Talið er nær öruggt að Ísraelsmenn muni svara loftárásinni miklu sem Íranar framkvæmdu á laugardagskvöld, og mun Ísraelsher þegar hafa minnst tvær hernaðaráætlanir tilbúnar, eina þar sem farið er yfir mögulegar sóknaraðgerðir, og aðra þar sem hugað er að vörnum gegn frekari árásum frá Íran.
Talið er nær öruggt að Ísraelsmenn muni svara loftárásinni miklu sem Íranar framkvæmdu á laugardagskvöld, og mun Ísraelsher þegar hafa minnst tvær hernaðaráætlanir tilbúnar, eina þar sem farið er yfir mögulegar sóknaraðgerðir, og aðra þar sem hugað er að vörnum gegn frekari árásum frá Íran.
Talið er nær öruggt að Ísraelsmenn muni svara loftárásinni miklu sem Íranar framkvæmdu á laugardagskvöld, og mun Ísraelsher þegar hafa minnst tvær hernaðaráætlanir tilbúnar, eina þar sem farið er yfir mögulegar sóknaraðgerðir, og aðra þar sem hugað er að vörnum gegn frekari árásum frá Íran.
Mikil óvissa ríkir hins vegar um það hvernig svar Ísraelsmanna verður og hvenær, en vestrænir hernaðarsérfræðingar segja þá hafa ýmsa valkosti í stöðunni. Ísraelsmenn muni þó einnig þurfa að hafa í huga að frekari hernaðaraðgerðum af þeirra hálfu gæti fylgt aukin hætta á því að allsherjarstríð brjótist út á milli ríkjanna tveggja.
Þá hafa helstu bandamenn Ísraels einnig hvatt til þess að Ísraelar haldi að sér höndum í ljósi þess að mikil ólga ríkir nú í Mið-Austurlöndum vegna stríðsins á Gasasvæðinu. Bandaríkjastjórn lýsti því t.d. sérstaklega yfir í gær að hún myndi ekki taka þátt ef Ísraelar ákvæðu að ráðast á Íran. Bandaríkjamenn ætla sér þó að reyna að refsa Írönum með öðrum hætti fyrir árásina, og má eiga von á því að hún grípi m.a. til viðskiptaþvingana gegn Íran á næstu dögum.
Einnig er talið líklegt að Bandaríkin, Bretland og Frakkland muni áfram verja Ísrael fyrir frekari árásum frá Íran og leppum þeirra í Mið-Austurlöndum, en bandarískar orrustuþotur skutu niður um 70 íranska sjálfseyðingardróna í árásinni í fyrrakvöld.
Klerkastjórnin sjálf reyndi svo að letja Ísraelsmenn frá frekari árásum í gær, en hún lýsti því meðal annars yfir að árásin hefði verið réttmæt sjálfsvörn af þeirra hálfu vegna árásar Ísraelshers á ræðismannsbústað Írans í Damaskus 1. apríl. Sögðu talsmenn klerkastjórnarinnar jafnframt að með árásinni í gær væri málinu „lokið“ af sinni hálfu, en að ef Ísraelsmenn myndu svara, mætti eiga von á því að Íranar myndu svara í sömu mynt.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu.