Ekki svipta börn bernskunni

Samfélagsmál | 28. nóvember 2020

Ekki svipta börn bernskunni

Ásmundur Einar Daðason er barnamálaráðherra. Málefni barna eru honum hugleikin, ekki síst barna sem búa við erfiðar aðstæður enda þekkir hann það af eigin raun og veit að það er ekkert sjálfgefið að rata rétta leið í lífinu. 

Ekki svipta börn bernskunni

Samfélagsmál | 28. nóvember 2020

Ásmundur Einar Daðason kynnir ný frumvörp í næstu viku er …
Ásmundur Einar Daðason kynnir ný frumvörp í næstu viku er miða að aukinni þjónustu við börn. mbl.is/Árni Sæberg

Ásmundur Einar Daðason er barnamálaráðherra. Málefni barna eru honum hugleikin, ekki síst barna sem búa við erfiðar aðstæður enda þekkir hann það af eigin raun og veit að það er ekkert sjálfgefið að rata rétta leið í lífinu. 

Ásmundur Einar Daðason er barnamálaráðherra. Málefni barna eru honum hugleikin, ekki síst barna sem búa við erfiðar aðstæður enda þekkir hann það af eigin raun og veit að það er ekkert sjálfgefið að rata rétta leið í lífinu. 

Börn eiga ekki að þurfa að búa við aðstæður sem gera það að verkum að þau fá ekki að vera börn. Börn eiga ekki að vera svipt bernskunni og því sakleysi sem einkennir barnæskuna segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. Frumvörp sem miða að því að gjörbylta aðstæðum barna og fjölskyldna þeirra eru á leið inn í þingið. Verkefnið er risavaxið og sennilega felur það í sér mestu breytingu sem gerð hefur verið á umhverfi barna á Íslandi í áratugi.

Ásmundur brennur fyrir verkefninu enda þekkir hann af eigin raun að alast upp við erfiðar aðstæður.

Hingað til hefur hann ekki viljað ræða þessi mál opinberlega enda ekki langt síðan hann fór að vinna með steininn sem hann hefur dröslast með í maganum áratugum saman. Allt frá því í barnæsku. „Við getum aldrei komið öllum börnum til bjargar en ef okkur tekst að hjálpa fleiri börnum þá er tilganginum náð. Því ekkert barn á að þurfa að búa við aðstæður eins og því miður of mörg börn búa við á Íslandi, ofbeldi og vanrækslu,“ segir Ásmundur.

Ásmundur segist nú vilja segja sína sögu bæði til að útskýra af hverju málefni barna hafa verið mikið áherslumál hjá honum en líka í þeirri von að það hjálpi öðrum sem glíma við sambærilegar aðstæður. „Við erum með stóran hóp fullorðinna einstaklinga sem hafa verið í þessum erfiðu aðstæðum og eru að burðast með það innra með sér, jafnvel þegar þeir eru komnir í seinni hálfleik lífs síns. Fólk sem er reitt og biturt. Við þetta fólk vil ég segja að ástæðan fyrir því að ég ákvað að stíga fram og segja mína sögu er sú að það er ekkert athugavert við að leita sér hjálpar. Fá aðstoð við að vinna á reiðinni og þrátt fyrir að það sé erfitt er hægt að yfirstíga erfiðleikana og komast á betri stað. Við sem erum í þessum sporum erum alls staðar í íslensku samfélagi, líka í ríkisstjórn Íslands,“ segir Ásmundur.

Tekið skal fram að viðtalið í heild er tekið í samvinnu og með samþykki móður Ásmundar og nánustu fjölskyldu hans.

Grasið alltaf grænna hinum megin

Ásmundur Einar fæddist árið 1982 í Reykjavík en bjó ásamt foreldrum sínum í Dölunum til fimm ára aldurs er foreldrar hans skildu. Ásmundur og eldri systir hans fylgdu móður sinni suður þar sem þau bjuggu á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu næstu árin. Þaðan lá leiðin á Stokkseyri og síðan í Gnúpverjahrepp. Aldrei var stoppað lengi á hverjum stað og þegar Ásmundur er á þrettánda ári flytur hann með móður sinni til Noregs. Systir hans varð eftir á Íslandi enda orðin uppkomin.

Ásmundur Einar segir að í sveitinni hafi verið haldið fast …
Ásmundur Einar segir að í sveitinni hafi verið haldið fast í hefðir, lambalæri á sunnudögum og royal-búðingur í eftirmat. Þar fann hann þá festu sem hann þurfti á að halda. Ljósmynd úr einkasafni

Hann gekk í sjö grunnskóla og af þeim var hann lengst, tvö og hálft ár, í þeim síðasta sem var í Búðardal. „Þetta var mikið flakk og við bjuggum aldrei lengi á sama stað. Alltaf eitthvað sem varð til þess að búferlaflutningarnir urðu tíðir. Grasið var alltaf grænna hinum megin og í raun átti það við um ansi margt hjá mömmu,“ segir Ásmundur. Hann segir að það hafi hjálpað sér mikið hversu opinn og félagslyndur hann hafi alltaf verið. „Ég átti frekar auðvelt með breytingar, að minnsta kosti á yfirborðinu,“ segir hann og bætir við að á meðan þau bjuggu á Íslandi hafi hann alltaf getað farið í sveitina til pabba síns og afa og ömmu sem bjuggu félagsbúi í Dölunum. Þangað fór hann oft um helgar og í flestum leyfum.

Móðir Ásmundar hefur glímt við áfengisvanda árum saman og hún á einnig við geðræn veikindi að stríða og hefur átt lengi. Auk þess er hún með ADHD á háu stigi ásamt fleiru. Lífið hefur ekki farið mjúkum höndum um hana en þegar hún var 18 ára gömul hafði hún misst báða foreldra sína. Móðir hennar, sem einnig átti við geðræn veikindi að stríða, lést í eldsvoða á heimili fjölskyldunnar snemma árs 1978 og nokkrum árum áður missti hún föður sinn.

Upplifði ýmis áföll í æsku

„Móðir mín upplifði ýmis áföll í æsku og móðir hennar, amma mín, var reglulega á geðdeild vegna veikinda sinna. Allir í sveitinni bitu á jaxlinn og enginn talaði um hvernig þeim leið á þessum tíma í litlu samfélagi. Við vorum þá ekki stödd á árinu 2020 þar sem fólk þorir að tala opinskátt um slík veikindi. Þetta hefur móðir mín þurft að burðast með á bakinu allt sitt líf. Það var ekki fyrr en ég fór að eldast að ég gerði mér grein fyrir því að þessi mikla áfengisnotkun á heimilinu væri óeðlileg en mamma var alltaf dugleg til vinnu og það vissu fáir af því hver staðan var innan heimilisins. Þó var það ekki óalgengt að hún færi út á lífið og kæmi ölvuð heim, stundum ein, stundum ekki. Þessi óregla litaði andrúmsloftið á heimilinu og það var oft spenna í loftinu. Því var það léttir að fara í sveitina þar sem festa ríkti. Heimilið þar var ekta sveitaheimili og haldið í hefðir eins og lambalæri á sunnudögum og royal-búðing í eftirmat,“ segir Ásmundur.

Hann segir að sem barn hafi hann einfaldlega ekki gert sér grein fyrir því að eitthvað væri að hjá mömmu hans. „Þegar þú ert barn skynjar þú ekki svona og þú trúir því að hlutirnir séu eins og þeir eigi að vera. Allt frá því ég man eftir mér voru makaskipti mjög tíð hjá mömmu. Alls konar menn voru komnir inn í líf mitt og inn á heimilið mjög fljótt. Ég veit ekki hvað þeir voru margir. Sumir voru frábærir en aðrir áttu við sömu vandamál að stríða og mamma. Oft voru þetta þannig einstaklingar í mikilli áfengisneyslu. Verst var þegar um ofbeldismenn var að ræða. Ég var ekki sjálfur beittur líkamlegu ofbeldi en mamma varð fyrir því. Ég varð vitni að því, fann það, heyrði það. Það situr enn í mér og mun alltaf gera,“ segir Ásmundur.

„Ég var með ákveðna mynd út á við – þessi …
„Ég var með ákveðna mynd út á við – þessi glaði kraftmikli strákur sem tekur þátt í öllu." Ljósmynd úr einkasafni

Eitt af því sem lagt er til í nýju frumvarpi er að unnið sé með börn og foreldra saman. Að verkefnið snúist um barnið og fjölskyldu þess.

„Við viljum skapa börnum þær aðstæður að þau fái að vera börn. Að aðstoð komi áður en allt er farið á versta veg. Ekki með því að fjarlægja þau af heimilinu, þótt þess þurfi auðvitað því miður stundum, heldur að brugðist sé við erfiðleikum barna og fjölskyldna mun fyrr og í samvinnu. Fjölskyldan sé gripin, fái nauðsynlegar greiningar og viðeigandi aðstoð sé veitt. Að fjölskyldan fái snemma hjálp við að vinna á sínum vanda og að barnið búi við betri aðstæður inni á heimilinu en fái líka hjálp alls staðar annars staðar; í skólanum, heilbrigðiskerfinu eða hvar sem það er statt. Þetta er það sem við sem samfélag þurfum að gera. Börn og fjölskyldur þeirra eiga ekki að þurfa passa í box hinna mismunandi kerfa og bíða eftir að vandinn verði nægilega stór til að fá hjálp. Ég hef trú á því að ef við náum að byggja upp seiglu hjá börnum með því að styðja þau þá taki barnið rétta stefnu þegar það eldist og stendur á gatnamótum í lífi sínu. Við getum gert þetta sem samfélag. Koma með þjónustuna til barna og fjölskyldna en ekki öfugt. Staðan er sú að við erum með ótal börn hér á landi sem ganga um með stein í maganum af einhverjum ástæðum. Við þurfum að losa þau við þessa steina,“segir Ásmundur.

Opnaði sparibaukinn til að kaupa jólaöl

Eitt af því er að veita öllum börnum jafna möguleika á að stunda íþróttir og taka þátt í frístundum. Nokkuð sem Ásmundur gat ekki í þeim mæli sem hann langaði vegna fjárhagsstöðunnar á heimilinu. „En ég vissi að ég gat ekki farið í þær tómstundir sem mig langaði því það kostaði of mikið. Samt reyndi mamma eins og hún gat en aðstæðurnar voru þannig að það var ekki hægt og eftir ákveðinn tíma hætti maður að biðja um það.“

Þrátt fyrir að Ásmundur ítreki að lífið hafi ekki alltaf verið hræðilegt hefur hann upplifað fátækt á eigin skinni og ein af minningum hans úr barnæsku er að hafa opnað sparibaukinn til þess að geta keypt malt og appelsín um jólin. Að hafa grátið yfir því að geta ekki tekið þátt í íþróttaæfingum með félögum sínum vegna þess að æfingagjöld, íþróttabúnaður eða annar kostnaður var of stór biti fyrir heimilið.

Kvíðahnútur sem bara stækkaði og stækkaði

Engin samskipti voru á milli foreldra Ásmundar og þrátt fyrir að hann hafi verið mikið hjá föður sínum eftir skilnað foreldranna var aldrei rætt um það hvernig lífið var hjá móður hans. „Þegar ég fór að eldast fór ég að finna fyrir steininum. Kvíðahnútnum innra með mér sem bara stækkaði og stækkaði. Ég var oft með stein í maganum og ég vissi aldrei almennilega hvað þetta var. Enda var ekki til siðs í mínu umhverfi að tala um tilfinningar þannig að ég þagði. Út á við var ég kátur og lífsglaður en innra með mér þyngdist steinninn hægt og rólega. Alltaf þegar ég fór í sveitina hvarf steinninn, en bara tímabundið. Þessi festa og utanumhald sem þar var gerði mér gott. Samt sem áður talaði ég ekkert um mömmu eða lífið heima hjá henni í sveitinni. Ég skipti lífinu upp í þrjú hólf: Sveitina, heima hjá mömmu og myndina sem ég sýndi út á við.“

Þegar Ásmundur og móðir hans fluttu til Noregs var það hans ákvörðun að fylgja móður sinni út. Það þýddi að öryggið um helgar og í fríum hvarf. Á sama tíma jókst áfengisnotkun móður hans og geðheilsa hennar tók meiri sveiflur.

„Við vorum húsnæðislaus fyrst eftir komuna til Noregs og bjuggum í hjólhýsi fyrstu mánuðina. Síðan fékk mamma vinnu og við íbúð til að búa í. Mamma var dugleg í vinnu en drakk mikið um helgar. Hún kynntist fljótt manni sem var vondur maður og beitti hana ofbeldi. Þrátt fyrir að hún hafi einungis verið í sambandi við þennan mann í nokkra mánuði finnst mér eins og sá tími hafi verið mörg ár. Það var ekkert óalgengt að hún færi út á lífið á föstudegi og kæmi ekki heim fyrr en daginn eftir. Stundum var einhver með henni eða ekki. Ég var einn heima og hafði ekki hugmynd um hvar mamma var og svo þegar þau komu heim tók ofbeldið stundum við. Það eina sem ég sem barn gat gert í þessum aðstæðum var að snúa mér á hina hliðina, reyna að loka eyrunum og vona að fljótlega myndu þau deyja áfengisdauða,“ segir Ásmundur.

Andleg veikindi móður Ásmundar ágerðust að hans sögn á þessum tíma og þau ásamt áfenginu gerðu lífið á heimilinu oft erfitt. Þarna var Ásmundur á fermingaraldri. Búferlaflutningar enn eina ferðina, nú innan Noregs, bættu ekki ástandið. „Ég var kominn á ákveðin gatnamót í lífinu og fann að ég gat þetta ekki lengur. Ég hafði kynnst festu og átt mitt skjól í sveitinni en í Noregi átti ég ekkert slíkt skjól.“

Kvíðahnúturinn var orðinn óviðráðanlegur fyrir ungan dreng á viðkvæmu aldursskeiði og Ásmundur tók um miðjan vetur ákvörðun um að flytja heim til Íslands, í sveitina til pabba. Þarna var hann kominn í öruggt skjól en hann segir að sá böggull hafi fylgt skammrifi að í sveitinni hjá pabba var ekki venja að bera tilfinningar sínar á torg.

Ólíkir heimar og tengslaleysi

„Ég átti þessa ólíku heima og tengslaleysið þeirra á milli olli togstreitu innra með mér: Hvers vegna tala mamma og pabbi ekki saman? Hjá pabba í sveitinni var mikil festa, allir fengu nóg að borða og maður lærði að vinna, sem er mjög jákvætt. En ég talaði ekki um vanlíðan mína eða eitthvað sem ég hafði upplifað heldur beit á jaxlinn og útilokaði þessar tilfinningar,“ segir Ásmundur.

Ásmundur Einar bjó ásamt móður sinni í Noregi en ákvað …
Ásmundur Einar bjó ásamt móður sinni í Noregi en ákvað að flytja til Íslands aftur þar sem hann lauk grunnskólanámi í Búðardal. Ljósmynd úr einkasafni

Hann lauk grunnskólanámi vestur í Dölum og eignaðist þar góða vini. Námið gekk vel og fór Ásmundur fyrst í fjölbrautaskóla, lauk búfræðinámi og síðar háskólanámi á Hvanneyri. Hann kynntist eiginkonu sinni, Sunnu Birnu Helgadóttur, í náminu á Hvanneyri og þau eignuðust sína fyrstu dóttur árið 2006 en alls eiga þau þrjár dætur. Allt gekk vel á yfirborðinu en undir niðri kraumaði hjá Ásmundi bæði reiði og vanlíðan.

„Ég var með ákveðna mynd út á við – þessi glaði kraftmikli strákur sem tekur þátt í öllu. En það varð alltaf erfiðara og erfiðara að halda þessari mynd á lofti. Ég á ekki við að myndin hafi verið fölsuð því hún var sönn en hún sýndi aðeins hluta af mér. Annað var lokað og læst inni í mér. Smátt og smátt jókst andleg vanlíðan og reiði. Reiði mín beindist að báðum foreldrum mínum, ekki síst móður minni. Óstjórnleg reiði út í hana og reiði út í föður minn fyrir að hafa að einhverju leyti ekki verið til staðar þegar ég bjó hjá móður minni. Ég held að allir sem fara í gegnum svipaða æsku upplifi tilfinningar sem þessar einhvern tíma á lífsleiðinni og margir oft. Á þessum tíma er mamma flutt aftur Íslands en ég var í mjög litlum samskiptum við hana nema í gegnum bróður minn sem fæddist eftir að ég flutti heim frá Noregi. Alltaf burðaðist ég samt með þetta innra með mér og reyndi að láta ekki á neinu bera. Enda leið mér eins og ég gæti ekki rætt þetta við neinn, ég yrði bara að þegja og keyra mig áfram. Mér fannst eins og enginn væri að upplifa það sama og ég. Eina sem dygði væri að hætta að hugsa um þetta þar sem ekki væri hægt að bæta þetta á nokkurn hátt,“ segir Ásmundur.

Bjargaði honum að eiga Sunnu að

Ásmundur var kominn vel á þrítugsaldur á þessum tíma og þegar kom að þeim tímapunkti að hann bugaðist varð það honum til bjargar að eiga Sunnu að og segist hann stundum ekki skilja hvernig hún hafi getað búið með honum. „Sem betur fer á ég yndislega konu sem hefur hjálpað mér og ögrað mér um leið við að sleppa þessari mynd sem ég sýndi út á við og vinna frekar í því sem raunverulega skiptir máli – því sem býr innra með mér. Nokkuð sem hafði ekki náðst í uppeldinu; að þroska með mér og ástunda eðlileg tilfinningaleg samskipti,“ segir Ásmundur og bætir við að þetta hefði hann aldrei getað sagt upphátt fyrir tíu árum. Ekkert frekar en að ræða þessa vanlíðan opinberlega.

„Á þessum tíma hafði ég á tilfinningunni að allt gæti farið á versta veg en það gerðist ekki því ég var með þéttan og góðan stuðning konu minnar. Ég leitaði mér aðstoðar og fór að uppgötva hvað það er sem skiptir raunverulega máli. Ég tel að við getum öll tekið réttar beygjur í lífinu ef við fáum til þess aðstoð og erum tilbúin að fylgja því sem lætur manni líða raunverulega vel í hjartanu. Það er ótrúleg áskorun að gera það og ég upplifði það svo sannarlega. Stundum heldur maður að hæðin sé auðveld yfirferðar en þetta er sennilega ein stærsta hæð sem ég hef þurft að fara yfir um ævina. Þegar ég var kominn á þann stað, upp hæðina, fann ég að reiðin í garð móður minnar hvarf smám saman og það er ótrúlega góð tilfinning. Á sama tíma fór ég að sjá hana í öðru ljósi, og ég átta mig á því að hún er sennilega að burðast með þennan sama stein í maganum og ég.“

Við erum svo mörg

Auk þess að njóta góðs stuðnings heima fyrir hefur Ásmundur farið til sálfræðinga og sótt fundi hjá Al Anon. „Ég viðurkenni að ég varð mjög hissa þegar ég fór að sækja fundi samtakanna því þar sá ég að ég var ekki einn í þessum sporum og þarna hitti ég marga, þar á meðal þjóðþekkt fólk, sem voru í sömu sporum og ég. Þetta opnaði augu mín fyrir því að ég er ekki einn, við erum svo mörg sem höfum upplifað ofbeldi á heimilum, fátækt, andleg veikindi foreldra og neyslu.“

Nokkuð sem hverfur aldrei

Hann segist vita það í dag að lausnin er ekki sú að bíta á jaxlinn og halda áfram eins og hann hélt áður. „Hægt og rólega hef ég náð að losa þennan stein sem hefur fylgt mér svo lengi en hann er ekki horfinn því þetta kemur og fer. Þetta er eilífðarvinna og verkefni sem ég mun takast á við alla ævi,“ segir Ásmundur.

Hann segir að það sé ekkert sjálfgefið að rata rétta braut þegar kemur að gatnamótum eins og hann hefur oftar en einu sinni staðið á og hann finni það vel þegar hann ræðir við fólk sem hefur annaðhvort leitað sér aðstoðar vegna neyslu áfengis og annarra vímuefna eða verið vistað í fangelsi. Margt af því á áfallasögu úr æsku að baki. „Ég tengi alveg við þeirra lýsingar og þetta hefði alveg getað verið ég. Hvað varð til þess að ég tók rétta beygju við gatnamót, einhver afdrifarík gatnamót á lífsleiðinni – gatnamót sem eru alltaf að koma?“

Fyrsti barnamálaráðherrann

Þrjú ár eru síðan Ásmundur tók við embætti félags- og barnamálaráðherra og þegar hann var beðinn að taka að sér starfið óskaði hann eftir því að hann fengi að lyfta sérstaklega málefnum barna og taka fyrstur ráðherra upp titilinn barnamálaráðherra. Fljótlega eftir stjórnarskiptin hófst samstarf allra þingflokka og ráðuneyta auk Sambands íslenskra sveitarfélaga við að búa til sameiginlegan vettvang fyrir málefni barna. „Ég var og er sannfærður um að ef við ætlum að grípa börn þá verði allir þeir sem koma að málefnum barna að vera með. Kerfisbreytingin er svo stór að það myndi ekki duga því verkefni einungis einn ráðherra, eitt kjörtímabil og eitt ráðuneyti að ná utan um það, enda er þetta langtímaverkefni sem vonandi verður komið vel á veg eftir nokkur ár.“

Oft ekki gripið inn fyrr en allt er komið í bál og brand

Ásmundur er sannfærður um að það að setja barnið og fjölskyldu þess í miðju allrar þjónustu, sama hvaða kerfi og hversu mörg kerfi eiga í hlut, muni breyta gríðarlega miklu í lífi margra fjölskyldna. Oft þurfi ekki mikið til þess að hafa áhrif á aðstæður. „Í langflestum tilvikum vilja foreldrarnir börnum sínum allt hið besta. Foreldrar vilja að börnin fái ákveðna þjónustu þrátt fyrir að þeir séu kannski sjálfir á sínum allra versta stað, hvort sem er fjárhagslega, vegna neyslu, vegna fyrri áfalla, vegna veikinda, líkamlegra eða andlegra. Eins og staðan er í dag er oft ekki gripið inn fyrr en allt er komið í bál og brand. Þetta skiptir miklu máli og ég hef haft það hugfast allt frá fyrsta degi mínum í félagsmálaráðuneytinu að við þurfum að lækka þröskulda í þjónustu, auka og bæta þjónustuna og láta kerfin okkar tala saman í kringum börnin. Því það er nú bara oft þannig að vandi sem kemur fram á einum stað á orsök annars staðar, kannski í erfiðum aðstæðum á heimili eða öðru.

Ásmundur Einar Daðason segir að svipað þurfi að gera varðandi …
Ásmundur Einar Daðason segir að svipað þurfi að gera varðandi börn og fjölskyldur þeirra þegar Samhæfingarmiðstöð almannavarna er virkjuð. Allir vinna saman - þvert á kerfi. mbl.is/Árni Sæberg

Verkefnið samþætting þjónustu í þágu farsældar barna gengur meðal annars út á að allir þeir sem eru með snertiflöt við börn og eru í nærumhverfi barnsins, hvort sem það er heilsugæslan í ungbarnaeftirlitinu, leik-, grunn- og framhaldsskólar, félagsþjónustan, íþróttir eða tómstundir, fái aukna ábyrgð. Hún felst eins og áður sagði ekki í því að taka börnin af heimilum heldur aukna ábyrgð í að koma auga á aðstæður barna þar sem þörf er á að grípa fjölskyldur miklu fyrr en gert er í dag – bjóða markvissa aðstoð fyrr sem vonandi nær að koma í veg fyrir að aðstæður verði verri og íþyngjandi úrræða sé þörf.“

Kerfin tala ekki saman

Ásmundur segist telja að nánast hver einasta fjölskylda vilji hjálp en þær séu oft að bugast vegna samskiptaskorts milli kerfa, „að kerfin tali ekki saman“, segir Ásmundur. Auk þess eru foreldrar oft mjög misvel í stakk búnir til að óska eftir hjálp og finna af sjálfsdáðum rétta leið í kerfinu, vita hvaða hurðir eigi að banka á.

Meginefni frumvarpsins, sem verður lagt fram á Alþingi í næstu viku, snýr einmitt að þessu; að skilgreina þjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra og marka með skýrum hætti samstarf mismunandi þjónustukerfa. Allir aðilar, meðal annars fulltrúar viðeigandi kerfa hverju sinni, eiga að koma saman að borðinu og teikna upp lausn og leiðir fyrir barn sem þess þarf, fjölskyldan á ekki að þurfa að gera það sjálf. Samhliða þessum stóru breytingum hefur verið unnið að því að þróa ýmis verkfæri sem stutt geta við þessa nýju hugsun. Eitt af verkfærunum er mælaborð sem tryggir betri yfirsýn yfir velferð barna á Íslandi og þróað var af Kópavogsbæ í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og UNICEF á Íslandi. Mælaborðið safnar og greinir tölfræðigögn í þeim tilgangi að fá fram betri mynd af almennri stöðu barna í samfélaginu hverju sinni og beinir sjónum að verkefnum sem brýnt er að takast á við og forgangsraða.

Tekst vonandi að rjúfa keðju áfalla

Eitt af því sem fólk hefur ítrekað sagt blaðamanni í tengslum við málefni barna er hversu reiðubúinn Ásmundur er til að hlusta á hvað það hefur fram að færa. Oft eitthvað sem fólk telur að mætti betur fara í velferðarmálum landsins. Ekki síst hjá börnum sem ekki passa í fyrirframgefin hólf. Spurður út í þetta segir Ásmundur að reynsla hans hafi hjálpað honum mikið í starfi félagsmálaráðherra og um leið trú hans á það hversu miklu sé hægt að áorka vinni fólk saman. „Ég trúi því að ef við náum að gera þessar breytingar á lögum varðandi málefni barna þá náum við að bjarga fleirum frá því að lenda á rangri braut. Ég er sannfærður um að á þessu sviði beri okkur skylda sem samfélagi til að leggja til hliðar það sem flokka má sem pólitískt karp og vinna að því í sameiningu að stíga þetta risastóra skref. Því risastórt er skrefið ef okkur tekst að auka möguleika fólks á að rjúfa keðju áfalla og vonandi fengið fleiri öfluga einstaklinga út í samfélagið til að takast á við daglegar áskoranir. Ekkert skiptir efnahag landsins meira máli en að við komum fleira ungu fólki til manns, því líði vel að vera fullorðin og það sé tilbúið til að taka ábyrgð á sínar herðar og sinna sínu hlutverki í gangverki landsins,“ segir Ásmundur.

En eru þessar breytingar ekki kostnaðarsamar?

Ásmundur segir að eðli málsins samkvæmt fylgi breytingunum kostnaður í byrjun en rannsóknir og allir útreikningar sýni að hann borgar sig margfalt til baka ef markmiðið næst – börn og fjölskyldur sem þurfi aðstoð séu gripin og fái betri og markvissari þjónustu fyrr.

„Í mjög einföldu máli er ljóst að fjárfesting í betri þjónustu við börn og fjölskyldur er arðbær langtímafjárfesting þar sem björt framtíð barns vegur mun þyngra en útgjaldaaukning vegna bættrar þjónustu síðar á lífsleiðinni.“

Að sögn Ásmundar hefur vinnan að þessu verkefni sem og öðrum sem snerta börn og viðkvæma hópa gefið honum gríðarlega mikið og segja megi að hann sé að finna sjálfan sig betur. Um leið geri hann sér betri grein fyrir því hvað stjórnmálin eru margslungin. „Þau snúast ekki bara um samgöngu- og efnahagsmál eins og ég hélt í upphafi stjórnmálaferilsins heldur svo miklu meira: Að tryggja undirstöður samfélags þar sem börnum líður vel. Þetta er verkefni sem hefur breytt mér sem einstaklingi og ég held að ég sé opnari og meyrari en ég var áður. Því þrátt fyrir að hafa komist á þennan stað með sjálfan mig sem ég er á í dag þá er lífið upp og niður og það hafa komið erfið tímabil þar sem mér finnst ég ekki geta meira. Bæði gagnvart sjálfum mér og einnig móður minni, sem ég hef eftir minni bestu getu verið í góðu sambandi við síðustu ár en æskuminningarnar og steinninn í maganum eru sjaldan langt undan,“ segir Ásmundur.

Hefur einsett sér að vera til staðar fyrir hana

Fyrr á árinu var móðir Ásmundar einmitt á mjög slæmum stað, bæði andlega og gagnvart áfengisnotkun. Eitt kvöldið er hann var nýkominn heim í Borgarnes úr vinnunni fékk hann skilaboð frá henni um að hún væri búin að missa húsnæðið sem hún bjó í og væri komin á götuna. Eitt af því sem Ásmundur hefur einsett sér er að vera til staðar fyrir móður sína þannig að hann sneri strax aftur til höfuðborgarinnar til að sækja hana þar sem hún beið.

„Þegar hún er í þessu ástandi er ekki hægt að taka hana inn á heimilið og hún hefði heldur aldrei fallist á það. Þannig að það voru ekki margir möguleikar í stöðunni. Enda vildum við systkinin finna þá aðstoð sem hún þyrfti á að halda og varanlegt húsnæði. Ekki var mögulegt að koma henni inn á geðdeild á þessum tímapunkti þannig að ég hringdi í viðbragðsteymi félagsmálaráðuneytisins sem sett hafði verið af stað vegna Covid-19 og hluti af aðgerðunum var að grípa þá sem voru heimilislausir á tímum faraldursins. Ég lýsti aðstæðum og var í framhaldinu bent á að koma með hana tímabundið í Konukot. Ég keyrði hana þangað og fylgdi henni þar inn að dyrum og hún var mjög þakklát. Síðan legg ég af stað heim aftur og þegar ég er kominn áleiðis gat ég ekki meira enda er þetta með því erfiðasta sem ég hef þurft að gera í seinni tíð. Ég var algjörlega bugaður því þótt því fylgdi léttir að vita að hún væri í góðum höndum þá eru mjög erfiðar tilfinningar sem fylgja því að skilja móður sína eftir í athvarfi fyrir heimilislausar konur. Mér fannst ég hafa fallið á prófinu sem sonur hennar. Þessar tilfinningar höfðu ekkert að gera með það góða starf sem unnið er í Konukoti og er full ástæða til að þakka fyrir. Ég hringdi í systur mína og eins og hún sagði: Þú varðst að gera þetta. Við hittum hana á morgun og förum yfir stöðuna og finnum leiðir út úr þessu,“ segir Ásmundur. Eftir ríkisstjórnarfund morguninn eftir fór hann og sótti móður sína og fylgdi henni á geðdeild þar sem hún fékk bæði lyf og góð viðtöl án þess að vera lögð inn. Að sögn Ásmundar er móðir hans komin í íbúð og staða hennar þokkaleg í dag, en fer upp og niður. Hann á ekki von á að það breytist og segist vita að þetta verði aldrei dans á rósum. „En ég finn ekki til reiði gagnvart henni heldur bara væntumþykju. Við erum dæmd til þess að fara saman í gegnum þetta. Ég er sonur hennar og verð til staðar fyrir hana ef hún þarf á mér að halda.“

Vildi ekki skipta í dag

Ásmundur segir að samband þeirra hafi kennt sér ýmislegt og hann lært að ráða við ýmsar aðstæður og takast á við hluti sem margir aðrir hafa ekki reynt. „Allt þetta segi ég við móður mína sem hefur gefið mér svo margt og í dag myndi ég ekki vilja skipta en þegar ég var yngri óskaði ég þess oft að líf mitt væri öðruvísi. Að mamma væri öðruvísi, að ég væri ekki alltaf að skipta um skóla, að það væri ekki alltaf fyllerí á heimilinu og að við værum fjölskylda sem gæti gert eitthvað sem aðrar fjölskyldur voru að gera. En í dag er ég ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið þessa lífsreynslu. Eðlilega á ég mína góðu daga og slæmu en á þeim slæmu hef ég konuna mína við hlið mér sem aðstoðar mig við að rífa mig upp. Þetta hefur gefið mér tækifæri til að geta horfst í augu við sjálfan mig en það er regluleg áskorun og ekki alltaf auðveld. Síðan hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að koma inn í félagsmálaráðuneytið sem ráðherra. Í ráðuneytið leita margir sem eru að glíma við aðstæður ekki ólíkar þeim sem ég bjó við og móðir mín býr við eða glíma við afleiðingar af svipuðum aðstæðum,“ segir Ásmundur.

Hjálpa þeim að velja rétta leið

„Ég hef upplifað það á ævi minni að komast í skjól og fá stuðning á réttum tíma. Ég trúi því að það hafi skipt sköpum í mínu lífi og því hvar ég er staddur í dag. Slíkur stuðningur á réttum tíma fyrir börn og fjölskyldur hér á landi má ekki vera tilviljun. Við þurfum markvisst að taka utan um börn og fjölskyldur þeirra, bjóða hjálp og stíga inn með fullnægjandi þjónustu. Við getum gert þetta sem samfélag og þetta eru raunar viðbrögð sem eru okkur Íslendingum vel kunn. Sjáið til dæmis Samhæfingarmiðstöð almannavarna sem er virkjuð ef náttúruhamfarir verða eða farsóttir eins og kórónuveirufaraldur geisa. Þá koma fjölmargir að verkefninu og vinna saman, þvert á kerfi, í baráttunni við vána með ótvíræðum árangri. Það er það sama og við þurfum að gera varðandi barn í vanda. Að virkjað sé teymi sem grípur barnið og fjölskyldu þess, finnur út hvað þarf að gera og gerir áætlun um það. Með því getum við vonandi fækkað börnum sem ganga um með stein í maganum og hjálpað þeim sem standa á gatnamótum í lífinu að velja rétta leið. Alveg eins og ég gerði á sínum tíma,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

mbl.is