrirmynd og átti stað í hjarta svo margra. Einhvern veginn gerðu allir miklar kröfur til hans og nærveru hans, segir Bára og  Andrea tekur undir það og segir „samfélagsmiðlar taka meiri toll af fólki en maður kannski gerir sér grein fyrir“.

Leiði Einars Darra Óskarssonar.
Leiði Einars Darra Óskarssonar.

„Einar Darri hefði aldrei viðurkennt þetta en við ræddum þetta þegar síminn hans pípti stöðugt. Ég sagði við hann að ég yrði sturluð ef þetta væri minn sími,svona stöðugt áreiti tekur svo mikið frá manni . Ég held að samfélagsmiðlar sé einn þáttur í þessum vanda sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Andrea og hin taka undir þetta.

„Ég held að það sé ótrúlega erfitt að vera ung manneskja í dag,“ segir Bára. „Ég finn í raun til með unglingum sem standa frammi fyrir endalausum freistingum og áreiti af samfélagsmiðlum. Þetta er meðal annars ein af ástæðunum fyrir því að við ætlum að standa fyrir þjóðfundi unga fólksins.“

Unga fólkið gerir sér grein fyrir vandanum sem blasir við því þetta er allt í kringum þau. Það eru þeirra vinir sem eru að deyja. Ekki bara með því að taka of stóran skammt heldur einnig öðrum ástæðum tengdum lyfjum og öðrum fíkniefnum, til dæmis í umferðinni segja foreldrar Einars Darra.

Þau benda á máli sínu til stuðnings að alvarlegum umferðarslysum vegna aksturs undir áhrifum vímuefna hefur fjölgað verulega.

Í dag, 30. desember, eru 219 dagar síðan Einar Darri var bráðkvaddur og á þessum tíma hefur fjölskyldan vakið aðdáun fólks um allt land fyrir það forvarna- og árveknistarf sem hún hefur unnið. Leiða má líkum að því að þau hafi bjargað einhverjum mannslífum á þessum tíma.

Einar Darri Óskarsson.
Einar Darri Óskarsson.

En hafið þið gefið ykkur tíma til að syrgja?

Þau svara öll spurningunni játandi og Bára segir að þau séu mjög samrýnd og veiti hvert öðru mikinn stuðning. Sumir dagar séu erfiðari en aðrir og suma daga treysti hún sér vart út úr húsi og gráti mikið.

Þurfum að læra að lifa upp á nýtt

„Við tölum mikið um tilfinningar okkar og við tölum mikið um Einar sem er mjög mikilvægt en áfallið hellist ítrekað yfir mig. Að Einar er ekki lengur hjá okkur. Maður þarf að læra að lifa upp á nýtt þegar maður verður fyrir svona miklu áfalli,“ segir Bára.

Andrea segir að starfið við minningarsjóðinn skipti þau öll miklu máli og gefi þeim mikið. „Ef okkur tekst að bjarga einhverjum þá er öll þessi vinna þess virði og það skiptir svo miklu máli að samfélagið standi saman og vinni saman,“ segir Andrea og Aníta bætir við að þau séu öll að læra að lifa upp á nýtt. „Ef manni líður illa í einhverjum aðstæðum þá þarf maður að læra af því. Velta fyrir sér hvað maður geti gert til þess að bæta það. Ég sakna hans alltaf en verð að læra að lifa með því.“

Óskar bendir á mikilvægi þess að muna að þau megi vera hamingjusöm og að þau megi hlæja. Þetta var þeim bent á hjá áfallateyminu sem hefur haldið utan um fjölskylduna og hann segir gott að fá ábendingar sem þessar. Að skammast sín ekki fyrir tilfinningar sínar, hverjar sem þær eru – gleði eða sorg. Eins hafi hann gætt þess að hreyfa sig mikið sem geri honum auðveldara að sofna á kvöldin.

Bára Tómasdóttir, Andrea Ýr Arnarsdóttir, Óskar Vídalín Kristjánsson og Aníta …
Bára Tómasdóttir, Andrea Ýr Arnarsdóttir, Óskar Vídalín Kristjánsson og Aníta Rún Óskarsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Oft erfiðara að vera glaður en dapur

Aníta segir að hún hefði aldrei trúað því að óreyndu hversu erfitt það geti verið að vera glaður eða hamingjusamur. Stundum sé það jafnvel erfiðara en að vera dapur.

„Við verðum að sætta okkur við að lífið verði aldrei eins og áður og við megum ekki gera þá kröfu á lífið að svo verði. Hversdagsleikinn er öðruvísi en hann var áður en Einar dó og við þurfum að læra að lifa með því og það er líka allt í lagi að breyta til og gera aðstæður okkar vænlegri til að verða ánægjulegar. Til að mynda varðandi jólahald,“ segir Andrea og mamma hennar bætir við:

„Við getum alveg verið hamingjusöm og reynt að eiga gott líf en það verður alltaf öðruvísi líf en það var og hefði verið ef Einar væri hér með okkur. Ég hefði í raun aldrei trúað því að lífið færi svona. Við vissum að hann hefði prófað fíkniefni enda var hann svo opinn en við höfðum ekki hugmynd um þessa lyfjaneyslu. Við héldum að hann væri á góðum stað í lífinu og vorum grunlaus eins og svo margir foreldrar – það kemur ekkert fyrir mitt barn,“ segir Bára.

Dagurinn sem Einar Darri lést líður aldrei úr minni þeirra en þennan sama dag var Aníta að útskrifast sem stúdent. Einar var mjög spurull og vildi alltaf fá svör og útskýringar við öllu frá fjölskyldu sinni. Ein spurning situr mjög í móður hans: „Mamma hvað hræðistu mest?“ Svar hennar var: „Ég hræðist mest að missa barnið mitt. Það eina sem ég hræðist í lífinu,“ svaraði Bára syni sínum. 

Óskar tekur undir og segir að það hafi aldrei hvarflað að honum að hann myndi verða í þessum aðstæðum og Andrea minnir á að fjölskyldan megi aldrei álíta sem svo að áföllin í lífinu séu að baki og ekkert meira geti komið fyrir okkar fjölskyldu. „Þetta getur komið fyrir hvern sem er og við sem sem þjóð verðum að vera vakandi og gera okkur grein fyrir að hvert okkar á bara eitt líf og við þurfum öll að fara vel með það, við erum öll svo dýrmæt,“ segir Andrea og hin taka undir. 

mbl.is