Ríkisstjórn Spánar heitir því að hindra allar fyrirætlanir Katalóníumanna um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði, eins og fyrirhugað er á næsta ári.
Forseti Katalóníu, Artur Mas, tilkynnti fyrr í dag að samkomulag hefði náðst milli stjórnmálaflokka í sjálfstjórnarhéraðinu um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Stuttu síðar tjáði dómsmálaráðherra Spánar, Albertu Ruiz-Gallardon, sig um málið við fjölmiðla og sagði einfaldlega: „Þessi atkvæðagreiðsla verður ekki haldin“.
Samið var um að atkvæðagreiðslan yrði haldin þann 9. nóvember 2014 og kjósendur spyrðir hvort þeir vilji að Katalónía verði sjálfstætt ríki. Þetta kemur fram á vef BBC.
Báðir stærstu flokkar Spánar, Lýðflokkur forsætisráðherrans Mariano Rajoy og Sósíalistaflokkurinn sem nú er í stjórnarandstöðu, hafa ítrekað gert það ljóst að þeir séu andsnúnir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Í Katalóníu búa um 7,5 milljónir manna. Sjálfstjórnarhéraðið er eitt af þróuðustu og efnuðustu svæðum Spánar og hefur efnahagskreppan á Spáni fært katalónskri þjóðerniskennd byr undir báða vængi.
Skoðanakannanir benda þó til að Katalóníumenn séu klofnir til helminga í afstöðu sinni til sjálfstæðis. Evrópusambandið og NATO hafa varað við því að slíti Katalónía sig frá Spáni teljist hún sem sjálfsætt ríki standa utan bandalaganna.