„Skemmtilegasta starf sem ég hef unnið“

Hringferð | 28. júlí 2024

„Skemmtilegasta starf sem ég hef unnið“

Hjónin María Rún Þorsteinsdóttir og Heiðar Ingi Heiðarsson ákváðu að láta staðar numið í rekstri Crossfit Hengils í Hveragerði um áramótin eftir að hafa rekið stöðina við góðan orðstír í ellefu ár. María segir tilfinninguna að skilja við stöðina hafa verið skrítna en að þetta hafi verið það rétta í stöðunni fyrir þau hjónin.

„Skemmtilegasta starf sem ég hef unnið“

Hringferð | 28. júlí 2024

María Rún hitti blaðamenn á Hótel Örk í Hveragerði.
María Rún hitti blaðamenn á Hótel Örk í Hveragerði. mbl.is/Brynjólfur Löve

Hjónin María Rún Þorsteinsdóttir og Heiðar Ingi Heiðarsson ákváðu að láta staðar numið í rekstri Crossfit Hengils í Hveragerði um áramótin eftir að hafa rekið stöðina við góðan orðstír í ellefu ár. María segir tilfinninguna að skilja við stöðina hafa verið skrítna en að þetta hafi verið það rétta í stöðunni fyrir þau hjónin.

Hjónin María Rún Þorsteinsdóttir og Heiðar Ingi Heiðarsson ákváðu að láta staðar numið í rekstri Crossfit Hengils í Hveragerði um áramótin eftir að hafa rekið stöðina við góðan orðstír í ellefu ár. María segir tilfinninguna að skilja við stöðina hafa verið skrítna en að þetta hafi verið það rétta í stöðunni fyrir þau hjónin.

María ræðir um stofnun Crossfit Hengils, gott gengi stöðvarinnar og þá ákvörðun að láta reksturinn í hendur annarra í nýjasta þætti Hringferðarinnar sem tekinn var upp á Hótel Örk í Hveragerði.

„Maðurinn minn er lögga og kynntist crossfit í kringum það. Hann var bara óþolandi og gaf sig ekki fyrr en ég prófaði, ég ætlaði aldrei að prófa þetta. Við flytjum síðan úr bænum í Hveragerði, vorum sem sagt byrjuð að æfa í Crossfit Reykjavík, og þá var ekkert hér, engin crossfit-stöð, bara lítil líkamsræktarstöð þar sem þú getur ekki gert sambærilegar hreyfingar. Við vorum búin að sanka að okkur einhverjum búnaði og vorum bara úti garðinum heima. Það fékk smá athygli og það bættist í hópinn, einn og einn vinur sem vildi vera með okkur,“ segir María.

Mjög stórtæk í fyrstu

Í kjölfarið fóru þau að líta í kringum sig eftir húsnæði sem gæti hentað undir crossfit-æfingar og sáu fyrst fyrir sér að þau gætu bara verið þar að æfa með kannski nokkrum vinum, mesta lagi 20 manns. Svo fór að þau fengu aðstöðu í kjallaranum í íþróttahúsinu. „Á sama tíma vorum við líka mjög stórtæk, tímataflan var fáránleg miðað við að ætla að vera með 20 manns í stöðinni,“ segir María sem kveðst ekki hafa ætlað vinna í stöðinni, en hún var þá kennari í grunnskólanum í Hveragerði.

„Við fengum Björgvin Karl, bróður mannsins míns, og hann var farinn að þjálfa sex tíma á dag á frekar stuttum tíma,“ segir María, en þess má geta að Björvin Karl Guðmundsson skærasta stjarna í íslenska crossfit-heiminum og er á leið á sína elleftu Heimsleika í crossfit í Bandaríkjunum í næsta mánuði.

Með 300 iðkendur þegar mest var

Eftir um ár segist María hafa séð að hún þyrfti að koma meira inn í reksturinn því maðurinn hennar og vinur þeirra, sem átti stöðina í upphafi ásamt eiginkonu sinni, eru lögreglumenn og gátu ekki sinnt allri þjálfuninni samhliða lögreglustarfinu. María var þó ekki með þjálfaramenntun en dreif sig í að bæta úr því, lærði styrktarþjálfun sem og eiginlega crossfit-þjálfun.„Síðan þá hef ég borið þungann af þessu,“ segir María.

„Þegar mest var, bara korter í heimsfaraldur, vorum við með rúmlega 300 iðkendur sem voru að mæta, auðvitað eru einhverjir sem eru bara „styrktarfélagar“ en það er þó miklu minna í þessari grein,“ segir María, en bæði Hvergerðingar og Selfyssingar æfðu í stöðinni.

Vinsældir crossfit hafa vaxið mikið á Íslandi undanfarin tíu til fimmtán ár og hefur Ísland getið af sér margar heimsfrægar stjörnur í greininni. Björgvin Karl, mágur Maríu, fer þar fremstur í flokki ásamt Katrínu Tönju Davíðsdóttur, Annie Mist Þórisdóttur, Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur og Þuríði Helgadóttur, svo einhverjar séu nefndar.

Eins og María lýsir því hafði hún haft lítinn áhuga á því að hreyfa sig hreyfingarinnar vegna áður en hún kynntist crossfit. Hún hafði helst stundað líkamsrækt eftir að hún komst á fullorðinsár til þess að grenna sig. En þegar hún fann crossfit var ekki aftur snúið.

„Það var bara eitthvað, eins og margir lýsa þessu, mér fannst þetta allt í einu skemmtilegt. Að vera sterk, mér fannst það bara skemmtilegt. Og ég átti tiltölulega auðvelt með að læra þetta,“ segir María.

Viðtalið má hlusta á í heild sinni á helstu hlaðvarpsveitum og lesa í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

mbl.is