Yfirmaður í Fukushima dó úr krabbameini

Masao Yoshida, fyrrverandi yfirmaður í kjarnorkuverinu í Fukushima, lést í …
Masao Yoshida, fyrrverandi yfirmaður í kjarnorkuverinu í Fukushima, lést í morgun. Myndin er tekin í nóvember 2011. AFP

Fyrrverandi yfirmaður Fukushima-kjarnorkuversins í Japan, sem hélt kyrru fyrir eftir flóðbylgjuna 2011 í tilraun til að afstýra meiriháttar kjarnorkuslysi, lést í dag eftir stutta baráttu við krabbamein. 

Masao Yoshida lést úr krabbameini í vélinda, 58 ára gamall. Hann var að störfum í Fukushima-kjarnorkuverinu hinn 1. mars 2011 þegar jarðskjálfti reið yfir Japan og í kjölfarið ógnarstór flóðbylgja sem lagði stórt svæði í rúst og olli miklum skemmdum á kjarnorkuverinu.

Kælibúnaður kjarnorkuversins brást og varð hópur starfsmanna eftir til að kæla kjarnakljúfana handvirkt og koma í veg fyrir leka og þar með stórfellt kjarnorkuslys. Yoshida stýrði aðgerðum, en geislavirkni í stjórnklefa versins mældist margfalt meiri en venjulega þessa daga.

Þegar neyðaráætlun stjórnvalda var gerð opinber nokkru eftir hamfarirnar var upplýst að vísindamenn óttuðust að keðjuverkun færi af stað og úr böndunum, sem hefði getað leitt til þess að rýma hefði þurft alla höfuðborgina Tókýó.

Yoshida er sagður hafa brugðist við af mikilli ósérhlífni og fórnað sér fyrir almenning í landinu. Hann þykir því deyja hetja, ekki síst þar sem margir eru þeirrar skoðunar að vinnuveitendur hans, eigendur kjarnorkuversins, hafi komið sér undan ábyrgð og flúið af holmi.

Hálfu ári eftir slysið, í nóvember 2011, var Yoshida lagður í skyndi inn á sjúkrahús. Í júlí 2012 fékk hann heilablóðfall.

Talsmenn Tokyo Electric Power, sem reka kjarnorkuverið, segja ósennilegt að krabbameinið megi rekja til geislunar eftir hamfarirnar. Þeir fullyrða að það tæki minnst 5 og líklega 10 ár fyrir krabbamein af þessu tagi að þróast vegna geislunar.

Kjarnorkuslysið í Fukushima er það alvarlegasta síðan Tsjernóbil-slysið 1986. Engin dauðsföll hafa þó verið tengd beint við þá miklu geislun sem varð í kjölfar slyssins. Hinsvegar hafa tugþúsundir manna þurft að yfirgefa heimili sín og stórt landsvæði verður óbyggilegt næstu áratugina.

Ástandið í kjarnorkuverinu sjálfu er enn viðkvæmt þar sem þar eru enn mörg tonn af geislavirku vatni sem notað var til að kæla kjarnakljúfana. Grunnvatn á svæðinu er geislavirkt og vísindamenn segja að taka muni 30 til 40 ár að vinna úr skaðanum.

Frétt mbl.is í mars 2011: Telja sig dauðadæmda

Starfsfólk í hlífðarbúningi í Fukushima kjarnorkuverinu eftir hamfarirnar.
Starfsfólk í hlífðarbúningi í Fukushima kjarnorkuverinu eftir hamfarirnar. AFP
Sprenging varð í kjarnorkuverinu í Fukushima eftir flóðbylgjuna í mars …
Sprenging varð í kjarnorkuverinu í Fukushima eftir flóðbylgjuna í mars 2011.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert