Ekki svipta börn bernskunni

Samfélagsmál | 28. nóvember 2020

Ekki svipta börn bernskunni

Ásmundur Einar Daðason er barnamálaráðherra. Málefni barna eru honum hugleikin, ekki síst barna sem búa við erfiðar aðstæður enda þekkir hann það af eigin raun og veit að það er ekkert sjálfgefið að rata rétta leið í lífinu. 

Ekki svipta börn bernskunni

Samfélagsmál | 28. nóvember 2020

Ásmundur Einar Daðason kynnir ný frumvörp í næstu viku er …
Ásmundur Einar Daðason kynnir ný frumvörp í næstu viku er miða að aukinni þjónustu við börn. mbl.is/Árni Sæberg

Ásmund­ur Ein­ar Daðason er barna­málaráðherra. Mál­efni barna eru hon­um hug­leik­in, ekki síst barna sem búa við erfiðar aðstæður enda þekk­ir hann það af eig­in raun og veit að það er ekk­ert sjálf­gefið að rata rétta leið í líf­inu. 

Ásmund­ur Ein­ar Daðason er barna­málaráðherra. Mál­efni barna eru hon­um hug­leik­in, ekki síst barna sem búa við erfiðar aðstæður enda þekk­ir hann það af eig­in raun og veit að það er ekk­ert sjálf­gefið að rata rétta leið í líf­inu. 

Börn eiga ekki að þurfa að búa við aðstæður sem gera það að verk­um að þau fá ekki að vera börn. Börn eiga ekki að vera svipt bernsk­unni og því sak­leysi sem ein­kenn­ir barnæsk­una seg­ir Ásmund­ur Ein­ar Daðason, fé­lags- og barna­málaráðherra. Frum­vörp sem miða að því að gjör­bylta aðstæðum barna og fjöl­skyldna þeirra eru á leið inn í þingið. Verk­efnið er risa­vaxið og senni­lega fel­ur það í sér mestu breyt­ingu sem gerð hef­ur verið á um­hverfi barna á Íslandi í ára­tugi.

Ásmund­ur brenn­ur fyr­ir verk­efn­inu enda þekk­ir hann af eig­in raun að al­ast upp við erfiðar aðstæður.

Hingað til hef­ur hann ekki viljað ræða þessi mál op­in­ber­lega enda ekki langt síðan hann fór að vinna með stein­inn sem hann hef­ur drösl­ast með í mag­an­um ára­tug­um sam­an. Allt frá því í barnæsku. „Við get­um aldrei komið öll­um börn­um til bjarg­ar en ef okk­ur tekst að hjálpa fleiri börn­um þá er til­gang­in­um náð. Því ekk­ert barn á að þurfa að búa við aðstæður eins og því miður of mörg börn búa við á Íslandi, of­beldi og van­rækslu,“ seg­ir Ásmund­ur.

Ásmund­ur seg­ist nú vilja segja sína sögu bæði til að út­skýra af hverju mál­efni barna hafa verið mikið áherslu­mál hjá hon­um en líka í þeirri von að það hjálpi öðrum sem glíma við sam­bæri­leg­ar aðstæður. „Við erum með stór­an hóp full­orðinna ein­stak­linga sem hafa verið í þess­um erfiðu aðstæðum og eru að burðast með það innra með sér, jafn­vel þegar þeir eru komn­ir í seinni hálfleik lífs síns. Fólk sem er reitt og bit­urt. Við þetta fólk vil ég segja að ástæðan fyr­ir því að ég ákvað að stíga fram og segja mína sögu er sú að það er ekk­ert at­huga­vert við að leita sér hjálp­ar. Fá aðstoð við að vinna á reiðinni og þrátt fyr­ir að það sé erfitt er hægt að yf­ir­stíga erfiðleik­ana og kom­ast á betri stað. Við sem erum í þess­um spor­um erum alls staðar í ís­lensku sam­fé­lagi, líka í rík­is­stjórn Íslands,“ seg­ir Ásmund­ur.

Tekið skal fram að viðtalið í heild er tekið í sam­vinnu og með samþykki móður Ásmund­ar og nán­ustu fjöl­skyldu hans.

Grasið alltaf grænna hinum meg­in

Ásmund­ur Ein­ar fædd­ist árið 1982 í Reykja­vík en bjó ásamt for­eldr­um sín­um í Döl­un­um til fimm ára ald­urs er for­eldr­ar hans skildu. Ásmund­ur og eldri syst­ir hans fylgdu móður sinni suður þar sem þau bjuggu á nokkr­um stöðum á höfuðborg­ar­svæðinu næstu árin. Þaðan lá leiðin á Stokks­eyri og síðan í Gnúp­verja­hrepp. Aldrei var stoppað lengi á hverj­um stað og þegar Ásmund­ur er á þrett­ánda ári flyt­ur hann með móður sinni til Nor­egs. Syst­ir hans varð eft­ir á Íslandi enda orðin upp­kom­in.

Ásmundur Einar segir að í sveitinni hafi verið haldið fast …
Ásmund­ur Ein­ar seg­ir að í sveit­inni hafi verið haldið fast í hefðir, lamba­læri á sunnu­dög­um og royal-búðing­ur í eft­ir­mat. Þar fann hann þá festu sem hann þurfti á að halda. Ljós­mynd úr einka­safni

Hann gekk í sjö grunn­skóla og af þeim var hann lengst, tvö og hálft ár, í þeim síðasta sem var í Búðar­dal. „Þetta var mikið flakk og við bjugg­um aldrei lengi á sama stað. Alltaf eitt­hvað sem varð til þess að bú­ferla­flutn­ing­arn­ir urðu tíðir. Grasið var alltaf grænna hinum meg­in og í raun átti það við um ansi margt hjá mömmu,“ seg­ir Ásmund­ur. Hann seg­ir að það hafi hjálpað sér mikið hversu op­inn og fé­lags­lynd­ur hann hafi alltaf verið. „Ég átti frek­ar auðvelt með breyt­ing­ar, að minnsta kosti á yf­ir­borðinu,“ seg­ir hann og bæt­ir við að á meðan þau bjuggu á Íslandi hafi hann alltaf getað farið í sveit­ina til pabba síns og afa og ömmu sem bjuggu fé­lags­búi í Döl­un­um. Þangað fór hann oft um helg­ar og í flest­um leyf­um.

Móðir Ásmund­ar hef­ur glímt við áfeng­is­vanda árum sam­an og hún á einnig við geðræn veik­indi að stríða og hef­ur átt lengi. Auk þess er hún með ADHD á háu stigi ásamt fleiru. Lífið hef­ur ekki farið mjúk­um hönd­um um hana en þegar hún var 18 ára göm­ul hafði hún misst báða for­eldra sína. Móðir henn­ar, sem einnig átti við geðræn veik­indi að stríða, lést í elds­voða á heim­ili fjöl­skyld­unn­ar snemma árs 1978 og nokkr­um árum áður missti hún föður sinn.

Upp­lifði ýmis áföll í æsku

„Móðir mín upp­lifði ýmis áföll í æsku og móðir henn­ar, amma mín, var reglu­lega á geðdeild vegna veik­inda sinna. All­ir í sveit­inni bitu á jaxl­inn og eng­inn talaði um hvernig þeim leið á þess­um tíma í litlu sam­fé­lagi. Við vor­um þá ekki stödd á ár­inu 2020 þar sem fólk þorir að tala op­in­skátt um slík veik­indi. Þetta hef­ur móðir mín þurft að burðast með á bak­inu allt sitt líf. Það var ekki fyrr en ég fór að eld­ast að ég gerði mér grein fyr­ir því að þessi mikla áfeng­is­notk­un á heim­il­inu væri óeðli­leg en mamma var alltaf dug­leg til vinnu og það vissu fáir af því hver staðan var inn­an heim­il­is­ins. Þó var það ekki óal­gengt að hún færi út á lífið og kæmi ölvuð heim, stund­um ein, stund­um ekki. Þessi óregla litaði and­rúms­loftið á heim­il­inu og það var oft spenna í loft­inu. Því var það létt­ir að fara í sveit­ina þar sem festa ríkti. Heim­ilið þar var ekta sveita­heim­ili og haldið í hefðir eins og lamba­læri á sunnu­dög­um og royal-búðing í eft­ir­mat,“ seg­ir Ásmund­ur.

Hann seg­ir að sem barn hafi hann ein­fald­lega ekki gert sér grein fyr­ir því að eitt­hvað væri að hjá mömmu hans. „Þegar þú ert barn skynj­ar þú ekki svona og þú trú­ir því að hlut­irn­ir séu eins og þeir eigi að vera. Allt frá því ég man eft­ir mér voru maka­skipti mjög tíð hjá mömmu. Alls kon­ar menn voru komn­ir inn í líf mitt og inn á heim­ilið mjög fljótt. Ég veit ekki hvað þeir voru marg­ir. Sum­ir voru frá­bær­ir en aðrir áttu við sömu vanda­mál að stríða og mamma. Oft voru þetta þannig ein­stak­ling­ar í mik­illi áfeng­isneyslu. Verst var þegar um of­beld­is­menn var að ræða. Ég var ekki sjálf­ur beitt­ur lík­am­legu of­beldi en mamma varð fyr­ir því. Ég varð vitni að því, fann það, heyrði það. Það sit­ur enn í mér og mun alltaf gera,“ seg­ir Ásmund­ur.

„Ég var með ákveðna mynd út á við – þessi …
„Ég var með ákveðna mynd út á við – þessi glaði kraft­mikli strák­ur sem tek­ur þátt í öllu." Ljós­mynd úr einka­safni

Eitt af því sem lagt er til í nýju frum­varpi er að unnið sé með börn og for­eldra sam­an. Að verk­efnið snú­ist um barnið og fjöl­skyldu þess.

„Við vilj­um skapa börn­um þær aðstæður að þau fái að vera börn. Að aðstoð komi áður en allt er farið á versta veg. Ekki með því að fjar­lægja þau af heim­il­inu, þótt þess þurfi auðvitað því miður stund­um, held­ur að brugðist sé við erfiðleik­um barna og fjöl­skyldna mun fyrr og í sam­vinnu. Fjöl­skyld­an sé grip­in, fái nauðsyn­leg­ar grein­ing­ar og viðeig­andi aðstoð sé veitt. Að fjöl­skyld­an fái snemma hjálp við að vinna á sín­um vanda og að barnið búi við betri aðstæður inni á heim­il­inu en fái líka hjálp alls staðar ann­ars staðar; í skól­an­um, heil­brigðis­kerf­inu eða hvar sem það er statt. Þetta er það sem við sem sam­fé­lag þurf­um að gera. Börn og fjöl­skyld­ur þeirra eiga ekki að þurfa passa í box hinna mis­mun­andi kerfa og bíða eft­ir að vand­inn verði nægi­lega stór til að fá hjálp. Ég hef trú á því að ef við náum að byggja upp seiglu hjá börn­um með því að styðja þau þá taki barnið rétta stefnu þegar það eld­ist og stend­ur á gatna­mót­um í lífi sínu. Við get­um gert þetta sem sam­fé­lag. Koma með þjón­ust­una til barna og fjöl­skyldna en ekki öf­ugt. Staðan er sú að við erum með ótal börn hér á landi sem ganga um með stein í mag­an­um af ein­hverj­um ástæðum. Við þurf­um að losa þau við þessa steina,“seg­ir Ásmund­ur.

Opnaði spari­bauk­inn til að kaupa jóla­öl

Eitt af því er að veita öll­um börn­um jafna mögu­leika á að stunda íþrótt­ir og taka þátt í frí­stund­um. Nokkuð sem Ásmund­ur gat ekki í þeim mæli sem hann langaði vegna fjár­hags­stöðunn­ar á heim­il­inu. „En ég vissi að ég gat ekki farið í þær tóm­stund­ir sem mig langaði því það kostaði of mikið. Samt reyndi mamma eins og hún gat en aðstæðurn­ar voru þannig að það var ekki hægt og eft­ir ákveðinn tíma hætti maður að biðja um það.“

Þrátt fyr­ir að Ásmund­ur ít­reki að lífið hafi ekki alltaf verið hræðilegt hef­ur hann upp­lifað fá­tækt á eig­in skinni og ein af minn­ing­um hans úr barnæsku er að hafa opnað spari­bauk­inn til þess að geta keypt malt og app­el­sín um jól­in. Að hafa grátið yfir því að geta ekki tekið þátt í íþróttaæf­ing­um með fé­lög­um sín­um vegna þess að æf­inga­gjöld, íþrótta­búnaður eða ann­ar kostnaður var of stór biti fyr­ir heim­ilið.

Kvíðahnút­ur sem bara stækkaði og stækkaði

Eng­in sam­skipti voru á milli for­eldra Ásmund­ar og þrátt fyr­ir að hann hafi verið mikið hjá föður sín­um eft­ir skilnað for­eldr­anna var aldrei rætt um það hvernig lífið var hjá móður hans. „Þegar ég fór að eld­ast fór ég að finna fyr­ir stein­in­um. Kvíðahnútn­um innra með mér sem bara stækkaði og stækkaði. Ég var oft með stein í mag­an­um og ég vissi aldrei al­menni­lega hvað þetta var. Enda var ekki til siðs í mínu um­hverfi að tala um til­finn­ing­ar þannig að ég þagði. Út á við var ég kát­ur og lífs­glaður en innra með mér þyngd­ist steinn­inn hægt og ró­lega. Alltaf þegar ég fór í sveit­ina hvarf steinn­inn, en bara tíma­bundið. Þessi festa og ut­an­um­hald sem þar var gerði mér gott. Samt sem áður talaði ég ekk­ert um mömmu eða lífið heima hjá henni í sveit­inni. Ég skipti líf­inu upp í þrjú hólf: Sveit­ina, heima hjá mömmu og mynd­ina sem ég sýndi út á við.“

Þegar Ásmund­ur og móðir hans fluttu til Nor­egs var það hans ákvörðun að fylgja móður sinni út. Það þýddi að ör­yggið um helg­ar og í frí­um hvarf. Á sama tíma jókst áfeng­is­notk­un móður hans og geðheilsa henn­ar tók meiri sveifl­ur.

„Við vor­um hús­næðis­laus fyrst eft­ir kom­una til Nor­egs og bjugg­um í hjól­hýsi fyrstu mánuðina. Síðan fékk mamma vinnu og við íbúð til að búa í. Mamma var dug­leg í vinnu en drakk mikið um helg­ar. Hún kynnt­ist fljótt manni sem var vond­ur maður og beitti hana of­beldi. Þrátt fyr­ir að hún hafi ein­ung­is verið í sam­bandi við þenn­an mann í nokkra mánuði finnst mér eins og sá tími hafi verið mörg ár. Það var ekk­ert óal­gengt að hún færi út á lífið á föstu­degi og kæmi ekki heim fyrr en dag­inn eft­ir. Stund­um var ein­hver með henni eða ekki. Ég var einn heima og hafði ekki hug­mynd um hvar mamma var og svo þegar þau komu heim tók of­beldið stund­um við. Það eina sem ég sem barn gat gert í þess­um aðstæðum var að snúa mér á hina hliðina, reyna að loka eyr­un­um og vona að fljót­lega myndu þau deyja áfeng­is­dauða,“ seg­ir Ásmund­ur.

And­leg veik­indi móður Ásmund­ar ágerðust að hans sögn á þess­um tíma og þau ásamt áfeng­inu gerðu lífið á heim­il­inu oft erfitt. Þarna var Ásmund­ur á ferm­ing­ar­aldri. Bú­ferla­flutn­ing­ar enn eina ferðina, nú inn­an Nor­egs, bættu ekki ástandið. „Ég var kom­inn á ákveðin gatna­mót í líf­inu og fann að ég gat þetta ekki leng­ur. Ég hafði kynnst festu og átt mitt skjól í sveit­inni en í Nor­egi átti ég ekk­ert slíkt skjól.“

Kvíðahnút­ur­inn var orðinn óviðráðan­leg­ur fyr­ir ung­an dreng á viðkvæmu ald­urs­skeiði og Ásmund­ur tók um miðjan vet­ur ákvörðun um að flytja heim til Íslands, í sveit­ina til pabba. Þarna var hann kom­inn í ör­uggt skjól en hann seg­ir að sá bögg­ull hafi fylgt skammrifi að í sveit­inni hjá pabba var ekki venja að bera til­finn­ing­ar sín­ar á torg.

Ólík­ir heim­ar og tengslaleysi

„Ég átti þessa ólíku heima og tengslaleysið þeirra á milli olli tog­streitu innra með mér: Hvers vegna tala mamma og pabbi ekki sam­an? Hjá pabba í sveit­inni var mik­il festa, all­ir fengu nóg að borða og maður lærði að vinna, sem er mjög já­kvætt. En ég talaði ekki um van­líðan mína eða eitt­hvað sem ég hafði upp­lifað held­ur beit á jaxl­inn og úti­lokaði þess­ar til­finn­ing­ar,“ seg­ir Ásmund­ur.

Ásmundur Einar bjó ásamt móður sinni í Noregi en ákvað …
Ásmund­ur Ein­ar bjó ásamt móður sinni í Nor­egi en ákvað að flytja til Íslands aft­ur þar sem hann lauk grunn­skóla­námi í Búðar­dal. Ljós­mynd úr einka­safni

Hann lauk grunn­skóla­námi vest­ur í Döl­um og eignaðist þar góða vini. Námið gekk vel og fór Ásmund­ur fyrst í fjöl­brauta­skóla, lauk bú­fræðinámi og síðar há­skóla­námi á Hvann­eyri. Hann kynnt­ist eig­in­konu sinni, Sunnu Birnu Helga­dótt­ur, í nám­inu á Hvann­eyri og þau eignuðust sína fyrstu dótt­ur árið 2006 en alls eiga þau þrjár dæt­ur. Allt gekk vel á yf­ir­borðinu en und­ir niðri kraumaði hjá Ásmundi bæði reiði og van­líðan.

„Ég var með ákveðna mynd út á við – þessi glaði kraft­mikli strák­ur sem tek­ur þátt í öllu. En það varð alltaf erfiðara og erfiðara að halda þess­ari mynd á lofti. Ég á ekki við að mynd­in hafi verið fölsuð því hún var sönn en hún sýndi aðeins hluta af mér. Annað var lokað og læst inni í mér. Smátt og smátt jókst and­leg van­líðan og reiði. Reiði mín beind­ist að báðum for­eldr­um mín­um, ekki síst móður minni. Óstjórn­leg reiði út í hana og reiði út í föður minn fyr­ir að hafa að ein­hverju leyti ekki verið til staðar þegar ég bjó hjá móður minni. Ég held að all­ir sem fara í gegn­um svipaða æsku upp­lifi til­finn­ing­ar sem þess­ar ein­hvern tíma á lífs­leiðinni og marg­ir oft. Á þess­um tíma er mamma flutt aft­ur Íslands en ég var í mjög litl­um sam­skipt­um við hana nema í gegn­um bróður minn sem fædd­ist eft­ir að ég flutti heim frá Nor­egi. Alltaf burðaðist ég samt með þetta innra með mér og reyndi að láta ekki á neinu bera. Enda leið mér eins og ég gæti ekki rætt þetta við neinn, ég yrði bara að þegja og keyra mig áfram. Mér fannst eins og eng­inn væri að upp­lifa það sama og ég. Eina sem dygði væri að hætta að hugsa um þetta þar sem ekki væri hægt að bæta þetta á nokk­urn hátt,“ seg­ir Ásmund­ur.

Bjargaði hon­um að eiga Sunnu að

Ásmund­ur var kom­inn vel á þrítugs­ald­ur á þess­um tíma og þegar kom að þeim tíma­punkti að hann bugaðist varð það hon­um til bjarg­ar að eiga Sunnu að og seg­ist hann stund­um ekki skilja hvernig hún hafi getað búið með hon­um. „Sem bet­ur fer á ég ynd­is­lega konu sem hef­ur hjálpað mér og ögrað mér um leið við að sleppa þess­ari mynd sem ég sýndi út á við og vinna frek­ar í því sem raun­veru­lega skipt­ir máli – því sem býr innra með mér. Nokkuð sem hafði ekki náðst í upp­eld­inu; að þroska með mér og ástunda eðli­leg til­finn­inga­leg sam­skipti,“ seg­ir Ásmund­ur og bæt­ir við að þetta hefði hann aldrei getað sagt upp­hátt fyr­ir tíu árum. Ekk­ert frek­ar en að ræða þessa van­líðan op­in­ber­lega.

„Á þess­um tíma hafði ég á til­finn­ing­unni að allt gæti farið á versta veg en það gerðist ekki því ég var með þétt­an og góðan stuðning konu minn­ar. Ég leitaði mér aðstoðar og fór að upp­götva hvað það er sem skipt­ir raun­veru­lega máli. Ég tel að við get­um öll tekið rétt­ar beygj­ur í líf­inu ef við fáum til þess aðstoð og erum til­bú­in að fylgja því sem læt­ur manni líða raun­veru­lega vel í hjart­anu. Það er ótrú­leg áskor­un að gera það og ég upp­lifði það svo sann­ar­lega. Stund­um held­ur maður að hæðin sé auðveld yf­ir­ferðar en þetta er senni­lega ein stærsta hæð sem ég hef þurft að fara yfir um æv­ina. Þegar ég var kom­inn á þann stað, upp hæðina, fann ég að reiðin í garð móður minn­ar hvarf smám sam­an og það er ótrú­lega góð til­finn­ing. Á sama tíma fór ég að sjá hana í öðru ljósi, og ég átta mig á því að hún er senni­lega að burðast með þenn­an sama stein í mag­an­um og ég.“

Við erum svo mörg

Auk þess að njóta góðs stuðnings heima fyr­ir hef­ur Ásmund­ur farið til sál­fræðinga og sótt fundi hjá Al Anon. „Ég viður­kenni að ég varð mjög hissa þegar ég fór að sækja fundi sam­tak­anna því þar sá ég að ég var ekki einn í þess­um spor­um og þarna hitti ég marga, þar á meðal þjóðþekkt fólk, sem voru í sömu spor­um og ég. Þetta opnaði augu mín fyr­ir því að ég er ekki einn, við erum svo mörg sem höf­um upp­lifað of­beldi á heim­il­um, fá­tækt, and­leg veik­indi for­eldra og neyslu.“

Nokkuð sem hverf­ur aldrei

Hann seg­ist vita það í dag að lausn­in er ekki sú að bíta á jaxl­inn og halda áfram eins og hann hélt áður. „Hægt og ró­lega hef ég náð að losa þenn­an stein sem hef­ur fylgt mér svo lengi en hann er ekki horf­inn því þetta kem­ur og fer. Þetta er ei­lífðar­vinna og verk­efni sem ég mun tak­ast á við alla ævi,“ seg­ir Ásmund­ur.

Hann seg­ir að það sé ekk­ert sjálf­gefið að rata rétta braut þegar kem­ur að gatna­mót­um eins og hann hef­ur oft­ar en einu sinni staðið á og hann finni það vel þegar hann ræðir við fólk sem hef­ur annaðhvort leitað sér aðstoðar vegna neyslu áfeng­is og annarra vímu­efna eða verið vistað í fang­elsi. Margt af því á áfalla­sögu úr æsku að baki. „Ég tengi al­veg við þeirra lýs­ing­ar og þetta hefði al­veg getað verið ég. Hvað varð til þess að ég tók rétta beygju við gatna­mót, ein­hver af­drifa­rík gatna­mót á lífs­leiðinni – gatna­mót sem eru alltaf að koma?“

Fyrsti barna­málaráðherr­ann

Þrjú ár eru síðan Ásmund­ur tók við embætti fé­lags- og barna­málaráðherra og þegar hann var beðinn að taka að sér starfið óskaði hann eft­ir því að hann fengi að lyfta sér­stak­lega mál­efn­um barna og taka fyrst­ur ráðherra upp titil­inn barna­málaráðherra. Fljót­lega eft­ir stjórn­ar­skipt­in hófst sam­starf allra þing­flokka og ráðuneyta auk Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga við að búa til sam­eig­in­leg­an vett­vang fyr­ir mál­efni barna. „Ég var og er sann­færður um að ef við ætl­um að grípa börn þá verði all­ir þeir sem koma að mál­efn­um barna að vera með. Kerf­is­breyt­ing­in er svo stór að það myndi ekki duga því verk­efni ein­ung­is einn ráðherra, eitt kjör­tíma­bil og eitt ráðuneyti að ná utan um það, enda er þetta lang­tíma­verk­efni sem von­andi verður komið vel á veg eft­ir nokk­ur ár.“

Oft ekki gripið inn fyrr en allt er komið í bál og brand

Ásmund­ur er sann­færður um að það að setja barnið og fjöl­skyldu þess í miðju allr­ar þjón­ustu, sama hvaða kerfi og hversu mörg kerfi eiga í hlut, muni breyta gríðarlega miklu í lífi margra fjöl­skyldna. Oft þurfi ekki mikið til þess að hafa áhrif á aðstæður. „Í lang­flest­um til­vik­um vilja for­eldr­arn­ir börn­um sín­um allt hið besta. For­eldr­ar vilja að börn­in fái ákveðna þjón­ustu þrátt fyr­ir að þeir séu kannski sjálf­ir á sín­um allra versta stað, hvort sem er fjár­hags­lega, vegna neyslu, vegna fyrri áfalla, vegna veik­inda, lík­am­legra eða and­legra. Eins og staðan er í dag er oft ekki gripið inn fyrr en allt er komið í bál og brand. Þetta skipt­ir miklu máli og ég hef haft það hug­fast allt frá fyrsta degi mín­um í fé­lags­málaráðuneyt­inu að við þurf­um að lækka þrösk­ulda í þjón­ustu, auka og bæta þjón­ust­una og láta kerf­in okk­ar tala sam­an í kring­um börn­in. Því það er nú bara oft þannig að vandi sem kem­ur fram á ein­um stað á or­sök ann­ars staðar, kannski í erfiðum aðstæðum á heim­ili eða öðru.

Ásmundur Einar Daðason segir að svipað þurfi að gera varðandi …
Ásmund­ur Ein­ar Daðason seg­ir að svipað þurfi að gera varðandi börn og fjöl­skyld­ur þeirra þegar Sam­hæf­ing­armiðstöð al­manna­varna er virkjuð. All­ir vinna sam­an - þvert á kerfi. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Verk­efnið samþætt­ing þjón­ustu í þágu far­sæld­ar barna geng­ur meðal ann­ars út á að all­ir þeir sem eru með snerti­flöt við börn og eru í nærum­hverfi barns­ins, hvort sem það er heilsu­gæsl­an í ung­barna­eft­ir­lit­inu, leik-, grunn- og fram­halds­skól­ar, fé­lagsþjón­ust­an, íþrótt­ir eða tóm­stund­ir, fái aukna ábyrgð. Hún felst eins og áður sagði ekki í því að taka börn­in af heim­il­um held­ur aukna ábyrgð í að koma auga á aðstæður barna þar sem þörf er á að grípa fjöl­skyld­ur miklu fyrr en gert er í dag – bjóða mark­vissa aðstoð fyrr sem von­andi nær að koma í veg fyr­ir að aðstæður verði verri og íþyngj­andi úrræða sé þörf.“

Kerf­in tala ekki sam­an

Ásmund­ur seg­ist telja að nán­ast hver ein­asta fjöl­skylda vilji hjálp en þær séu oft að bug­ast vegna sam­skipta­skorts milli kerfa, „að kerf­in tali ekki sam­an“, seg­ir Ásmund­ur. Auk þess eru for­eldr­ar oft mjög mis­vel í stakk bún­ir til að óska eft­ir hjálp og finna af sjálfs­dáðum rétta leið í kerf­inu, vita hvaða hurðir eigi að banka á.

Meg­in­efni frum­varps­ins, sem verður lagt fram á Alþingi í næstu viku, snýr ein­mitt að þessu; að skil­greina þjón­ustu fyr­ir börn og fjöl­skyld­ur þeirra og marka með skýr­um hætti sam­starf mis­mun­andi þjón­ustu­kerfa. All­ir aðilar, meðal ann­ars full­trú­ar viðeig­andi kerfa hverju sinni, eiga að koma sam­an að borðinu og teikna upp lausn og leiðir fyr­ir barn sem þess þarf, fjöl­skyld­an á ekki að þurfa að gera það sjálf. Sam­hliða þess­um stóru breyt­ing­um hef­ur verið unnið að því að þróa ýmis verk­færi sem stutt geta við þessa nýju hugs­un. Eitt af verk­fær­un­um er mæla­borð sem trygg­ir betri yf­ir­sýn yfir vel­ferð barna á Íslandi og þróað var af Kópa­vogs­bæ í sam­vinnu við fé­lags­málaráðuneytið og UNICEF á Íslandi. Mæla­borðið safn­ar og grein­ir töl­fræðigögn í þeim til­gangi að fá fram betri mynd af al­mennri stöðu barna í sam­fé­lag­inu hverju sinni og bein­ir sjón­um að verk­efn­um sem brýnt er að tak­ast á við og for­gangsraða.

Tekst von­andi að rjúfa keðju áfalla

Eitt af því sem fólk hef­ur ít­rekað sagt blaðamanni í tengsl­um við mál­efni barna er hversu reiðubú­inn Ásmund­ur er til að hlusta á hvað það hef­ur fram að færa. Oft eitt­hvað sem fólk tel­ur að mætti bet­ur fara í vel­ferðar­mál­um lands­ins. Ekki síst hjá börn­um sem ekki passa í fyr­ir­fram­gef­in hólf. Spurður út í þetta seg­ir Ásmund­ur að reynsla hans hafi hjálpað hon­um mikið í starfi fé­lags­málaráðherra og um leið trú hans á það hversu miklu sé hægt að áorka vinni fólk sam­an. „Ég trúi því að ef við náum að gera þess­ar breyt­ing­ar á lög­um varðandi mál­efni barna þá náum við að bjarga fleir­um frá því að lenda á rangri braut. Ég er sann­færður um að á þessu sviði beri okk­ur skylda sem sam­fé­lagi til að leggja til hliðar það sem flokka má sem póli­tískt karp og vinna að því í sam­ein­ingu að stíga þetta risa­stóra skref. Því risa­stórt er skrefið ef okk­ur tekst að auka mögu­leika fólks á að rjúfa keðju áfalla og von­andi fengið fleiri öfl­uga ein­stak­linga út í sam­fé­lagið til að tak­ast á við dag­leg­ar áskor­an­ir. Ekk­ert skipt­ir efna­hag lands­ins meira máli en að við kom­um fleira ungu fólki til manns, því líði vel að vera full­orðin og það sé til­búið til að taka ábyrgð á sín­ar herðar og sinna sínu hlut­verki í gang­verki lands­ins,“ seg­ir Ásmund­ur.

En eru þess­ar breyt­ing­ar ekki kostnaðarsam­ar?

Ásmund­ur seg­ir að eðli máls­ins sam­kvæmt fylgi breyt­ing­un­um kostnaður í byrj­un en rann­sókn­ir og all­ir út­reikn­ing­ar sýni að hann borg­ar sig marg­falt til baka ef mark­miðið næst – börn og fjöl­skyld­ur sem þurfi aðstoð séu grip­in og fái betri og mark­viss­ari þjón­ustu fyrr.

„Í mjög ein­földu máli er ljóst að fjár­fest­ing í betri þjón­ustu við börn og fjöl­skyld­ur er arðbær lang­tíma­fjár­fest­ing þar sem björt framtíð barns veg­ur mun þyngra en út­gjalda­aukn­ing vegna bættr­ar þjón­ustu síðar á lífs­leiðinni.“

Að sögn Ásmund­ar hef­ur vinn­an að þessu verk­efni sem og öðrum sem snerta börn og viðkvæma hópa gefið hon­um gríðarlega mikið og segja megi að hann sé að finna sjálf­an sig bet­ur. Um leið geri hann sér betri grein fyr­ir því hvað stjórn­mál­in eru marg­slung­in. „Þau snú­ast ekki bara um sam­göngu- og efna­hags­mál eins og ég hélt í upp­hafi stjórn­mála­fer­ils­ins held­ur svo miklu meira: Að tryggja und­ir­stöður sam­fé­lags þar sem börn­um líður vel. Þetta er verk­efni sem hef­ur breytt mér sem ein­stak­lingi og ég held að ég sé opn­ari og meyr­ari en ég var áður. Því þrátt fyr­ir að hafa kom­ist á þenn­an stað með sjálf­an mig sem ég er á í dag þá er lífið upp og niður og það hafa komið erfið tíma­bil þar sem mér finnst ég ekki geta meira. Bæði gagn­vart sjálf­um mér og einnig móður minni, sem ég hef eft­ir minni bestu getu verið í góðu sam­bandi við síðustu ár en æskuminn­ing­arn­ar og steinn­inn í mag­an­um eru sjald­an langt und­an,“ seg­ir Ásmund­ur.

Hef­ur ein­sett sér að vera til staðar fyr­ir hana

Fyrr á ár­inu var móðir Ásmund­ar ein­mitt á mjög slæm­um stað, bæði and­lega og gagn­vart áfeng­is­notk­un. Eitt kvöldið er hann var ný­kom­inn heim í Borg­ar­nes úr vinn­unni fékk hann skila­boð frá henni um að hún væri búin að missa hús­næðið sem hún bjó í og væri kom­in á göt­una. Eitt af því sem Ásmund­ur hef­ur ein­sett sér er að vera til staðar fyr­ir móður sína þannig að hann sneri strax aft­ur til höfuðborg­ar­inn­ar til að sækja hana þar sem hún beið.

„Þegar hún er í þessu ástandi er ekki hægt að taka hana inn á heim­ilið og hún hefði held­ur aldrei fall­ist á það. Þannig að það voru ekki marg­ir mögu­leik­ar í stöðunni. Enda vild­um við systkin­in finna þá aðstoð sem hún þyrfti á að halda og var­an­legt hús­næði. Ekki var mögu­legt að koma henni inn á geðdeild á þess­um tíma­punkti þannig að ég hringdi í viðbragðsteymi fé­lags­málaráðuneyt­is­ins sem sett hafði verið af stað vegna Covid-19 og hluti af aðgerðunum var að grípa þá sem voru heim­il­is­laus­ir á tím­um far­ald­urs­ins. Ég lýsti aðstæðum og var í fram­hald­inu bent á að koma með hana tíma­bundið í Konu­kot. Ég keyrði hana þangað og fylgdi henni þar inn að dyr­um og hún var mjög þakk­lát. Síðan legg ég af stað heim aft­ur og þegar ég er kom­inn áleiðis gat ég ekki meira enda er þetta með því erfiðasta sem ég hef þurft að gera í seinni tíð. Ég var al­gjör­lega bugaður því þótt því fylgdi létt­ir að vita að hún væri í góðum hönd­um þá eru mjög erfiðar til­finn­ing­ar sem fylgja því að skilja móður sína eft­ir í at­hvarfi fyr­ir heim­il­is­laus­ar kon­ur. Mér fannst ég hafa fallið á próf­inu sem son­ur henn­ar. Þess­ar til­finn­ing­ar höfðu ekk­ert að gera með það góða starf sem unnið er í Konu­koti og er full ástæða til að þakka fyr­ir. Ég hringdi í syst­ur mína og eins og hún sagði: Þú varðst að gera þetta. Við hitt­um hana á morg­un og för­um yfir stöðuna og finn­um leiðir út úr þessu,“ seg­ir Ásmund­ur. Eft­ir rík­is­stjórn­ar­fund morg­un­inn eft­ir fór hann og sótti móður sína og fylgdi henni á geðdeild þar sem hún fékk bæði lyf og góð viðtöl án þess að vera lögð inn. Að sögn Ásmund­ar er móðir hans kom­in í íbúð og staða henn­ar þokka­leg í dag, en fer upp og niður. Hann á ekki von á að það breyt­ist og seg­ist vita að þetta verði aldrei dans á rós­um. „En ég finn ekki til reiði gagn­vart henni held­ur bara vænt­umþykju. Við erum dæmd til þess að fara sam­an í gegn­um þetta. Ég er son­ur henn­ar og verð til staðar fyr­ir hana ef hún þarf á mér að halda.“

Vildi ekki skipta í dag

Ásmund­ur seg­ir að sam­band þeirra hafi kennt sér ým­is­legt og hann lært að ráða við ýms­ar aðstæður og tak­ast á við hluti sem marg­ir aðrir hafa ekki reynt. „Allt þetta segi ég við móður mína sem hef­ur gefið mér svo margt og í dag myndi ég ekki vilja skipta en þegar ég var yngri óskaði ég þess oft að líf mitt væri öðru­vísi. Að mamma væri öðru­vísi, að ég væri ekki alltaf að skipta um skóla, að það væri ekki alltaf fylle­rí á heim­il­inu og að við vær­um fjöl­skylda sem gæti gert eitt­hvað sem aðrar fjöl­skyld­ur voru að gera. En í dag er ég ótrú­lega þakk­lát­ur fyr­ir að hafa fengið þessa lífs­reynslu. Eðli­lega á ég mína góðu daga og slæmu en á þeim slæmu hef ég kon­una mína við hlið mér sem aðstoðar mig við að rífa mig upp. Þetta hef­ur gefið mér tæki­færi til að geta horfst í augu við sjálf­an mig en það er reglu­leg áskor­un og ekki alltaf auðveld. Síðan hef ég verið þeirr­ar gæfu aðnjót­andi að koma inn í fé­lags­málaráðuneytið sem ráðherra. Í ráðuneytið leita marg­ir sem eru að glíma við aðstæður ekki ólík­ar þeim sem ég bjó við og móðir mín býr við eða glíma við af­leiðing­ar af svipuðum aðstæðum,“ seg­ir Ásmund­ur.

Hjálpa þeim að velja rétta leið

„Ég hef upp­lifað það á ævi minni að kom­ast í skjól og fá stuðning á rétt­um tíma. Ég trúi því að það hafi skipt sköp­um í mínu lífi og því hvar ég er stadd­ur í dag. Slík­ur stuðning­ur á rétt­um tíma fyr­ir börn og fjöl­skyld­ur hér á landi má ekki vera til­vilj­un. Við þurf­um mark­visst að taka utan um börn og fjöl­skyld­ur þeirra, bjóða hjálp og stíga inn með full­nægj­andi þjón­ustu. Við get­um gert þetta sem sam­fé­lag og þetta eru raun­ar viðbrögð sem eru okk­ur Íslend­ing­um vel kunn. Sjáið til dæm­is Sam­hæf­ing­armiðstöð al­manna­varna sem er virkjuð ef nátt­úru­ham­far­ir verða eða far­sótt­ir eins og kór­ónu­veirufar­ald­ur geisa. Þá koma fjöl­marg­ir að verk­efn­inu og vinna sam­an, þvert á kerfi, í bar­átt­unni við vána með ótví­ræðum ár­angri. Það er það sama og við þurf­um að gera varðandi barn í vanda. Að virkjað sé teymi sem gríp­ur barnið og fjöl­skyldu þess, finn­ur út hvað þarf að gera og ger­ir áætl­un um það. Með því get­um við von­andi fækkað börn­um sem ganga um með stein í mag­an­um og hjálpað þeim sem standa á gatna­mót­um í líf­inu að velja rétta leið. Al­veg eins og ég gerði á sín­um tíma,“ seg­ir Ásmund­ur Ein­ar Daðason, fé­lags- og barna­málaráðherra.

mbl.is