Kemur ekki til greina að semja við ESB

Á flótta | 16. maí 2024

Kemur ekki til greina að semja við ESB

„Það kemur ekki til greina að fara að semja við Evrópusambandið um hluti sem eru ekki þættir í evrópska efnahagssvæðinu. Við erum með hér á dagskrá í dag frumvarp um breytingar á hælisleitendakerfinu.“

Kemur ekki til greina að semja við ESB

Á flótta | 16. maí 2024

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ræddu …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ræddu um samkomulag ESB í málefnum hælisleitenda. Samsett mynd/mbl.is/Arnþór/AFP

„Það kemur ekki til greina að fara að semja við Evrópusambandið um hluti sem eru ekki þættir í evrópska efnahagssvæðinu. Við erum með hér á dagskrá í dag frumvarp um breytingar á hælisleitendakerfinu.“

„Það kemur ekki til greina að fara að semja við Evrópusambandið um hluti sem eru ekki þættir í evrópska efnahagssvæðinu. Við erum með hér á dagskrá í dag frumvarp um breytingar á hælisleitendakerfinu.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sem ræddi samkomulag ESB í málefnum hælisleitenda í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. 

Þar spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Bjarna út í málið. 

Dregst Ísland inn í samkomulagið?

Sigmundur sagði að að ESB hefði í vikunni sammælst um innflytjendapakka ESB sem fæli m.a. í sér að lönd yrðu skikkuð til að taka við ákveðnum fjölda hælisleitenda eða sæta sektum ella.

„Þetta samþykktu á endanum tel ég öll lönd nema þrjú; Pólland, Ungverjaland og Slóvakía. Ég spyr hæstvirtan ráðherra: Er einhver hætta á því að Ísland dragist inn í þetta samkomulag?“

Förum ekki til Brussel til að semja

Bjarni sagði að þessari spurningu væri fljótsvarað.

„Það kemur ekki til greina að fara að semja við Evrópusambandið um hluti sem eru ekki þættir í Evrópska efnahagssvæðinu. Við erum með hér á dagskrá í dag frumvarp um breytingar á hælisleitendakerfinu. Við fórum ekki til Brussel til að semja um það hvað mætti standa í því frumvarpi. Það var samið í íslenska Stjórnarráðinu, í dómsmálaráðuneytinu og flutt hingað inn í þingið af dómsmálaráðherra,“ sagði Bjarni

Hann bætti við að íslensk stjórnvöld myndu taka sínar eigin sjálfstæðu ákvarðanir um að herða reglurnar, breyta t.d. því hvaða reglur ættu að gilda um fjölskyldusameiningar, í hversu langan tíma fólk gæti fengið vernd og margt annað sem máli skipti. Hvaða málsmeðferð ætti að gilda þegar sótt væri um alþjóðlega vernd á Íslandi o.s.frv.

Engin ástæða til að hafa áhyggjur

„Þannig að það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af því að við verðum dregin eða munum sogast inn í einhverjar hugmyndir Evrópusambandsins sem fjalla í raun og veru ekkert um landamæri Íslands heldur er þar verið að fást við þann veruleika að meginþunginn af sókn inn í ríki Evrópusambandsins kemur um Miðjarðarhafið sem leiðir til þess að sum ríki Evrópusambandsins taka við hlutfallslega langtum fleiri umsóknum um vernd heldur en önnur.“

Bjarni sagði enn fremur að innan ESB væri uppi sú skoðun að það væri sanngjarnt að dreifa byrðunum af þessari staðreynd betur milli aðildarríkja sambandsins heldur en ætti við í dag.

Er vandamál ESB

„Þetta er algerlega þeirra vandamál að fást við og það er hægt að hafa margar skoðanir á því hvernig þau eigi að reyna að leysa þetta. En það sem flest ríki eru að gera á Norðurlöndunum, og reyndar er sú umræða líka uppi í Evrópusambandinu, er að aðlaga löggjöf og reglur um þessi efni betur að lágmarkskröfum sáttmála Sameinuðu þjóðanna um þessi mál,“ sgði Bjarni.

„Ég kýs að túlka þetta svar sem svo að ekki standi til, og hæstvirtur ráðherra hafi staðfest það hér, að taka þátt í þessum pakka Evrópusambandsins. Hæstvirtur ráðherra leiðréttir mig ef þetta er ekki réttur skilningur,“ sagði Sigmundur Davíð.  

mbl.is