Jafnsvæsnar spilabúllur hér og í Las Vegas

Jafnsvæsnar spilabúllur hér og í Las Vegas

„Það land fyrirfinnst vart þar sem eftirlit með spilakössum er minna en hér á landi. Þetta er alvarlegt þjóðfélagsmein og til skammar hvernig við búum að spilafíklum. Það er verið að hafa fé af veiku fólki og við, sem samfélag, höfum rústað lífi fjölmargs fólks.“  Þetta segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.

Jafnsvæsnar spilabúllur hér og í Las Vegas

Rafrænt morfín eða saklaus spilamennska? | 28. nóvember 2019

Ögmundur Jónasson fyrrverandi dómsmála- og innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson fyrrverandi dómsmála- og innanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Það land fyrirfinnst vart þar sem eftirlit með spilakössum er minna en hér á landi. Þetta er alvarlegt þjóðfélagsmein og til skammar hvernig við búum að spilafíklum. Það er verið að hafa fé af veiku fólki og við, sem samfélag, höfum rústað lífi fjölmargs fólks.“  Þetta segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.

„Það land fyrirfinnst vart þar sem eftirlit með spilakössum er minna en hér á landi. Þetta er alvarlegt þjóðfélagsmein og til skammar hvernig við búum að spilafíklum. Það er verið að hafa fé af veiku fólki og við, sem samfélag, höfum rústað lífi fjölmargs fólks.“  Þetta segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.

Hann var dómsmála- og síðar innanríkisráðherra 2010-2013 og segir að aðgerðir gegn spilafíkn og hertara regluverk í kringum spilakassa hafi verið meðal forgangsmála sinna í ráðuneytinu og að hann hafi fengið ýmsa aðila til að vinna með sér að þessum málum. „Ef ég hefði verið einráður, þá hefði ég einfaldlega bannað þessi spilavíti. En þannig virkar stjórnkerfið ekki og ég, ásamt fleirum, leituðum lausna til að vinna á þessu heildstætt í áföngum og saman mótuðum við stefnu til að vinna á vandanum.“

Mætti mikilli andstöðu á þingi

Ögmundur segir að hann hafi séð fyrir sér að í fyrsta skrefinu yrði komið upp eftirliti með þessum umfangsmikla iðnaði, eins og hann orðar það og í því skyni yrði happdrættisstofu komið á fót sem yrði rekin fyrir fé frá þeim sem njóta hagnaðarins úr spilakössunum.  Hann lagði fram frumvarp þessa efnis, en segist hafa mætt mikilli andstöðu á þingi. „Ég get ekki notað annað orð en hörku og mótbyr í þessu sambandi og ég sá fljótt að það myndi taka langan tíma að koma þessu í lög. Eftirlitið, eins og það er núna, er nánast ekki neitt og lítið gert til að fara eftir þeim reglum sem þó eru fyrir hendi.“

Næsta skref átti að vera að allir spilakassarnir heyrðu undir sama aðilann, að norskri fyrirmynd, en ekki tvo mismunandi aðila eins og nú er, sem eru Happdrætti Háskóla Íslands og Íslandsspil, sem er í eigu Landsbjargar, Rauða kross Íslands og SÁÁ. „Samkeppni veldur því að þetta þenst út á mjög óeðlilegum forsendum. Þessi samkeppni veldur því að aðilar eru alltaf að keppast um að leita nýrra leiða til að ná fé af spilafíklum,“ segir Ögmundur.

Hann segir að auk þessa hafi hann haft hugmyndir um að reglur yrði settar um að fólk gæti ekki spilað fjárhættuspil á netinu nema upp að tiltekinni upphæð, fyrirkomulag sem hann segir hafa gefist vel í Noregi.

Ögmundur segir engan mun vera á þeim spilakössum sem séu …
Ögmundur segir engan mun vera á þeim spilakössum sem séu í spilasölum og söluturnum hér á landi og spilakössum á stöðum eins og Las Vegas. „Þetta eru jafnsvæsnar spilabúllur.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vonbrigði að takast ekki ætlunarverkið

Hvað kom í veg fyrir að þessar hugmyndir yrðu að veruleika? „Ég var kominn ágætlega á veg með þetta allt saman, en þetta tók lengri tíma en ég hafði ætlað. Ég er sannfærður um að ef ég hefði haft meiri tíma þá væru þessu mál komin í betri farveg. Þau hafa í raun legið hjá garði síðan 2013 og ég verð að játa að það urðu mér sár vonbrigði að mér hefði ekki tekist ætlunarverkið,“ segir Ögmundur.

Hann segist hafa orðið þess var að flest fólk væri á þeirri skoðun að taka þyrfti á þessu. „Allflestar fjölskyldur þekkja þennan vanda af eigin raun. En þetta er falinn vandi, fólk talar ekki mikið um þetta; þessu fylgir skömm og það kemur í veg fyrir opna umræðu. Nokkrir hafa þó verið hugrakkir, stigið fram og sagt frá vanda sínum. Ég tek ofan fyrir þeim.“

Gjörsamlega galið

Ögmundur segir engan mun vera á þeim spilakössum sem eru í spilasölum og söluturnum hér á landi og spilakössum á stöðum eins og Las Vegas. „Þetta eru jafnsvæsnar spilabúllur. Eini munurinn er að þar eru reglur, hér eru nánast engar reglur. Að Happdrætti Háskóla Íslands sé t.d. að reka eitthvað sem heitir Gullnáman, þar sem hagnast er á spilafíkn fólks, er gjörsamlega galið. “

„ Að Happdrætti Háskóla Íslands sé t.d. að reka eitthvað …
„ Að Happdrætti Háskóla Íslands sé t.d. að reka eitthvað sem heitir Gullnáman, þar sem hagnast er á spilafíkn fólks, er gjörsamlega galið,“ segir Ögmundur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtökin ættu að geta fjármagnað sig á annan hátt

Féð, sem safnast í kassana, fer til ýmissa samtaka og stofnana sem flest okkar vilja að dafni sem best. Ef settar væru hömlur á rekstur spilakassana; hvernig ættu þessir aðilar þá að fjármagna starfsemi sína? „Við berum virðingu fyrir þessum stofnunum og líklega viljum við flest veg þeirra sem mestan og bestan. En við þurfum að gera okkur grein fyrir því að tveir hópar eru háðir spilakössum; spilafíklar og þeir sem reiða sig á fjármagnið úr kössunum. Og það er mjög alvarlegt að við sem samfélag höfum sett þessi samtök í þá aðstöðu að þurfa á svona fjáröflun að halda. Við ættum að búa þeim aðra stöðu þannig að þau þurfi ekki að fjármagna sig á þennan hátt. “

Í hvaða farvegi þyrftu þessu mál að vera? „Ég myndi vilja sjá löggjafarvaldið taka þetta mál upp; Það er margt nýtilegt í frumvarpinu sem ég lagði fram á sínum tíma, þar er möguleg vegferð til að halda áfram með þetta mál og ég kalla eftir því að einhver taki þetta upp. Ég er sannfærður um að það sé vilji í þjóðfélaginu til að taka á þessum málum og þann vilja þarf að virkja.“

mbl.is