„Mig langar að snúa aftur til Aleppo, að finna heimili mitt, hverfið mitt og ástvini mína. Ég vildi að Assad myndi deyja svo við gætum snúið aftur,“ segir Dalaa Hadidi, tíu ára. Hún var 45 daga gömul þegar stríðið hófst í Sýrlandi fyrir tíu árum.
„Mig langar að snúa aftur til Aleppo, að finna heimili mitt, hverfið mitt og ástvini mína. Ég vildi að Assad myndi deyja svo við gætum snúið aftur,“ segir Dalaa Hadidi, tíu ára. Hún var 45 daga gömul þegar stríðið hófst í Sýrlandi fyrir tíu árum.
„Mig langar að snúa aftur til Aleppo, að finna heimili mitt, hverfið mitt og ástvini mína. Ég vildi að Assad myndi deyja svo við gætum snúið aftur,“ segir Dalaa Hadidi, tíu ára. Hún var 45 daga gömul þegar stríðið hófst í Sýrlandi fyrir tíu árum.
Foreldrar hennar flúðu frá Aleppo þegar hún var fimmtán mánaða gömul og hún þekkir því ekki borgina af eigin raun. En líkt og svo mörg önnur sýrlensk börn talar hún um borgina eins og hún hafi búið þar alla sína ævi. Minningar foreldra og annarra ættingja verða lifandi fyrir hugskotsjónum barnanna um veröld sem var, Sýrland fyrir 15. mars 2011.
Stríðið í Sýrlandi hefur kostað hundruð þúsunda almennra borgara lífið og hrakið milljónir af heimilum sínum. Upphafið að stríðinu má rekja til fimmtán drengja á aldrinum tíu til fimmtán ára sem tóku sig saman, upptendraðir af arabíska vorinu, og rituðu slagorð á vegg skóla síns í borginni Deraa. Voðaverkin sem unglingspiltarnir frömdu felast í þeim orðum sem þeir skrifuðu á vegg skólans: As-Shaab / Yoreed / Eskaat el nizam! – Þjóðin vill losna við valdhafanna!
Varað er við óhugnanlegum myndum sem fylgja með greininni
Drengirnir voru allir handteknir og fluttir í fangelsi sem var undir stjórn Atef Najeeb, yfirmanns hersins og frænda forseta Sýrlands, Bashar al-Assad. Í yfirheyrsluherberginu voru drengirnir pyntaðir. Höggin voru látin dynja á þeim þar til þeim blæddi, fingurneglur þeirra rifnar af og þeir brenndir af sérsveitarmönnum sem starfa á vegum stjórnvalda í landinu.
Fjölskyldur drengjanna fengu þau svör þegar þær báðu um að börn þeirra yrðu látin laus að ef þær vildu drengi þá gætu þær sent mæður drengjanna í fangelsið þar sem þeim yrði nauðgað og kæmu heim þungaðar.
Fjölskyldurnar sættu sig ekki við þessi svör og mótmæltu við heimili héraðsstjórans í Deraa og sífellt bættist í hóp mótmælenda. Svörin sem mótmælendur fengu var kúlnahríð og hrottalegar misþyrmingar. Piltarnir voru látnir lausir úr haldi tveimur vikum síðar en ekkert lát varð á mótmælunum. Þau breiddust út og stigmögnuðust.
Saga Deraa er saga sýrlensku uppreisnarinnar sem endaði með ófriðarbáli sem enginn endir virðist vera á. Eitt lítið atvik sem er svarað með hrottalegum aðgerðum af hálfu leynilögreglunnar. Ofbeldi sem magnaðist dag frá degi og mótmælendur fóru að svara með sama hætti. Því mótmælin snerust um svo miklu meira en piltana fimmtán. Þau snerust um þjóð sem bjó við takmarkað frelsi. Þjóð sem hafði fengið nóg af ofríki leiðtoga landsins. Þegar sýrlensk yfirvöld áttuðu sig á mistökunum sem þau höfðu gert var það orðið of seint því þrátt fyrir að boða launahækkanir og skattalækkanir héldu mótmælin áfram.
„Við viljum ekki brauðmola frá þér heldur viljum við sæmd,” hrópaði mannfjöldinn. Stytta af föður al-Assad, Hafez sem var forseti á undan syni sínum, var brotin niður og myndir af forsetanum voru rifnar og kveikt í þeim. Byltingin var hafin eftir áratug vonbrigða með Bashar al-Assad og störf hans á forsetastóli segir í grein sem markaði upphaf greinaflokks sem birtist á mbl.is um Sýrland og hlutskipti flóttafólks haustið 2016.
Gróf brot á réttindum barna hafa verið framin á hverjum einasta degi síðastliðin 10 ár. Meira en 12.000 börn hafa verið drepin eða slasast alvarlega samkvæmt staðfestum tölum UNICEF. Það eru meira en 3 börn á hverjum einasta degi og líklegt er að talan sé mun hærri. Þúsundir barna eru notuð í vopnuðum átökum og skólarnir þeirra og heimili sprengd í loft upp. Síendurtekið ofbeldi og áföll hafa haft veruleg áhrif á geðheilbrigði barna. Sýrland er í molum samkvæmt upplýsingum frá UNICEF.
Fréttmenn AFP fréttastofunnar ræddu við sýrlensk börn og ættingja þeirra í tyrknesku borginni Gaziantep nýverið en í borginni býr mikill fjöldi sýrlenskra flóttamanna. Blaðamaður mbl.is fór einmitt til borgarinnar haustið 2019 til að ræða við konur og börn sem höfðu flúið heimalandið og starfsfólk hjálparstofnana sem þar starfa.
Gaziantep er skammt frá landamærunum, aðeins í 97 km fjarlægð frá Aleppo. Íbúum borgarinnar hefur fjölgað úr 1,5 milljónum í rúmlega tvær milljónir á örfáum árum og eru aðeins þeir Sýrlendingar sem eru formlega skráðir með tímabundna vernd inni í þeirri tölu. Yfir 3,6 milljónir Sýrlendinga hafa fundið skjól frá stríðinu í Tyrklandi. Þar á meðal 1,5 milljón barna yngri en 15 ára samkvæmt opinberum tölum.
Mohammad er fimm ára gamall, Areej er sex ára og Dalaa er 10. Mohammad og foreldrar hans, Maher Imadedine og Rawan Sameh, eru frá Aleppo. Mohammad vill fara til Sýrlands þrátt fyrir að hann hafi aldrei stigið fæti sínum á sýrlenska jörð. „Af því að Sýrland er svo fallegt land. Mamma og pabbi segja það.“
Móðir hans kennir arabísku við háskólann í Gaziantep og faðir hans starfar við hjálparstarf. Þrátt fyrir að þau hafi komið sér vel fyrir í borginni og búi í hverfi þar sem flestir íbúarnir eru þokkalega vel stæðir þá sjá þau fyrir sér að snúa aftur heim, til landsins sem þau flúðu eftir að hafa tekið þátt í mómælum gegn forseta landsins, Bashar al-Assad.
Þegar Mohammad er spurður að því hvenær hann eigi von á því að þau komist heim svarar hann að bragði: „Þegar Bashar al-Assad er kominn í fangelsi.“ Hann bætir við: „Mér er illa við hann þar sem hann drepur fólk og setur það í fangelsi.“
Mohammad segist hafa lært þetta af foreldrum sínum en móðir hans grípur inn og segir: „Hann hefur líka séð þetta í sjónvarpinu. Hann horfir á fréttirnar með okkur. Sumir hlutir eru of flóknir fyrir hann en hann nær því helsta sem Sýrland er að ganga í gegnum,“ segir hún.
Hún óttast sjálf það sem mæti þeim við heimkomuna. Sú eyðilegging sem sýrlenskar hersveitir bera ábyrgð á. Hefnd gegn þeim sem stóðu upp og mótmæltu stjórnvöldum.
Areej Beidun er sex ára og hún var ófædd þegar faðir hennar, sem gekk til liðs við hersveitir uppreisnarmanna, var drepinn í Aleppo. Frá fjögurra mánaða aldri hefur hún búið í niðurníddri íbúð í Gaziantep ásamt afa sínum og ömmu, frændum og fjölskyldum þeirra. Alls eru íbúarnir 13 talsins í íbúðinni. Móðir hennar er gift að nýju og í heimi Areej eru mamma og pabbi afi hennar og amma. Það eru þau sem hafa annast hana.
Areej lýsir Sýrlandi þrátt fyrir að hafa alist upp í Tyrklandi. „Þar er stríð allsstaðar. Það eru margar flugvélar og sprengjur sprengja upp borgir,“ útskýrir hún fyrir blaðamanni. „Hér, þegar ég sé dúkkur á markaðnum spyr ég mömmu hvort hún geti keypt þær fyrir mig en hún svarar neitandi því við eigum enga peninga.“
„Ég vildi óska þess að Sýrland yrði eins og það var áður, án sprengja, svo ég gæti snúið aftur,“ segir Areej.
Mahmoud Al-Wahab er 14 ára og stýrir barnaþætti á sýrlensku útvarpsstöðinni Rozana í Gaziantep. Hann segir að í þættinum séu birtar upplýsingar um börn í Sýrlandi og ástandið í landinu, hvernig það var og er núna. Eins er talað um arabísku og á arabísku til að styðja börn í að halda við tungumáli heimalandsins.
Lina Chawaf útvarpsstjóri segir draumurinn um að snúa aftur heim lifi góðu lífi þrátt fyrir a margir hafi komið sér vel fyrir í nýju landi og samlagast vel. Foreldrar tali með eftirsjá við börn sín um Sýrland. Hún segir að útvarpsstöðin reyni að halda við menningu Sýrlands, bæði með leikjum og þrautum sem hún og fleiri þekkja síðan í æsku.
Stríðið í Sýrlandi hefur nú staðið yfir í áratug. Þetta eru tímamót sem ekkert barn myndi óska sér. Árásir, efnahagshrun og heimsfaraldur kórónaveirunnar hafa skapað eina ömurlegustu mannúðarkrísu heimsins í dag sem heldur áfram að bitna allra verst á börnunum. Eftir 10 ár af stríði þurfa um 90% barna í Sýrlandi á aðstoð að halda sem er um 20% aukning á einu ári. Á þessum tíu árum hafa sex milljónir barna fæðst í Sýrlandi og í flóttamannabúðum í nágrannaríkjunum. Þau þekkja ekkert nema stríð.
UNICEF hefur verið í Sýrlandi fyrir stríð og verður þar áfram. Neyðaraðgerðir UNICEF í Sýrlandi og nágrannaríkjunum leggja áherslu á að ná til allra barna sem þurfa hjálp og þrýsta um leið á stríðandi aðila og alþjóðasamfélagið að vinna að friðsamlegri lausn. UNICEF og samstarfsaðilar veita börnum og fjölskyldum þeirra í Sýrlandi og í nágrannaríkjum Sýrlands sálræna aðstoð og fjárhagslegan stuðning, útvega hreint vatn, bólusetja börn, styðja formlega og óformlega menntun barna og ungmenna, endurbyggja skóla og vernda börn gegn ofbeldi svo nokkuð sé nefnt Auk þess vinnur UNICEF að því að bæta aðgengi að grunnþjónustu fyrir fötluð börn og útvega hjálpartæki á borð við hjólastóla, gerviútlimi og stoðtæki.
„Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að hjálpa þeim börnum sem eru í neyð. Við þurfum að tryggja það að börn séu örugg, fái vernd gegn ofbeldi og þá þjónustu sem þau eiga rétt á og þurfa til að lifa af og eiga möguleika á að byggja upp samfélagið sitt eftir að stríðinu lýkur.
Það er enginn sigurvegari í þessu stríði. Það er löngu kominn tími til að stríðandi aðilar leggi niður vopn og setjist að samningaborðinu. Friður er eina leiðin út úr þessari martröð. UNICEF ákallar alla stríðandi aðila, áhrifavalda þeirra og alþjóðasamfélagið allt að tryggja tafarlausa pólitíska lausn á stríðinu í Sýrlandi,“ samkvæmt upplýsingum frá UNICEF.
Hægt er að styðja neyðaraðgerðir UNICEF í Sýrlandi með því að senda sms-ið STOPP í nr 1900 (1.900 krónur) eða með því að styðja hér.
Stríð í áratug hefur ekki aðeins eyðilagt nútíma Sýrland og eitrað framtíð þess heldur einnig eyðilagt Sýrland í fortíðinni. Sumt af því verður aldrei endurheimt en Sýrland var paradís fornleifafræðinga. Heimili margra af elstu og best varðveittu djásna fornmenningar. Stríðið sem hófst eins og áður sagði árið 2011 er án vafa versta stríð þessarar aldar enn sem komið er. Á nokkrum árum voru sögulegar minningar gjöreyðilagðar, söfn rænd og gamlir miðbæir borga jafnaðir við jörðu.
Hin forna borg Palmyra hefur löngum verið kölluð vin í sýrlensku eyðimörkinni og er á heimsminjaskrá UNESCO. Borgin hefur staðið frá því á annarri öld fyrir Krist og í henni má sjá einstakan arkítektúr fornalda. Borgin hélt svo áfram að þróast og stækka næstu aldirnar og veitti einstaka mynd af menningarsögu Grikkja, Rómverja og Persa, svo dæmi séu tekin.
Khalil al-Hariri, sem var safnstjóri í Palmyra í 20 ár, minnist áfallsins þegar hann varð að flýja borgina og gersemar hennar komust í hendur vígasveita Ríkis íslams. Hann segir að þetta hafi oft tekið á þegar ítrekað var setið um safnið. Hann ásamt starfsfólki safnsins hafi reynt til þrautar að bjarga fornminjum. „En erfiðasti dagur lífs míns var dagurinn þegar ég sneri aftur tilPalmyra og sá brotna fornmuni og safnið eins og blóðvöllur,“ segir Hariri.
„Þeir brutu og eyðilögðu öll andlit á stuttunum sem enn voru í safninu og okkur tókst ekki að bjarga. Það verður hægt að laga einhverjar þeirra en aðrar eru gjörónýtar,“ segir Hariri.
Borgarveggurinn um Palmyra er einstakur og eitt af helstu kennileitum Sýrlands. Þegar vígamenn Ríkis íslams réðust inn í Palmyra í maí 2015 til að stækka kalífadæmi það sem þeir höfðu lýst yfir í hluta Sýrlands og Írak ári áður greip um sig mikil reiði víða um heim.
Borgin sem áður þekkt fyrir arkitektúr og fornminjar breyttist í aftökustað þar sem fólk var tekið af lífi opinberlega og aðrir hryllilegir glæpir framdir. Eitthvað af hryllingnum var myndað og dreift sem hluti af áróðurskerfi Ríkis íslams.
Til að mynda mynd af höfuðlausu líki yfir fornleifafræðingsins,Khaled al-Asaad, en hann var hálshöggvinn þegar hann neitaði að vísa liðsmönnum Ríkis íslams á verðmæta forngripi íPalmyra. Lík hans var síðan hengt upp á víðförlum stað í borginni.
Samtökin Ríki íslams sprengdu einnig upp Baal Shamin-hofið í Palmyra en það var á heimsminjaskrá UNESCO. Þeir eyðulögðu einnig Bel musterið og Sigurbogann í Palyrma. Fóru ruplandi og rænandi um borgina og eyðilögðu það sem ekki var hægt að taka mér sér og koma í verð. Stjórnarherinn náði borginni á sitt vald að nýju árið 2017.
Palmyra er aðeins einn þeirra fjölmörgu staða sem voru eyðilagðir í Sýrlandi. „Í tveimur orðum þá eru þetta menningar hamfarir,“ segir rithöfundurinn og sagnfræðingurinnJustinMarozzi, sem hefur fjallað ítarlega um héraðið og menningarverðmæti þess.
Maamoun Abdel Karim sem var yfir minjavörður Sýrlands á þeim tíma sem eyðileggingin fór fram, það er frá 2012 til 2016, segir að þetta tímabil sé það versta í tvö þúsund ára sögu Sýrlands hvað varðar minjar. „Algjör eyðilegging. Við erum ekki að tala um eitthvað eins og jarðskjálfta á einum stað og eldsvoða á öðrum. Eða jafnvel stríð í einni borg. Við erum að tala um eyðileggingu alls staðar í Sýrlandi,“ segir hann.
Fyrir stríðið var Aleppo sú borg sem sennilega hafði verið í byggð lengst allra í heiminum. Þar voru fjölmargir markaðir, moskur, byggingarlist og almenningsböð. Uppreisnarmenn náðu borginni á sitt vald og þegar stjórnarherinn, með aðstoð Rússa, réðst til atlögu gegn borginni árið 2015 var engu eirt. Sprengjuregn og umsátur mánuðum saman.
„Ég gleymi aldrei þeim degi þegar bænaturn Umayyad moskunnar í Aleppo féll, sama dag og fornmunamarkaðir borgarinnar urðu eldi að bráð,“ segir Maamoun Abdel Karim.
Aðrar byggingar sem höfðu þolað innrás mongólska herforingjans Tamerlane, leiðtoga Tímúrveldisins, á 14. öld voru eyðilagðar í borginni. Minjar sem aldrei verða endurreistar. Um 10% af öllum fornminjum Sýrlands voru eyðilagðar og talið er að 40 þúsund fornmunum hafi verið stolið frá því stríðið hófst.