Sérstök staða í sænskri pólitík

Gustav Fridolin, Åsa Romson og Stefan Löfven
Gustav Fridolin, Åsa Romson og Stefan Löfven AFP

Ný ríkisstjórn Svíþjóðar var kynnt í morgun og er hún um margt sérstök. Má þar nefna að sjaldan eða aldrei áður hefur ríkisstjórn verið með jafn fáa þingmenn á bak við sig og ekki hægt að útiloka að fjárlagafrumvarp stjórnarandstöðunnar verði samþykkt en ekki frumvarp ríkisstjórnarinnar.

Gunn­hild­ur Lily Magnús­dótt­ir, lektor í stjórn­mála­fræði við há­skól­ann í Mal­mö í Svíþjóð, segir að Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmannaflokksins og nýr forsætisráðherra, hafi lagt áherslu á það þegar hann kynnti ríkisstjórnina í morgun að hún muni starfa með borgaraflokkunum en þeir tveir flokkar mynda ríkisstjórnina, Jafnaðarmannaflokkurinn og Græningjar eru alls með 38% atkvæða á bak við sig á meðan borg­ara­flokk­arn­ir: Hægri­flokk­ur­inn (Moderatarna), Frjáls­lyndi flokk­ur­inn, Miðflokk­ur­inn og Kristi­leg­ir demó­krat­ar fengu 39,3% at­kvæða í kosningunum í síðasta mánuði.

Hafna frekari einkavæðingu í heilbrigðis- og menntamálum

Hún segir að ríkisstjórnin sé mjög veik og þurfi að starfa með borgaraflokkunum í mörgum málum þar sem Vinstriflokkurinn, sem er mjög langt til vinstri, er ekki með í ríkisstjórninni. Ef flokkarnir þrír; Jafnaðarmannaflokkurinn, Græningjar og Vinstri  flokkurinn, hefðu náð saman þá stæði stjórnin sterkar eða með 43,7% atkvæða.

„Í einhverjum málaflokkum mun ríkisstjórnin leita til Vinstri flokksins en núverandi ríkisstjórn hefur gefið út að hún ætli að stöðva frekari einkavæðingu í heilbrigðis- og skólakerfinu, sem er í takt við það sem Vinstri flokkurinn hefur haft á stefnuskrá sinni. Vinstri flokkurinn hefur viljað fara hraðar í það mál og gera róttækari breytingar þar heldur en ríkisstjórnin er reiðubúin til að gera,“ segir Gunnhildur.

Veikasta stjórnin í meira en öld

Hún bætir við að í ýmsum málaflokkum sé breið samstaða þvert á flokka og það sé eitthvað sem Stefan Löfven verður að nýta sér. „Þetta er ein veikasta minnihlutastjórn sem hefur tekið við völdum í Svíþjóð í meira en öld,“ segir Gunnhildur og bendir á að ríkisstjórnin sé með minna fylgi en borgaraflokkarnir sem eru í stjórnarandstöðu.

Ríkisstjórn sem er með jafn lítið fylgi og raun ber vitni þarf að gera margar málamiðlanir og það mikilvægasta sem er á dagskrá þingsins er fjárlögin.

„Þau koma til umræðu í þinginu eftir tvo og hálfan mánuð og stjórnarandstaðan, það er fyrri ríkisstjórn borgaraflokkanna, mun leggja fram sína eigin tillögu varðandi fjárlögin. Ef svo fer að Svíþjóðardemókratarnir veita borgaraflokkunum stuðning þá nær ríkisstjórn ekki fram sínu fjárlagafrumvarpi,“ segir Gunnhildur.

Hún segir að það gæti orðið ansi sérstök staða sem þá kæmi upp, það er að ríkisstjórnin þurfi að vinna eftir fjárlögum sem koma frá stjórnarandstöðunni.

„Það gæti reynst erfitt fyrir Löfven að stýra slíkri ríkisstjórn en þetta veltur allt á Svíþjóðardemókrötunum sem eru í oddastöðu á sænska þinginu. Í flestum öðrum málum en innflytjendamálum eru Svíþjóðardemókratar hefðbundinn hægri flokkur þannig að það er mun líklegra að þeir kjósi borgaraflokkana,“ segir Gunnhildur.

Svíþjóðardemó­krat­ar, (Sverigedemokra­terna SD), voru ótví­ræðir sig­ur­veg­ar­ar sænsku þing­kosn­ing­anna hinn 14. september en fylgi þeirra rúm­lega tvö­fald­ast milli kosn­inga, fór úr 5,7% árið 2010 í 12,9% nú. Flokkurinn hefur lagt áherslu á að gera þurfi rót­tæk­ar breyt­ing­ar á lög­um um hæl­is­leit­end­ur til að fækka þeim. Gert er ráð fyr­ir að um­sókn­um um hæli fjölgi í um 80.000 í ár og flokk­ur­inn vill að pen­ing­arn­ir, sem renna í þenn­an mála­flokk, verði notaðir til að bæta vel­ferðar­kerfið og auka mannúðaraðstoð í öðrum lönd­um til að draga úr straumi flótta­fólks.

Líkt og Gunnhildur benti á í viðtali við mbl.is eftir þingkosningarnar þá hafa Svíþjóðardemókratar lagt áherslu á málefni atvinnulausra og eldri borgara þannig að það er spurning um hvort þeir nái samhljómi með ríkisstjórninni í þeim málum?

Nýjar kosningar ekki óskastaða neins nema Svíþjóðardemókrata

„Já, það er spurning,“ segir Gunnhildur „en það er ekki líklegt því það er ekki óskastaða fyrir neinn,“ bætir hún við því ef fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar nær ekki gegn þá þýðir það væntanlega nýjar kosningar sem er eitthvað sem fáum hugnist, nema kannski Svíþjóðardemókrötum. „Flestir telja að enginn flokkur myndi styrkja sig í nýjum kosningum nema Svíþjóðardemókratarnir  sem unnu stórsigur í kosningunum síðast. Það sem aðrir flokkar vilja núna er að koma á stöðugleika,“ segir Gunnhildur.

Stefan Löfven þykir frekar hægra megin í Jafnaðarmannaflokknum og hann var ekki tilbúinn að fara nógu langt til vinstri svo það hugnaðist Vinstri flokknum að vera í ríkisstjórninni nú. Það er því líklegt að hann þurfi að leita til miðjuflokkanna eftir stuðningi, segir Gunnhildur.

Jöfn kynjahlutföll en kona hefur aldrei gegnt embætti forsætisráðherra

Það er margt athyglisvert þegar ný ríkisstjórn Svíþjóðar er skoðuð. Fyrir það fyrsta eru kynjahlutföllin jöfn, 12 konur og 12 karlar. Þetta er í takt við það sem Löfven sagði fyrir kosningarnar – að jafna hlut kvenna og karla í sænskum stjórnmálum.

Gunnhildur segir að þetta sé eitthvað sem Svíar styðji almennt og vilji vera þekktir fyrir, það er jafnrétti kynjanna. En Svíþjóð er það eina af löndunum á Norðurlöndunum sem aldrei hefur haft konu sem forsætisráðherra.

Margot Wallström er nýr utanríkisráðherra en hún  hefur starfað lengi á alþjóðavettvangi og þykir styrkja veika stöðu Löfven í alþjóðamálum. Wallström, sem er sextug og sennilega aldursforseti nýrrar ríkisstjórnar, var sér­leg­ur full­trúi fram­kvæmda­stjóra Sam­einuðu þjóðanna um kyn­ferðis­legt of­beldi í stríðsátök­um 2010-2012. Hún nýtur stuðnings þvert á flokkslínur og var fráfarandi utanríkisráðherra, Carl Bildt, einna fyrstur að óska henni til hamingju á Twitter í morgun en þau hafa unnið náið saman á alþjóðavettvangi. Í fjölmiðlum í dag hefur hún sagt að utanríkisstefna hennar verði með femíniskum áhrifum.

Magdalena Andresson er nýr fjármálaráðherra en hún hefur langa starfsreynslu úr fjármálaheiminum. Áður en hún hellti sér í stjórnmálin árið 2012 var hún ríkisskattstjóri.

Åsa Romson, annar formanna Græningja, verður varaforsætisráðherra og ráðherra umhverfis- og loftslagsmála. Það er nýlunda í sænskum stjórnmálum að tiltaka ráðherra loftlagsmála en þetta er í fyrsta skipti sem Græningjar eru í ríkisstjórn í Svíþjóð. Romson hefur stýrt flokknum ásamt Gustav Fridolin, sem verður menntamálaráðherra, frá árinu 2011. Hún er menntaður lögfræðingur.  

Eins og áður sagði er Fridolin menntamálaráðherra en hann er næstyngstur ráðherra, 31 árs að aldri. Hann var einungis 19 ára að aldri þegar hann var fyrst kjörinn á þing og var þá yngstur til þess að vera kjörinn á þing -  en það met féll hins vegar fyrir fjórum árum. Hann hefur bæði starfað við fjölmiðla og háskólakennslu.

Gekk í flokkinn fyrir þremur dögum

Alice Bah Kuhnke er nýr menningarmálaráðherra en  það hefur vakið töluverða athygli í sænskum fjölmiðlum í dag þar sem það eru aðeins þrír dagar síðan hún gekk til liðs við Græningja.

Gunnhildur segir að Kuhnke hafi á sínum yngri árum verið í ungliðahreyfingu Hægriflokksins en sé í dag töluvert vinstra megin við helstu stefnumið flokksins. Hún er aktívisti með mikinn áhuga á umhverfisvottun og öðru slíku sem tengist fair trade viðskiptum. Hún hefur unnið við sænska sjónvarpið, meðal annars Kalla Fakta, fréttaskýringarþátt sem Fridolin hefur einnig unnið við. Löfven hafi viljað fá manneskju inn í menningarmálin sem komi úr þeim geira en Kuhnke er einkum þekkt fyrir störf sín hjá sænska ríkissjónvarpinu.

Mehmet Kaplan fer með húsnæðismál en hann er fæddur í Tyrklandi. Hann var áður talsmaður múslímaráðs Svíþjóðar og var á einu skipanna sem siglt var frá Tyrklandi til að reyna að hnekkja hafnbanni Ísraela á Gaza-ströndina árið 2010.

Aida Hadzialic er yngsti ráðherran en hún er 27 ára gamall lögfræðingur. Hún er ráðherra æðri menntunar. Hún er fædd í Bosníu-Herzegovinu.

Aðlögun innflytjenda ekki lengur sérstakt ráðuneyti

Gunnhildur segir að við fyrstu sýn virðist sem nýja ríkisstjórnin sé ung að árum og eins innflytjendur meira áberandi en áður. Nýtt embætti loftslagsráðherra sýni líka aukna áherslu á umhverfis- og loftslagsmál og eins er enginn sem er ráðherra aðlögunarmála (intergration) – það er hvernig innflytjendum gangi að aðlagast sænsku umhverfi.

Stefan Löfven svaraði því þannig að þetta ætti ekki að vera sérstakur málaflokkur heldur væri  þetta eitthvað sem atvinnumálaráðherra yrði að taka á, menntamálaráðherra o.fl. Því þegar fólk fær vinnu eða kemst í skóla þá renni það saman við samfélagið. Það sé orðið tímabært að leggja niður ráðuneytið, segir Gunnhildur.

„Það er hægt að líta á þetta sem skilaboð til samfélagsins. Það sé orðið tímabært að líta ekki lengur á aðlögun innflytjenda sem sér málaflokk,“ segir Gunnhildur.

Samstarf á sviði jafnréttismála mikilvægt

Í ágúst fór fram hér á landi ráðstefna í tilefni af 40 ára samstarfsafmælis Norðurlandanna á sviði jafnréttismála. Margot Wallström var meðal ræðumanna.

Wallström, sem var sérlegur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um kynferðislegt ofbeldi í stríðsátökum 2010-2012, tilkynnti í sumar að hún hygðist snúa aftur í sænsk stjórnmál en jafnrétti og ekki síður umhverfismál eru henni afar hugleikin. Hún segir, í samtali við Hólmfríði Gísladóttur sem birtist í Morgunblaðinu í ágúst að samstarf Norðurlandanna á sviði jafnréttismála hafa verið afar mikilvægt, vettvang hugmyndaskipta og innblástur fyrir löndin sjálf og aðra.

En að hversu miklu marki telur hún að Norðurlöndin geti haft áhrif annars staðar í heiminum þegar kemur að jafnrétti kynjanna?

„Verulega miklu, því þetta er það sem gestir okkar bregðast við, þetta er það sem þeir flytja heim með sér. Ég man t.d. eftir því að þegar sendiherrann fyrir Bandaríkin flutti til Svíþjóðar, þá voru hann og konan hans alltaf að tala um fæðingarorlofið, hvernig feður væru virkir í lífi barna sinna, sem er mjög ólíkt því sem gengur og gerist í þeirra heimalandi,“ segir Wallström. Jafnrétti sé nokkurs konar einkennismerki Norðurlandanna.

„Hvar eru konurnar? Það er sú spurning sem við verðum að spyrja og það ætti ekki bara að koma í hlut kvenna að spyrja heldur allra. Pólitískra leiðtoga; utanríkisráðherranna, forsetanna og forsætisráðherranna; þeir ættu alltaf að spyrja: er einhver hér sem talar máli kvenna?“

En hvað um Wallström sjálfa, af hverju ákvað hún að snúa aftur í landsmálapólitíkina?

„Ég hef sagt að það sé vegna þriggja manna sem hafa haft áhrif á mig. Í fyrsta lagi er ég orðin amma. Ég á eins árs ömmustrák og fór að hugsa að þegar hann verður á þrítugsaldri verðum við farin að sjá allar afleiðingar loftslagsbreytinga. Mun hann einhvern tímann sjá þessi tilteknu sjaldgæfu blóm? Mun hann einhvern tímann sjá risaskjaldbökurnar? Mun hann búa við loftslag sem er fyrirsjáanlegt? Hvaðan mun maturinn koma, hvar verður hann ræktaður? Hvernig verða flóðin, sem við höfum meira að segja upplifað í Svíþjóð?“ spyr Wallström og segist finna til ábyrgðar þar sem hún búi yfir ákveðinni reynslu, þekkingu og tækifærum til að láta til sín taka.

Annar maðurinn sé 90 ára gamall fyrrverandi fangi í útrýmingarbúðum nasista, sem brýndi fyrir henni nauðsyn að læra af sögunni. „Það eru nasistaflokkar virkir í sænskum stjórnmálum, sem sækjast eftir sætum í yfir 30 sveitarfélögum. Nasistaflokkar; fasistar, sem trúa á samfélag „okkar“ og „þeirra“. Og þeir vilja losna við „þá“,“ segir hún og bendir á að sama sé uppi á teningnum víðar í Evrópu.

Þriðji maðurinn er Stefan Löfven, nýr formaður Jafnaðarmanna. „Ég held að hann sé mjög áreiðanlegur maður og ráðvendinn, og ég treysti honum og líkar vel við hann. Og ég vil vinna aftur fyrir flokkinn. Margt hefur breyst og ekki allt til hins betra. Ég sé til hvað ég get gert,“ sagði Wallström í viðtali við Morgunblaðið í lok ágúst. Hún er frá og með deginum í dag utanríkisráðherra Svíþjóðar.

Gunnhildur Lily Magnúsdóttir
Gunnhildur Lily Magnúsdóttir
Åsa Romson og Stefan Löfven, varaforsætisráðherra og forsætisráðherra Svíþjóðar.
Åsa Romson og Stefan Löfven, varaforsætisráðherra og forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP
Ríkisstjórn Svíþjóðar ásamt Viktoríu krónprinsessu
Ríkisstjórn Svíþjóðar ásamt Viktoríu krónprinsessu AFP
Stefan Löfven ásamt Urban Ahlin, forseta þingsins.
Stefan Löfven ásamt Urban Ahlin, forseta þingsins. AFP
Mehmet Kaplan
Mehmet Kaplan Af Wikipedia
Magdalena Andresson
Magdalena Andresson Af Wikipedia
Alice Bah Kuhnke
Alice Bah Kuhnke Af Wikipedia
Aida Hadzialic
Aida Hadzialic Af vef Jafnaðarmannaflokks Svíþjóðar
Umverfissinni Margot Wallström segist m.a. hafa ákveðið að snúa aftur …
Umverfissinni Margot Wallström segist m.a. hafa ákveðið að snúa aftur í sænsk stjórnmál til að vinna að loftslagsmálum Ómar Óskarsson
Ný ríkisstjórn Svíþjóðar
Ný ríkisstjórn Svíþjóðar AFP / TT
Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefna Löfven
Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefna Löfven AFP / TT
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert