Jólabarnið er á leiðinni!

Á flótta | 20. desember 2021

Jólabarnið er á leiðinni!

Hjónin Khairullah Yosu­fi og Zeba Sultani flúðu ógnarstjórn Talíbana og komu til landsins í ágústlok, en neyddust til að skilja tveggja mánaða son sinn Arsalan eftir í Afganistan. Litli drengurinn er á leiðinni til Íslands á morgun.

Jólabarnið er á leiðinni!

Á flótta | 20. desember 2021

Hjónin Khairullah Yosu­fi og Zeba Sultani flúðu ógnarstjórn Talíbana og komu til landsins í ágústlok, en neyddust til að skilja tveggja mánaða son sinn Arsalan eftir í Afganistan. Litli drengurinn er á leiðinni til Íslands á morgun.

Hjónin Khairullah Yosu­fi og Zeba Sultani flúðu ógnarstjórn Talíbana og komu til landsins í ágústlok, en neyddust til að skilja tveggja mánaða son sinn Arsalan eftir í Afganistan. Litli drengurinn er á leiðinni til Íslands á morgun.

Litli Arsalan kemur til landsins á morgun, en faðir hans …
Litli Arsalan kemur til landsins á morgun, en faðir hans Khairullah Yosu­fi tók á móti honum í Tblisi í Georgíu þar sem þeir eru staddir núna.

„Ég er mjög glöð. Það er búið að vera mikið stress í gangi undanfarið og ég hef hvorki getað sofið né borðað nokkuð að ráði í viku,“ segir Zeba Sultani sem beðið hefur í fjóra mánuði eftir barni sínu sem varð eftir í Afganistan þegar hún og eiginmaður hennar flúðu þaðan í lok sumars. Þau þurftu að skilja drenginn eftir, en hann hafði misst meðvitund í mannþrönginni við flugvöllinn í Kabúl.

Arsalan sést hér í fyrstu flugvélinni af mörgum á leiðinni, …
Arsalan sést hér í fyrstu flugvélinni af mörgum á leiðinni, en amma hans og móðurbróður fylgdu honum fyrsta spottann frá Kabúl til Mazar.

Arsalan litli, nú sex mánaða gamall, er á leið til landsins, en von er á honum á morgun með flugi frá Svíþjóð. Með í vélinni verða fleiri flóttamenn sem Ísland kemur til með veita vernd.  Hann hóf ferðalagið í Kabúl, en þaðan var flogið til Mazar í Afganistan, því næst til Tblisi  í Georgíu, svo til Svíþjóðar í dag og loks til Íslands á morgun.

Svaf ekki dúr nóttina áður

Eiginmaður Zebu, Khairullah Yosu­fi, flaug til Tblisi til að taka á móti drengnum sem hafði þá verið í umsjá Latifu Hamidi, konu sem var hér í námi við Alþjóðlega jafnréttisskólann við Háskóla Íslands (GRÓ-GEST) líkt og Zeba, og fær hér hæli ásamt manni sínum og tveimur börnum.

„Ég fékk að vita í síðustu viku að Arsalan kæmist heim, en það var samt svo mikil óvissa. Við vissum ekki hver gæti fylgt honum, en íslensk stjórnvöld höfðu síðan milligöngu um að móðir mín og bróðir færu með hann til Mazar,“ segir hún og bætir við að þá hafi Latifa tekið við honum. Þaðan var síðan flogið til Georgíu. 

„Við vorum ekki viss um að Talíbanar myndu leyfa flugið, en svo fór allt samkvæmt áætlun á endanum,” segir Zeba. Hún segist hafa leitað til nokkurra fjölskyldna sem voru meðal flóttamanna á leið hingað til Íslands, og spurt hvort þau gætu fylgt barninu og séð um það á leiðinni.

„Það var erfitt að biðja fólk sem ég þekkti ekkert til að taka að sér að annast ungbarn í þessu tvísýna ferðalagi. Ein konan sem ég talaði við var sjálf með sjö mánaða barn og hin barnlaus og sagðist enga reynslu hafa af ungbörnum,“ segir Zeba. 

Arsalan er í góðu yfirlæti í Georgíu, ásamt börnum Latifu, …
Arsalan er í góðu yfirlæti í Georgíu, ásamt börnum Latifu, þeim Irfan og Setayaesh sem einnig fá hér hæli.

„Þegar loks varð ljóst að Latifa yrði meðal þeirra sem kæmu til Íslands sannfærði Irma [Erlingdóttir] mig um að ég gæti treyst henni fyrir barninu,“ segir Zeba en lengi var einungis í boði að fara landleiðina til Mazar og Latifa og eiginmaður hennar treystu sér ekki þá leið. Þau hafa bæði verið áberandi gagnrýnendur Talibana og töldu líf sitt í hættu.

„Það var því ótrúleg gæfa að þeim skyldi hafa verið leyft að fljúga þangað með barnið frá Kabúl ásamt móður minni og bróður.“

Faðirinn Khairullah beið í eftirvæntingu eftir barninu þegar vélin lenti í Georgíu. Heima á Íslandi beið Zeba í ofvæni eftir skilaboðum um að barnið væri heilt á húfi í faðmi föðurins.

„Ég svaf ekki dúr nóttina áður og það var svo mikill léttir þegar ég loks fékk skilaboðin. Ég er svo spennt að hitta barnið mitt!”

Arsalan er jólabarnið í ár

„Þetta er þvílíkur léttir!” segir Irma Erlingsdóttir, prófessor og forstöðumaður Alþjóðlega jafnréttisskólans sem hefur unnið að því ásamt íslenskum stjórnvöldum að koma fyrrverandi nemendum Jafnréttisskólans til Íslands.

Það verða fagnaðarfundir á morgun þegar Zeba fær loks að …
Það verða fagnaðarfundir á morgun þegar Zeba fær loks að hitta son sinn eftir fjögurra mánaða aðskilnað.

 „Við erum búin að halda málinu vakandi og skoða alla möguleika. Þegar fréttist af því að Svíar ætluðu að flytja flóttamenn frá Afganistan var ákveðið að láta reyna á að koma fyrrverandi nemendum Jafnréttisskólans og Arsalan til Íslands í það flug. Í fluginu frá Mazar voru rétt rúmlega tvö hundruð flóttamenn, um tuttugu sem halda áfram til Íslands, en allir hinir eru á vegum Svía. Flestir þeirra fóru landleiðina frá Kabúl til Mazar, en Latifa og eiginmaður hennar hafa verið svo áberandi í störfum sínum í Afganistan að þau töldu það of áhættusamt að fara þá leið. Þau treystu ekki Talíbönum sem gætu stöðvað þau á leiðinni. Því varð úr að þau fóru með flugi frá Kabúl til Mazar, ásamt nokkrum öðrum sem voru í sömu stöðu, en það var gert með samningi við Talíbana um að þau fengju að fara í flugið óráreitt. Amma litla barnins og bróðir Zebu fóru í það flug með Arsalan og sáu um hann á leiðinni. Þau sneru svo við til Kabúl, en þau eru ekki meðal þeirra sem hafa fengið vernd hér,” segir Irma.

„Síðan sá Latifa um drenginn þar til faðirinn tók á móti honum í Georgíu. Þau eru þar núna,” segir hún.

Latifa Hamidi sá um barnið frá Afganistan til Georgíu, en …
Latifa Hamidi sá um barnið frá Afganistan til Georgíu, en hún er einnig á leið til Íslands með fjölskyldu sinni.

„Það gekk allt mjög vel og þau eru nú í umsjón Svía. Á meðan beðið er eru tekin viðtöl við flóttamennina og annað sem fylgir því að hljóta alþjóðlega vernd. Félagsmálaráðuneytið og borgaraþjónustuan hér heima hafa umsjón með öllu þessu formlega ferli og eiga í samskiptum við fulltrúa sænskra stjórnvalda. Við hjá Jafnréttisskólanum erum að sjálfsögðu í skýjunum með að nemendur okkar og börn þeirra séu komin í skjól”, segir Irma og segir þetta yndisleg málalok.  

„Foreldrarnir áttu ekki von á að sjá barnið sitt fyrr en jafnvel eftir mörg ár. Þannig að þetta eru mikil gleðitíðindi. Arsalan er jólabarnið í ár! Það er sannarlega á leiðinni.”

mbl.is